Stjórn Akureyrarstofu

132. fundur 08. nóvember 2012 kl. 15:00 - 16:30 Fundarherbergi Akureyrarstofu í menningarhúsinu Hofi
Nefndarmenn
  • Halla Björk Reynisdóttir formaður
  • Jón Hjaltason
  • Helena Þuríður Karlsdóttir
  • Hildur Friðriksdóttir
  • Matthías Rögnvaldsson áheyrnarfulltrúi
  • Sigfús Arnar Karlsson áheyrnarfulltrúi
  • Unnsteinn Jónsson áheyrnarfulltrúi
  • Þórgnýr Dýrfjörð fundarritari
Fundargerð ritaði: Þórgnýr Dýrfjörð framkvæmdastjóri
Dagskrá

1.Samráðsfundir með forstöðumönnum menningarstofnana 2012 - Sjónlistamiðstöðin

Málsnúmer 2012030099Vakta málsnúmer

Hannes Sigurðsson forstöðumaður kom á fundinn og kynnti dagskrá næsta árs í Sjónlistamiðstöðinni.

Stjórn Akureyrarstofu þakkar Hannesi fyrir komuna á fundinn og góðar umræður um starfsemi næsta árs.

2.Fjárhagsáætlun 2013 - Akureyrarstofa

Málsnúmer 2012060210Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga að gjaldskrá fyrir Amtsbókasafnið en við gerð fjárhagsáætlunar var gert ráð fyrir að tekjur safnsins hækkuðu um 4% á milli ára. Forsenda tillögunnar er að fellt verði úr gildi lögbundið ákvæði um 4.000 kr. þak á sektir vegna vanskila á bókum. Frumvarp þess efnis liggur fyrir Alþingi.

Stjórn Akureyrarstofu samþykkir fyrirliggjandi tillögu þó þannig að sektir vegna bóka og tímarita hækki í 30 kr. á dag og að gjald vegna glataðra skírteina hækki úr 1.000 kr. í 1.500 kr.

3.Markaðsstofa Norðurlands - beiðni um endurnýjun þjónustusamnings

Málsnúmer 2012110011Vakta málsnúmer

Erindi dags. 30. október 2012 frá Ásbirni Björgvinssyni framkvæmdastjóra Markaðsstofunnar, þar sem óskað er eftir framlengingu á samningi um stuðning Akureyrarbæjar við starfsemina.

Stjórn Akureyrarstofu samþykkir áframhaldandi stuðning við Markaðsstofuna. Framkvæmdastjóra Akureyrarstofu falið að ganga frá nýjum samningi í samræmi við nýsamþykktar reglur um styrkveitingar Akureyrarbæjar sem lagður verði fyrir stjórnina ásamt ársreikningi Markaðsstofunnar.

4.Frumvarp til nýrra sviðslistalaga - athugasemdir

Málsnúmer 2012110040Vakta málsnúmer

Alþingi hefur nú til umræðu frumvarp til sviðslistalaga, þingskjal 202, 199. mál. Farið yfir athugasemdir sem Leikfélag Akureyrar hefur gert við frumvarpið.

Stjórn Akureyrarstofu felur framkvæmdastjóra að skila inn umsögn um frumvarpið í samráði við LA og Menningarráð Eyþings.

5.Miðstöð norðurslóðaviðskipta - markaðsátak

Málsnúmer 2012110041Vakta málsnúmer

Akureyrarbær er meðal þátttakenda í klasasamstarfi sem leitt er af AFE og hefur það markmið að koma fyrirtækjum og þjónustu á Eyjafjarðarsvæðinu á framfæri við verkkaupa á Grænlandi. Farið yfir kynningu á verkefninu og hvernig þátttöku bæjarins verður háttað.

Stjórn Akureyrarstofu samþykkir að taka þátt í klasasamstarfinu með vinnuframlagi og 300.000 kr. fjárframlagi. Halla Björk Reynisdóttir  mun sitja í verkefnisstjórn samstarfsins fyrir hönd Akureyrarbæjar.

6.Iðnaðarsafnið á Akureyri - skipun fulltrúa í stjórn

Málsnúmer 2010090020Vakta málsnúmer

Aðalfulltrúar Akureyrarbæjar í stjórn Iðnaðarsafnsins hafa óskað eftir því að láta af stjórnarsetu. Stjórn Akureyrarstofu skipar fulltrúa í stjórnina.

Stjórn Akureyrarstofu samþykkir að skipa Harald Þór Egilsson, forstöðumann Minjasafnsins á Akureyri og Huldu Sif Hermannsdóttur, verkefnisstjóra á Akureyrarstofu sem nýja fulltrúa í stjórn Iðnaðarsafnsins.

 

Helena Þ. Karlsdóttir S-lista óskar bókað:

Ég er hlynnt tilnefningunni og samþykki hana með fyrirvara um að kannað verði hvort samkomulag gildi milli þeirra flokka sem sæti eiga í bæjarstjórn um tilnefningar í stjórn Iðnaðarsafnsins.

Fundi slitið - kl. 16:30.