Bæjarráð

3506. fundur 19. maí 2016 kl. 08:30 - 12:19 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður
  • Logi Már Einarsson
  • Matthías Rögnvaldsson
  • Gunnar Gíslason
  • Preben Jón Pétursson
  • Sóley Björk Stefánsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Heiða Karlsdóttir fundarritari
Dagskrá

1.Menningarfélag Akureyrar - MAK

Málsnúmer 2016030110Vakta málsnúmer

Sigurður Kristinsson formaður stjórnar og Þuríður Helga Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri mættu á fund bæjarráðs og fóru yfir stöðu og horfur í rekstri Menningarfélags Akureyrar.

Einnig sat Dan Jens Brynjarsson fjármálastjóri fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð þakkar þeim Sigurði og Þuríði Helgu fyrir yfirferðina. Jafnframt felur bæjarráð Þuríði Helgu og Dan Jens að leggja fram minnisblað á næsta fundi bæjarráðs um aðgerðir vegna stöðu félagsins.

2.Aðgerðahópur um framtíðarrekstur Akureyrarbæjar

Málsnúmer 2015120146Vakta málsnúmer

Lagðar fram tillögur aðgerðahóps um framtíðarrekstur Akureyrarbæjar.

Magnús Kristjánsson frá KPMG, Katrín Björg Ríkarðsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra og Dan Jens Brynjarsson fjármálastjóri sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð þakkar Magnúsi og Katrínu Björgu yfirferðina.

Bæjarráð samþykkir tillögur aðgerðahópsins og vísar þeim til kynningar og úrvinnslu hjá fastanefndum bæjarins, en niðurstöður verða kynntar í nefndum í næstu viku. Jafnframt felur bæjarráð fjármálastjóra að undirbúa gerð viðauka við fjárhagsáætlun yfirstandandi árs til samræmis við samþykktar tillögur.





Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista lagði fram bókun svohljóðandi:

Vinstri græn á Akureyri geta ekki stutt tillögur aðgerðahóps eins og þær eru nú lagðar fram. Vinna hópsins var sett af stað til að mæta rekstrarhalla sveitarsjóðs sem stafar af vanefndum ríkis á fjárframlögum, hás fjármagnskostnaðar vegna mikilla framkvæmda undanfarinna ára og launahækkunum síðustu kjarasamninga. Niðurstaða hópsins um aðgerðir 2016 byggir á því að allar deildir bæjarins fengu í hendurnar samræmt niðurskurðarviðmið. Þetta eru okkur mikil vonbrigði og teljum við niðurstöðuna stafa af skorti á styrkri stjórn og pólitískri sýn á verkefnið.

Vinstri græn á Akureyri telja að við þessa vinnu sé mikilvægt að forgangsraða fjármunum í þágu velferðar og stuðnings við þá sem mest þurfa á að halda. Þannig hefðu niðurskurðarviðmið átt að koma með mismunandi þunga niður á deildum bæjarins og málaflokkum eftir því hversu viðkvæmir hópar stóla á þjónustuna. Skólabærinn Akureyri þarf að standa vörð um starf og þróun sinna skóla og vera í hópi þeirra sveitarfélaga sem standa sig vel í þjónustu við þá sem sérstaka aðstoð þurfa. Á sama tíma eru stór ónýtt tækifæri til hagræðingar t.d. í sameiginlegum kostnaði við rekstur yfirstjórnar bæjarins og í íþróttamálum svo dæmi séu tekin.

Mikið af því sem veldur kröfum á hagræðingu í dag var fyrirsjáanlegt og hefði verið brugðist fyrr við væri hægt að vanda betur til verka. Til lengri tíma er nauðsynlegt að byggja hagræðingartillögur á samráði og í samstarfi við starfsfólk og stjórnendur deilda innan ramma pólitískrar forgangsröðunar.



Gunnar Gíslason D-lista lagði fram bókun svohljóðandi:

Ég samþykki fyrirliggjandi tillögu aðgerðahópsins þar sem mér sýnist að ekki verði lengra komist að sinni og þar sem það er nauðsynlegt að draga sem fyrst úr kostnaði til að rétta rekstur Akureyrarbæjar af. Forsenda þess að ég samþykki þessar tillögur er að fyrir liggur aðgerðaáætlun þar sem tekið verður á málum sem ég tel að séu líklegri til árangurs við að gera Aðalsjóð sjálfbæran. Ég tel að margar þeirra tillagna til lækkunar á kostnaði sem nú liggja fyrir vera þess eðlis að líklegt sé að kostnaður vegna þeirra verkefna komi óhjákvæmilega inn aftur til lengri tíma litið og ekki fyrirséð að allar gangi eftir. Því er mikilvægt að halda vinnunni áfram eins og stefnt er að og gera varanlegar breytingar á rekstrinum með breytingu á skipulagi og starfsháttum.



Preben Jón Pétursson Æ-lista lagði fram bókun svohljóðandi:

Ég fagna þessum niðurstöðum og tel að þessar aðgerðir séu eðlilegar og ógni ekki stöðuleika og lífsgæðum í samfélaginu. Mörg spennandi og skemmtileg verkefni eru framundan sem verða samfélaginu til framdráttar.



Guðmundur Baldvin Guðmundsson B-lista, Logi Már Einarsson S-lista og Matthías Rögnvaldsson L-lista lögðu fram bókun svohljóðandi:

Meirihlutinn fagnar þeirri samvinnu sem fram hefur farið í vinnu aðgerðahópsins enda teljum við forsendur þess að rekstur bæjarfélags blómstri að flokkar geti unnið saman af heilindum og sanngirni.

