Ungmennaráð - önnur mál

Málsnúmer 2022120502

Vakta málsnúmer

Ungmennaráð - 33. fundur - 07.12.2022

Rætt var um aukið samstarf við nemendafélög í grunnskólum Akureyrar og verður fulltrúa hvers ráðs boðið á næsta fund ungmennaráðs til að styrkja boðleiðir milli ungmennaráðs og nemenda grunnskólanna. Einnig var minnst á komandi verkefni ungmennaráðs, svo sem stórþing ungmenna í febrúar og bæjarstjórnarfund unga fólksins í mars.

Ungmennaráð - 34. fundur - 04.01.2023

Farið var yfir stöðuna á nýrri Facebook síðu og hópspjalli fyrir ungmennaráðið. Allir fulltrúar ráðsins eru komnir inn á síðuna og þangað verður ýmsum upplýsingum deilt. Fulltrúarnir voru sammála um að notast við síðuna og spjallið sem helsta samskiptamáta fyrir ráðið og starfsmennina í kringum það.

Ungmennaráð - 37. fundur - 05.04.2023

Anton Bjarni kynnti niðurstöður úr könnun sem hann gerði fyrir 9. bekk í Brekkuskóla í upphafi árs varðandi t.d. réttindafræðslu og mun hann senda ráðinu þá samantekt til frekari skoðunar.

Ungmennaráð - 38. fundur - 03.05.2023

Til stóð að ræða þá vinnu sem hefur verið í gangi varðandi endurskoðun á mannréttindastefnu bæjarins 2023-2027, þar sem óskað var eftir umsögn/ábendingum/athugasemdum frá ungmennaráðinu. Hins vegar tókst ekki að fara á dýptina í þeirri umræðu en fulltrúar tóku boltann áfram og sendu inn ábendingar að fundi loknum.

Ungmennaráð - 40. fundur - 31.05.2023

Síðasti fundur fyrir sumarfrí. Óskað var eftir ábendingum um hvernig starfið undanfarna mánuði væri búið að vera, spurningar því til grundvallar voru, hvað var vel gert, hvað mætti betur fara, hvað gætu fulltrúar ráðsins tekið til sín og starfsmenn tekið til sín?

Umræðurnar voru virkilega opnar, góðar og uppbyggilegar sem klárlega verður unnið með áfram fyrir t.d. gerð vinnusáttmála fyrir ráðið, í tengslum við næstu kosningar og móttöku nýrra fulltrúa í kjölfarið.

Ungmennaráð - 40. fundur - 31.05.2023

Aðstoðarmaður bæjarstjóra hafði samband fyrir hönd bæjarstjóra, formanns bæjarráðs og forseta bæjarstjórnar og boðaði til samráðsfundar með ungmennaráði varðandi aðkomu þeirra að gerð fjárhagsáætlunar fyrir árin 2024-2027. Fundurinn var dagsettur viku seinna og var uppsetning hans hugsuð sem stutt kynning út frá 3-4 fyrirframgefnum vinnuspurningum og svo samræður í kjölfarið. Fulltrúar ungmennaráðsins fögnuðu því að verið væri að bjóða þeim að borðinu í jafn mikilvægt verkefni en fannst að sama skapi að fyrirvarinn væri afar stuttur. Því var komið á framfæri en jafnframt var ákveðið að hefjast tafarlaust handa við að vinna kynninguna og hafa þá niðurstöður Stórþings ungmenna og málefni frá bæjarstjórnarfundi unga fólksins henni til grundvallar.

Ungmennaráð - 43. fundur - 04.09.2023

Farið var yfir atburði frá síðasta fundi. Hugmyndin um að ungmennaráðið myndi skrifa skýrslu um síðasta starfsár var kynnt fyrir ráðinu og ákveðið að skýrslan yrði kláruð fyrir næsta fund. Felix sagði frá UMFÍ ráðstefnunni sem hann tók þátt í.

