Frumkvæði og nýjar leiðir á öldrunarheimilunum

Ljósmynd frá Bryndísi Pernille Magnúsdóttur af því þegar hún hitti pabba sinn við glugga á Hlíð.
Ljósmynd frá Bryndísi Pernille Magnúsdóttur af því þegar hún hitti pabba sinn við glugga á Hlíð.

Starfsfólk á dvalar- og hjúkrunarheimilum Akureyrarbæjar hefur snúið vörn í sókn og gripið til ýmissa ráðstafana, ekki síst tæknilausna, til að létta fólki lífið á þessum óvenjulegu tímum. 

Heimsóknarbann hefur verið í gildi hjá Öldrunarheimilum Akureyrar frá 7. mars vegna útbreiðslu Covid-19. Ákvörðun sem var ekki tekin af léttúð, en nauðsynleg til að vernda íbúa sem eru í flestum tilvikum aldraðir og/eða með undirliggjandi sjúkdóma.

Ljóst er að það getur reynst íbúum mjög erfitt að fá ekki heimsóknir frá ættingjum sínum og vinum, á sama hátt og það getur reynst aðstandendum erfitt að fá ekki að heimsækja íbúa. „Við fórum á fyrsta degi í gegnum spjaldtölvurnar, uppfærðum þær, og stofnuðum Messenger aðgang og erum líka við Skype. Við erum í samskiptum við ættingja á lokaðri Facebook-síðu og höfum hvatt þá til að hafa samband með myndsímtölum," segir Sigurlína Stefánsdóttir, forstöðumaður á Aspar- og Beykihlíð.

Viðtökurnar hafa verið góðar og eru ættingjar duglegir að hringja myndsímtöl. „Þetta er ekki fyrir alla, en ég held að meirihluti íbúa sé ánægður með þetta. Auðvitað er alltaf betra að hafa fólkið sitt hjá sér, en þetta er betra en engin samskipti," segir Sigurlína.

Aðstandendur hafa sýnt ástandinu þolinmæði og skilning, en hafa líka haft frumkvæði að samskiptum. Hópur þeirra mokaði nýlega frá inngangi að stofu á einu heimili og hefur tíðkast að spjalla þar saman í síma og í gegnum gler. „Það gefur mörgum mikið að geta aðeins séð sitt fólk, það er jafnvel hægt að vera þarna með kaffibolla bara og spjalla í rólegheitum," segir Sigurlína.

En tæknin er notuð í fleira en samskipti við vini og ættingja. Venjulega er stólaleikfimi í salnum, en ekki um þessar mundir vegna aðstæðna. Starfsfólk hefur í staðinn fundið leikfimimyndbönd á Youtube og hjálpar fólki þannig að gera æfingar. „Og það sem meira er, þá geta í raun fleiri nýtt sér þetta núna en áður af því að við erum að færa leikfimina inn á heimilin. Það eru nokkrir sem hafa ekki haft tök á að fara í salinn, en gera nú æfingarnar," segir Sigurlína. Þessa dagana er mikið lagt upp úr hvers konar virkni íbúa. „Við erum komin með iðjuþjálfa í fasta viðveru á heimilið sem býður upp á hópastarf, ýmsa klúbba, einstaklingsþjálfun, bingó og fleira. Aðal áherslan er á gleði og samveru."

Flestir íbúar taka þessu ástandi með ró og raunsæi, að sögn Sigurlínu. „Þeir sem glíma við einhvers konar heilabilun eiga erfiðara með þetta og skilja ekki alveg hvað er í gangi. En fólk er áhugasamt um þetta, fylgist með fréttum og ég er ekki að upplifa hræðslu. Fólki finnst þetta áhugavert, að upplifa sögulegan atburð á efri árum," segir Sigurlína.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan