Skipulagsráð

419. fundur 12. mars 2024 kl. 07:30 - 09:00 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Halla Björk Reynisdóttir formaður
  • Þórhallur Jónsson
  • Helgi Sveinbjörn Jóhannsson
  • Sif Jóhannesar Ástudóttir
  • Jón Hjaltason
  • Sunna Hlín Jóhannesdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Sindri Kristjánsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Steinmar Heiðar Rögnvaldsson byggingarfulltrúi
  • Pétur Ingi Haraldsson fundarritari
Fundargerð ritaði: Pétur Ingi Haraldsson forstöðumaður skipulagsmála
Dagskrá

1.Lundargata 2-6 - deiliskipulagsbreyting

Málsnúmer 2023121791Vakta málsnúmer

Lagt fram að nýju erindi dagsett 27. desember 2023 þar sem að Brynjólfur Árnason f.h. Gleypis ehf. óskar eftir breytingum á deiliskipulagi Oddeyrar sem nær til lóða við Lundargötu 2-6. Er meðal annars gert ráð fyrir að lóð nr. 4 verði skipt upp á milli lóða 2 og 6 við Lundargötu og lóð 3-7 við Norðurgötu en lóðamörk á þessu svæði hafa verið óviss. Þá er einnig gert ráð fyrir að húsi á núverandi lóð 6b verði breytt nokkuð auk þess sem gert verði ráð fyrir bílskúr þar sunnan við og minni geymslu upp við lóð Strandgötu 23. Fyrir liggur umsögn Minjastofnunar dagsett 16. nóvember 2023 um tillögur að breytingum á húsi á lóð 4 og 6b.
Forsenda breytinga til samræmis við fyrirliggjandi gögn er að lóðinni Lundargötu 4 verði úthlutað til umsækjanda. Að mati ráðsins er erfitt, ef ekki ómögulegt, að úthluta lóðinni til annarra aðila vegna fyrirliggjandi lóðarsamninga sem gilda um Lundargötu 2 og Lundargötu 4b. Eru umsækjendur lóðarhafar þessara lóða.


Skipulagsráð leggur því til við bæjarstjórn að lóðinni Lundargötu 4 verði úthlutað til umsækjanda án auglýsingar þar sem greiðsla gatnagerðargjalds miðast við heimilað byggingarmagn auk þess sem lagt verður á byggingarréttargjald til samræmis við nýlegar samþykkir þar um, t.d. Gránufélagsgötu 22.


Skipulagsráð frestar ákvörðun varðandi breytingu á deiliskipulagi svæðisins þar til ákvörðun bæjarstjórnar liggur fyrir.

2.Hlíðarvellir 1 og 3 - umsókn um skipulagsbreytingu

Málsnúmer 2024030005Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 29. febrúar 2024 þar sem Fanney Hauksdóttir f.h. atNorth ehf. sækir um breytingu á deiliskipulagi sem felur í sér sameiningu lóðanna við Hlíðarvelli 1 og 3.
Skipulagsráð samþykkir breytinguna skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og er ekki talin þörf á grenndarkynningu skv. 44. gr. laganna.

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.

3.Hafnarstræti - umsókn um endurskoðun á akstursstefnum

Málsnúmer 2024021510Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 28. febrúar 2024 þar sem að Óli Þór Jónsson f.h. Vorhus ehf. óskar eftir því að breytingum á akstursstefnum í syðsta hluta Hafnarstrætis verði breytt til að koma til móts við rekstraraðila.
Að mati skipulagsráðs er ekki mögulegt að verða við ósk um breytingu á akstursstefnu í Hafnarstræti. Deiliskipulagi svæðisins var breytt fyrir tæpum þremur árum síðan og hefur uppbygging á svæðinu síðan þá miðað við breytta akstursstefnu. Það er ljóst að sú mikla uppbygging sem er á svæðinu, báðum megin Hafnarstrætis, þrengir að núverandi byggð að einhverju leyti en að mati ráðsins verður aðgengi að þjónustu áfram gott. Umferð getur bæði komið suður Hafnarstræti og einnig frá Glerárgötu um Austurbrú. Þá eru einnig fjölmörg bílastæði stutt frá á svæði sunnan Hafnarstrætis.

