Bæjarráð

3717. fundur 18. febrúar 2021 kl. 08:15 - 10:50 Fjarfundur
Nefndarmenn
  • Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður
  • Gunnar Gíslason
  • Halla Björk Reynisdóttir
  • Hilda Jana Gísladóttir
  • Hlynur Jóhannsson
  • Sóley Björk Stefánsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Kristín Sóley Sigursveinsdóttir fundarritari
Fundargerð ritaði: Kristín Sóley Sigursveinsdóttir forstöðumaður upplýsinga- og þjónustudeildar
Dagskrá

1.Skíðalyfta í Hlíðarfjall

Málsnúmer 2016030107Vakta málsnúmer

Rætt um mögulega afhendingu Vina Hlíðarfjalls á nýrri stólalyftu og samning þar að lútandi.

Málið var tekið fyrir á fundi stjórnar Hlíðarfjalls 17.febrúar 2021 og lögð fram eftirfarandi bókun:

Stjórn Hlíðarfjalls leggur til við bæjarráð sem tekur endanlega ákvörðun, að tekið verði við lyftunni með fyrirvara um að tímabundin heimild fáist frá Veðurstofu Íslands gagnvart núverandi verklagi við snjóflóðahættumat. Jafnframt leggur stjórn til að hluta greiðslu verði haldið eftir þangað til öllum verkþáttum að hálfu Stólalyftu ehf. verði lokið og eins ef eitthvað kemur upp á við rekstur lyftunnar sem rekja megi til ófullnægjandi búnaðar eða frágangs. Fyrir liggur að rekstarkostnaður við lyftuna verður meiri en gert var ráð fyrir m.a. vegna snjóflóðavarna.

Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður, Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Kristinn J. Reimarsson sviðsstjóri samfélagssviðs sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Meirihluti bæjarráðs felur bæjarlögmanni, sviðsstjóra fjársýslusviðs og sviðsstjóra samfélagssviðs að ganga til samninga við Stólalyftu ehf. um greiðslur og afhendingu lyftunnar í samræmi við tillögu stjórnar Hlíðarfjalls og umræður á fundinum. Drög að samningi verði lögð fyrir bæjarráð.

Hlynur Jóhannsson M-lista greiðir atkvæði á móti.

2.Bæjartún íbúðafélag hses. - umsókn um stofnframlag frá Akureyrarbæ

Málsnúmer 2021020586Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 11. febrúar 2021 frá Ómari Guðmundssyni fyrir hönd Bæjartúns íbúðafélags hses. þar sem óskað er eftir 12% stofnframlagi til byggingar 6 íbúða á Akureyri.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð tekur jákvætt í erindið og felur sviðsstjóra fjársýslusviðs að fylgja málinu eftir.

3.Verðbreytingar á farm- og fargjöldum Grímseyjarferjunnar Sæfara

Málsnúmer 2021020694Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 3. febrúar 2021 þar sem Hulda Rós Bjarnadóttir f.h. Vegagerðarinnar tilkynnir um fyrirhugaða breytingu á gjaldskrá Grímseyjarferjunnar.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð Akureyrarbæjar mótmælir harðlega hækkun á farm- og fargjöldum Grímseyjarferjunnar Sæfara og telur mikilvægt að þjóðferjuleiðir verði skilgreindar sem hluti af grunnkerfi samgangna eins og það er skilgreint í samgönguáætlun hverju sinni. Til þjóðferjuleiða teljast leiðir þar sem ferja kemur í stað vegasambands um stofnveg og tengir byggðir landsins sem umluktar eru sjó við grunnkerfi samgangna á meginlandinu.

4.Nýjar heilsugæslustöðvar á Akureyri

Málsnúmer 2018100200Vakta málsnúmer

Rætt um fyrirhugaða staðsetningu heilsugæslustöðvar norðan Glerár.

Þórhallur Jónsson formaður skipulagsráðs og Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Meirihluti bæjarráðs telur að skoða eigi betur valkosti fyrir staðsetningu heilsugæslustöðvar norðan Glerár en mikilvægt er þó að slík skoðun leiði ekki til umtalsverðra tafa á framgangi málsins. Er því óskað eftir að auglýst verði á almennum markaði eftir leiguhúsnæði fyrir norðurstöð heilsugæslu þannig að aðrir möguleikar en Skarðshlíð 20 komi til greina. Áfram verði unnin skipulagsvinna fyrir Skarðshlíð 20 og er gert ráð fyrir að aðal- og deiliskipulagsbreyting verði auglýst á næstu vikum og taki gildi á vormánuðum. Er gert ráð fyrir að lóðin verði hluti af auglýsingunni sem felur í sér að aðilar geta annað hvort lagt fram nýjan uppbyggingarkost eða þá boðið leiguhúsnæði með því að byggja á Skarðshlíð 20.

Er sviðsstjóra skipulagssviðs falið að koma þessu á framfæri við heilbrigðisráðuneytið.


Hilda Jana Gísladóttir S-lista og Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista leggja fram eftirfarandi bókun:

Val á staðsetningu fyrir heilsugæslu á Akureyri norðan Glerár hefur verið langt, flókið en um leið vandað ferli. Eftir opið auglýsingaferli var niðurstaðan að Skarðshlíð 20 væri heppilegasta staðsetningin fyrir heilsugæslu norðan Glerár og hafa forsvarsmenn HSN lýst yfir ánægju sinni með það staðarval miðað við þeirra forsendur. Þá kallast staðsetningin vel á við hugmyndafræðina um 20 mínútna bæinn. Við teljum uppbyggingu heilsugæslu við Skarðshlíð vænlegan kost og engar nýjar málefnalegar ástæður vera til að breyta því staðarvali. Mikilvægt er að nýjar heilsugæslustöðvar á Akureyri verði teknar í notkun eins fljótt og hægt er.

5.Áheyrnarfulltrúar ungmennaráðs í helstu ráð og nefndir

Málsnúmer 2019030404Vakta málsnúmer

Á fundi ungmennaráðs þann 11. febrúar 2021 var samþykkt að óska formlega eftir því við bæjarráð að ungmennaráð fái áheyrnarfulltrúa í stjórn Akureyrarstofu og í umhverfis- og mannvirkjaráði.
Bæjarráð samþykkir með fimm samhljóða atkvæðum að ungmennaráð fái áheyrnarfulltrúa í stjórn Akureyrarstofu og í umhverfis- og mannvirkjaráði frá ársbyrjun 2022 og vísar málinu til gerðar fjárhagsáætlunar næsta árs.

6.Lánasjóður sveitarfélaga - auglýst eftir framboðum í stjórn

Málsnúmer 2020020407Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi frá Lánasjóði sveitarfélaga dagsett 8. febrúar 2021, þar sem óskað er eftir framboðum til stjórnar og varastjórnar Lánasjóðsins. Tilnefningar og/eða framboð skulu send fyrir kl. 12:00 þann 3. mars nk. til Magnúsar B. Jónssonar formanns kjörnefndar, mbjorn@simnet.is.

Fundi slitið - kl. 10:50.