Frístundaráð

44. fundur 21. nóvember 2018 kl. 11:30 - 14:00 Rósenborg - fundarsalur 3. hæð
Nefndarmenn
  • Hildur Betty Kristjánsdóttir formaður
  • Arnar Þór Jóhannesson
  • Sunna Hlín Jóhannesdóttir
  • Berglind Ósk Guðmundsdóttir
  • Viðar Valdimarsson
  • Ásrún Ýr Gestsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Kristinn Jakob Reimarsson sviðsstjóri samfélagssviðs ritaði fundargerð
  • Ellert Örn Erlingsson deildarstjóri íþróttamála
  • Alfa Aradóttir deildarstjóri forvarna- og frístundadeildar
Fundargerð ritaði: Kristinn Jakob Reimarsson sviðsstjóri
Dagskrá

1.Umsókn um aukið framlag til ÍBA 2019

Málsnúmer 2018090242Vakta málsnúmer

Erindi ódagsett frá Geir Kristni Aðalsteinssyni formanni ÍBA þar sem ÍBA óskar eftir auknu framlagi frá frístundaráði fyrir rekstrarárið 2019.

Erindið var áður til umræðu á fundi frístundaráðs þann 19. september sl.

Helgi Bragason framkvæmdastjóri ÍBA sat fundinn undir þessum lið.
Frístundaráð getur ekki orðið við beiðni um aukið framlag til reksturs skrifstofu og mun framlag eingöngu hækka í samræmi við launavísitölu líkt og kemur fram í samningi.

Er varðar beiðni um aukið framlag vegna húsaleigu- og æfingastyrkja hjá 3ja aðila samþykkir frístundaráð að hækka framlagið í 5,2 milljón króna. Frístundaráð óskar eftir því við ÍBA að gerðar verði reglur um úthlutun fjármagns vegna húsaleigu hjá 3ja aðila.

Rekstrarstyrkir til aðildarfélaga verða að upphæð 7 milljónir króna.

Framlag í Afrekssjóð verður 7 milljónir króna.

Kvennastyrkir/jafnréttisstyrkir verða 2,8 milljónir króna.

Að auki samþykkir frístundaráð að setja 1,1 milljónir króna í greiningu og aðgerðaráætlun á þriggja kjarna félagastarfsemi á Akureyri.

2.Beiðni um innanhússaðstöðu fyrir hjólabretti, hlaupahjól og BMX hjól

Málsnúmer 2018110173Vakta málsnúmer

Erindi ódagsett frá hópi áhugafólks um bætta aðstöðu fyrir hjólabretti, hlaupahjól og BMX hjól.

Alfa Aradóttir deildarstjóri forvarna- og frístundadeildar og Helgi Bragason framkvæmdastjóri ÍBA sátu fundinn undir þessum lið.
Frístundaráð samþykkir að fela deildarstjóra íþróttamála, deildarstjóra forvarna- og frístundamála og framkvæmdastjóra ÍBA að hitta fulltrúa hópsins og kanna hvernig/hvort hægt er að koma til móts við hugmyndir eða óskir hans.

3.Félag eldri borgara á Akureyri - húsnæðismál

Málsnúmer 2018100452Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 26. október 2018 frá Hauki Halldórssyni formanni Félags eldri borgara á Akureyri þar sem óskað er eftir viðræðum við stjórnendur Akureyrarbæjar um húsnæðismál Félags eldri borgara á Akureyri.

Alfa Aradóttir deildarstjóri forvarna- og frístundadeildar sat fundinn undir þessum lið.
Frístundaráð samþykkir að fela sviðsstjóra samfélagssviðs og formanni frístundaráðs að eiga fund með fulltrúum EBAK og leggur til að fulltrúi frá umhverfis- og mannvirkjasviði verði einnig boðaður á fundinn.

4.Heilsuefling eldri borgara

Málsnúmer 2018100166Vakta málsnúmer

Á fundi öldungaráðs þann 9. október sl. voru lagðar fram eftirfarandi tillögur og samþykkt að vísa þeim til umfjöllunar í bæjarráði og frístundaráði.

- að farið verði markvisst í heilsueflingu eldri borgara á Akureyri.

- að frístundastyrkir verði greiddir til eldri borgara til eflingar á líkamlegri og andlegri færni þeirra. Tekið verði mið af stefnu Hafnarfjarðarbæjar í þessu samhengi.

- að ókeypis verði í sund fyrir eldri borgara í sundlaugar á Akureyri.

Alfa Aradóttir deildarstjóri forvarna- og frístundadeildar sat fundinn undir þessum lið.
Frístundaráð vekur athygli á því að í starfsáætlun ráðsins fyrir árið 2019 er eitt af verkefnum að fara í markvissar heilsueflandi aðgerðir.

Frístundaráð getur ekki orðið við beiðni um frístundakort eða að frítt verði í sund fyrir eldri borgara.

5.Beiðni um að gerð verði könnun á líðan, kjörum og viðhorfum eldri borgara m.a. til þjónustu bæjarins

Málsnúmer 2018110170Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 9. nóvember 2018 frá stjórn Félags eldri borgara á Akureyri sem telur mikilvægt að á árinu 2019 verði gerð vönduð og ýtarleg könnun á líðan, kjörum og viðhorfum eldri borgara á Akureyri, m.a. til þjónustu bæjarins, þjónustu ríkisins og annarra aðila sem fara með málefni þessa aldurshóps. Þá þarf könnunin ekki síst að upplýsa viðhorf eldri borgara til þess félags- og tómstundastarfs sem stendur þeim til boða í bæjarfélaginu í dag.

Alfa Aradóttir deildarstjóri forvarna- og frístundadeildar sat fundinn undir þessum lið.
Frístundaráð vísar erindinu til bæjarráðs.

6.Jafnréttismál - staða

Málsnúmer 2018110029Vakta málsnúmer

Lagt fram yfirlit yfir stöðu jafnréttismála út frá Jafnréttisstefnu Akureyrarbæjar.
Frístundaráð samþykkir að fela sviðsstjóra að koma með tillögur að vinnufyrirkomulagi við gerð nýrrar jafnréttisstefnu sem mun hefjast á árinu 2019.



Berglind Ósk Guðmundsdóttir D-lista, Ásrún Ýr Gestsdóttir V-lista og Viðar Valdimarsson M-lista lögðu fram eftirfarandi bókun:

Mikil vonbrigði að eftirfylgni með Jafnréttisstefnu Akureyrarbæjar sé jafn lítil og raun ber vitni. Frístundaráð þarf að beita sér fyrir því að hér verði jafnréttismarkmiðum fylgt, að jafnréttisstefnan sé lifandi og að ráðið leiti ávallt leiða til að auka jafnrétti í þeim málum sem eru til umfjöllunar hverju sinni.

7.Jafnréttisstefna - skipan þróunarleiðtoga

Málsnúmer 2018110171Vakta málsnúmer

Eitt af verkefnum Jafnréttisstefnu Akureyrarbæjar er að skipaðir verði þróunarleiðtogar á hverju sviði bæjarins og eins innan ráða og stjórna. Lögð fram tillaga um skipun þróunarleiðtoga, tilgangur, hlutverk og helstu verkefni.
Frístundaráð samþykkir að skipaðir verði þróunarfulltrúar í samræmi við það sem kemur fram í Jafnréttisstefnu Akureyrarbæjar og á framlögðu minnisblaði og felur sviðsstjóra að óska eftir tilnefningum slíkra leiðtoga frá hverju sviði og eins frá fastanefndum sveitarfélagsins.

8.Frístundaráð - rekstaryfirlit 2018

Málsnúmer 2018080089Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar 10 mánaða rekstraryfirlit þeirra málaflokka sem heyra undir frístundaráð.

9.Samfélagssvið - starfsmannamál

Málsnúmer 2018110172Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar samantekt á yfirvinnu í hlutfalli við dagvinnu á kostnaðarstöðum sem heyra undir frístundaráð.

Fundi slitið - kl. 14:00.