Skipulagsráð

411. fundur 25. október 2023 kl. 08:15 - 12:09 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Halla Björk Reynisdóttir formaður
  • Þórhallur Jónsson
  • Helgi Sveinbjörn Jóhannsson
  • Sif Jóhannesar Ástudóttir
  • Jón Hjaltason
  • Sunna Hlín Jóhannesdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Sindri Kristjánsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi
  • Steinmar Heiðar Rögnvaldsson byggingarfulltrúi
  • María Markúsdóttir verkefnastjóri skipulagsmála
  • Einar Sigþórsson fundarritari
Fundargerð ritaði: Pétur Ingi Haraldsson forstöðumaður skipulagsmála
Dagskrá

1.Glerárgata - ýmis umferðarmál

Málsnúmer 2023100593Vakta málsnúmer

Umræður um ýmis umferðarmál í tengslum við Glerárgötu.

Rúna Ásmundsdóttir deildarstjóri og Árni Ingimarsson sérfræðingur hjá Vegagerðinni sátu fundinn undir þessum dagskrárlið ásamt Jónasi Valdimarssyni frá umhverfis- og mannvirkjasviði Akureyrarbæjar.
Skipulagsráð þakkar gestum fyrir góðar umræður og komuna á fundinn. Skipulagsráð telur mikilvægt að forgangsraða verkefnum í samvinnu við Vegagerðina og stefna að reglulegu samráði.

2.Viðjulundur 1 - umsókn um breytingu á deiliskipulagi

Málsnúmer 2022120336Vakta málsnúmer

Lögð fram að nýju tillaga að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóð nr. 1 við Viðjulund auk 10 athugasemda sem bárust á kynningartíma og umsagna frá Minjastofnun Íslands og Norðurorku. Þá er lögð fram vindgreining sem gerð var auk tillögu skipulagsfulltrúa að umsögn um efni innkominna athugasemda.
Meirihluti skipulagsráðs samþykkir að gerðar verði breytingar á framlögðum tillögum til að koma til móts við innkomnar athugasemdir. Skulu breytingar gera ráð fyrir því að fyrirhugað sjö hæða fjölbýlishús verði lækkað niður í sex hæðir. Þá þarf einnig að huga að niðurstöðu vindgreiningar sem sýnir hugsanleg óæskileg áhrif á göngustíg norðan lóðarinnar.

Er skipulagsfulltrúa falið að óska eftir uppfærðum tillögum og leggja fyrir næsta fund skipulagsráðs.


Jón Hjaltason óflokksbundinn situr hjá við afgreiðslu málsins.

3.Hagahverfi - endurskoðun deiliskipulags meðfram Naustagötu

Málsnúmer 2023100823Vakta málsnúmer

Rætt um fyrirhugaða uppbyggingu á nýjum leikskóla í Hagahverfi á lóð sunnan Naustabrautar.

Sigurður Gunnarsson eftirlitsmaður nýframkvæmda á umhverfis og mannvirkjasviði, Bjarki Ármann Oddsson forstöðumaður á fræðslu og lýðheilsusviði, Ágúst Hafsteinsson hjá Form ráðgjöf og Heimir Örn Árnason formaður fræðslu- og lýðheilsuráðs sátu fundinn undir þessum dagskrárlið.

4.Norðurtangi 7 og 9 - umsókn um lóð

Málsnúmer 2019060125Vakta málsnúmer

Tekin fyrir að nýju beiðni Bústólpa ehf. um að fá úthlutaðri nýrri lóð fyrir starfsemi fyrirtækisins á Norðurtanga.

Málið var áður á dagskrá skipulagsráðs þann 14. september 2022 og var afgreiðslu frestað.
Fyrir liggur að bæði Slippurinn Akureyri ehf. og Bústólpi ehf. hafa óskað eftir sama svæði við Norðurtanga fyrir framtíðaruppbyggingu.

Að mati skipulagsráðs er starfsemi Slippsins Akureyri ehf. háðari nálægð við hafnarsvæði en starfsemi Bústólpa ehf. Meirihluti skipulagsráð hafnar því erindi Bústólpa ehf. um nýja lóð við Norðurtanga og felur skipulagsfulltrúa að ganga til viðræðna við Bústólpa ehf. um hentuga staðsetningu fyrir starfsemina.


Helgi Sveinbjörn Jóhannsson M-lista situr hjá við afgreiðslu málsins.

5.Norðurtangi - athafnasvæði Slippsins

Málsnúmer 2021061320Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Slippsins Akureyri ehf. dagsett 3. október 2023 þar sem ítrekuð er beiðni um að lóðir nr. 7 og 9 við Norðurtanga verði sameinaðar athafnasvæði Slippsins ehf. ásamt hafnarsvæði þar norðan og austan við.