4.Hafnarstræti 80-82 - fyrirspurn um breytingu á deiliskipulagi

Málsnúmer 2023110413Vakta málsnúmer

Auglýsing á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Hafnarstræti 80-82 lauk 1. mars sl.

Á auglýsingartímanum bárust umsagnir frá Norðurorku og Minjastofnun Íslands auk þess að 2 athugasemdir bárust frá öðrum rekstraraðilum í syðsta hluta Hafnarstrætis. Er tillagan nú lögð fram með ósk um að gerð verði sú breyting frá auglýstri tillögu að heimilt verði að gera ráð fyrir allt að 518 fm kjallara undir Hafnarstræti 80 og 20 fm fyrir flóttastiga úr kjallara. Felur það í sér að nýtingarhlutfall hækkar úr 2,78 í 2,99. Jafnframt verða minniháttar breytingar á lóðamörkum sem felast í að lóð Hafnarstrætis 80-82 stækkar á kostnað Austurbrúar 10-18.
Að mati skipulagsráðs felur tillaga að breytingu á auglýstri tillögu ekki í sér grundvallarbreytingar þar sem eingöngu er verið að bæta við fermetrum í kjallara. Hefur sú breyting því ekki áhrif á útlit eða stærð mannvirkis séð frá öðrum hagsmunaaðilum en umsækjanda sjálfs. Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagsbreytingin verði samþykkt með tilgreindum breytingum og að tillaga að svörum við athugasemdum verði samþykkt.


Jón Hjaltason óháður og Sunna Hlín Jóhannesdótir B-lista óska bókað:

Mikil fjölgun gistirýma (hótel og íbúðir) er fyrirsjáanleg, ekki aðeins á umræddu svæði í kringum Hafnarstræti 80-82, heldur einnig víðar í miðbæ Akureyrar. Jafnramt stefnir þar í töluverða fækkun bílastæða. Ofanrituð hvetja því til að lagður verði grundvöllur að byggingu bílastæðahúss í þeim anda sem drepið er á í greinargerð um aðalskipulag Akureyrar 2018-2030 (dags. 28. feb. 2018, bls. 115-116).

5.Grímseyjargata 2 - fyrirspurn varðandi skipulagsmál

Málsnúmer 2024030171Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 4. mars 2024 þar sem að Einar Guðmundsson f.h. Búvís ehf. óskar eftir að fá að opna verslun í húsnæði við Grímseyjargötu 2 með vörur fyrir hesta og landbúnaðarvörur / áburð.
Skipulagsráð telur ekki að opnun verslunar í þeim flokki sem Lífland telst til sé á móti gildandi aðalskipulagi. Lífland selur mikið af vörum tengdum iðnaði þ.m.t. sláturiðnaði og kjötverkunarstöð Norðlenska er í næsta húsnæði austan Grímseyjargötu 2 og verður þetta því að teljast nokkuð heppileg staðsetning fyrir verslun Líflands.

6.Holtahverfi norður - auglýsing lóða

Málsnúmer 2021070119Vakta málsnúmer

Skipulagsfulltrúi fór yfir stöðu mála varðandi óúthlutaðar lóðir í Holtahverfi og lagði fram uppfærða tillögu að úthlutunarskilmálum fyrir rað- og parhúsalóðir við Þursaholt, Hulduholt og Álfaholt.
Skipulagsráð samþykkir tillögu að breytingum á fyrirliggjandi úthlutunarskilmálum og felur skipulagsfulltrúa að auglýsa lóðirnar án útboðs, þ.e. að skipulagsráð dragi úr umsóknum í kjölfar auglýsingar og að ekki verði miðað við útboð.

7.Hafnasamlag Norðurlands - beiðni um aðgangsstýringu

Málsnúmer 2024010493Vakta málsnúmer

Lagt fram að nýju erindi Péturs Ólafssonar dagsett 9. janúar 2024, f.h. Hafnasamlags Norðurlands bs., um tímabundið bann við lagningu bíla á ákveðnum svæðum við Oddeyrarbryggju og Tangabryggju og umferðarstýringu á Strandgötu austan Hjalteyrargötu. Þá er lagt til að bæjaryfirvöld fylgist vel með umferð og lagningu ökutækja á svæðinu í tengslum við komur skipa þar sem töluvert er um að ökutækjum sé lagt á gangstéttum á svæðinu. Þá er að lokum óskað eftir að Hafnasamlagið fái umboð til að stjórna og stýra hvernig þjónustu við ferðaþega verði háttað við afmarkað svæði sem liggur upp að hafnarsvæðinu.
Skipulagsráð samþykkir ekki tímabundin umráð Hafnasamlags Norðurlands yfir svæði merktu A í erindi.

