Skipulagsráð

335. fundur 22. apríl 2020 kl. 08:10 - 11:59 Fjarfundur
Nefndarmenn
  • Tryggvi Már Ingvarsson formaður
  • Orri Kristjánsson
  • Ólöf Inga Andrésdóttir
  • Arnfríður Kjartansdóttir
  • Þórhallur Jónsson
  • Helgi Sveinbjörn Jóhannsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs
  • Margrét Mazmanian Róbertsdóttir verkefnastjóri skipulagsmála
  • Leifur Þorsteinsson fundarritari
Fundargerð ritaði: Leifur Þorsteinsson byggingarfulltrúi
Dagskrá

1.Oddeyri - breyting á aðalskipulagi 2018-2030

Málsnúmer 2019090318Vakta málsnúmer

Lögð fram endurskoðuð drög að breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 sem nær til svæðis á Oddeyri sem afmarkast af Hjalteyrargötu, Gránufélagsgötu, Kaldbaksgötu og Strandgötu. Felur tillagan jafnframt í sér breytingu á rammahluta aðalskipulagsins fyrir Oddeyri.
Meirihluti skipulagsráðs samþykkir að kynna aðalskipulagsbreytinguna skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með þeirri breytingu að gerð verði krafa um verslunar- og þjónusturými á jarðhæð í að minnsta kosti 25% rýmis utan bílgeymslu.


Arnfríður Kjartansdóttir V-lista óskar bókað að hún ítreki bókun frá 12. febrúar 2020, 2. fundarlið og vill auk þess undirstrika eftirfarandi: Í Aðalskipulagi Akureyrar stendur varðandi Oddeyrina: „Halda skal yfirbragði svæðisins og nýbyggingar og breytingar einstakra húsa skulu vera í samræmi við aðliggjandi húsaraðir“ Í rammahluta aðalskipulags varðandi umrætt svæði á Oddeyri stendur: „Nýjar byggingar verði almennt 3-4 hæðir.“


Hærri byggingar munu breyta ásýnd svæðisins til hins verra, sérstaklega ef þær eru nálægt friðlýstum byggingum eins og Gránufélagshúsinu. Aukið skuggavarp og minna útsýni mun hafa í för með sér skerðingu á lífsgæðum íbúa í nágrenni hárra bygginga. Auk þess er hæpið að skipuleggja mikið byggingamagn nálægt sjávarmáli í ljósi þess að sjávarstaða mun hækka á næstu áratugum vegna hlýnunar jarðar. Því er svokallaður Núll kostur ákjósanlegastur, þ.e. að gildandi aðalskipulagi verði ekki breytt.


Tryggvi Már Ingvarsson B-lista, Orri Kristjánsson S-lista, Ólöf Inga Andrésdóttir L-lista og Þórhallur Jónsson D-lista óska bókað:

Oddeyri er mikilvægt svæði þegar kemur að framtíðarþróun Akureyrar og æskilegt er að koma svæðinu í endurnýjun og uppbyggingu sem fyrst.


Svæðið sem aðalskipulagsbreytingin á við um er skilgreint sem þróunarsvæði í aðalskipulagi. Nálægð við innviði gera svæðið verðmætt til uppbyggingar og þéttingar byggðar.


Þétting byggðar er hvorutveggja umhverfisvæn og hagkvæm. Hlutfallslegur kostnaður við viðhald gatna, veitna, sorphirðu og snjómokstur á hvern íbúa lækkar. Göngu- og hjólafjarlægðir styttast og innviðir á borð við skóla og þjónustu nýtast fleirum og auðveldara er að halda úti almenningssamgöngum. Styttri aksturfjarlægðir og aukið hlutfall gangandi og hjólandi vegfarenda felur í sér minni umferð og aukin loftgæði.


Síðast en ekki síst sparar þétting byggðar óraskað land sem þá nýtist til landbúnaðar, bindingu kolefnis og/eða sem vistsvæði plantna, fugla og annarra dýra.


Oddeyri er sem stendur fámennt hverfi og möguleiki á að nýta innviði svæðisins betur, t.a.m. grunn- og leikskóla. Með tilkomu 100-150 íbúða á svæðinu mun fólki á Oddeyri fjölga og téðir innviðir nýtast betur.


Uppbygging á þessu svæði mun ekki valda skuggavarpi sem nokkru nemur á núverandi byggð á Oddeyri.


Varðandi hækkun sjávarborðs vegna hnattrænnar hlýnunar liggja fyrir upplýsingar sem benda til þess að landris mun að mestu vinna gegn hækkun sjávar við Akureyri en við teljum þó að mikilvægt sé að fylgjast grannt með stöðu mála í framtíðinni.

