Reykjavíkurflugvöllur - framtíðarstaðsetning

Málsnúmer 2007110127

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn - 3293. fundur - 16.11.2010

Bæjarfulltrúi D-lista, Njáll Trausti Friðbertsson, óskaði eftir að málefni Reykjavíkurflugvallar yrði tekið til umfjöllunar.

Njáll Trausti lagði fram eftirfarandi tillögu að bókun:

 

Bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar samþykkir að fela bæjarstjóra að láta vinna skýrslu um afleiðingar þess fyrir Akureyri og þá sem nýta sér Akureyrarflugvöll að Reykjavíkurflugvöllur verði lagður af í núverandi mynd. Sérstaklega verði litið til öryggissjónarmiða, sem og efnahagslegra áhrifa við gerð skýrslunnar.

Bæjarstjóri vinni verkefnið í samráði við bæjarstjórana á Ísafirði, Fljótsdalshéraði og í Vestmannaeyjum vegna hugsanlegrar aðkomu þeirra að verkefninu fyrir þeirra bæjarfélög. Bæjarstjóra einnig falið að upplýsa borgarstjóra um verkefnið.

 

Bæjarstjórn samþykkir framlagða bókun með 11 samhljóða atkvæðum.

Bæjarráð - 3257. fundur - 20.01.2011

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri upplýsti um stöðu mála.

Bæjarráð - 3309. fundur - 16.02.2012

Dan Jens Brynjarsson fjármálastjóri mætti á fundinn kl. 09:15.
Lögð fram til kynningar drög að samningi vegna vinnu við skýrslu um hagræn áhrif þess á landsbyggðina að Reykjavíkurflugvöllur verði fluttur úr Vatnsmýrinni.

Bæjarstjórn - 3341. fundur - 25.06.2013

Bæjarfulltrúi D-lista, Ólafur Jónsson, óskaði eftir að málefni Reykjavíkurflugvallar yrði tekið til umfjöllunar.
Fram fóru almennar umræður.

Bæjarstjórn - 3342. fundur - 03.09.2013

Umræður um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

Lögð var fram tillaga að bókun svohljóðandi:

 

Bæjarstjórn Akureyrar vill koma eftirfarandi ábendingum á framfæri vegna auglýsingar á nýju aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030:

Vegna tillögu um flutning Reykjavíkurflugvallar úr Vatnsmýrinni vill bæjarstjórn Akureyrar minna á þá ábyrgð og skyldur sem höfuðborg landsins ber gagnvart landsmönnum öllum. Greiðar flugsamgöngur landsbyggðarinnar til og frá Reykjavík eru forsenda þess að borgin geti gegnt hlutverki sínu sem höfuðborg landsins alls. Í höfuðborginni eru höfuðstöðvar stjórnsýslu Íslands auk fjölda opinberra viðskipta-, mennta-, menningar- og heilbrigðisstofnana sem eiga þar einnig sínar höfuðstöðvar. Með tillögunni er verið að rýra aðgengi fólks að þessari þjónustu.

Bæjarstjórn Akureyrar hvetur umhverfis- og skipulagsráð ásamt borgarstjórn Reykjavíkur til að hafa framangreind atriði í huga við umfjöllun og afgreiðslu tillagna um framtíðarstaðsetningu flugvallarins. Bæjarstjórn lýsir yfir vilja sínum til frekari viðræðna við borgaryfirvöld um málið.

 

Bæjarstjórn samþykkir framlagða bókun með 11 samhljóða atkvæðum.

Bæjarstjórn - 3354. fundur - 15.04.2014

Njáll Trausti Friðbertson D-lista óskar eftir umræðu um framtíð Reykjavíkurflugvallar og innanlandsflugs.

Njáll Trausti Friðbertsson D-lista óskar eftir umræðu um framtíð Reykjavíkurflugvallar og innanlandsflugs.

Þegar hér var komið í dagskránni var gert stutt fundarhlé.

Njáll Trausti Friðbertsson D-lista lagði fram tillögu að bókun svohljóðandi:

Bæjarstjórn Akureyrar lýsir yfir þungum áhyggjum af þeim áhrifum sem langvarandi óvissa um framtíð Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri veldur.

