Hörgárbraut - umferðaröryggismál

Málsnúmer 2020020376

Vakta málsnúmer

Skipulagsráð - 331. fundur - 12.02.2020

Rætt um umferðaröryggismál á Hörgárbraut í ljósi umferðarslyss sem varð á gangbraut rétt sunnan við Stórhólt. Slysið var með þeim hætti að ekið var á 7 ára barn sem var að fara yfir gangbrautina en ökumaður ók yfir á rauðu ljósi.
Skipulagsráð harmar þennan atburð og óskar eftir að fá fulltrúa frá Vegagerðinni og umhverfis- og mannvirkjasviði á fund ráðsins til að ræða málið og mögulegar úrbætur.

Skipulagsráð - 332. fundur - 26.02.2020

Rætt að nýju um umferðaröryggismál á Hörgárbraut á svæði milli hringtorgs við Undirhlíð og Glerár. Á fundinn mættu Margrét Silja Þorkelsdóttir frá Vegagerðinni og Jónas Valdimarsson verkefnastjóri hönnunar á umhverfis- og mannvirkjasviði.
Skipulagsráð felur sviðsstjóra skipulagssviðs í samráði við umhverfis- og mannvirkjasvið og Vegagerðina að vinna tillögu að mögulegum úrbótum.

Skipulagsráð - 334. fundur - 01.04.2020

Sviðsstjóri skipulagssviðs fór yfir stöðu mála varðandi vinnu við að skoða mögulegar úrbætur til að bæta umferðaröryggi á Hörgárbraut milli Glerár og Undirhlíðar.
Skipulagsráð þakkar sviðsstjóra fyrir yfirferðina. Ekki var hægt að fullvinna tillögur um úrbætur umferðaröryggismála fyrir lok mars eins og lagt var upp með.

Skipulagsráð leggur áherslu á að þessari vinnu verði hraðað sem kostur er á þessum fordæmalausu tímum.

Skipulagsráð - 335. fundur - 22.04.2020

Lagt fram minnisblað dagsett 16. apríl 2020 um tillögur að úrbótum til að bæta umferðaröryggi á Hörgárbraut milli Glerár og Undirhlíðar.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að farið verði í framkvæmdir samkvæmt liðum 1 - 5, sem listaðar eru upp í meðfylgjandi minnisblaði, á árinu 2020 og að framkvæmd samkvæmt lið 6 verði unnin smám saman á næstu árum.

Skipulagsráð leggur enn fremur til að hafinn verði undirbúningur framkvæmda á liðum 8 - 10. Framkvæmdir samkvæmt liðum 7, 11 og 12 þurfa lengri undirbúning og verða skoðaðar síðar ef þörf er talin á að bæta umferðaröryggi enn frekar.

Varðandi framkvæmdir samkvæmt liðum 13 og 14 telur skipulagsráð að miðað við fyrirliggjandi gögn sé ekki raunhæft að gerð verði undirgöng eða byggð göngubrú á þessum stað.

Bæjarstjórn - 3474. fundur - 05.05.2020

Liður 3 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 22. apríl 2020:

Lagt fram minnisblað dagsett 16. apríl 2020 um tillögur að úrbótum til að bæta umferðaröryggi á Hörgárbraut milli Glerár og Undirhlíðar.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að farið verði í framkvæmdir samkvæmt liðum 1 - 5, sem listaðar eru upp í meðfylgjandi minnisblaði, á árinu 2020 og að framkvæmd samkvæmt lið 6 verði unnin smám saman á næstu árum.

Skipulagsráð leggur enn fremur til að hafinn verði undirbúningur framkvæmda á liðum 8 - 10. Framkvæmdir samkvæmt liðum 7, 11 og 12 þurfa lengri undirbúning og verða skoðaðar síðar ef þörf er talin á að bæta umferðaröryggi enn frekar.

Varðandi framkvæmdir samkvæmt liðum 13 og 14 þá telur skipulagsráð að miðað við fyrirliggjandi gögn sé ekki raunhæft að gerð verði undirgöng eða byggð göngubrú á þessum stað.

Ingibjörg Ólöf Isaksen kynnti tillögur skipulagsráðs.

Í umræðum tóku til máls Sóley Björk Stefánsdóttir, Guðmundur Baldvin Guðmundsson og Gunnar Gíslason.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum tillögur skipulagsráðs um úrbætur til að bæta umferðaröryggi á Hörgárbraut milli Glerár og Undirhlíðar.

Skipulagsráð - 342. fundur - 26.08.2020

Sviðsstjóri skipulagssviðs gerði grein fyrir stöðu mála varðandi fyrirhugaðar framkvæmdir til að bæta umferðaröryggi á gangbraut við Hörgárbraut á móts við Stórholt.

Fram kom að áætlað er að framkvæmdir hefjist á næstu vikum.