Hafnarstræti, göngugata - verklagsreglur um lokun

Málsnúmer 2015070016

Vakta málsnúmer

Skipulagsnefnd - 207. fundur - 08.07.2015

Formaður skipulagsnefndar í samráði við Akureyrarstofu lagði fram tillögu að verklagsreglum um lokun göngugötunnar í Hafnarstræti að Ráðhústorgi sumarið 2015.

Lagt er til að göngugötunni verði lokað fyrir almenna bílaumferð um helgar, á föstudögum og laugardögum frá kl. 11:00 - 16:00 til loka ágúst 2015.

Í framhaldinu verði unnar verklagsreglur og nánari útlistun á lokun götunnar í samráði við hagsmunaðila á svæðinu.
Skipulagsnefnd samþykkir tillöguna og óskar eftir aðkomu Akureyrarstofu um auglýsingu vegna samþykktarinnar.

Skipulagsnefnd - 208. fundur - 12.08.2015

Erindi frá Vilborgu Jóhannsdóttur þar sem hún óskar eftir svörum við spurningum er varða ákvörðun skipulagsnefndar frá 8. júlí sl. um lokun göngugötunnar í Hafnarstræti í júlí og ágúst 2015.
Svör skipulagsnefndar er eftirfarandi:

1. Að stuðla að líflegri miðbæ. Ákvörðunin var tekin í framhaldi af því að ekki var sátt meðal helstu hagsmunaaðila um hvernig standa bæri að lokun götunnar. Fram að ákvörðuninni hafði verið unnið eftir óformlegu samkomulagi sem kvað á um að fjöldi ferðamanna og veðurfar stýrði því hvort og hvenær götunni yrði lokað. Túlkunaratriði sem olli töluverðum deilum. Með því að festa lokunina við ákveðna daga taldi skipulagsnefnd að aukinn stöðugleiki myndi skapast, bæjarbúar sem og verslunareigendur gætu þá gengið að því vísu hvenær göngugatan yrði lokuð og miðað sitt skipulag við það.

2. Framkvæmdadeild. Hún hefur jafnframt heimild til þess að framvísa ábyrgðinni.

3. Nei. Sami háttur verður á út þetta sumar. Hinsvegar væri áhugavert að skoða möguleika á öðrum búnaði til lokunar í framtíðinni. Það yrði verkefni samráðshóps sem skipulagsnefnd mun hafa frumkvæði af að mynda nú í haust.

4. Sjá einnig lið 1. Punktarnir hér að neðan lista þær meginforsendur sem skipulagsnefnd hafði til hliðsjónar við ákvörðunartöku:


- Það er tilfinning skipulagsnefndar að almenn ánægja hafi verið meðal bæjarbúa með lokun göngugötunnar.

- Ljóst þótti að það samkomulag sem hafði verið um lokun göngugötunnar meðal helstu hagsmunaaðila héldi ekki út sumarið. Eins þótti of seint að hefja formlegt samráð við hagsmunaaðila um lokunina á miðju sumri.

- Ákvörðun um lokun á föstudögum og laugardögum miðaðist við það að þá eru lokunardagar svipað margir og ef lokanir hefðu miðast við fyrra skipulag.

- Tímasetning miðaðist við að verslunarrekendur eigi auðvelt með aðföng á morgnana og að lokunin nái yfir þann tíma þegar sól er sem hæst á lofti.

- Lokunin á ekki að hafa áhrif á aðgengi hreyfihamlaða þar sem þeir hafa heimild til þess að koma frá Ráðhústorgi.

- Aðgengi að heilsugæslustöð ætti ekki að skerðast enda er aðalinngangur frá Gilsbakkavegi. Bílastæði í göngugötu eru einnig einungis 15 mínútna stæði sem gagnast lítið þeim sem þurfa að sækja þjónustu heilsugæslunnar.

- Fjöldi bílastæða eru í næsta nágrenni, s.s. við Skipagötu og Drottningarbrautareit.

5. Ekki var horft til þessara atriða sérstaklega við ákvörðunartökuna en gæti mögulega verið verkefni samstarfshóps þegar fram í sækir.

6. Nei. Mögulega verkefni samstarfshóps.

7. Nei. Mögulega verkefni samstarfshóps.

Skipulagsnefnd - 210. fundur - 26.08.2015

Formaður skipulagsnefndar leggur fram fyrirspurn um af hverju framkvæmdadeild hefur ekki lokað Hafnarstræti, göngugötunni, tvær síðustu helgar í samræmi við samþykkt nefndarinnar um lokun hennar. Helgi Már frá framkvæmdadeild mætti á fundinn til svara.

Skipulagsnefnd þakkar Helga Má fyrir komuna.

Skipulagsnefnd - 214. fundur - 14.10.2015

Skipulagsnefnd samþykkti á fundi þann 8. júlí s.l. að unnar verði verklagsreglur og nánari útlistun á lokun götunnar í samráði við hagsmunaðila á svæðinu.
Skipulagsnefnd felur formanni nefndarinnar að gera greinargerð sem skilgreinir umfang verkefnisins ásamt tímaáætlun.

