Torfunefnsbryggja - breyting á deiliskipulagi miðbæjar

Málsnúmer 2022090822

Vakta málsnúmer

Skipulagsráð - 388. fundur - 28.09.2022

Helgi Mar Hallgrímsson hjá Nordic arkitektastofu kynnti vinningstillögu að skipulagi Torfunefsbryggju ásamt drögum að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar til samræmis.

Jóhanna Helgadóttir og Vilhjálmur Leví Egilsson hjá Nordic arkitektastofu, Sigríður María Róbertsdóttir hjá Hafnasamlagi Norðurlands og Pétur Ólafsson hafnarstjóri sátu fundinn undir þessum dagskrárlið.
Skipulagsráð þakkar fyrir kynninguna.

Skipulagsráð - 394. fundur - 10.01.2023

Lögð fram tillaga Nordic arkitektastofu á vinnslustigi að breytingu á deiliskipulagi fyrir Torfunef.

Tillagan felur í sér að svæðinu er skipt í þrjár lóðir, byggingarreitum er fjölgað og afmörkun hafnarsvæðis er breytt. Einungis verður gert ráð fyrir bílastæðum fyrir hreyfihamlaða auk hjólastæða. Þá verður aðkomu að svæðinu breytt og settir skilmálar um yfirbragð og notkun byggingarreita.

Meðfylgjandi eru skipulagsuppdrættir.
Skipulagsráð frestar afgreiðslu málsins og felur skipulagsfulltrúa að koma ábendingum um útfærslu skipulagsins á framfæri við umsækjanda.

Skipulagsráð - 399. fundur - 29.03.2023

Lögð fram endurbætt tillaga Nordic arkitektastofu á vinnslustigi að breytingu á deiliskipulagi fyrir Torfunef. Tillagan felur í sér að svæðinu er skipt í þrjár lóðir, byggingarreitum er fjölgað og afmörkun hafnarsvæðis er breytt. Einungis verður gert ráð fyrir bílastæðum fyrir hreyfihamlaða auk hjólastæða. Þá verður aðkomu að svæðinu breytt og settir skilmálar um yfirbragð og notkun byggingarreita.

Meðfylgjandi eru skipulagsuppdrættir.

Málið var áður á dagskrá skipulagsráðs þann 10. janúar sl. og var afgreiðslu frestað.
Skipulagsráð samþykkir framlagða tillögu á vinnslustigi og að hún verði kynnt skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með minniháttar breytingum í samráði við skipulagsfulltrúa.

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.


Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista, Sif Jóhannesar Ástudóttir V-lista, Jón Hjaltason óflokksbundinn og Hilda Jana Gísladóttir S-lista óska bókað eftirfarandi:

Við ítrekum mikilvægi þess að farið verði í að klára bílastæði við Hof og verði horft til þess í fjárhagsáætlanagerð haustið 2023 og einnig verði gönguleið yfir Glerárgötu sett í forgang.

Skipulagsráð - 404. fundur - 14.06.2023

Kynningu á tillögu á vinnslustigi að breytingu á deiliskipulagi fyrir Torfunefsbryggju lauk þann 14. maí sl.

Umsagnir bárust frá Minjastofnun Íslands og Vegagerðinni.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki framlagða tillögu að deiliskipulagi og að tillagan verði auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Skipulagsráð leggur áherslu á að áður en til auglýsingar kemur verði samráð haft við Vegagerðina varðandi innkomnar ábendingar.

Bæjarstjórn - 3531. fundur - 20.06.2023

Liður 4 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 14. júní 2023:

Kynningu á tillögu á vinnslustigi að breytingu á deiliskipulagi fyrir Torfunefsbryggju lauk þann 14. maí sl. Umsagnir bárust frá Minjastofnun Íslands og Vegagerðinni.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki framlagða tillögu að deiliskipulagi og að tillagan verði auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagsráð leggur áherslu á að áður en til auglýsingar kemur verði samráð haft við Vegagerðina varðandi innkomnar ábendingar.

Þórhallur Jónsson kynnti.

Til máls tóku Hilda Jana Gísladóttir og Sunna Hlín Jóhannesdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum framlagða tillögu að deiliskipulagi og að hún verði auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Skipulagsráð - 416. fundur - 31.01.2024

Lögð fram að lokinni auglýsingu, tillaga að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar sem nær til hafnarsvæðis við Torfunef. Breytingartillagan var auglýst 28. júní 2023 með athugasemdafresti til 16. ágúst. Ein athugasemd barst auk umsagna frá Vegagerðinni, Minjastofnun og Norðurorku. Er tillagan lögð fram með nokkrum breytingum, eftir auglýsingu, sem tilgreindar eru í greinargerð.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt með tilgreindum breytingum. Er skipulagsfulltrúa falið að leggja fram tillögu að umsögn við innkomnar athugasemdir sem lögð verður fram í bæjarstjórn.

Bæjarstjórn - 3541. fundur - 20.02.2024

Liður 16 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 31. janúar 2024:

Lögð fram að lokinni auglýsingu, tillaga að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar sem nær til hafnarsvæðis við Torfunef. Breytingartillagan var auglýst 28. júní 2023 með athugasemdafresti til 16. ágúst. Ein athugasemd barst auk umsagna frá Vegagerðinni, Minjastofnun og Norðurorku. Er tillagan lögð fram með nokkrum breytingum, eftir auglýsingu, sem tilgreindar eru í greinargerð.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt með tilgreindum breytingum. Er skipulagsfulltrúa falið að leggja fram tillögu að umsögn við innkomnar athugasemdir sem lögð verður fram í bæjarstjórn.

Andri Teitsson kynnti.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum tillögu að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar sem nær til hafnarsvæðis við Torfunef með tilgreindum breytingum eftir auglýsingu. Jafnframt samþykkir bæjarstjórn tillögu skipulagsfulltrúa að umsögn við innkomnar athugasemdir.