Bæjarstjórn

3492. fundur 20. apríl 2021 kl. 16:00 - 17:45 Hamrar í Hofi
Nefndarmenn
 • Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórnar
 • Andri Teitsson
 • Hlynur Jóhannsson
 • Eva Hrund Einarsdóttir
 • Guðmundur Baldvin Guðmundsson
 • Gunnar Gíslason
 • Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
 • Heimir Haraldsson
 • Hilda Jana Gísladóttir
 • Sóley Björk Stefánsdóttir
 • Þórhallur Jónsson
Starfsmenn
 • Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri
 • Kristín Sóley Sigursveinsdóttir fundarritari
Fundargerð ritaði: Kristín Sóley Sigursveinsdóttir forstöðumaður upplýsinga- og þjónustudeildar
Dagskrá
Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir B-lista mætti í forföllum Ingibjargar Ólafar Isaksen.

1.Ársreikningur Akureyrarbæjar fyrir árið 2020 - fyrri umræða

Málsnúmer 2020090157Vakta málsnúmer

Liður 1 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 15. apríl 2021:

Lagður fram ársreikningur Akureyrarbæjar fyrir árið 2020.

Davíð Búi Halldórsson endurskoðandi frá Enor ehf. mætti á fund bæjarráðs undir þessum lið og skýrði ársreikninginn.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs, Halla Margrét Tryggvadóttir sviðsstjóri stjórnsýslusviðs og bæjarfulltrúarnir Andri Teitsson, Heimir Haraldsson, Ingibjörg Ólöf Isaksen og Þórhallur Jónsson sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð vísar ársreikningi Akureyrarbæjar fyrir árið 2020 til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri fór yfir helstu stærðir ársreikningsins.

Í umræðum tóku til máls Hilda Jana Gísladóttir, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Gunnar Gíslason og Halla Björk Reynisdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að vísa ársreikningi bæjarins fyrir árið 2020 til bæjarráðs og síðari umræðu í bæjarstjórn.

2.Tjaldsvæðisreitur - breyting á deiliskipulagi vegna heilsugæslustöðvar

Málsnúmer 2021010051Vakta málsnúmer

Liður 11 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 31. mars 2021:

Lagðar fram þrjár útfærslur að tillögu að breytingu á deiliskipulagi Tjaldsvæðisreits við Þórunnarstræti sem felur í sér afmörkun lóðar fyrir um 1.700 fm heilsugæslu á norðvesturhluta svæðisins þar sem nú eru bílastæði. Að auki er gert ráð fyrir stækkun hótellóðar, nýrri viðbyggingu við vesturhluta hótelsins, að aðkoma frá Þingvallastræti færist til vesturs auk breytinga er varða afmörkun bílastæða, gangstétta o.fl.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að breyting á deiliskipulagi, merkt útgáfa C, verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Þórhallur Jónsson kynnti tillögu skipulagsráðs.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að breyting á deiliskipulagi Tjaldsvæðisreits við Þórunnarstræti, merkt útgáfa C, verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

3.Dalsbraut, KA heimili - umsókn um skipulag

Málsnúmer 2021031297Vakta málsnúmer

Liður 13 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 31. mars 2021:

Erindi dagsett 17. mars 2021 þar sem Ingólfur Freyr Guðmundsson fyrir hönd K.A., Knattspyrnufélags Akureyrar, sækir um breytt deiliskipulag fyrir íþróttasvæði KA við Dalsbraut. Fyrirhugað er að snúa núverandi byggingarreitum fyrir knattspyrnuvöll og áhorfendastúku um 90° og bæta við byggingarreit fyrir byggingu sem tengir saman áhorfendastúku frá vestri við núverandi íþróttahús.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með fyrirvara um lagfæringar í samráði við sviðsstjóra skipulagssviðs.

