Samfélags- og mannréttindaráð

163. fundur 19. mars 2015 kl. 14:00 - 15:54 Fundarherbergi á 2. hæð í Rósenborg
Nefndarmenn
  • Silja Dögg Baldursdóttir formaður
  • Eiður Arnar Pálmason
  • Siguróli Magni Sigurðsson
  • Bergþóra Þórhallsdóttir
  • Vilberg Helgason
  • Hlín Garðarsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Sigríður Stefánsdóttir framkvæmdastjóri samfélags- og mannréttindadeildar ritaði fundargerð
Fundargerð ritaði: Sigríður Stefánsdóttir sigridur@akureyri.is
Dagskrá

1.Styrkveitingar samfélags- og mannréttindaráðs

Málsnúmer 2010110089Vakta málsnúmer

Lagðar fram reglur um styrkveitingar Akureyrarbæjar frá desember 2012 og forsendur samfélags- og mannréttindaráðs vegna styrkja til æskulýðs- og tómstundafélaga, sem samþykktar voru 6. júní 2012.

Einnig var lagt fram minnisblað um samninga sem gerðir voru og runnu út í árslok 2014 og kynnt fylgiskjal með þeim samningum.
Ráðið felur framkvæmdastjóra að afla upplýsinga og hefja viðræður vegna endurnýjunar samninga.

2.Styrkveitingar samfélags- og mannréttindaráðs

Málsnúmer 2010110089Vakta málsnúmer

Rætt um auglýsingu um almenna styrki vorið 2015. Samvinna hefur verið við félagsmálaráð um auglýsingu.
Samfélags og mannréttindaráð samþykkir að auglýst verði eftir umsóknum um styrki ráðsins.

3.Æskulýðs- og tómstundastarf - viðurkenningar

Málsnúmer 2012090258Vakta málsnúmer

Samfélags- og mannréttindaráð hefur tvö undanfarið ár veitt viðurkenningar fyrir framúrskarandi æskulýðs- og tómstundastarf. Lögð fram samþykkt frá 21. janúar 2013 um viðurkenningarnar, ásamt breytingatillögum við þá samþykkt. Einnig lagt fram minnisblað dagsett 16. mars 2015 um fyrri viðurkenningar.
Ráðið samþykkir breytingatillögur við samþykkt um viðurkenningar og tilnefnir Siguróla Magna Sigurðsson og Hlín Garðarsdóttur sem fulltrúa samfélags- og mannréttindaráðs í valnefnd. Óskað er eftir tilnefningum frá ungmennaráði, Félagi eldri borgara og skólanefnd. Einnig var samþykkt að auglýsa eftir tilnefningum til viðurkenninga.

4.Kynjuð fjárhagsáætlanagerð

Málsnúmer 2011030090Vakta málsnúmer

Formaður og framkvæmdastjóri sögðu frá námskeiði fyrir bæjarfulltrúa og embættismenn um kynjaða fjárhagsáætlanagerð. Í framhaldinu munu nefndir og deildir vinna verkefni í samræmi við hugmyndafræðina. Lagðar voru fram hugmyndir um verkefni samfélags- og mannréttindadeildar.
Samfélags- og mannréttindaráð ákveður að byrja á að safna saman og skoða þær tölulegu upplýsingar sem liggja fyrir um þátttöku í tómstundastarfi á vegum deildarinnar. Tekin verður ákvörðum um verkefni í framhaldi af því.

5.Jafnréttisstefna Akureyrarbæjar 2011-2015

Málsnúmer 2011100052Vakta málsnúmer

Lögð fram afgreiðsla bæjarstjórnar frá 10. febrúar 2015 á tillögu samfélags- og mannréttindaráðs frá 26. febrúar sl. um endurskoðun jafnréttisstefnu Akureyrarbæjar:

"Bæjarstjórn samþykkir að fela samfélags- og mannréttindaráði að endurskoða Jafnréttisstefnu Akureyrarbæjar í samráði við nefndir og deildir bæjarins eftir því sem við á. Ný stefna verði lögð fyrir bæjarstjórn til samþykktar fyrir mitt ár 2015."

Samfélags- og mannréttindadeild felur framkvæmdastjóra að halda áfram vinnu við endurskoðun í samræmi við umræður sem farið hafa fram í ráðinu.

6.Viðmið um notkun persónulegs samskipta- og tölvubúnaðar á fundum

Málsnúmer 2015030146Vakta málsnúmer

Bergþóra Þórhallsdóttir D-lista lagði fram eftirfarandi bókun og tillögu:

Breytingar í samfélagi okkar einkennast meðal annars af aukinni tækninotkun, hraðri þróun í tækni- og hugbúnaði, auknu aðgengi upplýsinga og auknum samskiptamöguleikum. Einstaklingar sem gegna trúnaðar- og embættisstöfum á vegum Akureyrarbæjar fara ekki varhluta af því. Þeir mæta gjarnan á fundi á vegum Akureyrarbæjar með tæknibúnað af ýmsu tagi sem þykir orðið sjálfsagður búnaður til að einfalda bæði undirbúning, skipulag og verkferla. Mikilvægt er að til séu viðmið um notkun tækninnar meðan á fundum stendur.

Bergþóra leggur fram eftirfarandi tillögu:

Samfélags- og mannréttindaráð Akureyrarbæjar telur mikilvægt að setja skýr viðmið um tækninotkun á fundum ráðsins. Samfélags- og mannréttindaráð setur sér eftirfarandi viðmið um notkun persónulegs samskipta- og tölvubúnaðar á fundum ráðsins:


- Persónulegur samskiptabúnaður (tölvur og símar) eru eingöngu notaðir vegna málefna funda hverju sinni.

- Slökkt er á símatengingu eða hún höfð á hljóðlausri stillingu.

- Myndataka eða hljóðupptaka með persónulegum samskiptabúnaði (tölvu eða síma) er eingöngu leyfð með samþykki allra fundarmanna.

Nefndar-/ráðsmaður getur óskað eftir undanþágu hjá fundarstjóra frá ofangreindum viðmiðun ef mikið liggur við.

Samfélags- og mannréttindaráð Akureyrarbæjar hvetur bæjarstjórn, nefndir og önnur ráð á vegum bæjarins að gera slíkt hið sama.
Samfélags- og mannréttindaráð leggur til við bæjarráð, að tekin verði upp umræða um hvort setja eigi viðmið um notkun persónulegs samskiptabúnaðar á fundum.

7.Félagsmiðstöðvar - Landsmót Samfés haust 2015

Málsnúmer 2015030171Vakta málsnúmer

Landsmót Samfés - samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi er haldið á hausti hverju og ferðast á milli landshluta. Þetta árið er óskað eftir því að Akureyringar taki að sér að halda landsmótið. Lagt fram minnisblað dags. 16. mars 2015 frá Ölfu Aradóttur forstöðumanni forvarna- og æskulýðsmála, um mótið.
Samfélags- og mannréttindaráð styður að Akureyri verði boðin fram sem mótsstaður. Ráðið óskar eftir samvinnu við stofnanir og deildir sem hafa þarf samvinnu við t.d. skólana vegna gistinga.

Fundi slitið - kl. 15:54.