Stjórn Akureyrarstofu

98. fundur 19. maí 2011 kl. 17:00 - 19:10 Fundarherbergi Akureyrarstofu í menningarhúsinu Hofi
Nefndarmenn
  • Halla Björk Reynisdóttir formaður
  • Sigmundur Einar Ófeigsson
  • Þórarinn Stefánsson
  • Guðrún Þórsdóttir
  • Helena Þuríður Karlsdóttir
Starfsmenn
  • Þórgnýr Dýrfjörð fundarritari
Dagskrá

1.Vorkoma stjórnar Akureyrarstofu 2011

Málsnúmer 2011040138Vakta málsnúmer

Upplýst um viðurkenningar og starfslaun listamanna sem tilkynnt var um á Vorkomu stjórnar Akureyrarstofu þann 12. maí sl.

Stjórn Akureyrarstofu tók ákvörðun um eftirfarandi viðurkenningar á fundi sínum þann 3. maí 2011:

Grasrót - Iðngarðar hljóti Nýsköpunarverðlaun Akureyrar, Skíðaþjónustan og Viðar Garðarsson hljóti Athafnverðlaunin Akureyrar, Þingvallastræti 2 og Hafnarstræti 88 hljóti viðurkenningu Húsverndarsjóðs Akureyrar, Haukur Tryggvason, Jón Hlöðver Áskelsson og Helena Eyjólfsdóttir hljóti heiðursviðurkenningar Menningarsjóðs og Eyþór Ingi Jónsson tónlistarmaður hljóti starfslaun listamanna til 6 mánaða.

Jafnframt er ein heiðursviðurkenning Menningarsjóðs tileinkuð minningu Óla G. Jóhannssonar myndlistarmanns.

2.Heimasíðan www.akureyri.is - ritstjórn

Málsnúmer 2011050023Vakta málsnúmer

Tekin fyrir fyrirspurn frá Sóleyju Björk Stefánsdóttur fulltrúa V-lista um hverjir komi að endurskoðun á vef Akureyrarbæjar www.akureyri.is
Þórgnýr Dýrfjörð framkvæmdastjóri Akureyrarstofu upplýsti að ritstjórn skipuð starfsmönnum frá starfsmannaþjónustu, búsetudeild og Amtsbókasafni hefur verkefnið með höndum ásamt verkefnisstjóra markaðs- og kynningarmála á Akureyrarstofu. Kostnaður við heimasíðurnar www.akureyri.is og www.visitakureyri.is á árinu 2010 var um 2,4 mkr. en þar er um að ræða aðkeypta þjónustu en ekki vinnu starfsmanna. Inni í tölunni eru kaup á vinnu vegna nýs viðburðadagatals sem gera kostnaðinn hærri en í meðalári.

3.Endurskoðun menningarstefnu Akureyrarbæjar 2011

Málsnúmer 2011020012Vakta málsnúmer

Farið yfir stöðuna á vinnunni við endurskoðun á menningarstefnunni og hvernig vinna hópa hefur gengið. Eftirtaldir hópar eru að störfum og meðlimir þeirra voru skipaðir af eftirfarandi félögum og stofnunum:
Ritlistarhópur: Amtsbókasafnið, framhaldsskólarnir og starfandi rithöfundur í bænum.
Sjónlistarhópur: Listasafnið á Akureyri, Myndlistarfélagið á Akureyri og Arkitektafélagið.
Tónlistarhópur: Tónlistarskólinn á Akureyri, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Tónlistarfélagið og Græni Hatturinn.
Sviðslistarhópur: Leikfélag Akureyrar, Menningarhúsið Hof og Point Dansstudíó.
Menningararfur (söfn og saga: Minjasafnið á Akureyri, Safnaklasinn í Eyjafirði og Héraðsskjalasafnið.
Jafnframt voru skipaðir hópstjórar úr stjórn Akureyrarstofu fyrir hvern hóp og hópunum heimilað að leita til þeirra aðila sem þeir telja nauðsynlegt vinnunnar vegna.

Fram kom að vinnan gengur vel og hóparnir gera ráð fyrir því að skila af sér tillögum um mánaðamótin maí-júní. Ákveðið hefur verið að flytja opinn fund um niðurstöðurnar fram í september og hefja vinnuna á honum eftir sumarfrí .

4.Ný löggjöf um stjórn fiskveiða á Íslandi 2011

Málsnúmer 2011050103Vakta málsnúmer

Lagafrumvarp um stjórn fiskveiða hefur verið lagt fram á Alþingi.
Sævar Pétursson verkefnisstjóri atvinnumála sat fundinn undir þessum lið.

Stjórn Akureyrarstofu felur framkvæmdastjóra og verkefnisstjóra að fylgjast með þróun þessa máls og afla allra mögulegra upplýsinga um áhrif breytinga á fiskveiðilöggjöfinni fyrir sjávarútveginn og þar með Eyjafjörð. Stjórnin óskar eftir kynningu á frumvarpinu og svo fljótt sem auðið er hlutlausum upplýsingum um efnahagslegar afleiðingar þess.

5.Atvinnuátaksverkefni Akureyrarbæjar og Vinnumálastofnunar 2011

Málsnúmer 2011010068Vakta málsnúmer

Lagt fram yfirlit um átaksverkefni vegna atvinnuleysis á árinu 2011 og farið yfir framkvæmd þeirra. Jafnframt kynntar nýjustu tölur um atvinnuleysi á Akureyri og Norðurlandi eystra. Fram kom að dregið hefur úr atvinnuleysi og var það 5,8% í apríl sem er um 1,8% minna en í sama mánuði í fyrra. Búist er við að atvinnuleysi dragist enn frekar saman í sumar en aukist á ný með haustinu.
Sævar Pétursson verkefnisstjóri atvinnumála sat fundinn undir þessum lið.

Stjórn Akureyrarstofu fagnar því að náðst hefur árangur í að draga úr atvinnuleysi og felur framkvæmdastjóra og verkefnisstjóra atvinnumála að undirbúa tillögur um verkefni sem Akureyrarstofa getur tekið þátt í með haustinu þegar búast má við að atvinnuleysi aukist á ný.

6.Akureyrarstofa - rekstraryfirlit 2011

Málsnúmer 2011040139Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar rekstraryfirlit fyrir fyrstu 4 mánuði ársins 2011.

Fundi slitið - kl. 19:10.