Skipulagsráð

329. fundur 15. janúar 2020 kl. 08:00 - 09:45 Fundarsalur á 2. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Tryggvi Már Ingvarsson formaður
  • Orri Kristjánsson
  • Arnfríður Kjartansdóttir
  • Þórhallur Jónsson
  • Helgi Sveinbjörn Jóhannsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs
  • Margrét Mazmanian Róbertsdóttir verkefnastjóri skipulagsmála
  • Leifur Þorsteinsson fundarritari
Fundargerð ritaði: Leifur Þorsteinsson byggingarfulltrúi
Dagskrá
Ólöf Inga Andrésdóttir L-lista og varamaður hennar boðuðu forföll.

1.Aðalskipulag - umsókn um breytingu á skipulagi, reiðbrú

Málsnúmer 2019120136Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi í samræmi við bókun skipulagsráðs 18. desember 2019. Í breytingunni felst að gert er ráð fyrir að nýta megi fyrirhugaða lagnabrú Landsnets yfir Glerárgil sem reið- og göngubrú. Felur það í sér að afmörkuð er ný reiðleið og útivistarleið þar sem lagnabrúin er fyrirhuguð. Þá er einnig gerð sú breyting að afmörkuð er útivistarleið samhliða reiðleið yfir núverandi brú sem er um 300 metrum neðar í Glerárgili.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að fyrirliggjandi tillaga að breytingu á aðalskipulagi verði samþykkt. Að mati ráðsins er breytingin óveruleg, sbr. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem hún hefur hvorki verulegar breytingar á landnotkun í för með sér né sé líkleg til að hafa mikil áhrif á einstaka aðila eða áhrif á stór svæði.

Skipulagsráð vekur athygli á því að í vinnslu er stígaskipulag fyrir Akureyri og gæti það haft áhrif á endanlega legu stíga.

2.Hafnarstræti 34 - umsókn um breytt deiliskipulag

Málsnúmer 2019090300Vakta málsnúmer

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi fyrir Hafnarstræti 34 var auglýst frá 27. nóvember 2019 til 8. janúar 2020. Tillagan gerir ráð fyrir því að lóðinni verði breytt í íbúðarhúsalóð. Gert er ráð fyrir að fjarlægja megi núverandi atvinnuhúsnæði og byggja í staðinn tvö íbúðarhús með allt að 8 íbúðum. Afmörkuð verða 8 ný bílastæði á lóðinni. Þá er einnig gert ráð fyrir að lóð spennistöðvar við Hafnarstræti 32 minnki þannig að núverandi bílastæði verði utan hennar.

Tvær athugasemdir bárust á kynningartíma.
Afgreiðslu frestað þar til viðbrögð umsækjanda um deiliskipulag við fyrirliggjandi athugasemdum liggja fyrir.

3.Miðbær - uppfærsla deiliskipulags

Málsnúmer 2017010274Vakta málsnúmer

Á fundi skipulagsráðs 26. júní 2019 var lagt til að farið yrði í vinnu við endurskoðun deiliskipulags miðbæjar Akureyrar og var það samþykkt á fundi bæjarráðs 4. júlí 2019. Undirbúningsvinna hófst í lok árs 2019 og næsta skref er að skipa stýrihóp til að halda utan um verkefnið.
Skipulagsráð vísar ákvörðun um tilnefningu í stýrihóp til bæjarráðs.

4.Hólasandslína 3, lagning ídráttarröra undir vestustu kvísl Eyjafjarðarár - umsókn um framkvæmdarleyfi

Málsnúmer 2019110082Vakta málsnúmer

Erindi Friðriku Marteinsdóttur dagsett 7. nóvember 2019 f.h. Landsnets hf., kt. 580804-2410, þar sem sótt er um framkvæmdarleyfi fyrir lagningu 170 m langra ídráttarröra fyrir tvö 220 kV jarðstrengjasett í og undir vestustu kvísl Eyjafjarðarár. Er áætlað að vinna að framkvæmdinni samhliða byggingu brúar og lagningu stígs á þessu sama svæði. Erindinu var frestað á fundi skipulagsráðs 13. nóvember 2019 þar sem breyting á Aðalskipulagi Akureyrar sem varðar framkvæmdina hafði ekki tekið gildi í b-deild Stjórnartíðinda. Aðalskipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu sem birtist þann 2. janúar 2020 og er umsóknin því tekin fyrir að nýju. Fyrir liggur umsögn Umhverfisstofnunar dagsett 9. janúar 2020 um að framkvæmdin sé ekki háð leyfi stofnunarinnar.
Skipulagsráð hefur yfirfarið meðfylgjandi hönnunargögn vegna framkvæmdar við lagningu ídráttarröra, sem er í samræmi við gildandi aðal- og deiliskipulag, mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og álit Skipulagsstofnunar þar um og leggur til við bæjarstjórn að útgáfa framkvæmdarleyfisins verði samþykkt.


Eftirfarandi skilyrði setur skipulagsráð fyrir veitingu framkvæmdarleyfisins:

Framkvæmdin skal vera í samræmi við 24. gr. Lögreglusamþykktar fyrir Akureyrarbæ en þar eru ákvæði um farmflutninga og hreinsun ökutækja áður en farið er inn á malbikaðar götur.

5.Strandgata 33 - umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum

Málsnúmer 2019090554Vakta málsnúmer

Lögð fram að nýju að lokinni grenndarkynningu, tillaga að breytingum á húsi nr. 33 við Strandgötu samkvæmt meðfylgjandi teikningum eftir Valþór Brynjarsson. Fyrir liggja tvær athugasemdir frá eigendum Grundargötu 1, umsögn Minjastofnunar dagsett 16. desember 2019 ásamt viðbrögðum umsækjanda mótteknum 6. janúar 2020 og teikningum sem sýna breytingar á skuggavarpi. Þá er lögð fram tillaga að umsögn skipulagsráðs um innkomnar athugasemdir.
Tryggvi Már Ingvarsson B-lista bar upp vanhæfi sitt í málinu og var það samþykkt. Vék hann af fundi við umræður og afgreiðslu málsins.


Skipulagsráð telur að fyrirhugaðar breytingar á Strandgötu 33 komi ekki til með að hafa veruleg áhrif á hagsmuni eigenda Grundargötu 1 í för með sér.

Skipulagsráð tekur jákvætt í erindið og er afgreiðslu byggingarleyfis vísað til byggingarfulltrúa.

6.Búsetukjarnar í fyrirhuguðu deiliskipulagi

Málsnúmer 2019050123Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar minnisblað sviðsstjóra skipulagssviðs dagsett 7. janúar 2020 um mögulega staðsetningu búsetukjarna fyrir fólk með verulegar stuðningsþarfir, til samræmis við áætlun búsetusviðs til næstu 10 ára.
Skipulagsráð vísar minnisblaðinu til umsagnar velferðarráðs.

7.Hlíðarendi - beiðni um stofnun nýrrar lóðar

Málsnúmer 2019120283Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 17. desember 2019 þar sem Sigurður Baldursson og Ingunn Baldursdóttir fyrir hönd Baldurs Halldórssonar ehf., kt. 650607-1200, óska eftir að stofnuð verði lóð úr landi Hlíðarenda, L219737, til samræmis við meðfylgjandi uppdrátt sem sýnir hnitsetta afmörkun lóðarinnar. Innan lóðarinnar er í dag dreifistöð rafmagns sem er skráð á óþinglýstri lóð með lnr. 146939.
Skipulagsráð samþykkir skiptingu lóðarinnar og afmörkun nýrrar lóðar.

Skipulagsráð bendir á nauðsyn þess að þinglýsa kvöð á lóð L219737 um aðkomu að nýrri lóð.

8.Auglýsing lóða

Málsnúmer 2020010162Vakta málsnúmer

Í lok árs 2019 var lóðinni Hafnarstræti 80 skilað formlega inn til Akureyrarbæjar og er hún því nú laus til úthlutunar.
Skipulagsráð samþykkir að fela sviðsstjóra skipulagssviðs að auglýsa lóðina Hafnarstræti 80.

9.Umferðarstýring við Strandgötu

Málsnúmer 2020010165Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 9. janúar 2020 þar sem Pétur Ólafsson f.h. Hafnasamlags Norðurlands, kt. 650371-2919, óskar eftir að ekki verði leyfður akstur austur Strandgötu frá Hjalteyrargötu að Laufásgötu og að sú takmörkun muni gilda þá daga sem skemmtiferðaskip eru við Oddeyrarbryggju sumarið 2020 og verði tímabundin í tvær klst. frá áætlaðri komu skipanna.


Þá er þess einnig óskað að bannað verði að leggja bílum við vesturkant Kaldbaksgötu, milli Gránufélagsgötu og Strandgötu annars vegar og austurkant Laufásgötu milli Strandgötu og Gránufélagsgötu hins vegar allan sólarhringinn frá 1. maí til 25. september 2020.
Skipulagsráð samþykkir erindið og felur felur skipulagssviði að auglýsa ákvörðun um tímabundið bann við akstri austur Strandgötu frá Hjalteyrargötu að Laufásgötu og jafnframt að senda beiðni til sýslumannsins á Norðurlandi eystra með ósk um að auglýsa tímabundið bann við lagningu ökutækja í Lögbirtingablaði.

10.Mannréttindastefna Akureyrarbæjar - beiðni um umsögn

Málsnúmer 2019120279Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 19. desember 2019 þar sem Kristinn J. Reimarsson fyrir hönd Akureyrarbæjar, kt. 410169-6229, leggur inn drög að mannréttindastefnu Akureyrarbæjar og óskar umsagnar skipulagsráðs.
Skipulagsráð gerir engar athugasemdir við fyrirliggjandi drög að mannréttindastefnu Akureyrarbæjar.

11.Fjárhagsáætlun skipulagssviðs 2020

Málsnúmer 2019070177Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar samþykkt fjárhagsáætlun skipulagssviðs fyrir árið 2020.

12.Starfsáætlun skipulagssviðs 2020

Málsnúmer 2019050540Vakta málsnúmer

Lögð fram starfsáætlun skipulagssviðs eins og hún var samþykkt á fundi skipulagsráðs þann 11. september 2019.

13.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2019

Málsnúmer 2019010038Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 752. fundar, dagsett 19. desember 2019, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 6 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

14.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2020

Málsnúmer 2019120357Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 753. fundar, dagsett 9. janúar 2020, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 7 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Fundi slitið - kl. 09:45.