Málið var áður á dagskrá skipulagsráðs 15. júní 2022.
Meirihluti skipulagsráðs samþykkir að fela skipulagsfulltrúa að hefja vinnu við breytingu á deiliskipulagi hafnarsvæðis sunnan Glerár í samráði við umsækjanda og Hafnasamlag Norðurlands.


Helgi Sveinbjörn Jóhannsson M-lista situr hjá við afgreiðslu málsins.

6.Baldursnes 5 - umsókn um breytingu á deiliskipulagi

Málsnúmer 2023100801Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 17. október 2023 þar sem Almar Eggertsson sækir um breytingu á deiliskipulagi fyrir lóð nr. 5 við Baldursnes.

Breytingin felur í sér lítilsháttar hliðrun á byggingarreit.

Meðfylgjandi er afstöðumynd.
Skipulagsráð samþykkir að gerð verði breyting á deiliskipulagi til samræmis við erindið. Er breytingin óveruleg skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og ekki er talin þörf á grenndarkynningu sbr. 44. gr. laganna. Er skipulagsfulltrúa falið að sjá um gildistöku breytingarinnar þegar fullnægjandi skipulagsgögn liggja fyrir.

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.

7.Sjafnargata 1A - fyrirspurn varðandi skipulagsmál

Málsnúmer 2023100664Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 13. október 2023 þar sem Ingólfur Freyr Guðmundsson f.h. Sjafnargötu ehf. sækir um breytingu á deiliskipulagi fyrir lóð nr. 1A við Sjafnargötu.

Meðfylgjandi er fyrirspurnarteikning.
Skipulagsráð samþykkir að gerð verði breyting á deiliskipulagi til samræmis við erindið. Er breytingin óveruleg skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og ekki er talin þörf á grenndarkynningu sbr. 44. gr. laganna. Er skipulagsfulltrúa falið að sjá um gildistöku breytingarinnar þegar fullnægjandi skipulagsgögn liggja fyrir.

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.

8.Austurbrú 6-8 - umsókn um stækkun lóðar

Málsnúmer 2023100502Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 11. október 2023 þar sem Margrét M. Róbertsdóttir f.h. Húsfélagsins Austurbrú 6-8 sækir um stækkun lóðar nr. 6-8 við Austurbrú.

Meðfygjandi er skýringarmynd.
Jón Hjaltason óflokksbundinn bar upp vanhæfi við afgreiðslu málsins og var það samþykkt. Vék hann af fundi undir umræðum og við afgreiðslu máls.


Meirihluti skipulagsráðs hafnar erindinu þar sem um er að ræða svæði sem er nýtt fyrir almenn bílastæði í eigu Akureyrarbæjar.

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.
Fylgiskjöl:

9.Hrísmói 1-9 - umsókn um breytingu á deiliskipulagi

Málsnúmer 2023100463Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 10. október 2023 þar sem Fanney Hauksdóttir f.h. Kötlu byggingarfélags ehf. sækir um breytingu á deiliskipulagi fyrir lóð nr. 1-9 við Hrísmóa.

Sótt er um eftirfarandi breytingar:

- Fjölgun íbúða úr fimm í sex án breytingar á byggingarmagni.

- Hliðrun á innkeyrslu íbúða nr. 3, 5 og 7.

- Breytingu á útfærslu bindandi byggingarlínu.

Meðfylgjandi er skýringarmynd.
Skipulagsráð frestar afgreiðslu þar til fyrir liggur umsögn skipulagshönnuðar, umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar og Norðurorku um tillöguna.

10.Smáhýsabyggð - umræða um staðsetningu

Málsnúmer 2023100882Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Guðrúnar Sigurðardóttur sviðsstjóra velferðarsviðs Akureyrarbæjar dagsett 6. október 2023 þar sem óskað er eftir að kannað verði hvaða svæði komi til greina til uppbyggingar húsnæðisúrræða fyrir heimilislaust fólk með fjölþættan vanda.
Skipulagsráð samþykkir að fela skipulagsfulltrúa að hefja vinnu við gerð deiliskipulags fyrir smáhýsabyggð.

11.Lækjargata 6 - umsókn um rekstrarleyfisskylda gististarfsemi

Málsnúmer 2023100411Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 10. október 2023 þar sem Lúdika arkitektar slf. sækja um breytta notkun íbúðar á efri hæð Lækjargötu 6. Fyrirhugað er að starfrækja rekstrarleyfisskylda gististarfsemi í íbúðinni.