2.Gisting á íbúðarsvæðum - rammaskipulag

Málsnúmer 2018020130Vakta málsnúmer

Lögð fram að lokinni auglýsingu, skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, tillaga að breytingu á aðalskipulagi sem felur í sér breytingu á stefnu varðandi heimildir fyrir rekstrarleyfisskylda gististarfsemi á íbúðarsvæðum. Tillagan var auglýst þann 4. mars 2020 með athugasemdafresti til 15. apríl 2020.

Ein athugasemd barst.

Lögð var fram tillaga sviðsstjóra skipulagssviðs að svari við athugasemd.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að tillagan ásamt svari við athugasemd verði samþykkt og sviðsstjóra skipulagssviðs falið að annast gildistöku hennar.

3.Hörgárbraut - umferðaröryggismál

Málsnúmer 2020020376Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað dagsett 16. apríl 2020 um tillögur að úrbótum til að bæta umferðaröryggi á Hörgárbraut milli Glerár og Undirhlíðar.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að farið verði í framkvæmdir samkvæmt liðum 1 - 5, sem listaðar eru upp í meðfylgjandi minnisblaði, á árinu 2020 og að framkvæmd samkvæmt lið 6 verði unnin smám saman á næstu árum.

Skipulagsráð leggur enn fremur til að hafinn verði undirbúningur framkvæmda á liðum 8 - 10. Framkvæmdir samkvæmt liðum 7, 11 og 12 þurfa lengri undirbúning og verða skoðaðar síðar ef þörf er talin á að bæta umferðaröryggi enn frekar.

Varðandi framkvæmdir samkvæmt liðum 13 og 14 telur skipulagsráð að miðað við fyrirliggjandi gögn sé ekki raunhæft að gerð verði undirgöng eða byggð göngubrú á þessum stað.

4.Nýjar heilsugæslustöðvar á Akureyri

Málsnúmer 2018100200Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skipulagssviðs dagsett 16. apríl 2020 um mögulegar lóðir til uppbyggingar tveggja heilsugæslustöðva. Meðfylgjandi er einnig skýrsla um staðarvalsgreiningu dagsett 2. apríl 2019 og auglýsing ríkiskaupa um útboð um byggingu heilsugæslustöðva sem birtist í Fréttablaðinu 4. apríl 2020.
Skipulagsráð samþykkir að fela sviðsstjóra skipulagssviðs að koma tillögum um lóðir til uppbyggingar á heilsugæslum á Akureyri á framfæri við Ríkiskaup í samræmi við meðfylgjandi minnisblað.

5.Hvannavallareitur - deiliskipulag

Málsnúmer 2015030191Vakta málsnúmer

Lagt fram að nýju erindi G. Odds Víðissonar arkitekts f.h. Festi fasteigna ehf., kt. 581113-1100, dagsett 27. mars 2020, þar sem óskað er eftir að unnið verði áfram að gerð deiliskipulags fyrir lóð Glerárgötu 36 í samræmi við framlögð gögn. Þá eru lögð fram gögn sem varða deiliskipulag fyrir Hvannavallareit sem kynnt var árið 2016 en fór þá í bið.
Skipulagsráð samþykkir að fela sviðsstjóra skipulagssviðs að gera breytingu á tillögu að deiliskipulagi Hvannavalla á þann veg að skipulagsmörk þess nái eingöngu til lóðarinnar Glerárgötu 36. Einnig að gerðar verði breytingar til að samræma skipulag norðurhluta svæðisins við deiliskipulagsvinnu sem er í gangi fyrir Tryggvabraut.

6.Furuvellir 5 - fyrirspurn vegna íbúða á 2. hæð

Málsnúmer 2020020690Vakta málsnúmer

Lagt fram að lokinni grenndarkynningu erindi dagsett 28. febrúar 2020 þar sem Steinmar H. Rögnvaldsson fyrir hönd Ormsson ehf., kt. 530509-0360, leggur inn fyrirspurn varðandi nýtingu á 2. hæð í húsi nr. 5 við Furuvelli fyrir sex íbúðir. Var erindið grenndarkynnt með bréfi dagsettu 18. mars 2020 með fresti til 16. apríl 2020 til að gera athugasemdir.

Engar athugasemdir bárust á kynningartíma.
Skipulagsráð samþykkir erindið fyrir sitt leyti og vísar afgreiðslu byggingarleyfis til byggingarfulltrúa þegar umsókn ásamt fullnægjandi gögnum hefur borist.

