Starfshópur Akureyrarstofu um atvinnumál

Málsnúmer 2010060120

Vakta málsnúmer

Stjórn Akureyrarstofu - 76. fundur - 23.06.2010

Lögð fram tillaga að skipun starfshóps um atvinnumál sem skipaður verði fulltrúum allra framboða í bæjarstjórn og drög að erindisbréfi fyrir hópinn.

Stjórn Akureyrarstofu samþykkir að skipa starfshóp um atvinnumál og að í honum sitji fulltrúar allra flokka í bæjarstjórn. Stjórnin samþykkir fyrirliggjandi erindisbréf fyrir hópinn og óskar eftir því við bæjarráð að það heimili að ráðinn verði sérstakur starfsmaður að tillögu starfshópsins, sem vinni að verkefnum hans. Stjórn Akureyrarstofu óskar eftir því við flokkana að gætt verði að kynjahlutföllum við skipun einstaklinga í hópinn.

Jóhann Jónsson óskar að bókað verði eftirfarandi: Ég tel mikilvægt að viðkomandi starfsmaður vinni með starfsmönnum Akureyrarstofu og heyri undir framkvæmdastjóra hennar.

Bæjarráð - 3230. fundur - 08.07.2010

7. liður í fundargerð stjórnar Akureyrarstofu dags. 23. júní 2010:
Lögð fram tillaga að skipun starfshóps um atvinnumál sem skipaður verði fulltrúum allra framboða í bæjarstjórn og drög að erindisbréfi fyrir hópinn.
Stjórn Akureyrarstofu samþykkir að skipa starfshóp um atvinnumál og að í honum sitji fulltrúar allra flokka í bæjarstjórn. Stjórnin samþykkir fyrirliggjandi erindisbréf fyrir hópinn og óskar eftir því við bæjarráð að það heimili að ráðinn verði sérstakur starfsmaður að tillögu starfshópsins, sem vinni að verkefnum hans. Stjórn Akureyrarstofu óskar eftir því við flokkana að gætt verði að kynjahlutföllum við skipun einstaklinga í hópinn.

Jóhann Jónsson óskar að bókað verði eftirfarandi: Ég tel mikilvægt að viðkomandi starfsmaður vinni með starfsmönnum Akureyrarstofu og heyri undir framkvæmdastjóra hennar.

Sigurður Guðmundsson mætti á fund bæjarráðs kl. 9:30.

Bæjarráð frestar afgreiðslu. 

 

Bæjarráð - 3235. fundur - 19.08.2010

Tekinn fyrir að nýju 5. liður í fundargerð bæjarráðs dags. 8. júlí 2010, sem bæjarráð frestaði afgreiðslu á.
Starfshópur um atvinnumál óskar eftir því við bæjarráð að veitt verði aukafjárveiting á árinu 2010 að upphæð 2.2 millj.kr. til að geta ráðið í starf verkefnastjóra atvinnumála sem yrði auglýst strax.

Bæjarráð samþykkir tillögu starfshóps um atvinnumál, sem starfar í umboði Akureyrarstofu, að ráða í 100 % starf verkefnisstjóra atvinnumála.   Bæjarráð samþykkir að veita aukafjárveitingu að upphæð 2.2 millj. kr. vegna ráðningarinnar og vísar henni til endurskoðunar fjárhagsáætlunar ársins 2010.  Starfið verði auglýst strax.

Stjórn Akureyrarstofu - 78. fundur - 19.08.2010

Farið yfir fyrstu skref starfshópsins og hugmyndir og áherslur sem ræddar hafa verið á fundum hans. Fyrir liggur samþykki bæjarráðs um viðbótarfjárveitingu til að ráða sérstakan verkefnisstjóra atvinnumála. Jafnframt var gegnið formlega frá skipun starfshópsins.

Stjórn Akureyrarstofu samþykkir skipan eftirtalinna fulltrúa í starfshópinn:

 

Geir Kristinn Aðalsteinsson, formaður

Sigmundur Ófeigsson,

Andrea Hjálmsdóttir,

Hannes Karlsson,

Matthías Rögnvaldsson,

Njáll Trausti Friðbertsson,

Ragnar Sverrisson.

Stjórn Akureyrarstofu - 84. fundur - 11.11.2010

Kynnt niðurstaða starfshópsins um ráðningu Sævars Péturssonar í starf verkefnastjóra atvinnumála.

Stjórn Akureyrarstofu býður Sævar Pétursson velkominn til starfa og fagnar auknum styrk til þess að sinna atvinnumálum og samvinnu við fyrirtæki í bænum.

Stjórn Akureyrarstofu - 86. fundur - 15.12.2010

Sigmundur Ófeigsson fulltrúi stjórnar Akureyrarstofu í starfshópnum fór yfir stöðuna í vinnu starfshópsins og næstu skref.

Stjórn Akureyrarstofu - 91. fundur - 23.02.2011

Starfshópurinn hefur nú lokið störfum og skilað skýrslu um vinnu sína.
Geir Kristinn Aðalsteinsson formaður starfshópsins mætti á fundinn og gerði ásamt Sigmundi Ófeigssyni grein fyrir niðurstöðunum.
Meginatriði í tillögum hópsins eru:
að nauðsynlegt sé að aðkoma bæjaryfirvalda að atvinnumálum sé þverpólitísk, að atvinnustefna nái yfir meira en eitt kjörtímabil, að málaflokkurinn verði í umsjón stjórnar Akureyrarstofu og verkefnisstjóri atvinnumála staðsettur á Akureyrarstofu. Auka þarf tengsl bæjaryfirvalda við atvinnulífið og efla þarf þekkingu á atvinnulífinu á Akureyri og greina betur samsetningu þess. Hópurinn leggur til að fulltrúum í stjórn Akureyrarstofu verði fjölgað þannig að allir flokkar eigi þar fulltrúa. Viðbótarfulltrúarnir verði áheyrnarfulltrúar með málfrelsi og tillögurétt.

