Covid-19: Áhrif á þjónustu og starfsemi Akureyrarbæjar

Hér eru birtar helstu upplýsingar, og uppfærðar reglulega, um áhrif Covid-19 á starfsemi og þjónustu Akureyrarbæjar.

Heilbrigðisráðherra setti á fjögurra vikna samkomubann sem tók gildi 16. mars og var skólastarfi um leið settar skorður. Samkomubannið hefur síðan verið hert enn frekar til að bregðast við útbreiðslu veirunnar.

Viðburðir eru takmarkaðir við 20 manns og þarf að tryggja tveggja metra fjarlægð milli fólks. Jafnframt er ýmis starfsemi óheimil meðan á samkomubanninu stendur. 

Hér fyrir neðan eru helstu upplýsingar sem varða Akureyrarbæ, íbúa, aðstandendur þeirra og gesti sveitarfélagsins. Athugið að efni á þessari síðu er uppfært reglulega.

Hér má nálgast fyrstu aðgerðaáætlun Akureyrarbæjar til að bregðast við samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum Covid-19. Áætlunin var samþykkt í bæjarráði 2. apríl.

Síðast uppfært 22.5 kl. 14:12

 

Almenningssamgöngur

Strætisvagnar Akureyrar ganga samkvæmt áætlun en gengið er inn að aftan og fólk er beðið að virða fjarlægðarmörk um tvo metra. Hert samkomubann, þar sem fjöldi í sama rými miðast við 20 manns að hámarki, gildir einnig um almenningssamgöngur og því getur þurft að takmarka aðgang að vögnunum.

Félagsmiðstöðvar og ungmennahús - uppfært 30.4

Opin hús og klúbbar á vegum félagsmiðstöðvanna falla niður í samkomubanni. Fræðsla og val á þeirra vegum fellur einnig niður, en starfinu er haldið gangandi með stafrænum lausnum. Markmiðið er fyrst og fremst að hvetja til virkni og gleði meðal barna og ungmenna á Akureyri.

Klúbbastarfi á vegum Ungmennahússins í Rósenborg hefur verið aflýst og aðstöðu lokað, svo sem æfingahúsnæði, hljóðveri, sal og listarými. Allt hópastarf Virkisins fellur niður um óákveðinn tíma.

Uppfært 30. apríl: Venjubundin starfsemi Félagsmiðstöðva Akureyrar og Ungmennahúss hefst að nýju 4. maí. Hópar í virkniúrræðum fá nánari upplýsingar um fyrirkomulagið.

Félagsstarf eldri borgara - uppfært 30.4

Ekki verður starfsemi á vegum Akureyrarbæjar í félagsmiðstöðvum fyrir eldri borgara í Víðilundi og Bugðusíðu meðan á samkomubanni stendur.

Hægt er að panta hádegismat í Víðilundi og Bugðusíðu.

Uppfært 30. apríl: Opið verður í félagsmiðstöðvum eldri borgara í Víðilundi og Bugðusíðu kl. 9-13 frá og með 4. maí. Morgunkaffi, spjall og hægt að panta hádegisverð. Engir viðburðir út maí, allar handverksstofur lokaðar en boðið upp á hreyfingu úti á þriðjudögum og fimmtudögum. Nánari upplýsingar í síma 595-8021 (Víðilundur) og 462-6055 (Bugðusíða).

Félagsþjónusta og barnavernd - uppfært 22.5

Uppfært: Skrifstofur fjölskyldusviðs, Glerárgötu 26, hafa verið opnaðar að nýju. 

Félagsþjónusta
Hægt er að sækja um félagslega hjálp í gegnum þjónustugátt bæjarins. Meðal annars er hægt að sækja um fjárhagsaðstoð, sérstakan húsnæðisstuðning og leiguíbúð sveitarfélagsins.

Eftir að umsókn hefur borist í gegnum þjónustugáttina munu ráðgjafar vera í sambandi við umsækjanda í gegnum tölvu eða síma. Mál eru afgreidd eins og endranær. Lögð er áhersla á að veita viðtöl eftir þörfum í gegnum örugga tækni m.a. félagslega ráðgjöf.

Barnavernd
Tekið er á móti barnaverndartilkynningum í gegnum heimasíðu Akureyrarbæjar, á netfangið barnavernd@akureyri.is og í síma 4601420. Bakvakt barnaverndar er til staðar utan skrifstofutíma – hringt skal í 112.

Barnaverndarstarfsmenn sinna öllum brýnum málum sem upp kunna að koma og geta ekki beðið enda barnavernd partur af því viðbragðsteymi sem verður alltaf að vera til staðar til þess að bregðast við ef velferð barns er ógnað.

Bent skal á samfélagslega ábyrgð almennings varðandi velferð barna og ungmenna. Mikilvægt er að fólk láti sig hag barna varða, aðstoði ef hægt er og tilkynni til barnaverndar ef það á við.

