Bæjarstjórn

3518. fundur 01. nóvember 2022 kl. 16:00 - 18:21 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
 • Heimir Örn Árnason forseti bæjarstjórnar
 • Hlynur Jóhannsson
 • Jana Salóme I. Jósepsdóttir
 • Jón Hjaltason
 • Gunnar Már Gunnarsson
 • Andri Teitsson
 • Halla Björk Reynisdóttir
 • Hilda Jana Gísladóttir
 • Hulda Elma Eysteinsdóttir
 • Lára Halldóra Eiríksdóttir
 • Sunna Hlín Jóhannesdóttir
Starfsmenn
 • Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri
 • Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður ritaði fundargerð
Fundargerð ritaði: Jón Þór Kristjánsson forstöðumaður þjónustu og þróunar
Dagskrá
Andri Teitsson L-lista sat fundinn í forföllum Gunnars Líndal Sigurðsson.
Jón Hjaltason óflokksbundinn sat fundinn í forföllum Brynjólfs Ingvarssonar.

1.Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2023-2026 - fyrri umræða

Málsnúmer 2022042596Vakta málsnúmer

Liður 1 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 27. október 2022:

Lögð fram drög að fjárhagsáætlun.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Kristín Baldvinsdóttir forstöðumaður hagþjónustu og áætlanagerðar sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Hulda Elma Eysteinsdóttir sat fundinn undir þessum lið og þá sátu Gunnar Már Gunnarsson og Lára Halldóra Eiríksdóttir undir þessum lið í gegnum fjarfundarbúnað.

Bæjarráð vísar fjárhagsáætlun 2023-2026 til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

Hilda Jana Gísladóttir S-lista og Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista óska bókað:

Við erum ósammála þeirri forgangsröðun sem sett er fram í framkvæmdaáætlun, auk þess sem við teljum að í fjárhagsáætlun sé ekki næg áhersla lögð á hagsmuni barnafjölskyldna, eldri borgara og tekjulægri hópa.

Halla Björk Reynisdóttir kynnti málið. Til máls tóku Heimir Örn Árnason, Sunna Hlín Jóhannesdóttir, Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, Gunnar Már Gunnarsson, Jón Hjaltason, Hilda Jana Gísladóttir, Hulda Elma Eysteinsdóttir, Andri Teitsson og Hlynur Jóhannsson.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að vísa fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2023-2026 til frekari yfirferðar í bæjarráði og síðari umræðu í bæjarstjórn.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson B-lista og Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista óska bókað:

Það var stefnt að sjálfbærni í rekstri árið 2025 og farið í margvísleg umbótaverkefni síðustu ár til að ná því markmiði. Í fyrra leit svo út að það myndi nást á því ári en því miður mun það ekki ganga eftir á kjörtímabilinu ef þessi fjárhagsáætlun verður samþykkt óbreytt. Auk þess sem það á að ráðast í miklar framkvæmdir og aukna skuldasöfnun á tímum verðbólgu og þenslu en ekki farið í lækkanir á álögur á íbúa og fyrirtæki í sveitarfélaginu.

Gunnar Már Gunnarsson og Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista óska bókað:

Í fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar á að horfa til þess að álagningarhlutfall fasteignagjalda verði lækkað til að mæta hækkun á fasteignamati.

Hilda Jana Gísladóttir S-lista óskar bókað:

Í fjárhags- og framkvæmdaáætlun ætti að leggja aukna áherslu á grunnkerfin okkar, velferðar- og fræðslumál. Huga ætti betur til hagsmuna barnafjölskyldna, tekjulægri hópa og eldri borgara. Fjölga þarf félagslegum leiguíbúðum umfram það sem áætlað er og að tryggja fleira fötluðu fólki húsnæði við hæfi. Rýmka þarf svigrúm sérstaks húsnæðisstuðnings sem nýtist sérstaklega öryrkjum, einstæðum foreldrum og láglaunafólki í erfiðri félagslegri stöðu, en kjör þessa hóps hafa rýrnað umtalsvert vegna aukinnar verðbólgu. Rýmka þarf svigrúm sérstaks húsnæðisstuðnings, koma ætti á lægra gjaldi fyrir forgangshópa í frístund grunnskólanna og lækka ætti kostnað foreldra við leikskólavist og fæði barna, eða a.m.k. ekki að hækka hann líkt og nú er lagt til. Þá er nauðsynlegt að halda áfram uppbyggingu og endurbótum á leik- og grunnskólum, ekki síst á því húsnæði sem er löngu komið á tíma. Ekki má verða slík afturför í uppbyggingu leikskólamannvirkja að til þess komi að hækka þurfi á ný innritunaraldur barna. Þá er tímabært að tryggja bætta félagsaðstöðu eldri borgara.

