Strandgata - lóð Bifreiðastöðvar Oddeyrar (BSO)

Málsnúmer 2020090447

Vakta málsnúmer

Skipulagsráð - 352. fundur - 10.02.2021

Lagt fram bréf Lögmannsstofu Norðurlands ehf. dagsett 26. janúar 2021, f.h. Bifreiðastöðvar Oddeyrar ehf. þar sem óskað er eftir að félaginu verði ekki gert að víkja af reitnum næstu 24 mánuði nema að samkomulag hafi náðst um annað.
Afgreiðslu frestað.

Skipulagsráð - 354. fundur - 10.03.2021

Lagt fram að nýju bréf Lögmannsstofu Norðurlands ehf. dagsett 26. janúar 2021, f.h. Bifreiðastöðvar Oddeyrar ehf. þar sem óskað er eftir að félaginu verði ekki gert að víkja af reitnum næstu 24 mánuði nema að samkomulag hafi náðst um annað.
Í auglýstri tillögu að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar kemur fram að uppbygging á svæðinu milli Skipagötu/Hofsbótar og Glerárgötu verði áfangaskipt og að miðað sé við að byrjað verði á norðurhluta svæðisins þar sem BSO er staðsett. Vegna þessa er ekki hægt að framlengja bráðabirgðaleyfi BSO um tvö ár þar sem slíkt myndi hefta uppbyggingu svæðisins um þann tíma. Til að koma til móts við BSO vegna flutnings á starfseminni er samþykkt að framlengja frestinn til loka árs 2021.

Bæjarráð - 3721. fundur - 25.03.2021

Bæjarlögmaður kynnti skýrslu Sambands íslenskra sveitarfélaga um lóðarleigusamninga og gildandi dómafordæmi.

Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður og Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð felur bæjarlögmanni og sviðsstjóra skipulagssviðs að kynna forsvarsmönnum BSO fyrirhugaða ákvörðun bæjarráðs og veita þeim tækifæri til að koma á framfæri sínum sjónarmiðum.

Bæjarráð - 3729. fundur - 03.06.2021

Erindi dagsett 27. apríl 2021 þar sem Sunna Axelsdóttir héraðsdómslögmaður, f.h. BSO, ítrekar framkomin sjónarmið og röksemdir og að allur réttur sé áskilinn til að aðhafast frekar hvað það varðar.

Málið var áður á dagskrá bæjarráðs 22. mars sl. og var bæjarlögmanni og sviðsstjóra skipulagssviðs þá falið að kynna forsvarsmönnum BSO fyrirhugaða ákvörðun bæjarráðs og veita þeim tækifæri til að koma á framfæri sínum sjónarmiðum.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs, Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður og Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Afgreiðslu er frestað og bæjarlögmanni falið að afla frekari gagna.
Halla Björk Reynisdóttir L-lista vék af fundi kl. 11:02.

Bæjarráð - 3737. fundur - 02.09.2021

Þann 29. september 2020 var fyrirsvarsmönnum BSO tilkynnt um uppsögn á bráðabirgðastöðuleyfi fyrir leigubifreiðastöð BSO við Strandgötu með vísan til deiliskipulags miðbæjar Akureyrar sem samþykkt var árið 2014.

Stöðuleyfi BSO var á dagskrá bæjarráðs þann 25. mars 2021, þar sem bæjarráð fól bæjarlögmanni að kynna fyrirsvarsmönnum BSO fyrirhugaða ákvörðun bæjarráðs. Með bréfi dagsettu 30. mars 2021 var fyrirsvarsmönnum BSO kynnt að bærinn fyrirhugi að fara fram á að félagið fari af lóðinni og fjarlægi mannvirki sín af svæðinu bótalaust fyrir 31. desember 2021. Fyrirsvarsmönnum BSO var jafnframt veitt tækifæri að koma að sínum sjónarmiðum áður en endanleg ákvörðun yrði tekin.

Í andmælum BSO var vísað til áður framkominna sjónarmiða og röksemda sem fram komu í erindum félagsins til Akureyrarbæjar í nóvember 2020 og janúar 2021. Þá var jafnframt óskað eftir fundi með bæjarstjóra, en sá fundur fór fram 2. júní 2021, þar sem lögmaður BSO kom að frekari sjónarmiðum.

Athugasemdir og sjónarmið BSO voru lögð fram á fundi bæjarráðs 3. júní 2021, en ákvörðun var frestað til frekari gagnaöflunar.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs, Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs og Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Mannvirki leigubifreiðastöðvar BSO hefur verið á bráðabirgðastöðuleyfi með sex mánaða uppsagnarfresti frá árinu 1955. Þá liggur enginn leigusamningur fyrir. Í gögnum bæjarins kemur fram að frá þeim tíma sem stöðuleyfi til bráðabirgða var veitt hefur BSO verið neitað um varanlegt stöðuleyfi þegar erindi þess efnis hefur komið til bæjarins. Núgildandi deiliskipulag gerir ráð fyrir að mannvirki BSO víki af svæðinu.

Með vísan til ákvæða deiliskipulags miðbæjar Akureyrar og umferðaröryggis fer Akureyrarbær fram á það að félagið fari með mannvirki sín af lóðinni fyrir 1. apríl 2022. Þar sem engum lóðarleigusamningi er fyrir að fara eru engin ákvæði um skyldu bæjarins að leysa til sín mannvirki félagsins eða greiða bætur fyrir mannvirki þess við uppsögn stöðuleyfisins, enda er það eðli stöðuleyfis að mannvirki eru aðeins heimiluð til bráðabirgða og við lok þess tíma skuli fjarlægja mannvirki á kostnað eiganda, bótalaust.

Bæjarráð felur bæjarlögmanni og sviðsstjóra skipulagssviðs að kynna forsvarsmönnum BSO ákvörðunina og ræða mögulega framtíðarstaðsetningu fyrir atvinnurekstur.

Bæjarráð - 3745. fundur - 28.10.2021

Rætt um stöðu mála.

Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður, Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs og Halla Margrét Tryggvadóttir sviðsstjóri stjórnsýslusviðs sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð - 3758. fundur - 10.02.2022

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri fór yfir stöðuna á viðræðum við BSO.
Bæjarráð felur bæjarstjóra og forstöðumanni skipulagsmála að ganga til samninga við forsvarsmenn BSO.

Bæjarráð - 3780. fundur - 15.09.2022

Lagt fram erindi frá BSO dagsett 30. ágúst 2022 þar sem óskað er eftir áframhaldandi framlengingu á stöðuleyfi stöðvarinnar við Strandgötu.
Bæjarráð samþykkir að veitt verði framlenging á stöðuleyfi stöðvarinnar til 31. maí 2023.