Aðgerðaáætlun til að bregðast við áhrifum COVID-19

Mynd: María Helena Tryggvadóttir
Mynd: María Helena Tryggvadóttir

Bæjarráð samþykkti 2. apríl fyrstu aðgerðaáætlun Akureyrarbæjar til að bregðast við samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum COVID-19.

Allt frá því að sjúkdómurinn greindist fyrst á Íslandi hafa stjórnendur sveitarfélagsins verið í viðbragðsstöðu og gripið til varúðarráðstafana eftir því sem málum hefur undið fram, útbreiðslan hefur aukist og takmarkanir verið hertar. Neyðarstjórn sem samanstendur af bæjarráði, bæjarstjóra og sviðsstjórum hefur fundað reglulega og gerir áfram á meðan ástandið varir.

Frá upphafi hefur áherslan verið lögð á að koma í veg fyrir rof á nauðsynlegri þjónustu. Fyrsta forgangsmál verður áfram að verja viðkvæma hópa og tryggja að grunnstoðir samfélagsins standi af sér faraldurinn. Með þessum aðgerðum er markmiðið að stuðla að velferð bæjarbúa og verja afkomu þeirra, styðja við fyrirtæki og liðka fyrir viðspyrnu efnahagslífs og samfélags.

Hér má lesa aðgerðaáætlunina í heild.

Sanngjörn innheimta

Meðal aðgerða sem ákveðið hefur verið að ráðast í er leiðrétting á gjöldum vegna skerðingar á þjónustu leik- og grunnskóla. Þeim sem stríða við rekstrarerfiðleika eða tímabundið tekjufall verður einnig gert kleift að sækja um greiðslufrest eða fjölgun gjalddaga vegna fasteignagjalda, gatnagerðargjalda og leigu atvinnuhúsnæðis af bænum.

Við innheimtu gjalda verður horft til þess að veita sveigjanleika varðandi gjaldfrest í einstaka tilvikum með það að leiðarljósi að innheimtan sé sanngjörn og taki mið af aðstæðum.

Viðspyrna fyrir atvinnulífið – liðkað fyrir framkvæmdum

Almennum viðhaldsframkvæmdum á vegum bæjarins verður flýtt og ráðist í sérstakar aðgerðir til að sporna við atvinnuleysi, svo sem fjölgun sumarstarfa og með öflugri markaðssetningu á ferðamarkaði ásamt SSNE og Markaðsstofu Norðurlands.

Breytingum á deiliskipulagi verður flýtt og öðrum undirbúningi vegna fjárfestingaverkefna í samvinnu við ríkið, svo sem uppbyggingu Akureyrarflugvallar, hjúkrunarheimilis, tveggja nýrra heilsugæslustöðva og legudeilda SAk. Á sama hátt verður lögð áhersla á að hraða skipulags- og annarri undirbúningsvinnu vegna uppbyggingar miðbæjarins og Oddeyrarinnar með það að markmiði að úthluta lóðum hið fyrsta.

Velferð íbúa og órofin þjónusta

Gögnum verður safnað um þróun aðstæðna hjá einstaklingum og fjölskyldum á næstu mánuðum til að leggja grunn að frekari tillögum sem stuðla að velferð íbúa.

Almannaheillanefnd verður virkjuð með samstarfi hagsmunaaðila þar sem sérstaklega verði hugað að börnum og ungmennum, barnafjölskyldum, fötluðu fólki, eldra fólki, atvinnulausum, fólki af erlendum uppruna og fólki í viðkvæmri stöðu.

Bæjarráð mun í framhaldinu skoða ýmsar frekari leiðir til þess að bregðast við ástandinu.

„Það er mikil samstaða innan bæjarstjórnar um þessa fyrstu heildstæðu aðgerðaáætlun og það er gríðarlega jákvætt,“ segir Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs.

„Við teljum að það sé okkar hlutverk að standa vörð um grunnþjónustu, styðja við íbúa og fyrirtæki bæjarins eins og hægt er á þessum óvissutímum. Þessar aðgerðir eru liður í því, en við erum jafnframt tilbúin að grípa til frekari aðgerða ef þess reynist þörf,“ segir Guðmundur Baldvin.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan