Skipulagsnefnd

131. fundur 25. janúar 2012 kl. 08:00 - 12:00 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Helgi Snæbjarnarson formaður
  • Eva Reykjalín Elvarsdóttir
  • Haraldur Sveinbjörn Helgason
  • Sigurður Guðmundsson
  • Sóley Björk Stefánsdóttir
  • Ragnar Sverrisson áheyrnarfulltrúi
  • Svava Þórhildur Hjaltalín áheyrnarfulltrúi
  • Tryggvi Már Ingvarsson áheyrnarfulltrúi
  • Pétur Bolli Jóhannesson skipulagsstjóri
  • Leifur Þorsteinsson fundarritari
Fundargerð ritaði: Leifur Þorsteinsson verkefnastjóri byggingarmála
Dagskrá

1.Aðalskipulag Hríseyjar 2010 - 2018, skipulagslýsing

Málsnúmer 2010110062Vakta málsnúmer

Skipulagsstjóri lagði fram tillögu að skipulagslýsingu unna af Ómari Ívarssyni frá X2 hönnun og skipulagi ehf.Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að skipulagslýsingin verði kynnt almenningi og leitað verði umsagnar Skipulagsstofnunar og annarra umsagnaraðila um skipulagslýsinguna.

2.Rangárvellir - deiliskipulagsbreyting á reit 1.42.10 I

Málsnúmer 2011040021Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 5. apríl 2011 þar sem Bjarni Reykjalín f.h. Gámaþjónustu Norðurlands ehf., kt. 481287-1039, óskar eftir samþykki skipulagsnefndar fyrir breyttu deiliskipulagi. Tillaga að breytingu á deiliskipulagi móttekin 19. janúar 2012.
Helstu breytingar frá núgildandi deiliskipulagi eru eftirfarandi:
1. Gatnatengingu frá Hlíðarfjallsvegi er hliðrað uþb. 28 m til austurs.
2. Byggingarreitir eru sameinaðir og stækkaðir í einn byggingarreit til að mæta breytingum á sviði endurvinnsluiðnaðar og væntanlegri þörf fyrir frekari byggingar og mannvirki á lóðinni.
3. Jarðvegsmön verður komið upp á lóðarmörkum að vestan meðfram Síðubraut og vestast á lóðarmörkum að sunnan meðfram Hlíðarfjallsvegi.

Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 43.gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

3.Hafnarstræti 18b - breyting á aðalskipulagi

Málsnúmer 2011110082Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 4. nóvember 2011 frá Örnu Bryndísi Baldvinsdóttur þar sem hún f.h. eigenda lóðarinnar Hafnarstrætis 18b gerir þá kröfu að Aðalskipulagi Akureyrar verði breytt þannig að eignarlóðin verði öll innan skilgreinds íbúðasvæðis en ekki að hluta inni á óbyggðu svæði sem ætlað er fyrir tvöföldun Drottningarbrautar.
Innkomin umsögn Vegagerðarinnar dagsett 10. janúar 2012 þar sem tekið er neikvætt í erindið og þess óskað að skipulagsnefnd takmarki ekki möguleika Vegagerðarinnar á breikkun þjóðvegarins.

Skipulagsnefnd getur ekki orðið við umbeðinni breytingu á aðalskipulagi þar sem umsögn Vegagerðarinnar gagnvart breytingunni er neikvæð. Gera þarf ráð fyrir þeim möguleika að tvöfalda Drottningarbraut frá Kaupvangsstræti að Leiruvegi eins og gert er ráð fyrir í gildandi aðalskipulagi. Samkvæmt 32. gr. vegalaga nr. 80/2007 er óheimilt að staðsetja byggingar og önnur mannvirki innan 30 m frá miðlínu stofnvega nema með heimild Vegagerðarinnar.

4.Lækjargata 4 - deiliskipulag Innbæjar, breytingar á lóðarstærð

Málsnúmer 2012010158Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 13. janúar 2012 þar sem Þröstur Sigurðsson, f.h. Tómasar Þórs Ágústssonar og Timothy Mark Richardson óskar eftir að við deiliskiplagsvinnu fyrir Innbæinn og Fjöruna verði gert ráð fyrir breytingum á stærð lóðarinnar nr. 4 við Lækjargötu auk annarra breytinga. Nánari skýringar í meðfylgjandi bréfi og afstöðumynd.

Erindinu er vísað í endurskoðun deiliskipulags Innbæjarins sem nú er í vinnslu.

