Bæjarráð

3795. fundur 26. janúar 2023 kl. 08:15 - 11:45 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Halla Björk Reynisdóttir formaður
  • Heimir Örn Árnason
  • Hlynur Jóhannsson
  • Hilda Jana Gísladóttir
  • Sunna Hlín Jóhannesdóttir
  • Jana Salóme I. Jósepsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri
  • Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður ritaði fundargerð
Fundargerð ritaði: Jón Þór Kristjánsson forstöðumaður þjónustu og þróunar
Dagskrá

1.Verkfallslisti - auglýsing janúar 2023

Málsnúmer 2022091228Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga að breytingu á lista yfir starfsmenn sveitarfélagsins sem ekki hafa verkfallsheimild skv. lögum um opinbera starfsmenn.

Halla Margrét Tryggvadóttir sviðsstjóri mannauðssviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir breytinguna.

2.Vistorka - hagkvæmnimat fyrir líforkuver

Málsnúmer 2022120962Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar lokaútgáfa frumhagkvæmnimats líforkuvers í Eyjafirði sem unnin var af SSNE og Vistorku og ráðgjöfum fyrir hönd sveitarfélaganna innan SSNE. Elías Pétursson verkefnastjóri hjá SSNE kynnti frumhagkvæmnimatið ásamt Kristínu Helgu Schiöth verkefnastjóra hjá SSNE og Kjartani Ingvarssyni lögfræðingi hjá umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytinu.

Guðríður Friðriksdóttir sviðsstjóri umhverfis- og mannvirkjasviðs sat fundinn undir þessum lið og Rut Jónsdóttir forstöðumaður umhverfis- og sorpmála sat fundinn gegnum fjarfundarbúnað.

Þá sátu bæjarfulltrúarnir Hulda Elma Eysteinsdóttir, Lára Halldóra Eiríksdóttir og Andri Teitsson fundinn í gegnum fjarfundarbúnað.
Bæjarráð þakkar fyrir góða kynningu og felur bæjarstjóra að fylgja verkefninu eftir, en næstu skref eru að gera ítarlegri greiningu á rekstrarforsendum og mögulegu rekstrarfyrirkomulagi. Bæjarráð telur jafnframt mikilvægt að ríkið og sveitarfélögin komi sameiginlega að frekari skoðun og lýsir yfir vilja til þátttöku.

3.Gatnagerðargjöld 2023

Málsnúmer 2023010256Vakta málsnúmer

Liður 6 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 10. janúar 2023:

Lagt fram minnisblað um samanburð á gjaldskrá fyrir gatnagerðargjöld í þéttbýlissveitarfélögum.

Skipulagsráð leggur til við bæjarráð að breyting verði gerð á gjaldskrá gatnagerðargjalda þannig að gjald fyrir fjölbýlishús verði það sama og fyrir önnur íbúðarhús eða 15% í stað 12,5%. Þá er einnig lagt til að á móti lækki gjald fyrir bílakjallara fjölbýlishúsa úr 5,0% í 3,75%. Forsendur þessara breytinga eru þær að uppbygging og rekstur gatnakerfis færist nær því að standa undir sér. Á sama tíma er gert ráð fyrir lækkun á gjaldi fyrir bílakjallara til að hvetja til byggingar þeirra og betri landnýtingar.

Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir með fjórum atkvæðum tillögu skipulagsráðs og vísar henni til umræðu og afreiðslu í bæjarstjórn. Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista situr hjá.

4.Hjúkrunarheimili - nýbygging

Málsnúmer 2023011165Vakta málsnúmer

Umræða um byggingu nýs hjúkrunarheimilis við Lögmannshlíð og stækkun þess frá því sem áður hafði verið samið um í samræmi við breytingar á skipulagi svæðisins.

Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir að nýtt hjúkrunarheimili við Lögmannshlíð verði stækkað úr 60 rýmum í 80 rými í samræmi við breytingar á skipulagi svæðisins og óskar eftir því við heilbrigðisráðuneytið að gerður verði viðauki við fyrri samning um bygginguna til samræmis við stækkunina.

5.Týsnes 18-20 - umsókn um breytingu á deiliskipulagi

Málsnúmer 2023010169Vakta málsnúmer

Liður 11 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 10. janúar 2023:

Lögð fram tillaga Mannvits verkfræðistofu að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðir nr. 18 og 20 við Týsnes.

Breytingin felur m.a. í sér eftirfarandi:

- Lóðirnar verða sameinaðar í eina lóð sem verður 19.138 m².

- Byggingarreitir verða sameinaðir í einn reit.

- Hámarks mænishæð byggingar verður 13,5 m.

Meðfylgjandi eru deiliskipulagsuppdráttur og greinargerð.

Skipulagsráð samþykkir að gerð verði breyting á deiliskipulagi til samræmis við erindið. Er breytingin óveruleg skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og skal hún grenndarkynnt skv. 44. gr. laganna. Grenndarkynnt skal fyrir lóðarhöfum Týsness 22 og 24. Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021. Ákvörðun um forgang við úthlutun lóðar nr. 16 við Týsnes er vísað til bæjarráðs.

Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi sat fund bæjarráðs undir þessum lið.

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri bar upp vanhæfi við umræðu og afgreiðslu málsins og var það samþykkt. Vék hún af fundi undir umræðum og við afgreiðslu máls.

Bæjarráð leggur til við skipulagsráð að beðið verði með úthlutun lóðar númer 16 í allt að þrjú ár þar sem nægar lóðir til atvinnuuppbyggingar eru í boði. Komi til þess að fyrirsjáanlegur skortur verði á sambærilegum lóðum á þeim tíma, þá verði ákvörðunin endurskoðuð.

6.Barnamenningarhátíð á Akureyri

Málsnúmer 2022011592Vakta málsnúmer

Lagðar fram til umfjöllunar og afgreiðslu tillögur fagráðs Barnamenningarhátíðar um styrkveitingar til viðburða á hátíðinni.

Almar Alfreðsson verkefnastjóri menningarmála sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir framlagðar tillögur fagráðs um styrkveitingar til viðburða á Barnamenningarhátíð.

7.Gjaldskrá dagforeldra og niðurgreiðslur til foreldra 2022

Málsnúmer 2022121023Vakta málsnúmer

Liður 1 í fundargerð fræðslu- og lýðheilsuráðs dagsettri 16. janúar 2023:

Gjaldskrá dagforeldra var breytt 1. apríl sl. vegna greiðslu hagvaxtarauka.

Í ákvæðum núgildandi kjarasamnings Sambands íslenskra sveitarfélaga við Starfsgreinasamband Íslands, þar á meðal við Einingu-Iðju var samningurinn framlengdur til 30. september 2023. Í þeim samningi er eftirfarandi ákvæði:

"Þegar endurnýjaður kjarasamningur á almennum vinnumarkaði liggur fyrir á árinu 2022, skal launatafla 5 taka sömu niðurstöðu frá 1. janúar 2023 til 30. september 2023 samkvæmt samningsniðurstöðu þeirra sem fá greidd laun samkvæmt kauptöxtum á almennum vinnumarkaði."

Fyrir vikið þarf að endurskoða gjaldskrá dagforeldra og niðurgreiðslur til foreldra.

Áheyrnarfulltrúar: Andrea Ösp Andradóttir fulltrúi foreldra leikskólabarna, Björg Sigurvinsdóttir fulltrúi leikskólastjóra, Daníel Sigurður Eðvaldsson fulltrúi foreldra grunnskólabarna, Ingi Jóhann Friðjónsson fulltrúi leikskólakennara og Telma Ósk Þórhallsdóttir fulltrúi ungmennaráðs.

