Ungmennaráð

45. fundur 06. desember 2023 kl. 16:00 - 19:00 Rósenborg
Nefndarmenn
  • Anton Bjarni Bjarkason
  • Elsa Bjarney Viktorsdóttir
  • Felix Hrafn Stefánsson
  • Fríða Björg Tómasdóttir
  • Haukur Arnar Ottesen Pétursson
  • Heimir Sigurpáll Árnason
  • Lilja Dögun Lúðvíksdóttir
  • París Anna Bergmann Elvarsd.
  • Telma Ósk Þórhallsdóttir
Starfsmenn
  • Arnar Már Bjarnason forvarna- og félagsmálafulltrúi
  • Hafsteinn Þórðarson forvarna- og félagsmálafulltrúi
  • Karen Nóadóttir umsjónarmaður ungmennaráðs ritaði fundargerð
Fundargerð ritaði: Karen Nóadóttir umsjónarmaður
Dagskrá

1.Ungmennaráð - önnur mál

Málsnúmer 2022120502Vakta málsnúmer

Rætt um hvað hefur gerst frá síðasta fundi, hvað fulltrúar hafa verið að sýsla og þau verkefni sem fulltrúar hafa tekið þátt í.

Ekki hefur verið sendur póstur á nemendaráðin, Heimir ætlaði að taka þann bolta.

Upp kom sú tillaga að setja á fót vinaráð, þar sem ungmennaráð Akureyrar myndi setja sig í samband við 2-3 ungmennaráð annars staðar af landinu og festa niður fundi og hittinga á milli landshluta. Sækja þyrfti um styrki fyrir verkefninu og verður það skoðað betur á næsta fundi.

2.Efling félagsmiðstöðvarstarfs á miðstigi, hinsegin félagsmiðstöðvar og tómstundastarfs barna á flótta

Málsnúmer 2023110068Vakta málsnúmer

Ungmennaráð fékk kynningu frá Ölfu Aradóttur forstöðumanni forvarna- og frístundadeildar á félagsmiðstöðvastarfi á miðstigi, hinsegin félagsmiðstöð og tómstundastarfi barna á flótta.

Í kjölfarið tók ráðið mál til umsagnar varðandi eflingu þessa starfs og sendi frá sér bókun.
Ungmennaráð tekur vel í erindið sem fellur undir gríðarlega mikilvægan flokk á sviði forvarnastarfs barna. Sú upphæð sem óskað er eftir er ekki mikil miðað við ávinninginn sem fæst af því að fjárfesta í þessu mikilvæga starfi sem styður viðkvæma hópa sem oft vilja gleymast innan samfélagsins.

3.Símanotkun í grunnskólum Akureyrarbæjar

Málsnúmer 2023100652Vakta málsnúmer

Ungmennaráð kynnti sér niðurstöður könnunar varðandi símanotkun í grunnskólum. París, sem situr í starfshópi varðandi málið, fór yfir hvað hafi verið rætt á fyrsta fundi þess hóps. Eins var tengt inn í niðurstöður Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar varðandi samfélagsmiðlanotkun barna.

4.Íslenskar æskulýðsrannsóknir

Málsnúmer 2023050295Vakta málsnúmer

Rætt var um helstu niðurstöður Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar sem hafa verið kynntar bæði fyrir fræðslu- og lýðheilsuráði og á opnum kynningarfundi í lok nóvember. Margt kom á óvart í niðurstöðunum, sér í lagi spurningar varðandi þungbærar upplifanir á borð við ofbeldi. Fram kom að hluti spurninganna væri illskiljanlegur og því gott að fyrir næstu fyrirlögn yrði listinn forprófaður í samvinnu við Samfés.

Ungmennaráð hefur mikinn áhuga á að halda áfram að skoða þessi mál því þau eru mjög áhugaverð. Hins vegar er stutt í næstu fyrirlögn og því væri jafnvel heppilegra að koma inn í vinnu með þær niðurstöður.