Grunnskólar - uppfært 30.4

Markmiðið er að hafa grunnskóla Akureyrarbæjar opna og halda úti uppbyggilegu skólastarfi. Frá og með 24. mars eru gerðar eftirfarandi ráðstafanir til að bregðast við hertu samkomubanni:

- 1.-4. bekkur er í skólanum til hádegis samkvæmt skipulagi.
- 5.-7. bekk er skipt í tvo hópa og mæta nemendur annan hvern dag samkvæmt nánara skipulagi í hverjum skóla.
-8.-10. bekkur er alfarið í heima- og sjálfsnámi með aðstoð kennara.

Áhersla er lögð á að nemendur séu í fámennum hópum og ekki sé samgangur á milli, til dæmis í mötuneyti og frímínútum. Sóttvarnir og hreinlæti eru fyrsta forgangsmál.

Öll hefðbundin íþrótta- og sundkennsla, sem og kennsla í list- og verkgreinastofum fellur niður í samkomubanni. Frístund er opin í framhaldi af skóladegi yngstu barna en viðbúið er að starfsemin skerðist.

Foreldrar sem hafa tök á eru hvattir til að hafa börn sín heima og láta ritara skólanna vita af þeim áformum.

Uppfært 30. apríl: Fjöldatakmarkanir falla niður í leik- og grunnskólum 4. maí. Skólastarf verður með því sem næst eðlilegum hætti, þar með talin íþrótta- og sundkennsla, og falla forgangslistar almannavarna úr gildi. 

Heimaþjónusta - uppfært 30.4

Þurft hefur að skerða tímabundið heimaþjónustu og verður ekki farið inn á þau heimili sem hafa einungis fengið aðstoð við almenn heimilisverk. Þetta er í flestum tilvikum sá hópur þjónustuþega sem þarf minnsta aðstoð og er mest á ferðinni um bæinn. Er þetta bæði gert til að vernda starfsfólk og skjólstæðinga og til að forgangsraða í þágu nauðsynlegrar heimaþjónustu.

Hjá búsetusviði, sem sinnir eldra fólki, fötluðu og veiku fólki, er búið að skilgreina ákveðna grunnþjónustu sem allt kapp verður lagt á að standa vörð um, það er að fólk fái að borða, nauðsynleg lyf, aðstoð við að komast á fætur, klæðast og sinna hreinlæti.

Skerðing á annarri þjónustu er óhjákvæmileg og þarf að takmarka aðgang að heimilum og draga úr félagslegri þátttöku. Á þetta til dæmis við um félagslega liðveislu og Lautina, athvarf fyrir fólk með geðraskanir, sem er lokuð. Frístundaþjónusta fyrir fötluð börn í Þórunnarstræti hefur einnig verið takmörkuð með því að skipta upp hópnum í samvinnu við foreldra.

Innkaup fyrir fólk eru enn í gangi, ásamt því að ráðgjafar aðstoða fólk við útvegun hjálpartækja, sinna símtölum og þess háttar. Úthringilisti er virkur og haft er samband við fólk með reglubundnum hætt.

Uppfært 30. apríl: Öll heimaþjónusta er að komast í eðlilegt horf  frá og með 4. maí en sóttvarnir og tveggja metra reglan verður áfram höfð að leiðarljósi. Nú er verið að hringja í fólk og bjóða því aðstoð frá og með næstu viku. Farið verður í búðir fyrir skjólstæðinga, þeir fara ekki með.

Lautin opnar 4. maí og verður opið kl. 10-13. Starfsfólk stýrir aðgangi þannig að aldrei séu fleiri en 10 í húsi í einu. Boðið verður upp á einfalda máltíð.
Skólaþjónusta fyrir fötluð börn í Þórunnarstræti 99 opnar að fullu aftur.

Íþróttamannvirki, sundlaugar og Hlíðarfjall - uppfært 15.5

Vegna hertra takmarkana á samkomum og sérstakra tilmæla sóttvarnalæknis hefur lyftum og brekkum í Hlíðarfjalli, sundlaugum og öllum öðrum íþróttamannvirkjum Akureyrarbæjar verið lokað meðan á samkomubanni stendur.

Allt skipulagt íþróttastarf fellur sömuleiðis niður.

Skíðagöngubrautir í Hlíðarfjalli og Kjarnaskógi eru opnar meðan aðstæður leyfa. Akureyrarbær leggur einnig sérstaka áherslu á að hreinsa vel og hálkuverja göngustíga svo að fólk geti með auðveldari hætti stundað útivist og hreyfingu. Er þetta hluti af aðgerðum bæjarins til að bregðast við og draga úr áhrifum Covid-19 og takmarkana sem eru í gildi.

