Akureyrarflugvöllur

Málsnúmer 2018010214

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 3583. fundur - 18.01.2018

Bæjarráð Akureyrar fagnar tilkomu millilandaflugs um Akureyrarflugvöll í tengslum við ferðir ferðaskrifstofunnar Super Break sem hófust í síðastliðinni viku.

Því miður hefur dregist úr hófi að koma upp viðeigandi aðstöðu á flugvellinum og skorar bæjarráð á þingmenn, ríkisstjórn, samgönguráð og ISAVIA að grípa nú þegar til ráðstafana sem nauðsynlegar eru til að styðja við og tryggja í sessi millilandaflug um Akureyrarflugvöll. Í því sambandi er brýnt að þegar verði komið upp ILS búnaði (Instrument Landing System) við völlinn og lýsa bæjaryfirvöld yfir fullum vilja til samstarfs við uppsetningu búnaðarins.

Þá kallar bæjarráð eftir því að forsvarsmenn ISAVIA sem og formaður samgönguráðs mæti til fundar við bæjarstjórn þar sem farið verði yfir frekari framkvæmdir við Akureyrarflugvöll sem nauðsynlegar eru bæði með tilliti til innanlands- og millilandaflugs. Er bæjarstjóra falið að boða hlutaðeigandi til fundar svo fljótt sem verða má.

Bæjarráð - 3584. fundur - 25.01.2018

Fulltrúar Isavia þau Jón Karl Ólafsson framkvæmdastjóri innanlandsflugvallasviðs og Hjördís Þórhallsdóttir umdæmisstjóri á Norðurlandi mættu á fund bæjarráðs til að ræða málefni Akureyrarflugvallar.

Bæjarfulltrúarnir Ingibjörg Ólöf Isaksen B-lista, Baldvin Valdemarsson D-lista og Eva Hrund Einarsdóttir D-lista sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð Akureyrar fagnar uppsetningu ILS búnaðar sem koma á upp við Akureyrarflugvöll í sumar og lýsir yfir vilja Akureyrarbæjar til samstarfs við framkvæmd uppsetningarinnar.

Þá skorar bæjarráð á ISAVIA og stjórnvöld að ráðast þegar í mótun framtíðarsýnar flugvallarins. Mikilvægt er í því sambandi að rekstrarfyrirkomulag og eignarhald flugvallarins verði endurskoðað þannig að hægt sé að móta framtíðarsýn og uppbyggingu vallarins og lýsir bæjarráð yfir vilja Akureyrarbæjar til að koma að þeirri vinnu.

Bæjarstjórn - 3440. fundur - 18.09.2018

Umræða um uppbyggingu á Akureyrarflugvelli og þýðingu hennar fyrir ferðaþjónustu sem og samfélagið allt.

Halla Björk Reynisdóttir hóf umræðuna og reifaði nokkra þætti varðandi möguleika Akureyrarflugvallar til að sinna millilandaflugi og áhrif þess, bæði fyrir ferðaþjónustu á svæðinu og fyrir samfélagið í heild.

Í umræðum tóku einnig til máls Þórhallur Jónsson, Gunnar Gíslason, Þórhallur Jónsson (í annað sinn), Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Halla Björk Reynisdóttir og Gunnar Gíslason (í annað sinn), Andri Teitsson, Hlynur Jóhannsson og Halla Björk Reynisdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir eftirfarandi ályktun með 11 samhljóða atkvæðum:

Bæjarstjórn Akureyrar leggur áherslu á að ríkisstjórnin ásamt Isavia ohf. leggi fram áætlun um framtíðaruppbyggingu á Akureyri með tvennt að markmiði: að opna nýja gátt inn í landið hið fyrsta til að auka ferðaþjónustu utan suðvesturhornsins og að tryggja varavöll fyrir hina miklu flugstarfsemi í Keflavík. Nú þegar blikur eru á lofti í ferðaþjónustunni er brýnt að stjórnvöld sýni að þeim sé full alvara í að byggja upp ferðaþjónustu sem atvinnugrein um allt land til framtíðar.

Bæjarráð - 3610. fundur - 04.10.2018

Málefni Akureyrarflugvallar tekin til umræðu að beiðni Gunnars Gíslasonar D-lista með vísan til umræðu í bæjarstjórn 18. september sl. Ræddar verða hugmyndir um að fara í gerð viðskiptaáætlunar sem tæki mið af því að Akureyrarbær taki yfir rekstur flugvallarins af Isavia ohf. með samningi við ríkið.
Frestað.

Bæjarráð - 3611. fundur - 18.10.2018

Málefni Akureyrarflugvallar tekin til umræðu að beiðni Gunnars Gíslasonar D-lista með vísan til umræðu í bæjarstjórn 18. september sl. Ræddar voru hugmyndir um að fara í gerð viðskiptaáætlunar sem tæki mið af því að Akureyrarbær taki yfir rekstur flugvallarins af Isavia ohf. með samningi við ríkið.
Bæjarráð óskar eftir að AFE að afli gagna á grundvelli greinargerðar sem lögð var fram á fundinum og felur varaformanni bæjarráðs að fylgja málinu eftir. Jafnframt felur bæjarráð formanni að kalla eftir fundi með forsvarsmönnum Isavia ohf.
Ingibjörg Ólöf Isaksen vék af fundi kl. 09:28.

Bæjarráð - 3647. fundur - 01.08.2019

Rætt um stöðu Akureyrarflugvallar og framtíðaráform.

Sveinbjörn Indriðason forstjóri ISAVIA mætti á fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð þakkar Sveinbirni fyrir komuna á fundinn.

Bæjarráð - 3664. fundur - 05.12.2019

Kynnt skýrsla um Akureyrarflugvöll dagsett í nóvember 2019.

Sigmundur Ófeigsson framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar (AFE) og Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson skýrsluhöfundur mættu á fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð þakkar fyrir góða skýrslu sem er mikilvægt gagn inn í umræðu um framtíð Akureyrarflugvallar. Athygli vekur að kostnaðartölur sem fram koma í þessari skýrslu eru mun lægri en verið hafa í umræðunni til þessa. Bæjarráð óskar eftir því að AFE hlutist til um að gerð verði úttekt á þjóðhagslegri hagkvæmni þess að opna aðra gátt inn í landið í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.