Meðfylgjandi eru afstöðumynd og aðalteikningar.
Skipulagsráð gerir ekki athugasemd við að gefið verði út leyfi fyrir rekstrarleyfisskyldri gististarfsemi í íbúðinni ef hún er leigð út í heilu lagi. Með því móti eykst ekki álag á bílastæði í götunni. Er heimildin með fyrirvara um samþykki allra eigenda í húsinu, sbr. ákvæði Aðalskipulags Akureyrar 2018-2030 um rekstrarleyfisskylda gististarfsemi í fjölbýlishúsum.

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.
Fylgiskjöl:

12.Hlíðarfjall - umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir jarðvinnu

Málsnúmer 2023101076Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 23. október 2023 þar sem Steinþór Traustaston f.h. Finns ehf. sækir um framkvæmdaleyfi fyrir jarðvinnu í Hlíðarfjalli.

Fyrirhugað er að bora 3-4 holur fyrir festingar í tengslum við undirbúning skíðastökkpalls.
Skipulagsráð samþykkir erindið og felur skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi þegar fullnægjandi gögn hafa borist. Er útgáfa leyfis með fyrirvara um samþykki Norðurorku vegna nálægðar við vatnsverndarsvæði í Hlíðarfjalli.

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.

13.Umsókn um stöðuleyfi fyrir matarvagn

Málsnúmer 2023080282Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 8. ágúst 2023 þar sem Karin Spanjol leggur fram fyrirspurn um hugsanleg svæði í miðbæ Akureyrar fyrir matarvagn.
Að mati skipulagsráðs er tilefni til að bæta við einu svæði fyrir matarvagn í miðbænum og felur skipulagsfulltrúa að koma með tillögu að nýju stæði í samvinnu við umhverfis- og mannvirkjasvið. Ef hentugt svæði finnst yrði það auglýst í desember nk. á sama tíma og núverandi fastleigustæði í miðbænum.

14.Bréf til sveitarfélaga um innviði fyrir orkuskipti

Málsnúmer 2023091354Vakta málsnúmer

Liður 14 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 5. október 2023:

Erindi dagsett 26. september 2023 frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu þar sem bent er á mikilvægi þess að sveitarfélögin útbúi orkuskiptaáætlun á sínu svæði og efli innviði fyrir orkuskipti.

Bæjarráð vísar erindinu til skipulagsráðs.
Fylgiskjöl:

15.Aðalskipulag Akureyrar 2018-2030 - ákvörðun um endurskoðun

Málsnúmer 2022090355Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar minnisblað skipulagsfulltrúa um vinnu í tengslum við ákvörðun um endurskoðun Aðalskipulags Akureyrar 2018-2030.
Frestað til næsta fundar skipulagsráðs 15. nóvember nk.

16.Stækkun Keflavíkurflugvallar - umsögn um mat á umhverfisáhrifum

Málsnúmer 2023030648Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar álit Skipulagsstofnunar á umhverfismati framkvæmdar við stækkun Keflavíkurflugvallar.

Það er mat Skipulagsstofnunar að umhverfismatsskýrsla uppfylli skilyrði laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.

17.Hvítbók um skipulagsmál - umsagnarbeiðni

Málsnúmer 2023091039Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga skipulagsfulltrúa að umsögn um Hvítbók um skipulagsmál - drög að landsskipulagsstefnu til 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára sem eru í kynningar- og umsagnarferli á vegum innviðaráðuneytis.

Skipulagsráð samþykkir framlagða tillögu að umsögn með breytingum sem fram komu á fundinum og felur skipulagsfulltrúa að senda hana inn til Innviðaráðuneytis.

18.Svæðisskipulag Eyjafjarðar - endurskoðun

Málsnúmer 2023100237Vakta málsnúmer

Erindi svæðisskipulagsnefndar Eyjafjarðar dagsett 4. október 2023 þar sem óskað er eftir umræðu í skipulagsráði um endurskoðun og framtíð svæðisskipulags Eyjafjarðar.

Málið var áður á dagskrá skipulagsráðs 11. október sl. og var afgreiðslu frestað.
Skipulagsráð leggur til að hafinn verði undirbúningur að endurskoðun svæðisskipulagsins til að tryggja samræmi þess við landsskipulagsstefnu sem nú er í vinnslu. Í þeirri vinnu verði sérstaklega tekið fyrir hlutverk og ábyrgð Akureyrarbæjar sem svæðisborgar í samræmi við skýrslu starfshóps um svæðisbundið hlutverk Akureyrar sem kom út í ágúst 2021. Jafnframt telur skipulagsráð æskilegt að skoðað verði hvort ekki megi sameina skipulagsembætti sveitarfélaganna.