Það verður ekki lengur við það unað, að áformað sé að skerða stórkostlega lífsnauðsynlegar flugsamgöngur landsmanna við höfuðborg landsins með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Bæjarstjórn Akureyrar skorar á Reykjavíkurborg og ríkisvaldið að þau nái samkomulagi um að hrófla ekki við Reykjavíkurflugvellinum í Vatnsmýri þar til viðunandi lausn finnst fyrir alla landsmenn, með líkum hætti og gert var með Bromma flugvöll í Stokkhólmi þar sem öryggishagsmunir Svíþjóðar voru hafðir að leiðarljósi.

Mikilvægt er að Reykjavíkurborg virði það samkomulag sem er í gildi milli hennar, ríkisins og Icelandair group. Brýnt er að öryggi innanlandsflugs í Vatnsmýri verði tryggt. Með þeim hætti einum getur Reykjavík verið höfuðborg landsmanna allra.

Tillaga Njáls Trausta Friðbertssonar var borin upp og samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.

Bæjarráð - 3423. fundur - 14.08.2014

Lagðar fram til kynningar athugasemdir við auglýstar breytingar á deiliskipulagi Hlíðarenda sem Hjartað í Vatnsmýrinni sendi umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar dagsett 5. ágúst 2014.

Eva Hrund Einarsdóttir D-lista lagði fram eftirfarandi bókun:

Ég hvet bæjarfulltrúa og forystumenn Akureyrarbæjar að berjast opinberlega fyrir því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni landsbyggðinni til öryggis og heilla og legg til að við styðjum við áskorun samtakanna Hjartans í Vatnsmýrinni sem send var umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar 5. ágúst 2014.

 

 

Bæjarráð vísar í bókun í 2. lið fundargerðar bæjarstjórnar 15. apríl 2014:

Bæjarstjórn Akureyrar lýsir yfir þungum áhyggjum af þeim áhrifum sem langvarandi óvissa um framtíð Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri veldur.

Það verður ekki lengur við það unað, að áformað sé að skerða stórkostlega lífsnauðsynlegar flugsamgöngur landsmanna við höfuðborg landsins með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Bæjarstjórn Akureyrar skorar á Reykjavíkurborg og ríkisvaldið að þau nái samkomulagi um að hrófla ekki við Reykjavíkurflugvellinum í Vatnsmýri þar til viðunandi lausn finnst fyrir alla landsmenn, með líkum hætti og gert var með Bromma flugvöll í Stokkhólmi þar sem öryggishagsmunir Svíþjóðar voru hafðir að leiðarljósi.

Mikilvægt er að Reykjavíkurborg virði það samkomulag sem er í gildi milli hennar, ríkisins og Icelandair group. Brýnt er að öryggi innanlandsflugs í Vatnsmýri verði tryggt. Með þeim hætti einum getur Reykjavík verið höfuðborg landsmanna allra.

Bæjarstjórn - 3363. fundur - 18.11.2014

Njáll Trausti Friðbertson D-lista óskaði eftir umræðu um málefni Reykjavíkurflugvallar.

Njáll Trausti lagði fram eftirfarandi tillögu:
Bæjarstjórn Akureyrar lýsir yfir áhyggjum af framtíð Reykjavíkurflugvallar í ljósi þeirra alvarlegu stöðu sem blasir við fari svo að Reykjavíkurborg leyfi byggingar á svokölluðu Hlíðarendasvæði án þess að tryggt sé að hægt verði að nýta NA/SV braut (neyðarbraut) flugvallarins.
Bæjarstjórnin skorar á Reykjavíkurborg að endurskoða nú þegar samþykktir sínar um Hlíðarendasvæðið með það að markmiði að tryggt sé að byggðin og neyðarbrautin eigi samleið. Meirihluti borgarstjórnar hefur með samþykktum sínum á undanförnum mánuðum unnið að því að leggja Reykjavíkurflugvöll af á næstu árum. Þetta er grafalvarlegt í ljósi þess að Rögnunefndin er enn að störfum og borgarstjórn Reykjavíkur er aðili að henni. Þetta er ekki síður alvarlegt þar sem Reykjavík er höfuðborg landsins þar sem flestar stofnanir landsins eru staðsettar sem eiga að þjóna landinu öllu. Hlutverk höfuðborgar er víðtækt og mikilvægt og það verða borgarfulltrúar í borgarstjórn allir að skilja og viðurkenna. Reykjavíkurflugvöllur er lífsnauðsynleg tenging landsbyggðanna við höfuðborg sína og því kemur það ekki á óvart að Alþingi láti málið til sín taka, þegar sérhagsmunir ganga fyrir almannahagsmunum.