7.Skarðshlíð - hönnun á götu og gangstígum

Málsnúmer 2020020623Vakta málsnúmer

Jónas Valdimarsson verkefnastjóri hönnunar á umhverfis- og mannvirkjasviði kynnti tillögur að breyttri hönnun Skarðshlíðar og Höfðahlíðar ásamt aðliggjandi stígum. Tillögurnar eru í samræmi við drög að stígaskipulagi hjólaleiða, hvort sem um er ræða einstefnu- eða tvístefnu hjólastíga.
Skipulagsráð þakkar Jónasi fyrir kynninguna. Ekki eru gerðar athugasemdir við framlagðar tillögur nema að ráðið telur að skoða þurfi betur svæðið frá aðkomu að Boganum og að Melgerðisás, meðal annars í tengslum við aðkomu að fyrirhuguðu íbúðarsvæði á núverandi kastsvæði.

8.Leiktæki í Skátagili - umsókn um framkvæmdaleyfi

Málsnúmer 2020040406Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Jóns Birgis Gunnlaugssonar dagsett 17. apríl 2020, f.h. umhverfis- og mannvirkjasviðs, þar sem sótt er um framkvæmdaleyfi til að setja upp lítið leiksvæði í Skátagilinu. Um er að ræða kastala með rennibraut og gormatæki auk þess sem gert er ráð fyrir að setja upp bekk og ruslafötu á svæðinu.
Skipulagsráð samþykkir að gefið verði út framkvæmdaleyfi fyrir leiktækjum í samræmi við fyrirliggjandi erindi.

9.Rimasíða 6 - fyrirspurn vegna bílgeymslu og klæðningar

Málsnúmer 2020030557Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 19. mars 2020 þar sem Finnur Bessi Sigurðsson leggur inn fyrirspurn varðandi Rimasíðu 6. Fyrirhugað er að byggja bílgeymslu sem teiknuð er á upprunalegar teikningar hússins, en hefur ekki verið byggð, en hugmyndin er að stækka hana. Einnig er fyrirhugað að klæða húsin að utan með liggjandi klæðningu úr trefjasteypu með viðarútliti.
Skipulagsráð tekur jákvætt í erindið og er framkvæmdin að mati ráðsins í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar sbr. ákvæði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ekki er talið að aðrir en umsóknaraðili hafi hagsmuna að gæta og er því ekki þörf á grenndarkynningu. Er afgreiðslu byggingarleyfis vísað til byggingarfulltrúa þegar umsókn ásamt fullnægjandi gögnum hefur borist.

10.Jaðar - ákvörðun um götuheiti

Málsnúmer 2020030733Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 30. mars 2020 þar sem óskað er eftir áliti skipulagsráðs varðandi götuheiti götu frá Kjarnagötu að golfskálanum á Jaðri.
Skipulagsráð frestar afgreiðslu málsins og felur sviðsstjóra skipulagssviðs að óska eftir áliti forsvarsmanna Golfklúbbs Akureyrar á heiti götunnar.

11.Dalsbraut 1 L-M - ákvörðun um staðfang

Málsnúmer 2020030755Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 30. mars 2020 þar sem óskað er eftir áliti skipulagsráðs varðandi staðfang húss nr. 1 L-M við Dalsbraut.
Skipulagsráð frestar afgreiðslu málsins og felur sviðsstjóra skipulagssviðs að óska eftir tillögum frá nafnanefnd.

12.Matarvagn - fyrirspurn til skipulagssviðs

Málsnúmer 2020040052Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 2. apríl 2020 þar sem Ingi Þór Arngrímsson leggur inn fyrirspurn varðandi staðsetningu matarvagns annars staðar en á stæðum sem bærinn ætlar götu- og torgsölu.
Skipulagsráð er jákvætt fyrir starfsemi matarvagnsins en stæði fyrir langtímastæði í miðbænum eru öll útleigð fyrir árið 2020. Ráðið samþykkir að vagninn verði staðsettur tímabundið sumarið 2020 á hentugu svæði við Torfunefsbryggju eða Oddeyrarbót í samráði við sviðsstjóra skipulagssviðs. Einnig gerir ráðið ekki athugasemd við staðsetningu matarvagns á einkalóðum, með fyrirvara um samþykki allra hlutaðeigandi.

13.Skipulagssvið - skýrslur

Málsnúmer 2018120041Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar samantekt um hlutfall yfirvinnu af dagvinnu fyrir janúar - mars 2020 samanborið við sama tímabil 2019 og árin 2013-2019.

14.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2020

Málsnúmer 2019120357Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 763. fundar, dagsett 2. apríl 2020, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 6 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

15.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2020

Málsnúmer 2019120357Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 761. fundar, dagsett 19. mars 2020, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 9 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Fundi slitið - kl. 11:59.