Bæjarráð

3534. fundur 08. desember 2016 kl. 08:30 - 13:20 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður
  • Dagbjört Elín Pálsdóttir
  • Matthías Rögnvaldsson
  • Gunnar Gíslason
  • Preben Jón Pétursson
  • Sóley Björk Stefánsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri
  • Katrín Björg Ríkarðsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra ritaði fundargerð
Fundargerð ritaði: Dagný Magnea Harðardóttir skrifstofustjóri Ráðhúss
Dagskrá
Dagbjört Elín Pálsdóttir S-lista mætti í forföllum Sigríðar Huldar Jónsdóttur.

1.Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2017-2020

Málsnúmer 2016050137Vakta málsnúmer

Unnið að gerð fjárhagsáætlunar.

Dan Jens Brynjarsson fjármálastjóri og Jón Bragi Gunnarsson hagsýslustjóri sátu fundinn undir þessum lið.

Einnig sat Eva Hrund Einarsdóttir bæjarfulltrúi D-lista fundinn undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir að vísa fjárhagsáætlun 2017-2020 til bæjarstjórnar til síðari umræðu og afgreiðslu og lítur svo á að þar með hafi verið afgreidd erindi og tillögur um fjárveitingar sem borist hafa bæjarráði og vísað hefur verið til gerðar fjárhagsáætlunar.

Gunnar Gíslason D-lista sat hjá við afgreiðslu.

2.Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2017-2020 - gjaldskrár

Málsnúmer 2016050137Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga að gjaldskrám Akureyrarbæjar 2017.

Dan Jens Brynjarsson fjármálastjóri og Jón Bragi Gunnarsson hagsýslustjóri sátu fundinn undir þessum lið.

Einnig sat Eva Hrund Einarsdóttir bæjarfulltrúi D-lista fundinn undir þessum lið.
Gunnar Gíslason D-lista lagði fram tillögu um að hækkanir á gjaldskrám vegna aldraðra íbúa verði endurskoðaðar.


Preben Jón Pétursson Æ-lista lagði fram tillögu um að gjaldskrá Hlíðarfjalls verði breytt með þeim hætti að frítt verði í Hólbraut fyrir 17 ára og yngri og þeim kostnaði mætt með hækkun á lyftugjöldum í aðrar lyftur á svæðinu.


Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista óskar bókað:

Ég geri athugasemdir við hækkanir á heimaþjónustu bæði hvað varðar aðstoð við almenn heimilisstörf og heimsendan mat en báðir liðir hækka umfram almennar verðlagshækkanir. Báðir liðir hækkuðu einnig umfram almennar verðlagshækkanir á síðasta ári en hækkuðu í samræmi við almennar verðlagshækkanir árið 2014.


Meirihluti bæjarráðs samþykkir framlagða gjaldskrá en mun kalla eftir skýringu og leiðum til að takmarka hækkanir er snúa að auknum kostnaði á þjónustu til eldri borgara.

3.Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2016-2019 - viðauki

Málsnúmer 2015040196Vakta málsnúmer

Lagður fram viðauki nr. 5 vegna snjómoksturs og viðbótarframlags til Íþróttabandalags Akureyrar.

Dan Jens Brynjarsson fjármálastjóri og Jón Bragi Gunnarsson hagsýslustjóri sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir framlagðan viðauka og vísar honum til staðfestingar í bæjarstjórn.

4.Skíðalyfta í Hlíðarfjall

Málsnúmer 2016030107Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað frá Dan Jens Bynjarssyni fjármálastjóra og Ellert Erni Erlingssyni forstöðumanni íþróttamála.

Dan Jens Brynjarsson fjármálastjóri sat fundinn undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir að fela fjármálastjóra, forstöðumanni íþróttamála og forstöðumanni skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli að vinna að frekari útfærslu á kostnaðaráætlun og vinna drög að samningi við Vini Hlíðarfjalls um kaup og uppsetningu á lyftu og leggja fyrir fund bæjarráðs 12. janúar 2017.

5.Þekkingarvörður ehf

Málsnúmer 2016110115Vakta málsnúmer

Sigmundur Ófeigsson framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og Þorsteinn Gunnarsson fyrrverandi rektor Háskólans á Akureyri mættu á fund bæjarráðs og fóru yfir málefni félagsins Þekkingarvörður ehf. Félaginu er ætlað að vera bakhjarl fyrir fræðimenn við Háskólann á Akureyri sem stunda rannsóknir eða þekkingaröflun við ýmis þróunarverkefni eða við frumkvöðlavinnu.

Dan Jens Brynjarsson fjármálastjóri sat fundinn undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir fjárhagslega endurskipulagningu félagsins og að taka þátt í hlutafjáraukningu fyrir allt að kr. 500.000.


Preben Jón Pétursson Æ-lista greiddi atkvæði gegn ofangreindri bókun bæjarráðs.

Ég tel að Akureyrarbær eigi ekki að auka við hlutafé í félögum sem ekki hefur nein skilgreind verkefni í gangi, heldur eigi að styðja við og hlúa að þeim lögskyldu verkefnum sem bæjarfélagið hefur. Ef veita á styrki þá skuli það gert til skilgreindra verkefna.

6.Raforkuflutningar til Akureyrar

Málsnúmer 2016110149Vakta málsnúmer

Umræða um stöðuna á raforkuflutningum til Akureyrar.

Sigmundur Ófeigsson framkvæmdastjóri AFE mætti á fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð þakkar Sigmundi fyrir kynninguna og umræðuna.

