Lögð fram uppfærð starfsáætlun skipulags- og byggingarmála 2024.
Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista óskar bókað eftirfarandi:
Ef það eru ekki lengur áform um uppbyggingu fjölbýlishúsa í Tónatröð í þeirri mynd sem samþykkt var að auglýsa í febrúar 2023, en ekki verið gert, þá tel ég hreinlegast að taka það verkefni af starfsáætlun og bóka niðurstöðuna svo bæði verktaki og íbúar á svæðinu verði upplýstir um stöðu mála. Í framhaldinu verði sett á starfsáætlun að endurskoða skipulagið með uppbyggingu lítilla fjölbýlishúsa í huga.
Þórhallur Jónsson D-Lista óskar bókað eftirfarandi:
Ég tel að leggja eigi áherslu á að ná samkomulagi við uppbyggingaraðila Tónatraðar sem fyrst. Uppbygging í þeim dúr sem hann hefur kynnt er að mínu mati mjög áhugaverð og verður eflaust mjög eftirsótt. Einnig er þétting byggðar í þeim dúr sem kynnt hefur verið mjög hagkvæm fyrir bæjarfélagið og umhverfið almennt.
Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista óskar bókað að eftirfarandi verkefni verði sett á starfsáætlun 2023:
1: Bæjarfulltrúi leggur til að farið verði átak í skráningu á gámum og innheimtu stöðugjalds í sveitarfélaginu.
2: Bæjarfulltrúi leggur til að unnið verði að því að lóðarhafar virði lóðarmörk sín og geymi ekki tæki og tól utan lóðarmarka.
3: Bæjarfulltrúi leggur fram þá tillögu að farið verði í skoðun á því að koma upp sérstöku geymslusvæði, eins og fyrirfinnst í mörgum sveitarfélögum, þar sem hægt er að fá leigt gámastæði og pláss fyrir vinnutæki sem ekki komast fyrir á lóðum fyrirtækja. Á lóðinni mætti einnig koma fyrir númeralausum bílum og öðru lauslegu dóti sem Heilbrigðiseftirlit Norðurlands sinnir eftirliti með að fjarlægt skuli í bæjarlandinu samkvæmt Samþykkt um umgengni og þrifnað utanhúss á starfssvæði heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra. Vert væri að kanna möguleika þess að geymslusvæðið yrði rekið í sameiningu með sveitarfélögunum í kring.