Bæjarráð

3828. fundur 23. nóvember 2023 kl. 08:15 - 11:12 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Heimir Örn Árnason formaður
  • Hulda Elma Eysteinsdóttir varaformaður
  • Hlynur Jóhannsson
  • Sunna Hlín Jóhannesdóttir
  • Hilda Jana Gísladóttir
  • Jón Hjaltason áheyrnarfulltrúi
  • Jana Salóme I. Jósepsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri
  • Olga Margrét Kristínard. Cilia lögfræðingur
  • Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður ritaði fundargerð
Fundargerð ritaði: Jón Þór Kristjánsson forstöðumaður þjónustu og þróunar
Dagskrá

1.Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2024-2027

Málsnúmer 2023020943Vakta málsnúmer

Unnið að gerð fjárhagsáætlunar.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs, Guðríður Friðriksdóttir sviðsstjóri umhverfis- og mannvirkjasviðs og Kristín Baldvinsdóttir forstöðumaður hagþjónustu og áætlanagerðar sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Þá sátu bæjarfulltrúarnir Halla Björk Reynisdóttir og Lára Halldóra Eiríksdóttir undir þessum lið í gegnum fjarfundarbúnað.
Fjórir fulltrúar bæjarráðs vísa fjárhags- og framkvæmdaáætlun 2023-2026 til seinni umræðu og afgreiðslu í bæjarstjórn með þeim breytingum sem gerðar voru á fundinum.



Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista greiddi atkvæði gegn ákvörðun bæjarráðs og óskar bókað:

Ég tel ekki tímabært að vísa fjárhagsáætlun til seinni umræðu í bæjarstjórn. Það á bæði eftir að taka fyrir gjaldskrár og fasteignaskatt í bæjarráði og eins tel ég ráðlagt að bíða eftir nauðsynlegri umræðu í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga um gjaldskrárhækkanir sveitarfélaga og áhrif þeirra á kjarasamningsviðræður.

2.Stefna um íbúasamráð

Málsnúmer 2022041947Vakta málsnúmer

Lögð fram stefna Akureyrarbæjar um íbúasamráð til ársins 2026 ásamt aðgerðaáætlun.

Sumarliði Helgason sviðsstjóri þjónustu- og skipulagssviðs, Jón Þór Kristjánsson forstöðumaður þjónustu og þróunar og Þórgnýr Dýrfjörð forstöðumaður atvinnu- og menningarmála sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Fjórir fulltrúar bæjarráðs samþykktu fyrir sitt leyti framlagða stefnu um íbúasamráð til ársins 2026 ásamt aðgerðaáætlun, með þeim breytingum sem gerðar voru á fundinum og vísar henni til kynningar og umsagnar í fastanefndum bæjarins, ungmennaráði, öldungaráði og samráðshópi um málefni fatlaðs fólks.


Hilda Jana Gísladóttir S-lista sat hjá og óskar bókað:

Ég tel mjög mikilvægt að koma á laggirnar fjölmenningarráði hjá Akureyrarbæ og tel að það ætti að vera ein aðgerða stefnu um íbúasamráð.

3.Skólahald í Grímsey 2023

Málsnúmer 2023081277Vakta málsnúmer

Liður 12 í fundargerð fræðslu- og lýðheilsuráðs dagsettri 13. nóvember 2023:

Lagt fram minnisblað sviðsstjóra fræðslu- og lýðheilsuráðs vegna skólahalds í Grímsey.

Fræðslu- og lýðheilsuráð samþykkir fyrir sitt leyti að endurvekja skólahald í Grímsey á vorönn 2024, að því gefnu að þrír nemendur ætli að hefja þar skólagöngu. Staðan verður endurmetin í maí 2024.

Fræðslu- og lýðheilsuráð vísar málinu til bæjarráðs.

Kristín Jóhannesdóttir sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð felur sviðsstjóra fræðslu- og lýðheilsusviðs að afla frekari upplýsinga um málið og leggja fyrir bæjarráð í næstu viku.

4.Ábending til sveitarfélaga um mikilvægi kynja- og jafnréttissjónarmiða við stefnumótun og ákvarðanatöku í breytingum á fyrirkomulagi leikskóla

Málsnúmer 2023110502Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 10. nóvember 2023 frá Katrínu Björgu Ríkarðsdóttur framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu þar sem lagðar eru fram ábendingar til sveitarfélaga um mikilvægi kynja- og jafnréttissjónarmiða við stefnumótun og ákvarðanatöku í breytingum á fyrirkomulagi í leikskóla.
Bæjarráð þakkar fyrir ábendingarnar.


Hilda Jana Gísladóttir S-lista og Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista óska bókað:

Við ítrekum vonbrigði okkar með að ekki hafi verið tekið tillit til ábendinga Jafnréttisstofu áður en tekin var ákvörðum um verulega kerfisbreytingu á fyrirkomulagi leikskóla sveitarfélagsins.

5.Umhverfis- og loftslagsstefna Akureyrarbæjar 2022-2030

Málsnúmer 2022060764Vakta málsnúmer

Lögð fram aðgerðaáætlun Akureyrarbæjar í umhverfis- og loftslagsmálum 2023-2026.