7.Flokkun Eyjafjörður ehf - hluthafafundur 2016

Málsnúmer 2016120033Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 2. desember 2016 frá Kristínu Halldórsdóttur stjórnarformanni Flokkunar Eyjafjörður ehf þar sem boðað er til hluthafafundar 9. desember kl. 13:00 á Hótel Kea. Efni fundarins er yfirfærsla á verkefnum Flokkunar til Moltu.
Bæjarráð samþykkir yfirfærslu verkefna Flokkunar til Moltu og skipar Dagbjörtu Elínu Pálsdóttur sem fulltrúa Akureyrarbæjar á hluthafafundi Flokkunar.

8.Stjórnsýslubreytingar 2016

Málsnúmer 2016090161Vakta málsnúmer

Gunnar Gíslason D-lista óskaði eftir umræðu um stjórnsýslubreytingar.
Gunnar Gíslason lagði fram eftirfarandi bókun:

Í samþykkt um stjórn og fundarsköp Akureyrarkaupstaðar sem samþykkt var í bæjarstjórn í seinna sinn 17. mars 2015, segir í 50. gr. um ráðningu í æðstu stjórnunarstöður: „Bæjarstjóri, í umboði bæjarstjórnar og að fenginni umsögn viðkomandi fagnefnda, ræður embættismenn sem heyra beint undir hann í skipuriti svo og framkvæmdastjóra fyrirtækja með sjálfstæðan fjárhag sem eru í eigu bæjarsjóðs og veitir þeim lausn frá starfi.“

Í ljósi þessa ákvæðis geri ég alvarlega athugasemd við að bæjarstjóri lagði ákvörðun sína um ráðningu í stöður sviðsstjóra fjársýslusviðs og stjórnsýslusviðs, aðeins fram til kynningar en ekki umsagnar í bæjarráði eins og kveðið er á um í samþykkt um stjórn og fundarsköp Akureyrarkaupstaðar. Þá geri ég einnig alvarlega athugasemd við þá ákvörðun bæjarstjóra að leita ekki eftir umsögn stjórnar Fasteigna Akureyrarbæjar og framkvæmdaráðs við ráðningu í stöðu sviðsstjóra umhverfis- og mannvirkjasviðs og stjórnar Akureyrarstofu, íþróttaráðs og samfélags- og mannréttindaráðs við ráðningu í stöðu sviðsstjóra samfélagssviðs. Þessar ákvarðanir bæjarstjóra ganga gegn reglum og samþykktum Akureyrarkaupstaðar, því núverandi nefndaskipan segir til um það hvaða nefndir eru fagnefndir þar til aðrar fagnefndir hafa verið skipaðar í þeirra stað. Þá er rétt að benda á það að þótt bæjarráð samþykki að fela bæjarstjóra að ganga frá ráðningum í ákveðnar stöður, getur það ferli aldrei farið gegn gildandi reglum sem bæjarstjórn hefur samþykkt.


Bæjarstjóri lagði fram eftirfarandi bókun og greinargerð sem unnin var í samráði við lögmann. Bæjarstjóri lagði einnig fram yfirlit yfir feril stjórnsýslubreytinga.

Samkvæmt 50. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarkaupstaðar ræður bæjarstjóri í umboði bæjarstjórnar embættismenn sem heyra beint undir hann að fenginni umsögn viðkomandi nefnda. Með þeim breytingum sem samþykktar hafa verið á stjórnkerfi bæjarins, og unnið er að, er horfið frá eldra skipulagi. Full samstaða var um, að fela bæjarráði, sem sérstakri stjórnsýslunefnd, og bæjarstjóra að innleiða breytingarnar. Þegar þetta er haft í huga og þær breytingar sem koma til framkvæmda á nefndaskipan bæjarins 1. janúar nk. er ljóst að nefnd fyrirmæli samþykkta Akureyrarkaupstaðar eiga eins og hér stendur á ekki við og takmarka því ekki vald bæjarstjóra til þess að ráða umrædda stjórnendur. Bæjarráð fól bæjarstjóra og fulltrúum bæjarráðs að auglýsa hinar nýju stöður sviðsstjóra og ganga frá ráðningum. Fullkomið samráð var haft við fulltrúa bæjarráðs frá minni- og meirihluta sem skipaðir voru í ráðningarferlið. Bæjarráð hefur samþykkt samhljóða reglur um réttindi, skyldur og launakjör æðstu stjórnenda Akureyrarbæjar þar sem fram kemur í viðauka hvaða störf er um að ræða. Bæjarráð sem stjórnsýslunefnd og bæjarstjórn bera fulla ábyrgð á stjórnsýslubreytingunum og ráðningarferlinu. Fullkomin samstaða var innan bæjarráðs og þar með meðal oddvita bæjarstjórnar um stjórnsýslubreytingarnar og ákvörðun um ráðningarferlið. Bæjarstjóri vann málið í samræmi við það.

9.Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga - fundargerðir 2016

Málsnúmer 2016010056Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 844. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga dagsett 25. nóvember 2016. Fundargerðina má finna á vefslóðinni: http://www.samband.is/um-okkur/fundargerdir-stjornar/searchmeetings.aspx

10.Viðtalstímar bæjarfulltrúa fundargerðir veturinn 2016-2017

Málsnúmer 2016100117Vakta málsnúmer

Lögð fram fundargerð viðtalstíma bæjarfulltrúa dagsett 24. nóvember 2016.
Bæjarráð vísar 1. lið til Fasteigna Akureyrarbæjar, 2., 3., 6., 7., 8. og 9. lið til framkvæmdadeildar, 4. liður lagður fram til kynningar í bæjarráði, 5. lið er vísað til Akureyrarstofu, 10. lið til skóladeildar og 11. lið til samfélags- og mannréttindadeildar.

Fundi slitið - kl. 13:20.