Skipulagsráð samþykkir erindið að öðru leyti með fyrirvara um samþykki lögreglustjórans á Norðurlandi eystra og Vegagerðarinnar. Er skipulagsfulltrúa falið að auglýsa ákvörðun um tímabundið bann við akstri austur Strandgötu frá Hjalteyrargötu að Laufásgötu og tímabundið bann við lagningu ökutækja í Lögbirtingablaði.

8.Landnotkun svæðis sunnan Naustagötu - breyting á aðalskipulagi

Málsnúmer 2023121373Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi Akureyrarbæjar 2018-2030 sem nær til svæðis milli Naustagötu og Davíðshaga. Í breytingunni felst eftirfarandi:

- Stofnanasvæði þar sem gert hefur verið ráð fyrir byggingu leikskóla færist til austurs, yfir á svæði þar sem nú eru byggingar Nausta 2.

- Svæði sem áður var skilgreint sem stofnanasvæði breytist í íbúðarsvæði með heimild fyrir atvinnustarfsemi á fyrstu hæð.

- Svæði milli Naustabrautar og leikskólalóðar (stofnanasvæðis) breytist úr opnu svæði til sérstakra nota í íbúðarsvæði.
Skipulagsráð samþykkir að fela skipulagsfulltrúa að kynna fyrirliggjandi tillögu að breytingu á aðalskipulagi skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

9.Glerárgata 34 - umsókn um byggingaráform og byggingarheimild

Málsnúmer 2024020350Vakta málsnúmer

Á fundi byggingarfulltrúa 8. febrúar 2024 var tekið fyrir erindi dagsett 7. febrúar 2024 þar sem Haraldur S. Árnason fyrir hönd Astro Pizza ehf., sækir um byggingaráform og byggingarheimild fyrir breyttri notkun húsnæðis ásamt viðbygginga á hús nr. 34 við Glerárgötu. Óskar byggingarfulltrúi eftir umsögn skipulagsráðs um erindið.
Skipulagsráð gerir ekki athugasemd við breytingu á notkun til samræmis við fyrirliggjandi tillögu. Er afgreiðslu málsins vísað til byggingarfulltrúa.

10.Helgamagrastræti 5 - umsókn um byggingaráform og byggingarheimild

Málsnúmer 2024021230Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 22. febrúar 2024 þar sem Ragnar Freyr Guðmundsson fyrir hönd Valþórs Inga Einarssonar sækir um breytingar á húsi nr. 5 við Helgamagrastræti. Innkomin gögn eftir Ragnar Frey Guðmundsson.
Þar sem húsið fellur undir ákvæði hverfisverndar (HV19) frestar skipulagsráð afgreiðslu þar til umsögn Minjasafnsins á Akureyri og Minjastofnunar liggur fyrir.

11.Breyting á aðal- og deiliskipulagi Lónsbakka - umsagnarbeiðni

Málsnúmer 2024030392Vakta málsnúmer

Lagðar fram til umsagnar tillögur að breytingu á aðal- og deiliskipulagi Lónsbakka í Hörgársveit. Fela breytingarnar m.a. í sér að gert er ráð fyrir að á svæði milli Lónsvegar og Lónsár verði 5 lóðir fyrir íbúðarhús og 1 fyrir verslun- og þjónustu. Er um að ræða 3 lóðir fyrir fjölbýlishús fyrir á bilinu 6-20 íbúðir og 2 einbýlishúsalóðir.
Skipulagsráð samþykkir að fela skipulagsfulltrúa að útbúa umsögn í samræmi við umræður á fundi.

12.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2022-2026

Málsnúmer 2022010178Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 955. fundar, dagsett 22. febrúar 2024, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 5 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

13.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2022-2026

Málsnúmer 2022010178Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 956. fundar, dagsett 29. febrúar 2024, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 4 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Fundi slitið - kl. 09:00.