Samfélags- og mannréttindaráð

193. fundur 13. desember 2016 kl. 11:00 - 12:51 RUB 23
Nefndarmenn
  • Silja Dögg Baldursdóttir formaður
  • Siguróli Magni Sigurðsson
  • Dagbjört Elín Pálsdóttir
  • Heiðrún Ósk Ólafsdóttir
  • Vilberg Helgason
Starfsmenn
  • Alfa Aradóttir forstöðumaður æskulýðs- og forvarnamála
  • Bergljót Jónasdóttir forstöðumaður tómstundamála
  • Katrín Björg Ríkarðsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra
  • Ellert Örn Erlingsson framkvæmdastjóri samfélags- og mannréttindadeildar ritaði fundargerð
Fundargerð ritaði: Ellert Örn Erlingsson ellert@akureyri.is
Dagskrá
Þetta er seinasti fundur samfélags- og mannréttindaráðs. Nýtt heiti samkvæmt samþykkt bæjarstjórnar frá 3. janúar 2017 verður frístundaráð.

Heiðrún Ósk Ólafsdóttir D-lista mætti í forföllum Bergþóru Þórhallsdóttur.

Aðal- og varaáheyrnarfulltrúi Æ-lista boðuðu forföll.

1.Dagþjónusta og tómstundastarf í Víðilundi og Bugðusíðu - ábendingar 2016

Málsnúmer 2016100104Vakta málsnúmer

Bergljót Jónasdóttir forstöðumaður tómstundamála gerði grein fyrir fundi með Félagi eldri borgara í framhaldi af bókun bæjarráðs sem var tekin fyrir á fundi samfélags- og mannréttindaráðs 15. nóvember 2016.
Samfélags- og mannréttindaráð ítrekar bókun sína frá fundinum 15. nóvember sl. um að ráðið hafi lagt áherslu á að standa vörð um þjónustu við eldri borgara samanber nýlegan samning við Félag eldri borgara. Rétt er þó að vekja athygli á því að gerðar voru skipulagsbreytingar vegna kröfu um hagræðingu í rekstri tómstundaúrræða sbr. bókun ráðsins á fundi 20. september sl. en samfélags- og mannréttindaráði var gert skv. tillögum aðgerðahóps um framtíðarrekstur Akureyrarbæjar að hagræða fjárhagslega sem einungis var framkvæmanlegt með því að hagræða í starfsmannahaldi. Það mun þó ekki þýða skerðingu á tómstundastarfi eldri borgara.

Samkvæmt upplýsingum af fundi forstöðumanns tómstundamála og stjórnar Félags eldri borgara þá er það mat stjórnar Félags eldri borgara að ekki sé um skerðingu á þjónustu að ræða á tómstundastarfi eldri borgara.

Þá vill ráðið benda á að umsjón dagþjónustu er á höndum Öldrunarheimila Akureyrar. Samfélags- og mannréttindaráð óskar því eftir að velferðarráð fjalli um ábendinguna sem fram kom í viðtalstíma bæjarfulltrúa.

2.Vatnsleikfimitímar fyrir aldraða í Glerárlaug

Málsnúmer 2016040025Vakta málsnúmer

Erindi þar sem óskað er eftir aðkomu Akureyrarbæjar að vatnsleikfimitímum í Glerárlaug fyrir eldri borgara.

Erindið barst líka bæjarráði í gegnum viðtalstíma bæjarfulltrúa sem vísaði erindinu til samfélags- og mannréttindaráðs á fundi sínum þann 8. desember 2016.
Erindið hefur verið í vinnslu hjá forstöðumanni tómstundamála sem mun vinna málið áfram með forstöðumanni Glerársundlaugar.
Dagbjört Elín Pálsdóttir S-lista mætti til fundar kl. 11:48.

3.Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna - innleiðing

Málsnúmer 2014030109Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað dagsett 25. nóvember 2016 frá Ölfu Aradóttur forstöðumanni forvarna- og æskulýðsmála varðandi stuðning við vinnu stýrihóps um innleiðingu á Barnasáttmálanum.
Samfélags- og mannréttindaráð felur forstöðumanni forvarna- og æskulýðsmála að vinna málið áfram og leita eftir frekara samstarfi við önnur svið bæjarins.

4.Fjárhagsáætlun 2017 - samfélags- og mannréttindadeild

Málsnúmer 2016060048Vakta málsnúmer

Umræður um fjárhagsáætlun.

5.Netnotkun/skjánotkun barna og unglinga

Málsnúmer 2015020146Vakta málsnúmer

Framkvæmdastjóri kynnti og gerði grein fyrir stöðu verkefnisins um útgáfu á efni varðandi skjánotkun barna og unglinga.
Samfélags- og mannréttindaráð samþykkir útgáfu efnisins og þakkar vinnuhópnum fyrir vel unnin störf og fagnar komandi útgáfu á efni um skjánotkun barna sem verður borið út á hvert heimili á Akureyri á nýju ári.

6.Aðalskipulag Akureyrar 2018-2030

Málsnúmer 2015110092Vakta málsnúmer

Skipulagsnefnd hefur óskað eftir umsögn um tillögur skipulagsstjóra að Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030. Seinni umræða.
Samfélags- og mannréttindaráð fagnar nýju aðalskipulagi og felur framkvæmdastjóra að koma athugasemdum ráðsins á framfæri til skipulagsstjóra.

7.Stjórnsýslubreytingar 2016

Málsnúmer 2016090161Vakta málsnúmer

Stjórnsýslubreytingar lagðar fram til kynningar.
Heiðrún Ósk Ólafsdóttir D-lista bókaði eftirfarandi:

Í samþykkt um stjórn og fundarsköp Akureyrarkaupstaðar sem samþykkt var í bæjarstjórn í seinna sinn 17. mars 2015, segir í 50. gr. um ráðningu í æðstu stjórnunarstöður: „Bæjarstjóri, í umboði bæjarstjórnar og að fenginni umsögn viðkomandi fagnefnda, ræður embættismenn sem heyra beint undir hann í skipuriti svo og framkvæmdastjóra fyrirtækja með sjálfstæðan fjárhag sem eru í eigu bæjarsjóðs og veitir þeim lausn frá starfi.“

Í ljósi þessa ákvæðis geri ég alvarlega athugasemd við þá ákvörðun bæjarstjóra að leita ekki eftir umsögn samfélags- og mannréttindaráðs við ráðningu í stöðu sviðsstjóra samfélagssviðs.Meirihluti fulltrúa í samfélags- og mannréttinda bókar:

Meiriluti samfélags- og mannréttindaráðs bendir á að bókuninni hefur þegar verið svarað á fundi bæjarráðs dagsett 8. desember 2016.

8.Samfélags- og mannréttindaráð - önnur mál

Málsnúmer 2016100135Vakta málsnúmer

Síðasti fundur samfélags- og mannréttindaráðs sem sameinast íþróttaráði í frístundaráð á nýju ári.
Samfélags- og mannréttindaráð þakkar farsælt og gott samstarf innan ráðsins sem og við starfsmenn deildarinnar.

Samfélags- og mannréttindaráð óskar nýju ráði velfarnaðar og öllum Akureyringum gleðilegrar hátíðar og farsældar á komandi ári

Fundi slitið - kl. 12:51.