Bæjarráð

3440. fundur 04. desember 2014 kl. 08:00 - 11:33 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður
  • Logi Már Einarsson
  • Matthías Rögnvaldsson
  • Eva Hrund Einarsdóttir
  • Sóley Björk Stefánsdóttir
  • Margrét Kristín Helgadóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri
  • Heiða Karlsdóttir fundarritari
Dagskrá
Eva Hrund Einarsdóttir D-lista mætti í forföllum Gunnars Gíslasonar.

1.Raforkulög - frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum (kerfisáætlun, EES-reglur), 305. mál

Málsnúmer 2014080039Vakta málsnúmer

1. liður í fundargerð skipulagsnefndar dagsett 26. nóvember 2014:
Erindi dagsett 12. nóvember 2014 frá atvinnuveganefnd Alþingis þar sem óskað er eftir umsögn Akureyrarbæjar um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum (kerfisáætlun, EES-reglur), 305. mál, 2014.
Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 26. nóvember nk. Þingskjalið er hægt að sækja á vef Alþingis:
http://www.althingi.is/altext/144/s/0372.html

Skipulagsnefnd beinir því til bæjarráðs að vinna sameiginlega umsögn Akureyrarkaupstaðar um bæði frumvarp um breytingu á raforkulögum, 305. mál, og þingsályktunartillögu
um lagningu raflína, 321. mál.

Skipulagsnefnd leggur áherslu á að sú umsögn snúi að hvorum texta um sig og tekið verði á eftirfarandi þáttum:

Hvað varðar frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum nr. 65/2003 með síðari breytingum (kerfisáætlun), er mikilvægt að fram komi:

- Frumvarpið hefur tekið breytingum sem eru jákvæðar m.a. gagnvart hagsmunum og kostnaðarþátttöku sveitarfélaga (sbr. bókun nefndarinnar þann 27. ágúst 2014).

- Að mati skipulagsnefndar er staða sveitarfélaga í landinu gagnvart skipulagi flutningskerfa veikt með því að binda hendur þeirra í kerfisáætlun. Mikilvægt er að skilgreint verði ferli áfrýjunar á umsagnarferli og það sé tekið fram í lögunum eða skilgreint í reglugerð hvernig því verður háttað. Enginn sveiganleiki er fyrir hendi í núverandi drögum gagnvart sveitarfélögum varðandi samræmingu skipulagsáætlana vegna verkefna í staðfestri 10 ára kerfisáætlun. Það vekur upp spurningar um hversu réttlætanlegt það sé að gera sveitarstjórnir fortakslaust skyldugar til að taka upp þau verkefni sem tilgreind eru í kerfisáætlun.

- Skilgreina þarf betur í frumvarpinu samhengi kerfisáætlunar við aðra áætlanagerð, s.s. landskipulagsstefnu til að sveitarfélög geti mótað sér markvissari heildarstefnu í skipulagsmálum m.a. á flutningskerfum raforku og hafi þannig sterkari stöðu gagnvart kerfisáætlunargerð. T.d. má nefna að í lögum um samgönguáætlun er ekki að finna ákvæði um að sveitarfélög skuli samræma skipulagsáætlanir innan tiltekins árafjölda.

Hvað varðar tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína er óskað eftir að tekið verði á eftirfarandi þáttum:

- Skipulagsnefnd fagnar framkominni þingsályktunartillögu þar sem kynnt eru drög að stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Mikilvægt er að móta skýr viðmið um það hvar t.d. línur skuli fara í jörð og skulu hagsmunir annarra atvinnugreina, framtíð byggðaþróunar, gæði byggðar og flugöryggi skipta þar miklu.

- Skipulagsnefnd telur sérlega mikilvægt að áhersla sé lögð á kosti jarðstrengja innan og í nágrenni við skilgreind þéttbýlismörk. Skipulagsnefnd vill benda á að framtíð línulagna, sérstaklega í og við þéttbýli, í öðrum samanburðarlöndum er í jörðu. Vill skipulagsnefnd í því samhengi benda á sameiginlega tillögu Akureyrarbæjar og Eyjafjarðarsveitar um jarðstrengjaleið í gegnum þéttbýlið og Akureyrarflugvöll sem send var Landsneti þann 2. júlí 2014.
Akureyrarbær hefur fengið aukafrest til að skila inn umsögn til 8. desember nk.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að senda umsögn Akureyrarbæjar.

2.Lagning raflína - tillaga til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda, 321. mál

Málsnúmer 2014080113Vakta málsnúmer

2. liður í fundargerð skipulagsnefndar dagsett 26. nóvember 2014:
Erindi dagsett 12. nóvember 2014 frá atvinnuveganefnd Alþingis þar sem óskað er umsagnar um tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína, 321. mál. Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 26. nóvember nk. Þingskjalið er hægt að sækja á vef Alþingis:
http://www.althingi.is/altext/144/s/0392.html
Sjá bókun við 1. lið fundargerðarinnar.
Akureyrarbær hefur fengið aukafrest til að skila inn umsögn til 8. desember nk.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að senda umsögn Akureyrarbæjar.

3.Háskólinn á Akureyri - fjárlög 2015

Málsnúmer 2014120029Vakta málsnúmer

Lögð fram eftirfarandi tillaga að bókun:
Bæjarráð Akureyrar lýsir yfir áhyggjum sínum vegna fjárframlaga til Háskólans á Akureyri sem koma fram í samþykktum tillögum fyrir 2. umræðu til fjárlaga fyrir árið 2015.
Bæjarráð hvetur stjórnvöld til að leiðrétta og auka framlög til skólans í endanlegu fjárlagafrumvarpi næsta árs til samræmis við hlutfallslega stærð skólans í íslensku háskólasamfélagi. Háskólinn á Akureyri hefur sýnt mikla ráðdeild og farið í erfiðar aðgerðir til að bregðast við skertum fjárframlögum eftir efnahagshrunið. Það getur því ekki talist sanngjarnt að skólinn fái ekki framlag til að viðhalda núverandi starfi né tækfæri til uppbyggingar nú þegar unnt er að bæta við heildarfjármagn í háskólum landsins, eins og fram kemur í tillögum fyrir 2. umræðu um fjárlög 2015.

Bæjarráð samþykkir framlagða bókun.

4.Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar - 2015-2018

Málsnúmer 2014060172Vakta málsnúmer

Unnið að gerð fjárhagsáætlunar 2015-2018.
Dan Jens Brynjarsson fjármálastjóri og Jón Bragi Gunnarsson hagsýslustjóri sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarfulltrúarnir Ingibjörg Ólöf Isaksen B-lista, Gunnar Gíslason D-lista og Silja Dögg Baldursdóttir L-lista sátu fund bæjarráðs að hluta undir þessum lið.

5.Viðtalstímar bæjarfulltrúa - fundargerð

Málsnúmer 2014100184Vakta málsnúmer

Lögð fram fundargerð viðtalstíma bæjarfulltrúa dagsett 27. nóvember 2014. Fundargerðin er í 3 liðum.

Bæjarráð vísar 1. lið a), b) og c) til framkvæmdadeildar, 1. lið d) til Akureyrarstofu og 2. og 3. lið til skipulagsdeildar.

6.Snorraverkefnið - styrkbeiðni 2015

Málsnúmer 2014110256Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 17. nóvember 2014 frá Ástrósu Signýjardóttur f.h. stjórnar Snorrasjóðs þar sem óskað er eftir stuðningi frá Akureyrarbæ við verkefnið árið 2015.

Bæjarráð samþykkir styrk að upphæð kr. 100.000 og að taka einn þátttakanda í starfsþjálfun. Færist af styrkveitingum bæjarráðs.

7.Heimildamynd um Snorraverkefnið - styrkbeiðni

Málsnúmer 2014120001Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 18. nóvember 2014 frá Ástu Sól Kristjánsdóttur f.h. Bergsólar þar sem óskað er eftir styrk að upphæð kr. 150.000 til að standa straum af kostnaði vegna fjölföldunar og frekari dreifingar á myndinni The Wayfarers - Seeking Identy sem er heimildamynd um Snorraverkefnið.

Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu.

8.Norðurgata og Eyrarvegur - úrbætur á gatnamótum - undirskriftarlisti

Málsnúmer 2013100143Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar undirskriftarlisti sem afhentur var 28. nóvember 2014 með nöfnum 181 íbúa, þar sem farið er fram á úrbætur á gatnamótum Norðurgötu og Eyrarvegar.

9.Tillaga til þingsályktunar um kaup ríkisins á Grímstöðum á Fjöllum, 55. mál

Málsnúmer 2014110219Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi dagsett 24. nóvember 2014 frá nefndasviði Alþingis þar sem óskað er umsagnar um tillögu til þingsályktunar um kaup ríkisins á Grímstöðum á Fjöllum, 55. mál. Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 12. desember nk. á netfangið nefndasvid@althingi.is. Þingskjalið er hægt að sækja á vef Alþingis: http://www.althingi.is/altext/144/s/0055.html

10.Samband íslenskra sveitarfélaga - stefnumörkun fyrir árin 2014-2018

Málsnúmer 2014110225Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir árin 2014-2018.

Fundi slitið - kl. 11:33.