Frístundaráð samþykkti á fundi sínum 25. mars að 6 og 12 mánaða kort í sundlaugar Akureyrar verði framlengd um þann tíma sem laugarnar eru lokaðar. 

Uppfært 30. apríl: Íþróttamannvirki opna aftur fyrir starfsemi grunnskóla og íþrótastarfsemi barna í leik- og grunnnskólum. Skipulagðar æfingar íþróttafélaga fyrir 16 ára og eldri verða með skertu sniði í samræmi við tilmæli sóttvarnalæknis.

Almenningstímum í íþróttamannvirkjum Akureyrarbæjar er lokið þennan veturinn, þar með talið í Boganum. Sundlaugar verða áfram lokaðar.

Uppfært 15. maí: Sundlaugar Akureyrarbæjar verða opnaðar að nýju mánudaginn 18. maí. Nánari upplýsingar hér. 

Leikskólar - uppfært 30.4

Allir leikskólar Akureyrarbæjar eru opnir og er markmiðið að halda úti uppbyggilegu skólastarfi. Þó hefur þurft að endurskoða allt skipulag með hliðsjón af tilmælum yfirvalda.

Foreldrar hafa verið beðnir um að hafa börn sín heima ef mögulegt er. Það hjálpar starfsfólki að hafa þau börn sem mæta í smáum hópum og framfylgja þannig tilmælum eftir bestu getu, ennfremur að draga úr smithættu í leikskólanum. 

Mikil áhersla er lögð á sóttvarnir og hreinlæti, að kenna börnum í fámennum og aðskildum hópum, koma í veg fyrir blöndun og sótthreinsa byggingar og búnað reglulega.

Skipulag er að einhverju leyti með misjafnt milli skóla og eru foreldrar beðnir um að fylgjast vel með upplýsingum á heimasíðu skólanna, auk þess sem foreldrar fá reglulega upplýsingar í tölvupósti.

Uppfært 30. apríl: Fjöldatakmarkanir falla niður í leik- og grunnskólum 4. maí. Skólastarf verður með því sem næst eðlilegum hætti, þar með talin íþrótta- og sundkennsla, og falla forgangslistar almannavarna úr gildi.

PBI og Skógarlundur - uppfært 30.4

Plastiðjunni Bjargi-Iðjulundi var lokað frá og með 24. mars í kjölfar hertra takmarkana stjórnvalda.

Skógarlundi, miðstöð virkni og hæfingar, hefur einnig verið lokað um óákveðinn tíma. Opið hafði verið með skertri þjónustu og fáum notendum undanfarna daga. Forstöðumaður er þó með viðveru á staðnum og er hægt að hafa samband í síma 462-1754 og 661-1019.

Uppfært 30.4: Plastiðjan Bjarg-Iðjulundur og Skógarlundur opna aftur fyrir sína notendur 4. maí. 

Punkturinn - uppfært 6.5

Öll starfsemi Punktsins, þar með talin barnanámskeið, liggur niðri um óákveðinn tíma.

Uppfært: Punkturinn opnar að nýju 4. maí. Nánari upplýsingar um opnunartíma má finna hér. 

Skrifstofur Akureyrarbæjar uppfært 22.5

Afgreiðslutími í Ráðhúsi, Geislagötu 9, og í Glerárgötu 26 hefur verið styttur. Framvegis verður opið kl. 9-15 og sama gildir um símsvörun í þjónustuveri (460-1000). Þessi breyting hjálpar til við að létta álagi af starfsfólki og draga úr smithættu, en þessi ráðstöfun átti sér þó nokkurn aðdraganda og er ekki tímabundin. 

Launadeildinni í Ráðhúsi hefur verið lokað tímabundið fyrir gestum og gangandi til að tryggja öryggi starfsfólks og koma í veg fyrir röskun á þeirri mikilvægu starfsemi. Svarað er í síma launadeildar 460-1060 kl. 11-15 virka daga. Vakin er athygli starfsmanna á því að í þjónustugáttinni er hægt að skila inn og óska eftir ýmsum gögnum frá launadeild, svo sem um nýtingu persónuafsláttar, menntunargögnum, starfsvottorðum og fleira. 

Almennt er starfsfólk á skrifstofum bæjarins við vinnu heima þessa dagana ef nokkur möguleiki er á því. 

Viðtalstímar bæjarfulltrúa sem áformaðir voru 26. mars, 16. apríl og 14. maí 2020 falla niður vegna neyðarstigs almannavarna.

Íbúar eru sérstaklega hvattir til að koma sínum erindum á framfæri í gegnum tölvupóst eða síma eins og kostur er. Þá er tilvalið að nota rafrænar lausnir, svo sem netspjall og þjónustugátt hér á heimasíðunni. Í þjónustugáttinni er hægt að skila inn og óska eftir gögnum og sækja um ýmsa þjónustu með einföldum og fljótlegum hætti.

