Netnotkun barna og unglinga

Málsnúmer 2015020146

Vakta málsnúmer

Samfélags- og mannréttindaráð - 162. fundur - 26.02.2015

Silja Dögg Baldursdóttir formaður vék af fundi kl. 14:50 og Siguróli Magni Sigurðsson varaformaður tók við fundarstjórn.
Bergþóra Þórhallsdóttir lagði fram eftirfarandi tillögu:
Samfélags- og mannréttindaráð Akureyrarbæjar óskar eftir viðræðum við stjórn Samtaka - svæðisráð foreldrafélaga í grunnskólum Akureyrar og ungmennaráðs um mótun viðmiða um örugga netnotkun barna og unglinga á Akureyri. Ráðið styrkti á dögunum útgáfu á seglum sem hafa að geyma upplýsingar um gildandi útivistarreglur á Íslandi. Í ljósi þess að börn og unglingar eyða miklum tíma í tölvum er nauðsynlegt að taka upp samræðu um sameiginleg viðmið um 'útivist' barna og unglinga á netinu líkt og gert er með reglum um útivist sama aldurshóps á almannafæri. Sameiginleg viðmið sem mótuð eru með lýðræðislegum hætti geta þannig verið góður stuðningur fyrir foreldra í uppeldishlutverkinu.
Samfélags- og mannréttindaráð samþykkir tillöguna og óskar eftir að forvarna- og félagsmálaráðgjafar sem starfa á samfélags- og mannréttindadeild taki þátt í vinnunni.

Samfélags- og mannréttindaráð - 164. fundur - 26.03.2015

Heimir Eggerz Jóhannsson formaður og Sigmundur Sigurðsson stjórnarmaður í Samtaka - svæðisráði foreldrafélaga í grunnskólum Akureyrar mættu á fundinn til viðræðna um samstarf um mótun viðmiða um örugga netnotkun barna og unglinga á Akureyri. Vísað er í 2. lið fundargerðar samfélags- og mannréttindaráðs dagsett 26. febrúar 2015. Forstöðumaður forvarna- og æskulýðsmála tók einnig þátt í umræðunum.
Fulltrúar Samtaka eru tilbúnir að tilnefna í starfshóp um viðmið um málið.
Samfélags- og mannréttindaráð tilnefnir Bergþóru Þórhallsdóttur og Eið Arnar Pálmason sem sína fulltrúa í hópinn. Ráðið óskar eftir að forstöðumaður forvarna- og æskulýðsmála vinni með hópnum ásamt sínu starfsfólki. Hópnum er heimilt að kalla fleiri til samstarfs.

Samfélags- og mannréttindaráð - 175. fundur - 26.11.2015

Bergþóra Þórhallsdóttir greindi frá starfi í samstarfshópi um örugga netnotkun barna og ungmenna. Ráðið tilnefndi fulltrúa í hópinn 26. mars 2015.
Samfélags- og mannréttindaráð lýsir ánægju með starf hópsins og fyrirhugað málþing í mars nk. Ráðið þakkar góða kynningu.

Samfélags- og mannréttindaráð - 178. fundur - 28.01.2016

Bergþóra Þórhallsdóttir greindi frá starfi í samstarfshópi um örugga netnotkun barna og ungmenna, m.a. frá ráðstefnu um málefnið, sem verið er að undirbúa. Samtaka hefur sótt um styrki vegna verkefnisins og þegar hafa tveir styrkir fengist.

Samfélags- og mannréttindaráð - 179. fundur - 11.02.2016

Lagt var fram minnisblað vegna undirbúnings málþings um netnotkun/skjánotkun, sem fyrirhuguð er í næsta mánuði. Bergþóra Þórhallsdóttur fulltrúi ráðsins í undirbúningshópi greindi frá stöðu mála.

Alfa Aradóttir forstöðumaður forvarna og æskulýðsmála sat fundinn undir þessum lið.
Samfélags- og mannréttindaráð samþykkir að taka þátt í kostnaði við málþingið með Samtaka, samkvæmt nánari fjárhagsáætlun sem lögð verður fram. Framkvæmdastjóra falið að vinna að málinu.

Samfélags- og mannréttindaráð - 183. fundur - 14.04.2016

Bergþóra Þórhallsdóttir D-lista sagði frá málþingi um skjánotkun sem haldið var 9. mars 2016. Hún greindi frá helstu niðurstöðum, en úrvinnsla stendur enn yfir.

Samfélags- og mannréttindaráð - 193. fundur - 13.12.2016

Framkvæmdastjóri kynnti og gerði grein fyrir stöðu verkefnisins um útgáfu á efni varðandi skjánotkun barna og unglinga.
Samfélags- og mannréttindaráð samþykkir útgáfu efnisins og þakkar vinnuhópnum fyrir vel unnin störf og fagnar komandi útgáfu á efni um skjánotkun barna sem verður borið út á hvert heimili á Akureyri á nýju ári.

Frístundaráð - 2. fundur - 09.02.2017

Lögð fram til kynningar útgáfa samfélagssviðs á seglum með "Viðmið um skjánotkun" sem verður dreift inn á heimili á Akureyri.
Frístundaráð fagnar leiðbeinandi reglum um skjánotkun barna og ungmenna og þakkar öllum sem komu að verkefninu fyrir gott starf.