19.Umferðaröryggismál við Holtahverfi og Norðurtorg

Málsnúmer 2023101044Vakta málsnúmer

Rætt um umferðaröryggismál við Holtahverfi og Norðurtorg að beiðni Sunnu Hlínar Jóhannesdóttur.
Á fundi skipulagsráðs þann 24. apríl sl. var samþykkt að lækka umferðarhraða á hluta Krossanesbrautar í 30 km/klst og jafnframt að sett verði upp gangbraut til móts við Hulduholt auk þrenginga norðan og sunnan megin í Krossanesbraut. Að mati ráðsins er nauðsynlegt að þessar þrengingar verði settar upp að nýju til að raunverulegur hraði á götunni lækki frá því sem hann væri án þeirra.


Varðandi umferðaröryggismál við Norðurtorg er ljóst að gangbrautir yfir Austursíðu vantar auk þess sem skoða þyrfti hvaða aðgerða megi grípa til í því skyni að lækka umferðarhraða. Unnið er að heildarendurskoðun á hönnun Austursíðu og er gert ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki á næstu mánuðum. Þegar hönnunin liggur fyrir er hægt að fara í undirbúning tiltekinna aðgerða eins og t.d. gangbrauta yfir Austursíðu næst Norðurtorgi.


Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista óskar bókað eftirfarandi:

Mikilvægt er að í allri uppbyggingu sé jafnhliða unnið að umferðaröryggi. Settar hafa verið bráðabirgðaþrengingar á Krossanesbraut sem hafa nú verið fjarlægðar en óvíst er hvenær eigi að fara í endurgerð götunnar samkvæmt skipulagi. Eðlilegast væri að það væri gert samhliða uppbyggingu Holtahverfis til að tryggja öryggi barna á leið í skóla. Eins þarf að fara strax í að tryggja öryggi barna við Norðurtorg.


Sindri Kristjánsson S-lista óskar bókað eftirfarandi:

Ég tek undir bókun Sunnu Hlínar Jóhannesdóttur en bendi á að víðar er pottur brotinn en einungis við Krossanesbraut og Austursíðu. Dæmi má nefna af Byggðavegi á milli Þingvallastrætis og Hrafnagilsstrætis en þar fara um daglega m.a. tugir barna og ungmenna án þess að nokkur gönguþverun sé til staðar. Enn fremur tel ég nauðsynlegt að árétta að það er umferðaröryggi gangandi, hjólandi og þeirra sem nýta aðra virka ferðamáta sem er mest stefnt í voða hér í bæ. Árangursríkasta leiðin til að auka öryggi nefndra hópa er að lækka hámarkshraða sem allra víðast í 30 km/klst og framfylgja þeim reglum af festu. Þá á að leggja áherslu á að breyta ásýnd bílagatna þannig að upplifun ökumanna bifreiða sé sú að umhverfið bjóði hreinlega ekki upp á hraðan og óábyrgan akstur. Þá er afar mikilvægt að vinnu við umferðaröryggisáætlun samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnar frá 15. mars 2022 sé hraðað eins og kostur er.

20.Áskorun um trjágróður í nýjum hverfum Akureyrarbæjar

Málsnúmer 2023100899Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Skógræktarfélags Eyfirðinga þar sem skorað er á bæjaryfirvöld Akureyrarbæjar að huga betur að gróðursetningu trjágróðurs í nýjum og nýlegum hverfum bæjarins, til dæmis samsíða akbrautum eða á grænum svæðum.
Tekið er undir áskorun Skógræktarfélagsins um mikilvægi gróðurs í bæjarlandinu. Í deiliskipulagi nýjasta íbúðahverfisins, Móahverfis, er mikil áhersla lögð á gróður bæði á landi bæjarins sem og á fjölbýlishúsalóðum. Sem dæmi eru settar kvaðir um ákveðinn fjölda trjáa sem hlutfall af byggingarmagni á öllum fjölbýlishúsalóðum í hverfinu.

21.Afgreiðslur byggingarfulltrúa

Málsnúmer 2022010178Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 936. fundar, dagsett 5. október 2023, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 6 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

22.Afgreiðslur byggingarfulltrúa

Málsnúmer 2022010178Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 937. fundar, dagsett 12. október 2023, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 4 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

23.Afgreiðslur byggingarfulltrúa

Málsnúmer 2022010178Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 938. fundar, dagsett 19. október 2023, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 3 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Fundi slitið - kl. 12:09.