Logi Már Einarsson S-lista lagði fram breytingartillögu svohljóðandi:

Bæjarstjórn Akureyrar lýsir yfir áhyggjum af framtíð Reykjavíkurflugvallar í ljósi þeirra alvarlegu stöðu sem blasir við fari svo að Reykjavíkurborg leyfi byggingar á svokölluðu Hlíðarendasvæði án þess að tryggt sé að hægt verði að nýta NA/SV braut (neyðarbraut) flugvallarins.
Bæjarstjórnin skorar á Reykjavíkurborg að endurskoða nú þegar samþykktir sínar um Hlíðarendasvæðið með það að markmiði að tryggt sé að byggðin og neyðarbrautin eigi samleið.  Meirihluti borgarstjórnar hefur með samþykktum sínum á undanförnum mánuðum unnið að því að leggja Reykjavíkurflugvöll af á næstu árum. Þetta er grafalvarlegt í ljósi þess að Rögnunefndin er enn að störfum og borgarstjórn Reykjavíkur er aðili að henni.  Þetta er ekki síður alvarlegt þar sem Reykjavík er höfuðborg landsins þar sem flestar stofnanir landsins eru staðsettar sem eiga að þjóna landinu öllu. Hlutverk höfuðborgar er víðtækt og mikilvægt og það verða borgarfulltrúar í borgarstjórn allir að skilja og viðurkenna. Reykjavíkurflugvöllur er lífsnauðsynleg tenging landsbyggðanna við höfuðborg sína.

 

Þegar hér var komið gerði forseti hlé á fundinum.

 

Breytingartillaga Loga Más var tekin til afgreiðslu og var óskað eftir nafnakalli.

Já sögðu bæjarfulltrúarnir:  Logi Már Einarsson S-lista, Sigríður Huld Jónsdóttir S-lista og Margrét Kristín Helgadóttir Æ-lista.

Nei sögðu bæjarfulltrúarnir:  Dagur Fannar Dagsson L-lista, Eva Hrund Einarsdóttir D-lista, Guðmundur Baldvin Guðmundsson B-lista, Gunnar Gíslason D-lista, Ingibjörg Ólöf Isaksen B-lista, Matthías Rögnvaldsson L-lista, Njáll Trausti Friðbertsson D-lista, og Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista.

 

Breytingartillaga Loga Más Einarssonar var því felld með 8 atkvæðum gegn 3 atkvæðum Loga Más Einarssonar S-lista, Margrétar Kristínar Helgadóttur Æ-lista og Sigríðar Huld Jónsdóttur S-lista.

 

Því næst var tekin til afgreiðslu tillaga Njáls Trausta Friðbertssonar og var óskað eftir nafnakalli.

Já sögðu bæjarfulltrúarnir:  Dagur Fannar Dagsson L-lista, Eva Hrund Einarsdóttir D-lista, Guðmundur Baldvin Guðmundsson B-lista, Gunnar Gíslason D-lista, Ingibjörg Ólöf Isaksen B-lista, Matthías Rögnvaldsson L-lista, Njáll Trausti Friðbertsson D-lista og Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista.

Logi Már Einarsson S-lista, Sigríður Huld Jónsdóttir S-lista og Margrét Kristín Helgadóttir Æ-lista sátu hjá við afgreiðslu.

 

Tillaga Njáls Trausta Friðbertssonar var því samþykkt með 8 samhljóða atkvæðum.

 

Bókun:

Bæjarfulltrúarnir Margrét Kristín Helgadóttir, Logi Már Einarsson og Sigríður Huld Jónsdóttir lýsa þungum áhyggjum sínum af framtíð Reykjavíkurflugvallar í ljósi fyrirhugaðra framkvæmda á svæðinu.
Ofangreindir bæjarfulltrúar hvetja Reykjavíkurborg til þess að fresta öllum samþykktum um áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu, a.m.k. þar til Rögnunefndin hefur lagt fram niðurstöður sínar og landsmönnum verið gefið nægt ráðrúm til þess að fjalla um þær.
Reykjavík er ekki einungis miðstöð stjórnsýslu og helstu stofnana landsins, hún er jafnframt höfuðborg þess og hefur sem slík víðtækum skyldum að gegna gagnvart landinu öllu.