Sindri Kristjánsson S-lista óskar bókað:

Þann 9. janúar sl. var undirrituð í KA-heimilinu viljayfirlýsing milli Akureyrarbæjar og Knattspyrnufélags Akureyrar. Í viljayfirlýsingunni var KA m.a. heimilað að vinna nýtt deiliskipulag á félagssvæði KA við Dalsbraut. Afrakstur þessarar vinnu liggur nú fyrir. Hagsmunir bæjarins í heild liggja í því að uppbygging á KA-svæðinu hefjist sem fyrst þar sem að um leið og sú vinna hefst fyrir alvöru er hægt að hefja endurskipulagningu svæðisins þar sem Akureyrarvöllur er staðsettur núna. Á því svæði liggja gríðarleg tækifæri til framtíðar og brýnt að koma þeirri vinnu af stað sem fyrst. Skipulagning og uppbygging á KA svæðinu er því lykillinn að frekari uppbyggingu í hjarta Akureyrar á einu af verðmætasta byggingarsvæði bæjarlandsins.

Þórhallur Jónsson kynnti tillögu skipulagsráðs.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhliða atkvæðum að tillaga að breyttu deiliskipulagi fyrir íþróttasvæði KA við Dalsbraut verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

4.Sómatún 29 - umsókn um skipulag

Málsnúmer 2021031533Vakta málsnúmer

Liður 24 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 31. mars 2021:

Erindi dagsett 21. mars 2021 þar sem Steinmar Heiðar Rögnvaldsson fyrir hönd BF Bygginga ehf. sækir um breytt deiliskipulag lóðar nr. 29 við Sómatún til samræmis við bókun skipulagsráðs frá 13. janúar 2021. Í breytingunni felst að í stað einbýlishúss á tveimur hæðum verði heimilt að byggja þriggja íbúða raðhús á einni hæð. Flatarmál húss verður 406 m² í stað 230 m² en hámarkshæð fer úr 7,6 m niður í 4,6 m.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Þórhallur Jónsson kynnti tillögu skipulagsráðs.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhliða atkvæðum að breytt deiliskipulag lóðar nr. 29 við Sómatún verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.


5.Kollugerðishagi - rammaskipulag

Málsnúmer 2018010050Vakta málsnúmer

Liður 2 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 14. apríl 2021:

Lögð fram tillaga að skipulagslýsingu skv. 1. mgr. 30. gr. og 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fyrir skipulag á nýju íbúðarsvæði vestan Borgarbrautar.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að lýsingin verði samþykkt skv. 1. mgr. 30. gr. og 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og að sviðsstjóra skipulagssviðs verði falið að kynna hana fyrir íbúum og öðrum hagsmunaaðilum.

Þórhallur Jónsson kynnti tillögu skipulagsráðs.

Auk hans tók Sóley Björk Stefánsdóttir til máls.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum skipulagslýsingu fyrir skipulag á nýju íbúðarsvæði vestan Borgarbrautar skv. 1. mgr. 30. og 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og felur sviðsstjóra skipulagssviðs að kynna lýsinguna fyrir íbúum og öðrum hagsmunaaðilum.

6.Ósk um vilyrði fyrir lóð í Holtahverfi - íbúðir með stofnframlög

Málsnúmer 2021031991Vakta málsnúmer

Liður 29 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 31. mars 2021:

Erindi Ómars Guðmundssonar dagsett 26. mars 2021, fyrir hönd Bæjartúns íbúðafélags hses., þar sem óskað er eftir vilyrði fyrir lóð í Holtahverfi fyrir stofnframlagaverkefni Bæjartúns.

Í reglum um lóðarveitingar getur skipulagsráð í sérstökum undantekningartilvikum veitt vilyrði fyrir úthlutun lóða án auglýsingar að fengnu samþykki bæjarstjórnar. Skipulagsráð tekur jákvætt í að veitt verði vilyrði fyrir lóð í Holtahverfi í samræmi við erindi en vísar ákvörðun málsins til bæjarstjórnar.

Þórhallur Jónsson kynnti tillögu skipulagsráðs.

Í umræðum tóku til máls Andri Teitsson, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Gunnar Gíslason og Sóley Björk Stefánsdóttir.
Meirihluti bæjarstjórnar samþykkir að veita vilyrði fyrir lóð til Bæjartúns íbúðafélags hses. með fyrirvara um að hentug lóð verði tæk til úthlutunar á næstu mánuðum.