5.Oddeyrartangi 149144 - Íslenska Gámafélagið ehf., umsókn um breytingu á notkun

Málsnúmer 2011090064Vakta málsnúmer

Innkominn úrskurður dagsettur 10. janúar 2012 frá úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála vegna kæru Íslenska Gámafélagsins ehf. á afgreiðslu skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 28. september 2011 á erindi varðandi rýmkun á starfsleyfi fyrir sorphirðu, sorpflutningi, gámaleigu og gámaþjónustu í húsi 6 á lóðinni við Oddeyrartanga lnr. 149144.
Í málinu var kveðinn upp svofelldur úrskurður:
"Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni."
Sjá nánar í meðfylgjandi úrskurði.

Lagt fram til kynningar.

6.Fjaran og Innbærinn - endurskoðun deiliskipulags, skipulagslýsing

Málsnúmer 2009090082Vakta málsnúmer

Skipulagsstjóri lagði fram tillögu að endurskoðun á deiliskipulagi Fjörunnar og Innbæjarins sem nú er í gildi. Tillagan er dagsett 25. janúar 2012 og unnin af Kollgátu ehf, sem einnig kynnti tillöguna.
Einnig fylgir skipulagslýsing dagsett 14. desember 2011 sem kynnt var frá 28. desember til 23. janúar 2012. Jákvæð umsögn Skipulagsstofnunar dagsett 19. janúar liggur fyrir. Engar ábendingar frá íbúum bárust.

Skipulagsnefnd þakkar Kollgátu fyrir kynninguna. Húsafriðunarnefnd mun gefa umsögn um auglýsta deiliskipulagstillögu á auglýsingartíma.

Skipulagsnefnd leggur til að haldinn verði íbúafundur um deiliskipulagstillöguna í febrúar.

Skipulagsnefnd frestar afgreiðslu málsins að öðru leyti.

7.Stórholt 1 - umsókn um deiliskipulagsgerð við Stórholt

Málsnúmer 2012010224Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 17. janúar 2012 þar sem Þröstur Sigurðsson f.h. Friðriks F. Karlssonar óskar eftir að unnið verði deiliskipulag fyrir lóðina að Stórholti 1. Meðfylgjandi eru nánari skýringar og afstöðumynd eftir Þröst Sigurðsson.

Umbeðnu svæði norðan lóðarinnar var úthlutað 1994 til eigenda Undirhlíðar 2 og er því ekki hægt að verða við beiðni um lóðarstækkun til norðurs.

Skipulagsnefnd felur skipulagsstjóra að gera deiliskipulag af svæðinu sunnan Undirhlíðar austan Hörgárbrautar að Glerá og Óseyri. Aðrar umbeðnar breytingar verða skoðaðar við gerð þess skipulags.

8.Hvammshlíð 5 - umsókn um skiptingu eigna úr tveimur í þrjár

Málsnúmer 2012010089Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 6. janúar 2012 þar sem Ingólfur Fr. Guðmundsson f.h. Klettabjargar ehf., kt. 490908-0990, sækir um að skipta húseigninni að Hvammshlíð 5 í þrjár íbúðir.

Skipulagsnefnd samþykkir að grenndarkynna erindið skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

9.Tjarnartún - umferðarmál

Málsnúmer 2011020055Vakta málsnúmer

Hjördís Jónsdóttir og Kristján Ólafsson, Tjarnartúni 9, mættu í viðtalstíma bæjarfulltrúa 14.október 2011.
Þau telja að umferðarþungi og hröð umferð sé í götunni. Þeim finnst forkastanlegt að loka Geislatúni norður úr. Áætlun í skipulaginu gerir ráð fyrir 1500 bílum á sólarhring á Tjarnartúni og þau telja að því hámarki sé þegar náð. Erfitt fyrir sjúkrabíla. Leggja til að ný gata verði tekin beint út úr hverfinu norður á Þórunnarstræti. Engin leið að koma við hljóðvörnum við götuna. Gengur illa með trjárækt í garðinum sem að áliti garðyrkjufræðings stafar af saltmengun frá götunni.

Samkvæmt deiliskipulagi Naustahverfis er gert ráð fyrir tveimur innkeyrslum í þennan hluta hverfisins frá Naustagötu þ.e. um Tjarnartún og Vallartún auk innkeyrslu frá Kjarnagötu. Samkvæmt því ætti umferð að dreifast jafnt um hverfið sem ætla má að sé fyrst og fremst vegna umferðar íbúa í grennd við umræddar götur. Uppbygging þessa hluta Naustahverfis er að mestu lokið og er gatnakerfi í samræmi við samþykkt deiliskipulag. Tjarnartún er skilgreind sem 30 km íbúðagata og eru hljóðvarnir í samræmi við niðurstöður hljóðskýrslu sem unnin var við gerð deiliskipulags svæðisins. Allar götur í hverfinu eru hannaðar miðað við gildandi hönnunarstaðla og eiga því öryggisökutæki s.s. sjúkra- og slökkviliðsbílar að eiga greiðan aðgang um hverfið án vandræða.Innkeyrsla í gegnum Geislatún var hugsuð sem tímabundin innkeyrsla í hverfið eða þar til ráðist var í gerð Kjarnagötu og gerð hringtorgs við Miðhúsabraut.Samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdadeild er salt ekki notað í íbúðagötum og ætti því ekki að vera ástæða þess að gróður blómstrar ekki. Óskað hefur verið eftir við framkvæmdadeild að hún láti mæla umferðarhraða og fjölda bíla í Tjarnartúni við fyrsta tækifæri. Þegar þær mælingar liggja fyrir verður málið tekið fyrir á ný.

