Ungmennaráð

49. fundur 03. apríl 2024 kl. 16:00 - 18:00 Rósenborg
Nefndarmenn
  • Anton Bjarni Bjarkason
  • Elsa Bjarney Viktorsdóttir
  • Felix Hrafn Stefánsson
  • Fríða Björg Tómasdóttir
  • Guðmar Gísli Þrastarson
  • Haukur Arnar Ottesen Pétursson
  • Heimir Sigurpáll Árnason
  • Lilja Dögun Lúðvíksdóttir
  • París Anna Bergmann Elvarsd.
  • Telma Ósk Þórhallsdóttir
Starfsmenn
  • Karen Nóadóttir umsjónarmaður ungmennaráðs ritaði fundargerð
  • Arnar Már Bjarnason forvarna- og félagsmálafulltrúi
  • Ari Orrason forvarna- og félagsmálafulltrúi
Fundargerð ritaði: Karen Nóadóttir umsjónarmaður Ungmennaráðs
Dagskrá

1.Barnamenningarhátíð 2024

Málsnúmer 2024010431Vakta málsnúmer

Rætt stuttlega um Sumartóna 2024. Niðurstaða er komin í málið varðandi tónlistaratriðin. Mikil óánægja var meðal fulltrúa um hvernig valinu á fræga tónlistarmanninum var háttað. Sagt var frá því að eftir að ungmennaráð hafi sent inn sínar hugmyndir hafi framkvæmdaaðilar óskað eftir fleiri tillögum og var því einnig leitað til félagsmiðstöðvanna og tillögur frá þeim sendar inn en ekkert heyrst eftir það. Síðan þá hefur verið valið, án upplýsinga eða samráðs við ungmennaráð, aðili sem hvergi var á tillögulista og auglýsing sett í loftið.

Ungmennaráð fól umsjónarmanni ráðsins að kanna það hvers vegna málið var unnið á þennan hátt.
Niðurstaðan er að Skandall og Emmsjé Gauti munu stíga á svið á Sumartónum. París og Guðmar verða kynnar og aðrir fulltrúar ráðsins sjá um dyravörslu.

2.Öryggi nemenda á bílastæði - erindi frá réttindaráði Giljaskóla

Málsnúmer 2024030440Vakta málsnúmer

Fræðslu- og lýðheilsuráð tók fyrir erindi frá réttindaráði Giljaskóla varðandi öryggi nemenda á bílastæðum og sendi málið til kynningar til ungmennaráðs. Mikilvægt er að nauðsynleg gögn fylgi þegar málum er vísað til ungmennaráðs, í þessu tilfelli erindi réttindaráðsins. Gildi áheyrnarfulltrúa ungmennaráðs í fræðslu- og lýðheilsuráði sannaði sig og viðkomanid gat nálgast gögnin.

Ungmennaráð sendi fyrirspurn vegna málsins til fræðslu- og lýðheilsuráðs og umhverfis- og mannvirkjaráðs.
Mikilvægt er að þetta mál sé sett í forgang og farið verði í úttekt á öryggis- og bílastæðamálum við Giljaskóla. Ungmennaráð fundaði fyrir stuttu með nemenda- og réttindaráði Giljaskóla þar sem fulltrúarnir lýstu yfir áhyggjum sínum um málið en sögðu einnig frá því að þau hafi sent inn fyrirspurn á bæinn en ekki hafa fengið ný svör.

Ungmennaráð hvetur umhverfis- og mannvirkjaráð til þess ráðast í aðgerðir sem fyrst þar sem öryggi barna og ungmenna á þeirra vinnustað sé um að ræða. Að sama skapi telur ungmennaráð mikilvægt að viðeigandi ráð haldi nemendum upplýstum um stöðu mála. Ungmennaráð vonast einnig til þess að umhverfis- og mannvirkjaráð skoði af alvöru aðrar áhyggjur og óskir sem réttindaráðið ber upp í myndbandi sínu sem fylgdi erindi þeirra.


Einnig vill ungmennaráð bera upp þá spurningu til viðeigandi ráða hvers vegna engin svör hafi hingað til borist vegna fyrirspurna réttindaráðs Giljaskóla þar sem málið hefur verið áhyggjumál síðan 2020?

3.Námsgögn - tillaga að breyttum starfsháttum

Málsnúmer 2024030430Vakta málsnúmer

Rætt var um erindi frá grunnskólastjórum Akureyrarbæjar um tillögur að breyttum starfsháttum vegna námsgagna nemenda.
Ungmennaráð tekur undir hugmyndina en leggur áherslu á að við framkvæmd breytingarinnar verði tekið tillit til nemenda sem eiga t.d. við hegðunarvanda að stríða, eiga ekki sterkt bakland eða bera ekki sjálfir ábyrgð þegar gögn skemmast eða týnast.

Ungmennaráð leggur til að hverju barni verði gefið ákveðið svigrúm varðandi námsgögnin, þ.e. að hægt verði að fá áfyllingu í undantekningartilvikum. Að sama skapi telur ungmennaráð mikilvægt að nemendur séu upplýstir um þann kostnað sem því fylgir að kaupa námsgögn og að það verði gert á barnvænan hátt til að ýta undir ábyrgðartilfinningu nemenda.

Í stað þess að þessi breyting verði strax fest í sessi sem varanleg breyting þá leggur ungmennaráð til að þessi breyting verði tilraunaverkefni skólaárin 2024-2025 og 2025-2026 og staðan endurmetin út frá því hvort breytingin hafi skilað árangri án þess að hafa verið hamlandi eða niðurlægjandi fyrir nemendur á einhvern hátt.

4.Frumvarp til laga um inngildandi menntun

Málsnúmer 2024030445Vakta málsnúmer

Ungmennaráð tók málið fyrir.

5.Frístundastyrkur - tómstundaávísun

Málsnúmer 2006040018Vakta málsnúmer

Rætt var um samantekt á nýtingu frístundastyrksins.
Ungmennaráð fagnar því hversu góð nýting er á frístundarstyrknum. Hins vegar mætti kynning á tómstundaframboði sem styrkurinn gengur upp í vera betri. Ungmennaráð bendir einnig á að laga þurfi orðalag yfir kynin í samantektinni.

6.Bæjarstjórnarfundur unga fólksins 2022-2026

Málsnúmer 2023030583Vakta málsnúmer

Ungmennaráð leggur til 17. apríl sem nýja dagsetningu fyrir bæjarstjórnarfund unga fólksins og felur umsjónarmanni að kanna það hjá bæjarstjórn.

Rætt um undirbúning, stöðu á erindum og fleira.

7.Ungmennaráð - önnur mál

Málsnúmer 2022120502Vakta málsnúmer

Rætt var um áframhaldandi samvinnu við nemendaráð grunnskóla Akureyrarbæjar, fundi sem ungmennaráð hefur átt með þeim og mögulega dagsetningu fyrir sameiginlegan fund með fulltrúum allra ráðanna. Ungmennaráð fól Parísi Önnu það verkefni að setja saman tölvupóst og senda á nemendaráðin og skólafélögin varðandi það.


Felix upplýsti ungmennaráðið um stöðu mála í uppbyggingu á Þórssvæðinu en hann situr í vinnuhópnum.


Ungmennaráð felur umsjónarmanni ráðsins að hafa samband við önnur ráð bæjarins til að ítreka undirstöðuatriði í farsælu samráði við börn og ungmenni, sbr. mál til umsagnar til ungmennaráðs.

Fundi slitið - kl. 18:00.