Samráðsfundir með forstöðumönnum menningarstofnana 2012 - Sjónlistamiðstöðin

Málsnúmer 2012030099

Vakta málsnúmer

Stjórn Akureyrarstofu - 116. fundur - 08.03.2012

Fundurinn fór fram í Sjónlistamiðstöðinni á Akureyri. Hannes Sigurðsson forstöðumaður tók á móti stjórninni og var byrjað á leiðsögn um þær sýningar sem eru í Sjónlistamiðstöðinni um þessar mundir í Listasafninu annars vegar og Ketilhúsinu hins vegar. Að því loknu var farið yfir fyrstu skrefin í starfsemi nýju miðstöðvarinnar, helstu verkefni sem unnið er að og þau úrlausnarefni sem fyrir liggja.

Stjórn Akureyrarstofu þakkar Hannesi fyrir áhugaverða og upplýsandi leiðsögn og greinargóðar upplýsingar um þau verkefni sem eru í deiglunni í Sjónlistamiðstöðinni.

Stjórn Akureyrarstofu - 123. fundur - 10.05.2012

Farið var í heimsókn á Amtsbókasafnið og Héraðsskjalasafnið á Akureyri. Aðalbjörg Sigmarsdóttir héraðsskjalavörður og Hólmkell Hreinsson amtsbókavörður tóku á móti stjórninni og kynntu starfsemina á söfnunum og leiddu skoðunarferð um húsið.

Meðal þess sem fram kom um Amtsbókasafnið var að gestafjöldi hefur lítillega dregist saman eftir að hafa náð ákveðnu hámarki árið 2009. Hins vegar hafa útlán aukist úr um 186 þús. árið 2005 í um 230 þús. árið 2011. Rekstrarkostnaður að frádreginni húsaleigu hefur staðið í stað eða lækkað þannig að marmkið um aðhald í rekstri hafa gengið eftir.

Meðal þess sem fram kom um Héraðsskjalsafnið var að það þjónar 5 sveitarfélögum í Eyjafirði og eru allar skrifstofur, stofnanir, nefndir og fyrirtæki á vegum þeirra skyldug til að afhenda skjöl sín til safnsins. Rekstrarkostnaður safnsins hefur að mestu staðið í stað ef frá er dregin húsaleiga. Hins vegar hefur ríkið dregið úr framlögum til skjalasafna á landinu og Fjallabyggð dró sig út úr samstarfi um Héraðsskjalasafnið og því hefur hlutur sveitarfélaganna í rekstrinum aukist nokkuð á síðustu árum. Starfsmenn safnsins eru 2 og 2.173 skjalanúmer voru lánuð til 653 gesta á lestrarsal á síðasta ári.

Stjórn Akureyrarstofu þakkar þeim Aðalbjörgu og Hólmkeli afar gagnlegar og upplýsandi umræður og upplýsingar sem kynntar voru á fundinum.

Stjórn Akureyrarstofu - 130. fundur - 04.10.2012

Haraldur Þór Egilsson forstöðumaður Minjasafnsins á Akureyri mætti á fundinn og fór yfir rekstur safnsins og starfsemi. Þá leiddi hann stutta umræðu um framtíðarsýn í safnamálum á Eyjafjarðarsvæðinu. Fram kom að ný safnalög taka gildi um næstu áramót og í því sambandi benti Haraldur á mikilvægi þess að sameining og samvinna safna verði styrkt sérstaklega þegar að því kemur að útdeila opinberum fjármunum til þeirra. Þá nefndi hann þá hugmynd að Akureyri gerist tilraunasveitarfélag í nýjum leiðum og aðferðum í skipulagi safnamála.

Stjórnin þakkar Haraldi fyrir afar fróðlega yfirferð og gagnlega umræðu um framtíðarsýn í safnamálum. Stjórnin tekur undir það sjónarmið að sameiningar og samstarf safna verði styrkt sérstaklega. Þá felur stjórnin framkvæmdastjóra Akureyrarstofu að koma hugmynd Haraldar um tilraunaverkefni á framfæri, í samstarfi við hann.

Stjórn Akureyrarstofu - 132. fundur - 08.11.2012

Hannes Sigurðsson forstöðumaður kom á fundinn og kynnti dagskrá næsta árs í Sjónlistamiðstöðinni.

Stjórn Akureyrarstofu þakkar Hannesi fyrir komuna á fundinn og góðar umræður um starfsemi næsta árs.