Landsnet hf. - umhverfisskýrsla kerfisáætlunar 2014-2023

Málsnúmer 2014050056

Vakta málsnúmer

Skipulagsnefnd - 190. fundur - 29.10.2014

Landsnet þakkar þeim sem sendu inn umsagnir um drög að umhverfisskýrslu kerfisáætlunar sem auglýst var til umsagnar þann 6. maí sl. og lauk umsagnarfresti þann 18. júní. Alls bárust umsagnir frá 23 aðilum og má nú finna viðbrögð Landsnets við þeim á heimasíðu fyrirtækisins. Einnig má þar finna lokaútgáfur kerfisáætlunar og umhverfisskýrslu ásamt afgreiðslu stjórnar fyrirtækisins á umhverfismati áætlunarinnar skv. 9. gr. laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006.

Lagt fram til kynningar.

Skipulagsnefnd - 208. fundur - 12.08.2015

Landsnet kynnir nú tillögu að kerfisáætlun 2015-2024 í samræmi við raforkulög nr. 65/2003 m.s.br. og umhverfisskýrslu í samræmi við lög nr. 105/2006, en í umhverfisskýrslu er lagt mat á umhverfisáhrif kerfisáætlunar.

Hægt er að nálgast skýrslur og gögn á heimasíðu Landsnets.
Lagt fram til kynningar.

Skipulagsnefnd - 211. fundur - 09.09.2015

Landsnet kynnir nú tillögu að kerfisáætlun 2015-2024 í samræmi við raforkulög nr. 65/2003 m.s.br. og umhverfisskýrslu í samræmi við lög nr. 105/2006, en í umhverfisskýrslu er lagt mat á umhverfisáhrif kerfisáætlunar.

Hægt er að nálgast skýrslur og gögn á heimasíðu Landsnets.

Forsvarsmenn Landsnets hafa lýst því yfir að flutningsgeta rafmagns inn á Akureyri og nágrenni sé ekki nægileg. Hún geti verið takmarkandi fyrir núverandi notkun hvað þá aukna raforkunotkun. Við eina bilun verða vandræði. Það þýðir að Akureyrarbær er í þeirri stöðu að þurfa að vísa áhugasömum iðnfyrirtækum annað ef starfsemi þeirra krefst töluverðrar raforku. Hér er verið að tala um meðalstór fyrirtæki, ekki stóriðju. Þessi staða bæjarins og nágrennis er óþolandi en önnur sveitarfélög á Íslandi af svipaðri stærð eru ekki í þessari stöðu. Það ætti að vera efst á forgangslista Landsnets að laga þetta ástand.

Skipulagsnefnd gerir ekki frekari athugasemdir við kerfisáætlun Landsnets að svo stöddu en leggur áherslu á stöðu Akureyrarbæjar í samræmi við gr.1.3. í þingsályktun stjórnvalda nr.11/144 frá árinu 2015.



Jón Þorvaldur Heiðarsson áheyrnarfulltrúi Æ-lista óskar bókað:

Tvö stór raforkuframleiðslusvæði eru á Íslandi. Þjórsársvæðið auk jarðgufuvirkjana á Reykjanesi og Suðurlandi. Hitt er í stórum dráttum Fljótsdalsstöð. Nýtt stórt raforkuframleiðslusvæði mun verða til í Þingeyjarsýslum, í útjaðri Akureyrarsvæðisins, með núverandi Kröflu og uppbyggingu Þeistareykja og Bjarnarflags. Í drögum að kerfisáætlun áformar Landsnet að Krafla og Fljótsdalsstöð verði tengdar með nýrri 220kV línu árið 2016. Þá má segja að virkjanir í Þingeyjarsýslu auk Fljótsdalsstöðvar myndi eitt raforkuframleiðslusvæði. Eðlilegasta skrefið í aukinni flutningsgetu og orkuöryggi til Akureyrar hlýtur að vera ný 220kV lína milli Akureyrar og þessa svæðis (þ.e. til Kröflu) og það strax árið 2016. Þessi lína er hins vegar ekki á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar Landsnets árin 2016-2018. Þess í stað er gert ráð fyrir nýrri 220kV línu milli Blöndu og Akureyrar 2018. Hún er lengri en milli Akureyrar og Kröflu. Þessi lína hefur mætt mikilli andstöðu í Skagafirði og er viðbúið að málið allt lendi í lögfræðiflækjum og tefjist.


Miðað við núverandi drög að kerfisáætlun Landsnets er því líklegt að flutningsgeta til Akureyrar verði áfram of lítil í að lágmarki 3 ár og líklega í 4 ár eða lengur. Það er óásættanlegt.


Mikið er fjallað um sæstreng í drögum að kerfisáætlun Landsnets. Þar er forsenda að fullt afhendingaröryggi verði á sæstrenginn með tvöföldu kerfi. Gera verður athugasemd við þessa forsendu. Landsvirkjun hefur alla tíð talað um sæstreng á þeim nótum að hann yrði rekinn með sambærilegum hætti og sæstrengir frá Noregi til Hollands og Bretlands. Það er, að með sæstreng verði hægt að spila á markaðinn, selja þegar verð er hátt og kaupa jafnvel þegar verð er lágt og geyma orkuna í uppistöðulónum. Auk þess hefur LV talað á þeim nótum að með sæstreng verði hægt að selja allt umframrafmagn þegar vatnsbúskapur er góður en selja lítið eða ekkert nettó í slæmum vatnsárum. Sæstrengurinn er því tæki til að selja rafmagn sem ekki hefur fullt afhendingaröryggi. Þetta þýðir að ef bilun yrði í línu eða búnaði að strengnum og ekki væri hægt að selja rafmagn til útlanda þann daginn þá þýddi það einungis að það yrði selt síðar. Bilun hefði lítil áhrif á viðskiptamódelið. Þess vegna er það mat undirritaðs að fráleitt sé að gera ráð fyrir því í kerfisáætlun að leggja tvöfalt kerfi til sæstrengs sem kostar tugi milljarða umfram einfalt kerfi sem er nægjanlegt. M.ö.o. er hér rökstutt að forsenda Landsnets sé röng.


Í drögum að kerfisáætlun er því gefið undir fótinn að sæstrengurinn verði hafður lengri en hann þyrfti að vera og yrði tekinn á land á Suðurlandi. Í þessu sambandi er beitt þeim rökum að meginhluti nýrra virkjanakosta sem liggi til grundvallar séu á Suður- og Suðvesturlandi. Þetta er rangt. Nýir virkjunarkostir sem koma fram í rammaáætlun II sem Landsnet leggur til grundvallar eru í meira mæli í Þingeyjarsýslum 535 MW en á Suðurlandi 460 MW. Þetta er reyndar tekið fram í drögunum að kerfisáætlun á öðrum stað (bls. 15). Inni í suðurlandstölunni er Hverahlíðarvirkjun sem ekki verður virkjuð heldur nýtt fyrir Hellisheiðarvirkjun. Jafnvel þó Hvammsvirkjun væri bætt við er meginhlutinn í Þingeyjarsýsum. Rökin hníga því í þá átt að taka sæstrenginn á land á Austurlandi þar sem meginhluti nýrra virkjunarkosta sé á austanverðu Norðurlandi.