Bæjarstjórn - 3368. fundur - 17.02.2015

Lögð fram bókun svohljóðandi:
Bæjarstjórn Akureyrar minnir enn og aftur á mikilvægi innanlandsflugs og að aðgengi landsbyggðanna að höfuðborginni er lykilatriði fyrir farsæla byggðaþróun.
Mikilvægt er að sem víðtækust samstaða allra landsmanna náist um framtíðarfyrirkomulag flugvallar á höfuðborgarsvæðinu.
Bæjarstjórn Akureyrar krefst þess að nefnd sem kennd er við Rögnu Árnadóttur, Rögnunefndin, fái svigrúm og þann tíma sem hún þarf til þess að leggja fram sínar tillögur og skorar á borgarfulltrúa Reykjavíkur að beita sér fyrir því að ekki verði afgreidd framkvæmdaleyfi á Hlíðarendasvæðinu fyrr en Rögnunefndin hefur lokið vinnu sinni.
Bæjarstjórn samþykkir framlagða bókun með 11 samhljóða atkvæðum.

Bæjarstjórn - 3386. fundur - 02.02.2016

Bæjarfulltrúi Njáll Trausti Friðbertsson D-lista óskaði eftir umræðu um sjúkraflugið, Reykjavíkurflugvöll og Landspítalann.
Lögð fram tillaga að bókun svohljóðandi:


Bæjarstjórn Akureyrar skorar á ríkisstjórn Íslands og borgarstjórn Reykjavíkur að tryggja óskerta starfsemi Reykjavíkurflugvallar og tryggja þar með öryggishagsmuni íbúa landsbyggðanna, a.m.k. þangað til jafngóð eða betri lausn finnst. Það er með öllu ólíðandi að dregið verði úr öryggi sjúklinga og slasaðra sem þurfa að komast með hraði á Landspítalann þar sem staðsett er sérhæfð þjónusta s.s. hjartaþræðingar, heila- og taugaskurðlækningar og vökudeild.

Árið 2015 voru 752 einstaklingar fluttir í sjúkraflugi þar af rúmlega 85% með flugvélum Mýflugs og tæplega 15% með þyrlum Landhelgisgæslunnar.

Því miður er óraunhæft að ætla að í náinni framtíð skapist þær aðstæður í íslenskri heilbrigðisþjónustu að ekki verði þörf á að koma mörgum af erfiðustu tilfellunum sem koma upp á landsbyggðunum á Landspítalann við Hringbraut.

Mikilvægt er að aðgengi íbúa landsbyggðanna að öflugustu heilbrigðisþjónustu landsmanna sé tryggt.


Bæjarstjórn samþykkir framlagða bókun með 11 samhljóða atkvæðum.

Bæjarstjórn - 3395. fundur - 21.06.2016

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins Eva Hrund Einarsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson og Sigurjón Jóhannesson óskuðu eftir eftirfarandi umræðu: Reykjavíkurflugvöllur - staða máls eftir dóm Hæstaréttar um lokun á neyðarbraut.
Eva Hrund Einarsdóttir D-lista Njáll Trausti Friðbertsson D-lista og Sigurjón Jóhannesson D-lista lögðu fram eftirfarandi tillögu að bókun:

Bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar óskar eftir fundi með forsætisnefnd Alþingis, forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra og innanríkisráðherra til að ræða þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin um framtíð innanlandsflugs og sérstaklega sjúkraflugs eftir nýlegan dóm Hæstaréttar.

Það er ljóst að verði neyðarbrautinni lokað hefur öryggi í sjúkraflutningum með flugi verið skert verulega og það mikið að öryggishagsmunir íbúa á landsbyggðinni eru í húfi og reyndar allra þeirra sem þurfa að reiða sig á bráðaþjónustu Landspítalans.

Það verður ekki hjá því komist að Alþingi taki strax af öll tvímæli um það að það verði engar óafturkræfar breytingar gerðar á Reykjavíkurflugvelli á meðan engar ákvarðanir hafa verið teknar um aðrar lausnir á flugsamgöngum til og frá höfuðborg allra landsmanna.

Þetta mál verður að fá algjöran forgang hjá ríkisstjórn og Alþingi enda hafa sveitarstjórnir víðs vegar um land lýst miklum áhyggjum af málinu og mikill meirihluti landsmanna vill völlinn í óbreyttri mynd eins og margoft hefur komið fram.