10.Undirhlíð 1-3 - eftirlitsskýrslur I og II vegna grundunar

Málsnúmer BN080385Vakta málsnúmer

Skipulagsstjóri lagði fram skýrslurnar Samantekt I og II, vöktun vatnsborðs í jarðvegi og mælingar á jarðvegssigi, sem verkfræðistofan Mannvit ehf. hefur haft eftirlit með og unnið samkvæmt ákvæðum skilmála deiliskipulagsins. Björn Jóhannsson frá Mannvit ehf. kom á fundinn og kynnti samantektirnar.

Lagt fram til kynningar.

Skipulagsnefnd þakkar Birni fyrir kynninguna.

11.Hafnarstræti 57 - umsókn um skilti

Málsnúmer 2011120460Vakta málsnúmer

Tekið fyrir að nýju erindi dagsett 29. desember 2011 þar sem Helga Mjöll Oddsdóttir f.h. Leikfélags Akureyrar, kt. 420269-6339, sækir um undanþágu skv. gr. 11.1.1 í samþykkt um skilti og auglýsingar í lögsögu Akureyrarkaupstaðar, vegna viðburðarskiltis sem fyrirhugað er að komi tímabundið (tveir mánuðir) á framhlið Samkomuhússins til að auglýsa leikritið Gulleyjuna. Stærð skiltisins er 6x14m (84m2).
Innkomin umsögn Húsafriðunarnefndar dagsett 10. janúar 2012 þar sem lagst er gegn veitingu leyfisins á grundvelli þess að húsið sé friðað og að skiltið myndi hylja nær alla framhlið hússins.

Skipulagsnefnd hafnar erindinu á grundvelli 9. gr. húsafriðunarlaga þar sem Húsafriðunarnefnd mælir gegn leyfi fyrir viðburðarskiltinu.

Fyrri ákvörðun meirihluta nefndarinnar frá 11. janúar er því dregin til baka.

12.Dalsbraut sunnan Þingvallastrætis og nágrenni - deiliskipulag

Málsnúmer 2011050111Vakta málsnúmer

Innkomið bréf dagsett 14. janúar 2012 frá Einari S. Bjarnasyni, Grenilundi 11, sem gerir athugasemd við svarbréf skipulagsnefndar dagsett 11. janúar 2012 um skilgreiningu Dalsbrautar á aðalskipulagsuppdráttum Akureyrar frá 1975.

Skipulagsnefnd bendir á sbr. neðangreint, að gert hefur verið ráð fyrir tengibrautinni Dalsbraut í aðalskipulagi Akureyrar allt frá árinu 1975:
Aðalskipulag Akureyrar 1972-1993 var staðfest af félagsmálaráðuneyti 17. desember 1975.
Aðalskipulag Akureyrar 1990-2010 var staðfest af félagsmálaráðuneyti 30. nóvember 1990.
Aðalskipulag Akureyrar 1998-2018 var staðfest af umhverfisráðherra 4. september 1998.
Aðalskipulag Akureyrar 2005-2018 var staðfest af umhverfisráðherra 15. desember 2006.
Allar ofangreindar aðalskipulagsáætlanir gera ráð fyrir lagningu tengibrautarinnar Dalsbrautar og mátti því íbúum vera ljóst frá þeim tíma að gatan kæmi. Öll uppbygging á íbúðarsvæðunum í nágrenni vegstæðisins bera þess merki að gert var ráð fyrir lagningu hennar.

13.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2012

Málsnúmer 2012010231Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 11. janúar 2012. Lögð var fram fundargerð 380. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 16 liðum.

Lagt fram til kynningar.

14.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2012

Málsnúmer 2012010231Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 18. janúar 2012. Lögð var fram fundargerð 381. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 10 liðum.

Lagt fram til kynningar.

Önnur mál:

15.Tónatröð 5 - umsókn um byggingarleyfi

Málsnúmer 2011120066Vakta málsnúmer

Skipulagsstjóri lagði fram til kynningar nýja tillögu frá Reisum byggingarfélagi ehf. að útliti húss á lóðinni Tónatröð 5.

Skipulagsnefnd tekur jákvætt í fyrirliggjandi hugmynd. Skipulagsstjóri afgreiðir umsóknina um byggingarleyfið.

Fundi slitið - kl. 12:00.