Andri Teitsson L-lista og Halla Björk Reynisdóttir L-lista sitja hjá við afgreiðsluna og leggja fram eftirfarandi bókun:

Við teljum æskilegt að allir sitji við sama borð þegar kemur að úthlutun lóða, ekki síst þegar staðan er eins og um þessar mundir á Akureyri að mikil eftirspurn er eftir byggingarlóðum. Við getum því ekki stutt það að einum aðila verði veitt vilyrði um lóð núna, en teljum eðlilegt að hann sæki um lóð þegar kemur að úthlutun og lúti þá reglum sveitarfélagsins líkt og aðrir.

7.Íbúakosning um skipulag Oddeyrar

Málsnúmer 2021031584Vakta málsnúmer

Liður 4 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 15. apríl 2021:

Farið yfir stöðu málsins og næstu skref.

Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs og bæjarfulltrúarnir Andri Teitsson og Þórhallur Jónsson sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Meirihluti bæjarráðs leggur til við bæjarstjórn að farið verði í ráðgefandi íbúakosningu um áður auglýsta tillögu að breytingu á aðalskipulagi Oddeyrar. Íbúakosningin fari fram í gegnum þjónustugátt bæjarins dagana 27. til 31. maí nk. Jafnframt samþykkir bæjarráð framlagða áætlun vegna kynningarkostnaðar að fjárhæð 1,8 milljónir króna sem færist af aðkeyptri þjónustu skipulagssviðs.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson B-lista situr hjá við afgreiðsluna.

Hlynur Jóhannsson M-lista greiðir atkvæði á móti afgreiðslunni og leggur fram eftirfarandi bókun:

Þar sem nú eru gjörbreyttar forsendur miðað við þegar sú ákvörðun var tekin að vera með íbúakosningu vegna Oddeyrarreitsins þá er engin ástæða til að vera með þessa kosningu. Verktakinn sem á lóð þarna og óskaði eftir því að skipulaginu yrði breytt hefur komið þeim skilaboðum til bæjarfulltrúa að þær takmarkanir sem eru settar í þessa kosningu séu til þess fallnar að hann muni ekki byggja þarna. Bærinn á ekki lóð þarna og því enginn að fara að byggja og tilgangslaust að eyða tíma bæjarstarfsmanna og peningum úr bæjarsjóði til þess að kjósa um ekki neitt á sama tíma og bæjarsjóður skilar methalla. Sú bæjarstjórn sem nú situr á aðeins eitt ár eftir og ætti því að láta þeirri bæjarstjórn sem tekur við eftir að ákveða hvað þarna verður gert. Ef þetta er eingöngu gert til þess að sýna fram á að ekki ríki verktakaræði hér þá er þetta skrýtin leið og nær væri að vanda sig í skipulaginu. Þá er það mikið áhyggjuefni að bæjarfulltrúar skuli vera til í að eyða peningum bæjarbúa í ekki neitt á þessum erfiðu tímum í rekstrinum.

Sóley Björk Stefánsdóttir kynnti tillögu um þrjá valkosti sem settir verði fram í ráðgefandi íbúakosningu sem fram fari í þjónustugátt Akureyrarbæjar dagana 27. til 31. maí nk.

a. Óbreytt aðalskipulag sem kveður á um að byggingar séu almennt ekki hærri en 4 hæðir.

b. Síðasta tillaga auglýst af bæjarstjórn þar sem hámarkshæð húsa er 25 m.y.s. sem felur í sér að húsin geta verið 6-8 hæðir að hámarki.

c. Málamiðlunartillaga þar sem hámarkshæð húsa er 22 m.y.s. sem felur í sér að húsin geta verið 5-6 hæðir að hámarki, þó aldrei hærri en 4 hæðir syðst á reitnum.