Tillagan var borin upp og felld með 7 atkvæðum gegn atkvæðum Evu Hrundar Einarsdóttir D-lista, Njáls Trausta Friðbertssonar D-lista og Sigurjóns Jóhannessonar D-lista. Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista sat hjá við afgreiðslu.


Logi Már Einarsson S-lista, fyrir hönd meirihlutans og Sóleyjar Bjarkar Stefánsdóttur V-lista og Kristínar Bjarkar Gunnarsdóttur Æ-lista, lagði fram eftirfarandi tillögu að bókun:


Bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar óskar eftir fundi með forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra og innanríkisráðherra ásamt öðrum hagsmunaaðilum til að ræða þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin um framtíð innanlandsflugs og sérstaklega sjúkraflugs eftir nýlegan dóm Hæstaréttar.

Það er ljóst að verði neyðarbrautinni lokað hefur öryggi í sjúkraflutningum með flugi verið skert verulega og það mikið að öryggishagsmunir íbúa á landsbyggðinni eru í húfi og reyndar allra þeirra sem þurfa að reiða sig á bráðaþjónustu Landspítalans.

Það er krafa okkar að ráðherrar beiti sér fyrir því að strax verði ráðist í mótvægisaðgerðir og engar frekari breytingar verði gerðar á Reykjavíkurflugvelli á meðan ekki hafa verið teknar ákvarðanir um aðrar lausnir á flugsamgöngum til og frá höfuðborg allra landsmanna.

Þetta mál verður að fá forgang hjá ríkisstjórn, enda hafa sveitarstjórnir víðs vegar um land lýst miklum áhyggjum af málinu og mikill meirihluti landsmanna vill völlinn í óbreyttri mynd eða sambærilega lausn eins og margoft hefur komið fram.


Tillagan var borin upp og samþykkt með 8 atkvæðum. Eva Hrund Einarsdóttir D-lista, Njáll Trausti Friðbertsson D-lista og Sigurjón Jóhannesson D-lista sátu hjá við afgreiðslu.

Bæjarráð - 3520. fundur - 01.09.2016

Umræður um Reykjavíkurflugvöll.
Málefni innanlandsflugs hafa verið í óvissu um hríð og nú hefur innanríkisráðherra óskað eftir viðræðum við Reykjavíkurborg þar sem náð verði víðtækri sátt um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Innanlandsflug skiptir landsmenn alla máli og því er mikilvægt að framtíð þess liggi ljós fyrir. Bæjarráð óskar eftir opnum fundi með innanríkisráðherra og borgarstjóra Reykjavíkur til að fá svör frá þeim um það hvernig gert er ráð fyrir að brugðist verði við þeirri stöðu sem upp er komin og þeirri framtíð sem blasir við eftir árið 2022. Bæjarstjóra er falið að koma þessu boði til borgarstjóra og innanríkisráðherra og dagsetja fund með góðum fyrirvara í september.



Bæjarstjóri óskar bókað vegna umræðu um að borgarstjóri Reykjavíkur hafi boðist til að koma á opinn fund á Akureyri um málefni Reykjavíkurflugvallar:

Ekkert formlegt boð hefur borist frá borgarstjóra Reykjavíkur til Akureyrarbæjar eða bæjarstjórans á Akureyri á þeim sex árum sem núverandi bæjarstjóri hefur starfað fyrir Akureyrarbæ.



Bæjarstjóri óskar bókað vegna umræðu um bókun bæjarstjórnar frá 21. júní sl. um að óskað verði eftir fundi með forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra og innanríkisráðherra um málefni Reykjavíkurflugvallar:

Bókunin og óskin var send með formlegu bréfi þann 6. júlí sl. Forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra hafa ekki svarað erindinu. Svar barst þann 12. júlí sl. um móttöku erindisins frá innanríkisráðuneytinu.