Í þessu sambandi er vakin athygli á að aðgerðahópur um framtíðarrekstur var skipaður fulltrúum allra sex framboða í bæjarstjórn.

Því hörmum við bókun Sóleyjar Bjarkar sem er í engu samræmi við þá vinnu sem fram hefur farið í hópnum. Markmið hópsins var einmitt að lágmarka skerðingu á þjónustu og að grípa þyrfti til uppsagna. Þar sem skólamál eru sérstaklega dregin fram í bókun Sóleyjar Bjarkar skal benda á að hagræðing í þeim málaflokki á árinu 2016 nemur um 0,5% eða um 32 milljónum króna af þeim 6,2 milljörðum króna sem varið er til málaflokksins.

Um leið og við ítrekum þakkir fyrir samvinnuna tökum við undir með bókun Gunnars Gíslasonar og Prebens Jóns Péturssonar um mikilvægi aðgerðanna og samvinnu um þær.

3.Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2017-2020

Málsnúmer 2016050137Vakta málsnúmer

Rætt um fjárhagsáætlunaferlið 2017-2020.

Dan Jens Brynjarsson fjármálastjóri sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð felur Guðmundi Baldvini Guðmundssyni og Gunnari Gíslasyni, með hliðsjón af samþykktum tillögum aðgerðahóps um framtíðarrekstur Akureyrarbæjar, að yfirfara fjárhagsáætlunarferli sveitarfélagsins í tengslum við fjárhagsáætlunarvinnu 2017-2020 og koma með tillögur að breytingum á því. Sérstaklega verði litið til tímasetninga og samræmingu á vinnulagi og framsetningu gagna og skulu endanlegar tillögur liggja fyrir við lok fjárhagsáætlunarvinnu 2017-2020.

4.Öldrunarheimili Akureyrar

Málsnúmer 2016030150Vakta málsnúmer

Matthías Rögnvaldsson forseti bæjarstjórnar sagði frá fundi sem hann og bæjarstjóri áttu með heilbrigðis- og fjármálaráðherra um rekstur Öldrunarheimila Akureyrarbæjar.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að kalla eftir minnisblaði frá lögfræðingi um stöðu og ábyrgð sveitarfélagsins gagnvart rekstri öldrunarheimilanna.

5.Viðtalstímar bæjarfulltrúa fundargerðir veturinn 2015-2016

Málsnúmer 2015110022Vakta málsnúmer

Lögð fram fundargerð viðtalstíma bæjarfulltrúa dagsett 12. maí 2016. Fundargerðin er í 18 liðum.
Bæjarráð vísar 1., 2., 3., 4., 13. og 14. lið a) til skipulagsdeildar, 5., 15., 16. og 18. lið til framkvæmdadeildar, 6. lið til bæjarstjóra, 7. og 8. lið til skóladeildar, 9. lið til búsetudeildar, 10. lið til fjármálastjóra, 11. lið til skipulagsdeildar og Norðurorku.

12., 14. liður b) og 17. liður eru lagðir fram til kynningar í bæjarráði.

6.Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar - aðalfundur 2016

Málsnúmer 2016050125Vakta málsnúmer

Erindi móttekið 9. maí 2016 frá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar bs þar sem boðað er til aðalfundar félagsins sem haldinn verður fimmtudaginn 9. júní 2016, kl. 14:00 í Grunnskóla Svalbarðsstrandar á Svalbarðseyri. Í beinu framhaldi af fundinum verður ársfundur félagsins haldinn og hefst hann kl. 15:00.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að fara með umboð Akureyrarbæjar á aðalfundinum.

7.Fóðurverksmiðjan Laxá hf - aðalfundur 2016

Málsnúmer 2016050131Vakta málsnúmer

Erindi móttekið 13. maí 2016 frá rekstrarstjóra Fóðurverksmiðjunnar Laxár hf þar sem boðað er til aðalfundar fimmtudaginn 19. maí 2016 í Stássinu/Greifanum og hefst hann kl. 13:30.
Bæjarráð felur Dan Jens Brynjarssyni fjármálastjóra að fara með umboð Akureyrarbæjar á aðalfundinum.

8.Frumvarp til laga um grunnskóla, 675. mál

Málsnúmer 2016050093Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi dagsett 10. maí 2016 frá allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til laga um grunnskóla, 675. mál 2016.

Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 18. maí nk. á netfangið nefndasvid@althingi.is.

Þingskjalið er hægt að sækja á vef Alþingis: http://www.althingi.is/altext/145/s/1103.html

9.Aflið - systursamtök Stígamóta - samstarfssamningur 2015

Málsnúmer 2015040043Vakta málsnúmer

Lögð fram að nýju drög að samstarfssamningi við Aflið. Áður á dagskrá bæjarráðs 12. maí sl.
Í upphafi þessa dagskrárliðar vakti Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista á því athygli að hún teldi sig vanhæfa að fjalla um þennan lið.

Með vísan til 7. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 var meint vanhæfi lagt upp til atkvæða fyrir bæjarstjórn og var það samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum.

Sóley Björk vék af fundi við umræðu og afgreiðslu málsins.



Bæjarráð samþykkir framlagðan samstarfssamning.

Fundi slitið - kl. 12:19.