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista óskar bókað:

Á tímum þar sem ein stærsta áskorun samtímans er loftslagsváin ætti að teljast eðlilegt að aukin áhersla væri í fjárhags- og framkvæmdaáætlun á að fjármagna aðgerðaáætlun nýsamþykktrar Umhverfis- og loftslagsstefnu. Einnig ætti að forgangsraða fjármunum til tekjulægri hópa og jafna aðstöðumun barna með sameiginlegum sjóðum.

Meirihluti bæjarstjórnar óskar bókað:

Í þessari áætlun er megin áherslan lögð á að hlúa að börnum og barnafjölskyldum, tekjulægri hópum og eldri borgurum ásamt því að leggja áherslu á lýðheilsu bæjarbúa. Meirihlutinn treystir því jafnframt að samvinna verði við minnihlutann um frekari vinnu við fjárhagsáætlun milli umræðna.

2.Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2022-2025 - viðauki

Málsnúmer 2021030524Vakta málsnúmer

Liður 3 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 20. október 2022:

Lagður fram viðauki 7.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir viðauka 7 upp á kr. 43.700.000 vegna aukinna framlaga til NPA samninga og aukins launakostnaðar í leikskólum og vísar honum til staðfestingar í bæjarstjórn.

Hulda Elma Eysteinsdóttir kynnti.
Bæjarstjórn samþykkir viðauka 7 með 11 samhljóða atkvæðum.

3.Fjárhagsáætlun UMSA 2023 - Gjaldskrá Hlíðarfjalls

Málsnúmer 2022080337Vakta málsnúmer

Liður 2 í fundargerð bæjarráðs 27. október 2022:

Liður 4 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 20. október 2022:

Lögð fram drög að gjaldskrá Hlíðarfjalls.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs, Guðríður Friðriksdóttir sviðsstjóri umhverfis- og mannvirkjasviðs, Ellert Örn Erlingsson forstöðumaður íþróttamála, Brynjar Helgi Ásgeirsson forstöðumaður í Hlíðarfjalli og Elma Hulda Eysteinsdóttir formaður velferðarráðs sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bjarki Ármann Oddsson forstöðumaður skrifstofu fræðslu- og lýðheilsusviðs og Tinna Guðmundsdóttir frá fræðslu- og lýðheilsuráði sátu fundinn undir þessum lið í gegnum fjarfundarbúnað.

Bæjarráð samþykkir gjaldskrá Hlíðarfjalls fyrir sitt leyti og vísar henni til afgreiðslu í bæjarstjórn.

Andri Teitsson kynnti málið.
Bæjarstjórn samþykkir framlagða gjaldskrá Hlíðarfjalls með 11 samhljóða atkvæðum.

4.Lýðheilsuátak - tilraunaverkefni 2022-2023

Málsnúmer 2022101039Vakta málsnúmer

Umræða um lýðheilsuátak á vegum Akureyrarbæjar.

Halla Björk Reynisdóttir kynnti málið. Til máls tóku Jón Hjaltason og Hulda Elma Eysteinsdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir tímabundið tilraunaverkefni til að bæta lýðheilsu barnafjölskyldna, öryrkja og eldri borgara með lögheimili í sveitarfélaginu. Sérstök áhersla er á aukna samveru foreldra, barna og ungmenna undir 18 ára aldri. Markmiðið er einnig að skapa umhverfi sem hvetur til aukinnar hreyfingar og útiveru.

Til að ná markmiðinu er barnafjölskyldum, eldri borgurum og öryrkjum með lögheimili í sveitarfélaginu boðið að kaupa Lýðheilsukort sem veitir ótakmarkaðan aðgang að Sundlaug Akureyrar, Hlíðarfjalli og Skautahöllinni á Akureyri gegn lægra gjaldi með möguleika að dreifa kostnaði á 12 mánuði. Stefnt er að því að kortin komi til sölu í nóvember 2022.

Bæjarstjórn felur bæjarráði að útfæra verkefnið nánar og samþykkja verðskrá.