Bæjarráð - 3538. fundur - 05.01.2017

Í höfuðborg Íslands er eina hátæknisjúkrahús landsins. Það er því lífsnauðsynlegt að þangað sé ávallt greið leið með sjúklinga hvort sem er af höfðuborgarsvæðinu eða landsbyggðunum. Lokun Neyðarbrautarinnar svokölluðu á Reykjavíkurflugvelli hefur á undangengnum vikum leitt til þess að sjúkraflugvélar hafa ekki getað lent í Reykjavík né annars staðar á Suðvestur horninu með alvarlega veika einstaklinga, sem hafa þurft á bráðnauðsynlegri umönnun að halda á þessu eina hátæknisjúkrahúsi okkar landsmanna. Það er því ófrávíkjanleg krafa bæjarráðs Akureyrarkaupstaðar að Neyðarbraut Reykjavíkurflugvallar verði opnuð aftur þar til önnur og jafngóð lausn finnst.

Bæjarráð skorar á Borgarstjórn Reykjavíkurborgar, innanríkisráðherra og Alþingi að stuðla að því að svo geti orðið.

Bæjarráð - 3559. fundur - 29.06.2017

Rætt um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar, neyðarbraut og nýja flugstöð.
Bæjarráð Akureyrar fagnar framkomnum hugmyndum samgönguráðherra um byggingu nýrrar flugstöðvar við Reykjavíkurflugvöll. Núverandi flugstöð er úr sér gengin og á engan hátt boðleg sem slík. Það er mikilvægt að geta boðið flugfarþegum og starfsfólki góða aðstöðu, ekki síst í ljósi hugmynda um eflingu innanlands flugsins. Þá er einnig ljóst að Reykjavíkurflugvöllur fer ekkert næstu árin eða áratugina, enda ekki enn fundin jafngóð eða betri lausn.

Jafnfram þessu vill bæjarráð ítreka bókun sína frá 5. janúar s.l. í ljósi úrskurðar Samgöngustofu um lokun Neyðarbrautarinnar, en þar segir:

Í höfuðborg Íslands er eina hátæknisjúkrahús landsins. Það er því lífsnauðsynlegt að þangað sé ávallt greið leið með sjúklinga hvort sem er af höfðuborgarsvæðinu eða landsbyggðunum. Lokun Neyðarbrautarinnar svokölluðu á Reykjavíkurflugvelli hefur á undangengnum vikum leitt til þess að sjúkraflugvélar hafa ekki getað lent í Reykjavík né annars staðar á Suðvestur horninu með alvarlega veika einstaklinga, sem hafa þurft á bráðnauðsynlegri umönnun að halda á þessu eina hátæknisjúkrahúsi okkar landsmanna. Það er því ófrávíkjanleg krafa bæjarráðs Akureyrarkaupstaðar að Neyðarbraut Reykjavíkurflugvallar verði opnuð aftur þar til önnur og jafngóð lausn finnst. Bæjarráð skorar á borgarstjórn Reykjavíkurborgar, innanríkisráðherra og Alþingi að stuðla að því að svo geti orðið.

Bæjarstjórn - 3420. fundur - 03.10.2017

Gunnar Gíslason D-lista óskaði eftir umræðu um Reykjavíkurflugvöll og framtíð hans.
Lögð fram eftirfarandi tillaga að bókun:

Bæjarstjórn Akureyrar leggur áherslu á að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram miðstöð innanlandsflugs og sjúkraflugs fyrir landið allt, þar til jafngóð eða betri lausn finnst. Fram hefur komið á undangengnum vikum að það er langtímaverkefni að finna jafngóða eða betri lausn og getur tekið tugi ára. Það er því óhjákvæmilegt að tryggja rekstur Reykjavíkurflugvallar þannig að hægt sé að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir s.s. að byggja nýja flugstöð og lagfæra útlit umhverfis flugvöllinn svo sómi sé að. Þá ítrekar bæjarstjórn bókun bæjarráðs Akureyrar frá 5.1.2017 þar sem þess var krafist að SV/NA flugbrautin verði opnuð aftur svo tryggja megi að sjúkraflugvélar geti lent á Reykjavíkurflugvelli, en það gerðist ítrekað sl. vetur að ekki var hægt að lenda á vellinum vegna veðurs eftir lokun brautarinnar. Það er svo enn alvarlegra mál að slík flugbraut er ekki til á öllu SV horni landsins, þar sem eina hátæknisjúkrahús landsins er staðsett.

Bæjarstjórn Akureyrar skorar því á stjórnvöld og ekki síst tilvonandi þingmenn að beita sér áfram í þessu máli og finna lausn til frambúðar.



Bæjarstjórn samþykkir framlagða bókun með 11 samhljóða atkvæðum.