Ungmennaráð - 42. fundur - 06.09.2023

Rætt stuttlega um ungmennaráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði 2023 sem verður á Reykjum í Hrútafirði 22.- 24. september. Yfirskrift ráðstefnunnar er, að jörðu skaltu aftur verða og vísar hún til umhverfis- og loftlagsmála. Felix var skráður til þátttöku og Telma ætlaði að hugsa málið.

Ungmennaráð - 44. fundur - 01.11.2023

Fulltrúar kynntu skýrslu ungmennaráðs fyrir síðasta starfsár. Skýrslan er aðgengileg á rafrænum vettvangi ráðsins og mun nýtast til úrbóta í starfsemi ráðsins og í kringum það.

Ungmennaráð - 45. fundur - 06.12.2023

Rætt um hvað hefur gerst frá síðasta fundi, hvað fulltrúar hafa verið að sýsla og þau verkefni sem fulltrúar hafa tekið þátt í.

Ekki hefur verið sendur póstur á nemendaráðin, Heimir ætlaði að taka þann bolta.

Upp kom sú tillaga að setja á fót vinaráð, þar sem ungmennaráð Akureyrar myndi setja sig í samband við 2-3 ungmennaráð annars staðar af landinu og festa niður fundi og hittinga á milli landshluta. Sækja þyrfti um styrki fyrir verkefninu og verður það skoðað betur á næsta fundi.

Ungmennaráð - 46. fundur - 10.01.2024

Minnt var á rafrænar undirskriftir fyrir fundargerðir. Flest allir eru með puttann á púlsinum hvað það varðar.

Telma er búin að senda pósta á nemenda- og skólaráðin.

Ungmennaráðið vill óska eftir því að koma inn á bæjarstjórnarfund og tala fyrir því að fá inn áheyrnarfulltrúa í öll ráð. Það myndi t.d. styðja við ráðin þegar þau munu taka upp barnvænt hagsmunamat hjá sér; til að senda mál til umsagnar hjá ungmennaráðinu og leita annarra leiða til að eiga samráð við börn og ungmenni varðandi ýmis málefni og ákvarðanatöku.

Eins þarf að tala fyrir því að þegar mál eru send til kynningar hjá ungmennaráðinu hvort það sé í raun nauðsynlegt, sbr. framlenging á íþróttastefnu Akureyrarbæjar og í þeim tilfellum þar sem það er viðeigandi að þá þurfi frekari gögn að fylgja með eða að einhver aðili komi inn á fund og kynni málið frekar, sbr. niðurstöður QUINT rannsóknarinnar.

Ungmennaráð - 47. fundur - 07.02.2024

Rætt um verkefnið þegar ungmennaráði var boðið á samráðsfund í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar Akureyrarbæjar í júní 2023. Ráðið sendi frá sér bókun um málið.

Þá nefndi umsjónarmaður að Marín Rós verkefnastjóri þekkingarmiðlunar hjá UNICEF hefði haft samband og vildi kynna verkefni sem hún hefur unnið í tengslum við barnvæn fjármál. Ungmennaráðið sýndi því mikinn áhuga og hlakkar til að heyra hvernig þeir fundir fara og hvort úr verði hugsanlegt samstarf í framhaldi.
Ungmennaráði var boðið á samráðsfund í júní 2023 varðandi fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar. Ráðið setti fram ítarlega kynningu og listaði upp í yfirgripsmiklu Excel skjali þeirra áherslur. Ungmennaráð harmar að eftir þann fund hafi ekkert heyrst frá þeim aðilum er sátu fundinn varðandi hvort og þá hvernig horft hafi verið til tillaga ráðsins við gerð fjárhagsáætlunarinnar.