Fræðslu- og lýðheilsuráð samþykkir fyrirliggjandi breytingu á gjaldskrá dagforeldra og niðurgreiðslum til foreldra.

Kristín Jóhannesdóttir sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir með fjórum atkvæðum fyrirliggjandi breytingu á gjaldskrá dagforeldra og niðurgreiðslum til foreldra.

Hilda Jana Gísladóttir S-lista greiðir atkvæði gegn breytingunni og leggur fram svofellda bókun ásamt Jönu Salóme I. Jósepsdóttur V-lista:

"Kostnaður vegna vistunar og fæðis barna hjá dagforeldrum er mjög hár, líklega um 80 þúsund krónur á mánuði. Sveitarfélagið hefði átt að taka á sig umrædda hækkun frekar en að velta henni að hluta yfir á foreldra og forráðamenn".

8.Reglur um heimgreiðslur til foreldra í Akureyrarbæ

Málsnúmer 2022100188Vakta málsnúmer

Liður 2 í fundargerð fræðslu- og lýðheilsuráðs dagsettri 16. janúar 2023:

Lögð fyrir til samþykktar drög að reglum um heimgreiðslur.

Áheyrnarfulltrúar: Andrea Ösp Andradóttir fulltrúi foreldra leikskólabarna, Björg Sigurvinsdóttir fulltrúi leikskólastjóra, Daníel Sigurður Eðvaldsson fulltrúi foreldra grunnskólabarna, Ingi Jóhann Friðjónsson fulltrúi leikskólakennara og Telma Ósk Þórhallsdóttir fulltrúi ungmennaráðs.

Fræðslu- og lýðheilsuráð samþykkir fyrirliggjandi reglur um heimgreiðslur með fimm atkvæðum.

Ásrún Ýr Gestsdóttir V-lista og Ísak Már Jóhannesson S-lista óska að bóka:

Þar sem þær reglur um heimgreiðslur sem hér eru lagðar fram til samþykktar eru í meginatriðum óbreyttar frá drögum sem kynnt voru á fundi þann 21. nóvember sl. vilja undirrituð ítreka bókanir sem gerðar voru við málið á því stigi. Ef koma skal á heimgreiðslum þyrfti það að vera tímabundin lausn meðan byggð verða upp leikskólapláss til að mæta þeirri vöntun sem er og verður til staðar og þá telja undirrituð nauðsynlegt að tekjutengja styrkina svo þeir nýtist aðeins þeim sem á þurfa að halda. Reglurnar eru kynntar sem tilraunaverkefni og því er mikilvægt að það liggi fyrir hvernig árangur tilraunarinnar verður metinn áður en hún hefst.

Kristín Jóhannesdóttir sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð frestar afgreiðslu og felur Kristínu Jóhannesdóttur sviðsstjóra fræðslu- og lýðheilsusviðs að vinna minnisblað um reglurnar og leggja fyrir næsta fund bæjarráðs.

9.Hafnasamlag Norðurlands 2023

Málsnúmer 2023010868Vakta málsnúmer

Umræða um Hafnasamlag Norðurlands og Dalvíkurbyggð. Fyrir liggur að sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar hefur samþykkt að óska eftir viðræðum við Hafnasamlag Norðurlands um inngöngu Hafnasjóðs Dalvíkurbyggðar í samlagið.
Bæjarráð tekur jákvætt í erindið og leggur til við stjórn Hafnasamlags Norðurlands að láta meta hagkvæmni sameiningar.

10.Hverfisráð Hríseyjar - fundargerðir 2023

Málsnúmer 2023010813Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 159. fundar hverfisráðs Hríseyjar dagsett 12. janúar 2023.
Bæjarráð tekur undir áhyggjur hverfisráðs varðandi almenningssamgöngur á starfssvæði SSNE og leggur áherslu á að við endurskoðun á akstursáætlun og tímatöflum verði horft til þess að tengja betur Hrísey og Grímsey við leiðakerfið.

Fundi slitið - kl. 11:45.