Í umræðum tóku til máls Hlynur Jóhannsson, Andri Teitsson, Sóley Björk Stefánsdóttir, Gunnar Gíslason, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Þórhallur Jónsson, Hilda Jana Gísladóttir og Halla Björk Reynisdóttir.
Meirihluti bæjarstjórnar samþykkir framlagða tillögu um ráðgefandi íbúakosningu milli þriggja valkosta sem fram fari á þjónustugátt bæjarins 27. til 31. maí nk.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson B-lista, Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir B-lista og Hlynur Jóhannsson M-lista greiða atkvæði á móti og leggja fram eftirfarandi bókun:

Þar sem þær forsendur sem lágu til grundvallar ákvörðun um íbúakosningu eru nú ekki lengur til staðar teljum við að eðlilegt sé að endurskoða þá ákvörðun. Sú bæjarstjórn sem nú situr á aðeins rúmt eitt ár eftir og ætti því að láta þeirri bæjarstjórn sem tekur við eftir að ákveða hvað þarna verður gert frekar en að takmarka framtíðarákvarðanir um uppbyggingu á svæðinu við niðurstöðu íbúakosningar, þar sem óljóst er um hvað er verið að kjósa annað en mögulega hæð bygginga á svæðinu en engar nánari útfærslur.

Meirihluti bæjarstjórnar leggur fram eftirfarandi bókun:

Bæjarstjórn hefur nú þegar samþykkt að fara í íbúakosningu um þessar breytingar og telur meirihluti bæjarstjórnar nauðsynlegt að standa við þá ákvörðun. Í samstarfssamningi bæjarstjórnar er lögð áhersla á aukið íbúasamráð og teljum við þessa kosningu vera gott skref í þeirri vegferð að gefa íbúum tækifæri til að sýna vilja sinn.

8.Tímabundin heimild til að víkja frá ákvæðum sveitarstjórnarlaga v. almannavarnaástands

Málsnúmer 2020030426Vakta málsnúmer

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur framlengt tímabundna heimild sveitarstjórna til að víkja frá ákvæðum sveitarstjórnarlaga um fjarfundi vegna COVID-19. Fyrri heimild gilti til aprílloka 2021. Framlengd heimild gildir til 31. júlí 2021.

Auglýsingu um ákvörðun ráðherra er að finna á vefsíðu Stjórnartíðinda: https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=2c3ecd9f-ca9f-4404-9317-246f9084aa33

Halla Björk Reynisdóttir kynnti tillögu að bókun. Auk hennar tók Hilda Jana Gísladóttir til máls.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að heimilt verði að nota fjarfundarbúnað á fundum bæjarstjórnar og fastanefnda Akureyrarbæjar og engin takmörk verði á fjölda fundarmanna sem taka þátt í fundum sveitarstjórnar og nefndum sveitarfélagsins í fjarfundarbúnaði. Jafnframt samþykkir bæjarstjórn að ritun fundargerða geti farið fram með öðrum hætti en mælt er fyrir um í leiðbeiningum innanríkisráðuneytisins, um ritun fundargerða, nr. 22/2013. Fundargerð fundar þar sem allir fundarmenn eru í fjarfundi skal deilt með öllum fundarmönnum á skjá í lok fundar og lesin yfir og síðan undirrituð rafrænt. Heimildin gildir til 31. júlí 2021.

Þá hvetur bæjarstjórn Akureyrarbæjar ríkisvaldið til þess að veita sveitarstjórnum varanlega heimild til fjarfunda og að þeim verði í sjálfsvald sett hvort að þær velji að nýta þá heimild.

9.Skýrsla bæjarstjóra

Málsnúmer 2021010534Vakta málsnúmer

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri fór yfir helstu atriði í störfum sínum frá síðasta fundi bæjarstjórnar.
Eftirtaldar fundargerðir eru lagðar fram til kynningar:

Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa 18., 25. og 30. mars, 8. og 15. apríl 2021
Bæjarráð 18. og 25. mars, 8. og 15. apríl 2021
Frístundaráð 17. mars og 14. apríl 2021
Fræðsluráð 15. mars og 12. apríl 2021
Skipulagsráð 31. mars og 14. apríl 2021
Stjórn Akureyrarstofu 25. mars og 15. apríl 2021
Umhverfis- og mannvirkjaráð 12. og 26. mars 2021
Velferðarráð 17. mars og 7. apríl 2021

Hægt er að nálgast fundargerðirnar á heimasíðu Akureyrarbæjar: https://www.akureyri.is/is/stjornkerfi/stjornsysla/fundargerdir

Fundi slitið - kl. 17:45.