Skipulagsnefnd - 215. fundur - 28.10.2015

Formaður skipulagsnefndar lagði fram tillögu að skilgreiningu verkefnis um verklagsreglur vegna tímabundinna lokanna Hafnarstrætis og Kaupvangsstrætis á tímabilinu maí - september fyrir almennri bílaumferð.
Skipulagsnefnd samþykkir framlagða tillögu og tilnefnir Tryggva Má Ingvarsson í vinnuhópinn.

Jafnframt óskar nefndin eftir því að Akureyrarstofa tilnefni 2 fulltrúa, Miðbæjarsamtökin 2 fulltrúa, hverfisnefnd Innbæjar og Brekku 1 fulltrúa og hverfisnefnd Oddeyrar 1 fulltrúa í vinnuhópinn.
Þegar hér var komið óskaði formaður eftir að 10. liður Tryggvabraut 5 sem var á útsendri dagskrá yrði tekinn út og var það samþykkt.

Skipulagsnefnd - 217. fundur - 25.11.2015

Formaður skipulagsnefndar leggur til að í vinnuhópinn verði bætt fulltrúa frá framkvæmdadeild.
Skipulagsnefnd samþykkir tillöguna og óskar eftir við framkvæmdadeild að hún tilnefni fulltrúa sinn í vinnuhópinn.

Stjórn Akureyrarstofu - 199. fundur - 26.11.2015

Skipulagsnefnd hefur óskað eftir að Akureyrarstofa skipi tvo fulltrúa í vinnuhóp sem móti verklagsreglur vegna tímabundinna lokanna Hafnarstrætis og Kaupvangsstrætis.
Stjórn Akureyrarstofu skipar Huldu Sif Hermannsdóttir verkefnisstjóra viðburða- og menningarmála á Akureyrarstofu og Hildi Friðriksdóttur fulltrúa í stjórn Akureyrarstofu í vinnuhópinn.

Skipulagsnefnd - 225. fundur - 23.03.2016

Vinnuhópur um verklagsreglur um lokanir gatna lagði fram tillögu að samþykkt um lokanir gatna í Akureyrarkaupstað. Formaður kynnti tillöguna.
Tillögunni er vísað til umsagar til framkvæmdaráðs og stjórnar Akureyrarstofu.

Stjórn Akureyrarstofu - 208. fundur - 14.04.2016

Lögð fram til kynningar drög að verklagsreglum vegna tímabundinna lokana gatna fyrir bílaumferð á Akureyri en skipulagsnefnd hefur óskað eftir umsögn stjórnarinnar um þær.
Stjórn Akureyrarstofu lýsir sig sammála þeim grunnhugmyndum sem fram koma í verklagsreglunum og felur framkvæmdastjóra að koma á framfæri ábendingum sem fram komu á fundinum.

Framkvæmdaráð - 327. fundur - 22.04.2016

Skipulagsnefnd hefur óskað eftir umsögn framkvæmdaráðs á tillögum að samþykkt um lokanir gatna í Akureyrarkaupstað.
Framkvæmdaráð telur að komi til lokana um sumartímann þá sé farsælla að þær væru með sama hætti alla sumarmánuðina og þá telur ráðið nauðsynlegt að yfirfara verðskrá umhverfismiðstöðvar í framhaldinu. Framkvæmdaráð telur ekki rétt að Listagilið sé lokað nema í undantekningartilfellum.

Jón Þorvaldur Heiðarsson Æ-lista sat hjá við við afgreiðslu.

Skipulagsnefnd - 229. fundur - 27.04.2016

Vinnuhópur um verklagsreglur um lokanir gatna lagði fram tillögu að samþykkt um lokanir gatna í Akureyrarkaupstað og óskaði eftir umsögnum frá Akureyrarstofu og framkvæmdadeild á fundi 23. mars 2016.

Umsagnir bárust frá:

1) Framkvæmdaráði dagsett 22. apríl 2016.

Framkvæmdaráð telur að komi til lokana um sumartímann þá sé farsælla að þær væru með sama hætti alla sumarmánuðina og þá telur ráðið nauðsynlegt að yfirfara verðskrá umhverfismiðstöðvar í framhaldinu. Framkvæmdaráð telur ekki rétt að Listagilið sé lokað nema í undantekningartilfellum.

2) Stjórn Akureyrarstofu dagsett 14. apríl 2016.

Athugasemdir stjórnar Akureyrarstofu snúast um 3. grein.

a) Orðalagið: "Sækja skal um þær lokanir í Listagilinu í apríl fyrir hvert ár." getur skapað þann misskilning að sækja eigi um heimild til að loka í Listagilinu sjálfu. Gæti í.þ.m. verið skýrara.

b) Stjórn Akureyrarstofu varpar fram þeirri spurningu hvort eitthvert þak ætti að vera á fjölda heimilaðra lokana í Listagilinu á tilgreindu tímabili.