Stjórn Akureyrarstofu þakkar starfshópnum fyrir vel unnin störf og greinargóða skýrslu. Stjórnin mun taka tillögur hópsins til umfjöllunar og frekari úrvinnslu.

Formaður vék af fundi kl. 17:15 og varaformaður tók við stjórn.

Stjórn Akureyrarstofu - 92. fundur - 10.03.2011

Áfram haldið umræðu um skýrslu starfshópsins sem kynnt var á síðasta fundi stjórnarinnar. Rætt var um mögulega fjölgun fulltrúa í stjórn Akureyrarstofu og mótun atvinnustefnu sem fram undan er.

Umræðu frestað til næsta fundar.

Stjórn Akureyrarstofu - 100. fundur - 14.06.2011

Rætt um með hvað hætti haldið verður áfram vinnu við mótun atvinnustefnu Akureyrarbæjar.
Guðmundur Baldvin Guðmundsson B-lista, Njáll Trausti Friðbertsson D-lista og Sigurður Guðmundsson A-lista sátu fundinn undir þessum lið.

Ákvörðun frestað til næsta fundar.

Stjórn Akureyrarstofu - 101. fundur - 28.06.2011

Fyrr á árinu skilaði starfshópur um atvinnumál skýrslu til stjórnar Akureyrarstofu með ýmsum tillögum um aðkomu bæjarins að málaflokknum. Ein þeirra snýst um að móta atvinnustefnu fyrir Akureyrarbæ, sem næði fram yfir kosningar og þverpólitísk sátt væri um. Framhald umræðu frá síðasta fundi þar sem lögð voru fram drög að erindisbréfi fyrir nýja verkefnisstjórn um atvinnumál.

Meirihluti stjórnar Akureyrarstofu samþykkir að setja á stofn verkefnisstjórn skipaða fulltrúum allra stjórnmálaafla sem ætlað er að móta atvinnustefnu fyrir bæinn ásamt því að gera tillögur að verkefnum til styrkingar atvinnulífinu.
Stjórnin felur framkvæmdarstjóra að útbúa erindisbréf í samræmi við fyrirliggjandi drög.

Helena Þ. Karlsdóttir fulltrúi Samfylkingarinnar óskar bókað:
Ég get fallist á að sett verði á fót sérstök verkefnastjórn sem ætlað er að móta stefnu Akureyrarbæjar í atvinnumálum og að verkefnastjórninni verði falið að skila stjórn Akureyrarstofu drögum að framtíðarstefnu Akureyrarbæjar í atvinnumálum í síðasta lagi 15. janúar 2012. Er slík vinna í samræmi við það verklag sem viðhaft er við endurskoðun á menningarstefnu Akureyrarbæjar.

Ég tel hins vegar óeðlilegt að verkefnisstjórninni sé einnig ætlað að vera stjórn Akureyrarstofu til ráðgjafar um sérstök verkefni og aðgerðir. Með því eru atvinnumálin, einn málaflokka, sem heyrir undir stjórn Akureyrarstofu, tekinn út og settur undir sérstakan verkefnahóp.
Það hefur enn ekki verið skilgreint hvað flokkast undir atvinnumál og því er hlutverk verkefnishópsins óljóst og óskilgreint. Ég tel það auka flækjustig stjórnsýslunnar, auka ógegnsæi og þar með ekki samrýmast góðum stjórnsýsluháttum. Ég mun því sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Sóley Björk Stefánsdóttir fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs óskar bókað:
Ég tel það mjög mikilvægt að bæði karlar og konur komi að jöfnu að stefnumótun, skilgreiningu og ráðgjöf varðandi atvinnumál. Ég get því ekki samþykkt afgreiðslu þessa máls þar sem jöfn aðkoma kynjanna er ekki tryggð.

Halla Björk Reynisdóttir, Sigmundur Ófeigsson og Þórarinn Stefánsson fulltrúar L-listans óska bókað:
Við teljum það afar mikilvægt að þverpólitísk samstaða náist um atvinnustefnu fyrir Akureyarbæ.
Í þeim tilgangi verður nú settur á fót starfshópur skipaður einum aðila frá hverjum flokki/lista. Þar sem að ekki er gert ráð fyrir fleirum frá hverjum flokki/lista teljum við ógerlegt að gera kröfu um jafnan kynjakvóta þó að við að sjálfsögðu mælumst til þess.
Í því augnamiði leggjum við til að varamenn verði skipaðir í hópinn og þeir þá af gagnstæðu kyni við aðalmenn. Þá teljum við ávinning af því að starfshópurinn komi með tillögur til stjórnar Akureyrarstofu að bráðaaðgerðum í atvinnumálum, sem og að stjórnin geti leitað til hópsins.

Stjórn Akureyrarstofu - 103. fundur - 25.08.2011

Greint frá skipan í starfshóp um mótun atvinnustefnu og fyrsta undirbúningsfundi hans.
Í hópinn voru skipaðir: Sigmundur Einar Ófeigsson (L), Matthías Rögnvaldsson (A), Hannes Karlsson (B), Ragnar Sverrisson (S), Unnsteinn Einar Jónsson (D) og Sóley Björk Stefánsdóttir (V).
Til vara eru Helga Mjöll Oddsdóttir (L), Sigurður Guðmundsson (A), Sigríður Valdís Bergvinsdóttir (B), Helena Þuríður Karlsdóttir (S) og Jón Erlendsson (V). Varamaður D-lista verður skipaður síðar.