5.Lýðheilsustefna Akureyrarbæjar

Málsnúmer 2022010391Vakta málsnúmer

Héðinn Svarfdal verkefnastjóri lýðheilsumála kom og ræddi við ungmennaráðið m.a. varðandi vinnu við gerð nýrrar lýðheilsustefnu Akureyrarbæjar. Stefnt er á að ungmennaráð hafi aðkomu að þeirri vinnu og verður sú samvinna útfærð síðar en til stendur að funda um það í janúar.

6.Skautafélag Akureyrar - öryggismál á lóð Skautahallarinnar

Málsnúmer 2023110202Vakta málsnúmer

Ungmennaráð tók til umsagnar bílastæðamál hjá Skautahöllinni og sendi frá sér bókun um málið.
Ungmennaráð Akureyrar þakkar erindið og er sammála þeirri þörf að grenndargámar verði færðir á annað svæði sökum þeirri umferðarhættu sem stafar af þeim bæði fyrir gangandi vegfarendur og akandi einstaklinga. Ungmennaráð telur að besti kosturinn fyrir stækkun bílastæðisins væri á sunnanverði hlið hússins að því gefnu að tryggt verði að snjóbretta- og sleðaaðstaða haldi sér og geti áfram nýst þeim sem hana nota.

7.Kennsla og umgjörð starfs-, list- og verknáms í grunnskólum

Málsnúmer 2023110084Vakta málsnúmer

Ungmennaráð tók til umsagnar mál varðandi list- og verkgreinar í grunnskólum Akureyrarbæjar og sendi frá sér bókun.
Ungmennaráð Akureyrar vill ítreka að mikilvægi verklegs náms er á pari við bóklegt nám og gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki í menntun og uppeldi barna. Fyrir mörg börn geta akkúrat þessir tímar verið þar sem þau njóta sín hvað best og þeirra styrkleikar og hæfileikar fái sín notið. Ungmennaráð metur það svo að klárlega sé rými fyrir bætingu á bæði aðstöðu og framboði verknáms.

8.Reglur um akstursþjónustu Akureyrarbæjar

Málsnúmer 2023110731Vakta málsnúmer

Ungmennaráð kynnti sér drög að endurskoðuðum reglum um akstursþjónustu Akureyrarbæjar og sendi frá sér bókun.
Ungmennaráð Akureyrar leggur til að þær fjölskyldur sem hafa hlotið bifreiðastyrk verði ekki algjörlega skertar af réttindum sínum heldur í stað þess að hafa 80 ferðir á mánuði að þeim verði fækkað í 10-20 sem hægt væri að nýta ef eitthvað kæmi upp á. Einnig vill ungmennaráð leggja til að barnabílstólar séu ekki á ábyrgð foreldra heldur verði til staðar í bílnum ef þess er þörf.

9.Stefna um íbúasamráð 2022

Málsnúmer 2022041947Vakta málsnúmer

Ungmennaráð tók fyrir stefnu Akureyrarbæjar um íbúasamráð til 2026 og aðgerðaáætlunar eftir að hafa fengið málinu vísað til sín frá bæjarráði.

Smávægilegar athugasemdir voru settar fram í skjali sem sent var aftur á viðeigandi aðila. Fulltrúar töldu að gott væri að fá frekari útskýringar á heildarplagginu og fólu starfsmanni ráðsins að kanna þann möguleika.

10.Íþróttafélagið Þór - beiðni um samningaviðræður

Málsnúmer 2023031752Vakta málsnúmer

Ungmennaráð ræddi um þann formlega vinnuhóp sem setja á á laggirnar í tengslum við framtíðaruppbyggingu á Þórssvæðinu. Ráðið tilnefndi Felix Hrafn Stefánsson sem fulltrúa ráðsins í þann vinnuhóp. Ráðið ræddi um mikilvægi þess að aðstaðan þyrfti að vera almennileg fyrir iðkendur og að best væri ef allar íþróttir sem Þór býður upp á væru á Þórssvæðinu en ekki dreift um bæinn eins og staðan er í dag.

Fundi slitið - kl. 19:00.