Tvær athugaemdir bárust:

1) Vilborg Jóhannsdóttir og Úlfar Gunnarsson í Centro, dagsett 21. mars 2016.

Ýmsar spurningar varðandi miðbæinn.

2) Herdís Hermannsdóttir dagsett 22. apríl 2016.

Spurt er hvernig aðgengi hreyfihamlaðra með P-merki verði tryggt að verslunum og þjónustu á svæðinu.
Skipulagsnefnd tekur undir athugasemd a) liðar Akureyrarstofu og spurningu Herdísar og mun gera breytingar á verklagsreglunum í samræmi við þær og leggur til við bæjarstjórn að þær verði samþykktar þannig breyttar.

Jafnframt þakkar skipulagsnefnd innsendar athugasemdir og ábendingar og felur skipulagsstjóra að svara þeim.

Bæjarstjórn - 3394. fundur - 07.06.2016

12. liður í fundargerð skipulagsnefndar dagsett 27. apríl 2016:

Vinnuhópur um verklagsreglur um lokanir gatna lagði fram tillögu að samþykkt um lokanir gatna í Akureyrarkaupstað og óskaði eftir umsögnum frá Akureyrarstofu og framkvæmdadeild á fundi 23. mars 2016.

Umsagnir bárust frá:

1) Framkvæmdaráði dagsett 22. apríl 2016.

Framkvæmdaráð telur að komi til lokana um sumartímann þá sé farsælla að þær væru með sama hætti alla sumarmánuðina og þá telur ráðið nauðsynlegt að yfirfara verðskrá umhverfismiðstöðvar í framhaldinu. Framkvæmdaráð telur ekki rétt að Listagilið sé lokað nema í undantekningartilfellum.

2) Stjórn Akureyrarstofu dagsett 14. apríl 2016.

Athugasemdir stjórnar Akureyrarstofu snúast um 3. grein.

a) Orðalagið: 'Sækja skal um þær lokanir í Listagilinu í apríl fyrir hvert ár.' getur skapað þann misskilning að sækja eigi um heimild til að loka í Listagilinu sjálfu. Gæti í.þ.m. verið skýrara.

b) Stjórn Akureyrarstofu varpar fram þeirri spurningu hvort eitthvert þak ætti að vera á fjölda heimilaðra lokana í Listagilinu á tilgreindu tímabili.


Tvær athugasemdir bárust:

1) Vilborg Jóhannsdóttir og Úlfar Gunnarsson í Centro, dagsett 21. mars 2016.

Ýmsar spurningar varðandi miðbæinn.

2) Herdís Hermannsdóttir dagsett 22. apríl 2016.

Spurt er hvernig aðgengi hreyfihamlaðra með P-merki verði tryggt að verslunum og þjónustu á svæðinu.

Skipulagsnefnd tekur undir athugasemd a) liðar Akureyrarstofu og spurningu Herdísar og mun gera breytingar á verklagsreglunum í samræmi við þær og leggur til við bæjarstjórn að þær verði samþykktar þannig breyttar.

Jafnframt þakkar skipulagsnefnd innsendar athugasemdir og ábendingar og felur skipulagsstjóra að svara þeim.
Eva Hrund Einarsdóttir D-lista lagði fram tvær breytingatillögur:

1.

3. gr. Lokun Listagilsins

Lokun vegna listviðburða í þeim hluta Kaupvangsstrætis sem kallast Listagil er heimiluð frá kl. 14:00 til 17:00 frá maí til september. Verður að hámarki gefið leyfi fyrir fjórar lokanir á þessu tímabili.


Tillaga Evu Hrundar D-lista var borin upp og samþykkt með 6 atkvæðum gegn atkvæðum Matthíasar Rögnvaldssonar L-lista, Loga Más Einarssonar S-lista, Prebens Jóns Péturssonar Æ-lista, Sóleyjar Bjarkar Stefánsdóttur V-lista og Ingibjargar Ólafar Isaksen B-lista.


2.

Verklagsreglur þessar verða endurskoðaðar í október 2016 út frá reynslu.


Tillaga Evu Hrundar D-lista var borin upp og samþykkt með 10 atkvæðum gegn atkvæði Sóleyjar Bjarkar Stefánsdóttur V-lista.


Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar ásamt breytingartillögum með 10 samhljóða atkvæðum.

Sóley Björk Stefánsdóttir sat hjá við afgreiðslu.


Framkvæmdaráð - 330. fundur - 14.06.2016

Bæjarstjórn hefur samþykkt verklagsreglur um lokun. Kynntar voru hugmyndir 3ja listamanna um lokunarhlið og farið yfir hvernig staðið verði að lokun nú í sumar.
Framkvæmdaráði líst vel á þær hugmyndir sem kynntar voru og þakkar þeim Almari Alfreðssyni, Jónborgu Sigurðardóttur og Thoru Karlsdóttur fyrir komuna.

Framkvæmdaráð er sammála um að vinna þessar tillögur áfram og felur bæjartæknifræðingi að vinna áfram með hópnum að nánari útfærslum og kostnaðargreiningu.