Ungmennaráð - 47. fundur - 07.02.2024

Rætt var um eftirfylgni mála sem ungmennaráð hefur aðkomu að, þá t.d. í tengslum við bæjarstjórnarfund unga fólksins, samráðsfund fyrir gerð fjárhagsáætlunar bæjarins og annarra mála sem ráðið fær inn á sitt borð. Ítrekað var að ráðið sjálft getur bæði ýtt á eftir málum og kallað eftir svörum um stöðu þeirra, sem og að ráðið á rétt á að vera upplýst um hvernig mál er þau varðar eru unnin áfram.


Þá var rætt um hvernig málin standa varðandi tengslamyndum við nemendaráð grunnskólanna. Ungmennaráð hefur fengið svör frá þremur grunnskólum og fyrirhugaðir eru fundir með þeim á næstu dögum.

Ungmennaráð - 49. fundur - 03.04.2024

Rætt var um áframhaldandi samvinnu við nemendaráð grunnskóla Akureyrarbæjar, fundi sem ungmennaráð hefur átt með þeim og mögulega dagsetningu fyrir sameiginlegan fund með fulltrúum allra ráðanna. Ungmennaráð fól Parísi Önnu það verkefni að setja saman tölvupóst og senda á nemendaráðin og skólafélögin varðandi það.


Felix upplýsti ungmennaráðið um stöðu mála í uppbyggingu á Þórssvæðinu en hann situr í vinnuhópnum.


Ungmennaráð felur umsjónarmanni ráðsins að hafa samband við önnur ráð bæjarins til að ítreka undirstöðuatriði í farsælu samráði við börn og ungmenni, sbr. mál til umsagnar til ungmennaráðs.

Ungmennaráð - 51. fundur - 08.05.2024

Rætt um þá staðreynd að til standi að leggja niður starf skólasálfræðings í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Ungmennaráð var sammála um að þetta væri mikið áhyggjuefni og mun styðja við yfirlýsingu skólafélags VMA varðandi málið.

Ungmennaráð - 51. fundur - 08.05.2024

Rætt um stöðuna á leiksvæði Hlíðarskóla. Fram kom tillaga um að ungmennaráð myndi senda frá sér yfirlýsingu þar sem lýst væri yfir óánægju með málið.

Ungmennaráð er einróma sammála um að bæta þarf útiaðstöðu nemenda við Hlíðarskóla og óskiljanlegt er að skautað hafi verið framhjá uppbyggingu þar í allan þennan tíma þrátt fyrir ákall frá starfsfólki skólans og nú síðast nemendum.

Ungmennaráð - 52. fundur - 05.06.2024

Fundurinn var síðasti formlegi fundurinn fyrir sumarfrí. Rætt var um skýrsluskrif ungmennaráðsins um samantekt á vetrinum líkt og gert var eftir síðasta starfsár.

Ungmennaráð - 53. fundur - 07.08.2024

Ungmennaráð mun skrifa skýrslu þar sem farið er yfir helstu atriði síðasta starfsárs, líkt og gert var árið áður. Skýrslan verður gerð aðgengileg á rafrænum vettvangi ráðsins og mun nýtast til úrbóta í starfsemi ráðsins og í kringum það ásamt því að hún hjálpar nýjum fulltrúum að setja sig betur inn í starfið. Ráðið mun skila skýrslunni inn fyrir 21. ágúst nk.

Ungmennaráð - 53. fundur - 07.08.2024

Síðasti fundur ráðsins og orðið var laust. Telma minnti m.a. á mikilvægi þess að fylgja eftir stöðu mála frá bæjarstjórnarfundi unga fólksins og kanna hvort búið væri að samræma verklag nemendaráða grunnskólanna líkt og rætt hafði verið. Öll í ráðinu voru sammála um að þetta yrði skoðað.

Ungmennaráð - 54. fundur - 04.09.2024

Kynnt var fyrir ungmennaráði vinnustofa um aðlögun Akureyrarbæjar að lofslagsbreytingum. Fjórir fulltrúar ætla að taka þátt.