Rut Jónsdóttir forstöðumaður umhverfis- og sorpmála sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð felur Huldu Elmu Eysteinsdóttur og Jönu Salóme Ingibjargar Jósepsdóttur ásamt sviðsstjóra umhverfis- og mannvirkjasviðs og forstöðumanni umhverfis- og sorpmála að forgangsraða og kostnaðarmeta aðgerðirnar og leggja áætlunina fyrir bæjarráð að nýju.


Hilda Jana Gísladóttir S-lista óskar bókað:

Umhverfis- og loftslagsstefna Akureyrarbæjar var samþykkt í bæjarstjórn í maí árið 2022, þá lágu fyrir drög að aðgerðaáætlun. Það er miður að nú sé að ljúka annarri fjárhagsáætlun frá því að stefnan var samþykkt og aðgerðaáætlun hennar enn ekki samþykkt, þrátt fyrir að það sé lögbundin skylda sveitarfélaga.

6.Heilbrigðisnefnd Norðurlandssvæðis eystra - fundargerðir 2023

Málsnúmer 2022030389Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 232. fundar Heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra dagsett 15. nóvember 2023, þar með talin sérstök bókun sem gerð var á fundinum um svifryk á Akureyri. Einnig lögð fram bókun Samtaka heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi vegna skýrslu starfshóps um fyrirkomulag eftirlits með hollustuháttum, mengunarvörnum og matvælum.

Guðríður Friðriksdóttir sviðsstjóri umhverfis- og mannvirkjasviðs og Rut Jónsdóttir forstöðumaður umhverfis- og sorpmála sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð tekur bókun Heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra vegna svifryks alvarlega og leggur áherslu á að brugðist sé við þeim. Bæjarráð telur mikilvægt að bæta við áreiðanlegum svifryksmælum og flýta endurskoðun á verklagsreglum vegna loftmengunar. Bæjarráð vísar málinu áfram til umhverfis- og mannvirkjasviðs.

7.Kynnisferð til Danmerkur fyrir kjörna fulltrúa

Málsnúmer 2023110762Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 17. nóvember 2023 frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur framkvæmdastjóra SSNE varðandi áhuga sveitarfélaga á kynnisferð á vegum samtakanna til Danmerkur 4.- 7. mars 2024. Tilgangur ferðarinnar er að kynnast því hvernig sveitarfélög í Danmörku hafa tekist á við ýmis verkefni sem brenna á sveitarfélögum á Norðurlandi eystra svo sem íbúasamráð, samvinnu sveitarfélaga, samgöngumál og græna umbreytingu.
Bæjarráð tekur jákvætt í erindið.


Sunna Hlín Jóhannesdóttir B- lista situr hjá og óskar bókar:

Ég tel mikilvægara að verja fjármunum sveitarfélagsins til ferðar til Danmerkur til að kynna sér lífsgæðakjarna eldri borgara þar sem vinna við uppbyggingu þeirra er að hefjast í janúar. Stutt er síðan hópur kjörinna fulltrúa fór erlendis til að kynna sér líforkuver og samræmist það að einhverju leyti þessari ferð sem um ræðir hér.

8.Tilnefning í matsnefnd vegna lokað útboðs á fullnaðarhönnun SAk

Málsnúmer 2023110585Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 9. nóvember 2023 frá framkvæmdarstjóra NLSH ohf. þar sem óskað er eftir fulltrúa frá Akureyrarbæ til að taka sæti í matsnefnd um tillögu að nýju húsnæði legudeildar fyrir Sjúkrahúsið á Akureyri. Nafn fulltrúa frá Akureyrarbæ óskast fyrir 30. nóvember nk. Óskað er eftir tilnefningu aðalmanns og varamanns, gæta skal að hlutfalli kynja við tilnefningar.
Bæjarráð tilnefnir Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra sem fulltrúa Akureyrarbæjar í matsnefndinni og Pétur Inga Haraldsson skipulagsfulltrúa til vara.

9.Hafdís SK-4 - forkaupsréttur

Málsnúmer 2023110958Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 22. nóvember 2023 þar sem Guðlaugur Óli Þorláksson stjórnarmaður í Hafborgu ehf. tilkynnir um fyrirhugaða sölu á skipinu Hafdísi SK-4 til FISK-Seafood á Sauðárkróki. Með vísan til 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða er Akureyrarbæ boðinn forkaupsréttur að skipinu.
Bæjarráð samþykkir að nýta ekki forkaupsréttinn.

10.Stjórn Norðurorku hf. - fundargerðir 2022-2023

Málsnúmer 2022031302Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 292. fundar stjórnar Norðurorku hf. dagsett 14. nóvember 2023.

11.Frumvarp til laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, 478. mál.

Málsnúmer 2023110686Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi dagsett 16. nóvember 2023 frá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, 478. mál 2023

Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 30. nóvember nk. á netfangið nefndasvid@althingi.is.

Þingskjalið er hægt að sækja á vef Alþingis: https://www.althingi.is/altext/154/s/0526.html

12.Frumvarp til laga um skatta og gjöld (gistináttaskattur, áfengisgjald o.fl.), 468. mál.

Málsnúmer 2023110764Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi dagsett 17. nóvember 2023 frá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til laga um um skatta og gjöld (gistináttaskattur, áfengisgjald o.fl.), 468. mál.2023.

Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 1. desember nk. á netfangið nefndasvid@althingi.is.

Þingskjalið er hægt að sækja á vef Alþingis: https://www.althingi.is/altext/154/s/0509.html

Fundi slitið - kl. 11:12.