5.Forvarnamál - stafrænt læsi

Málsnúmer 2022030729Vakta málsnúmer

Umræða um stafrænt læsi í forvarnastarfi Akureyrarbæjar.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir kynnti málið. Til máls tóku Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, Lára Halldóra Eiríksdóttir, Halla Björk Reynisdóttir, Heimir Örn Árnason og Jón Hjaltason.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum eftirfarandi bókun:

Bæjarstjórn telur mikilvægt að leggja sérstaka áherslu á stafrænt læsi barna og ungmenna í nýrri lýðheilsustefnu Akureyrarbæjar og í framhaldinu í aðgerðaáætlun forvarnastarfs sem tæki þá ekki aðeins á notkun og samskiptum á miðlunum heldur einnig markaðsstarfi þeirra.

6.Dalvíkurlína 2 - aðalskipulagsbreyting

Málsnúmer 2021110081Vakta málsnúmer

Liður 1 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 26. október 2022:

Lögð fram tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 vegna strengleiðar Dalvíkurlínu 2. Kynningu tillögunnar lauk þann 19. október sl. Engar athugasemdir bárust. Umsagnir bárust frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Norðurorku, Umhverfisstofnun, Minjastofnun Íslands, Mílu og Hafrannsóknastofnun.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki framlagða tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 og að hún verði auglýst skv. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Hlynur Jóhannesson kynnti.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum framlagða tillögu að breytingu á aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 og að breytingartillagan verði auglýst skv. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Akureyrarbær er landlítið sveitarfélag og því nauðsynlegt að nýta landið sem best. Bæjarstjórn telur mikilvægt að Landsnet greini sérstaklega hvort lagning Dalvíkurlínu 2 í jörðu hafi áhrif á möguleika þess að hluti Blöndulínu 3 fari í jörðu innan bæjarmarka Akureyrar. Takmarki Dalvíkurlína slíka möguleika er mikilvægt að Landsnet leggi fram áætlun um það hvernig stefnu stjórnvalda um lagningu jarðstrengja innan þéttbýlis verði fylgt.

7.Menningarsjóður Akureyrar - breytingar á samþykkt

Málsnúmer 2022100551Vakta málsnúmer

Liður 9 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 20. október 2022:

Lögð fram tillaga um breytingar á samþykkt um Menningarsjóð Akureyrar sem taka mið af breyttu stjórnkerfi. Jafnframt er lögð fram tillaga um breytingar á úthlutunar- og vinnureglum sjóðsins og nýjar verklagsreglur um sumarstyrki ungra listamanna.

Almar Alfreðsson verkefnastjóri menningarmála sat fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir endurskoðaða samþykkt um Menningarsjóð Akureyrar með þeim breytingum sem gerðar voru á fundinum er varða stjórnsýslubreytingar og vísar henni til umræðu og afgreiðslu í bæjarstjórn. Jafnframt samþykkir bæjarráð framlagðar tillögur að breytingum á úthlutunar- og vinnureglum sjóðsins sem og nýjar verklagsreglur um sumarstyrki ungra listamanna með þeim breytingum sem gerðar voru á fundinum og varða stjórnsýslubreytingar og áherslu á mannréttindi.

Lára Halldóra Eiríksdóttir kynnti.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum endurskoðaða samþykkt um Menningarsjóð Akureyrar.

8.Starfslaun listamanna - breytingar á samþykkt

Málsnúmer 2022100552Vakta málsnúmer

Liður 10 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 20. október 2022:

Lögð fram tillaga um breytingar á samþykkt um starfslaun listamanna sem taka mið af breyttu stjórnkerfi.

Almar Alfreðsson verkefnastjóri menningarmála sat fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir endurskoðaða samþykkt um starfslaun listamanna með þeim breytingum sem gerðar voru á fundinum og vísar henni til umræðu og afgreiðslu í bæjarstjórn.

Lára Halldóra Eiríksdóttir kynnti.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum endurskoðaða samþykkt um starfslaun listamanna.

9.Skýrsla bæjarstjóra

Málsnúmer 2022010392Vakta málsnúmer

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri fór yfir helstu atriði í störfum sínum frá síðasta fundi bæjarstjórnar.
Eftirtaldar fundargerðir eru lagðar fram til kynningar:

Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa 20. og 27. október 2022
Bæjarráð 20. og 27. október 2022
Fræðslu- og lýðheilsuráð 17. október 2022
Skipulagsráð 26. október 2022
Umhverfis- og mannvirkjaráð 18. október 2022

Hægt er að nálgast fundargerðirnar á heimasíðu Akureyrarbæjar: https://www.akureyri.is/is/stjornkerfi/stjornsysla/fundargerdir

Fundi slitið - kl. 18:21.