Uppfært: Starfsemi á skrifstofum Akureyrarbæjar er að mestu komin í eðlilegt horf. 

Söfn - uppfært 30.4

Öllum söfnum Akureyrarbæjar var lokað frá og með 24. mars í kjölfar hertra takmarkana stjórnvalda. Í skoðun er hvernig söfnin geta í auknum mæli notað stafrænar lausnir til að halda úti starfsemi og þjónusta íbúa.

Uppfært 30. apríl: Söfn Akureyrarbæjar opna aftur 4. maí. Starfsfólk þeirra hlakkar mikið til að opna dyrnar og fá gesti þótt þjónustan verði áfram takmörkuð vegna samkomubanns. 50 manna hámarksfjöldi er í húsunum, mikil áhersla er lögð á hreinlæti og sóttvarnir og eru gestir beðnir um að virða tveggja metra regluna.

Tónlistarskólinn á Akureyri og Hof

Skólastarf í Tónlistarskólanum á Akureyri verður takmarkað meðan á samkomubanni stendur.

Engin kennsla eða hljómsveitaræfingar eru í Hofi. Öll einkakennsla fer fram í fjarkennslu frá og með 24. mars samkvæmt nánari upplýsingum frá kennurum.

Kennarar hafa samband við sína nemendur og ákveða framhaldið. Þeir sem eru að ljúka framhaldsprófum eða verða að ljúka miðprófi í vor til að geta klárað stúdentspróf eru stjórnendum Tónlistarskólans ofarlega í huga og verður allt gert sem hægt er til að þessir nemendur haldi áætlun. 

Menningarhúsið Hof er jafnframt lokað fyrir utanaðkomandi frá og með 24. mars. 

Ýmsir gagnlegir hlekkir

Embætti landlæknis og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra standa að baki covid.is. Þar eru tölulegar upplýsingar, tilkynningar, fróðleikur og góð ráð og er síðan uppfærð reglulega. 

Ýmsar gagnlegar upplýsingar um kórónaveiruna eru á vef landlæknis. 

Samband íslenskra sveitarfélaga heldur úti upplýsingasíðu vegna Covid-19. 

Upplýsingar frá Stjórnarráðinu um bakvarðasveit velferðarþjónustu. 

Samtök Iðnaðarins hafa tekið saman upplýsingar sem gagnast fyrirtækjum. 

Efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna Covid-19. 

Á vef Vinnumálastofnunar er hægt að nálgast mikilvægar upplýsingar. 

Öldrunarheimili Akureyrar - uppfært 20.5

Dvalar- og hjúkrunarheimilin voru frá 8. mars lokuð fyrir heimsóknum ættingja og annarra gesta. Var þetta gert að höfðu samráði við sóttvarnalækni og landlækni eftir að neyðarstigi almannavarna var lýst yfir, fyrst og fremst til að vernda viðkvæma íbúa og starfsfólk. Íbúar eru í flestum tilvikum aldraðir og/eða með undirliggjandi sjúkdóma og þar af leiðandi í áhættuhópi vegna útbreiðslu veirunnar.

Dregið var úr dagþjálfun og tímabundnum dvölum. Sex rýmum sem hafa verið notuð fyrir tímabundnar dvalir hefur nú verið breytt í farsóttardeild fyrir íbúa sem greinast með Covid-19. Farsdóttardeildin er tilbúin til notkunar.  Uppfært: Deildinni var lokað 11. maí og ef upp kemur smit hjá íbúa þarf að leggja viðkomandi inn á Sjúkrahúsið á Akureyri. 

Þrátt fyrir óvenjulegar aðstæður sneri starfsfólk á Öldrunarheimilum Akureyrar vörn í sókn og hefur gripið til ýmissa ráðstafana og tæknilausna til að létta fólki lífið.

Uppfært 30. apríl: Heimsóknir verða leyfðar frá 4. maí en þó með ákveðnum takmörkunum. Almenna reglan í Hlíð og Lögmannshlíð til 17. maí er sú að nánasti aðstandandi er velkominn í heimsókn einu sinni í viku (einn og sami gesturinn fyrstu tvær vikurnar). Aðstandendur hafa fengið nánari upplýsingar og leiðbeiningar um fyrirkomulag heimsókna.

Uppfært 20. maí: Almenna reglan frá 18. maí er sú að aðstandendur eru velkomnir í fjórar heimsóknir á viku, 1-2 klst. í senn, en íbúi fær að hámarki eina heimsókn á dag. Tveir mega koma í þessar heimsóknir en ekki á sama tíma. Gestir fara ekki inn í sameiginleg rými og eiga ekki samskipti við aðra íbúa. Tveggja metra nándarmörkum á milli íbúa og aðstandenda er aflétt en mörkin gilda áfram milli gesta og annarra íbúa. Þessar takmarkanir gilda til 1. júní. 

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan