Farsóttardeild tilbúin í Hlíð

Gripið hefur verið til ýmissa aðgerða á Öldrunarheimilum Akureyrar til að vernda íbúa og koma í veg fyrir útbreiðslu Covid-19 þar. Enn hefur ekki greinst smit, en starfsfólk er vel undirbúið og er allt tilbúið fyrir opnun farsóttardeildar í Hlíð.

Íbúar dvalar- og hjúkrunarheimila eru flestir aldraðir og/eða með undirliggjandi sjúkdóma og eru því í sérstökum áhættuhópi að veikjast alvarlega.

Íþyngjandi en nauðsynlegar aðgerðir

Undirbúningur hófst fyrir alvöru á öldrunarheimilunum 6. mars og hefur síðan verið unnið samkvæmt aðgerðaáætlun og eftir tilmælum almannannavarna og heilbrigðisyfirvalda. Og það er í mörg horn að líta. Heimilunum var lokað 8. mars í smitvarnarskyni og er allur umgangur um húsin í algjöru lágmarki. Iðju- og félagsstarf er takmarkað, hárgreiðslu og fótsnyrtingu hefur verið lokað, sjúkraþjálfun liggur niðri nema í neyðartilvikum, dregið hefur úr dagþjálfun, auk fleiri aðgerða sem allar miða að því að tryggja öryggi íbúa og starfsfólks.

Þrátt fyrir að þetta séu mjög íþyngjandi ákvarðanir fyrir íbúa þá hefur þetta almennt gengið vel og hefur ekki enn greinst smit meðal íbúa eða starfsfólks Öldrunarheimila Akureyrar. Nokkur sýni hafa verið tekin en þau hafa öll reynst neikvæð. Flestir íbúar hafa skilning á aðstæðum og taka ástandinu með ró. Áhersla hefur verið lögð á að létta fólki lífið og nota tæknilausnir til að koma á samskiptum við ástvini, líkt og fjallað var um hér á heimasíðunni. 

Deild fyrir sjö veika íbúa

Eitt af stóru verkefnunum hefur verið að loka sex rýmum fyrir tímabundnar dvalir í Hlíð og útbúa farsóttardeild fyrir íbúa sem greinast með kórónaveiruna. Opnun deildarinnar krefst mikils undirbúnings, útvega hefur þurft sóttvarnabúnað, lyf og ýmis tæki og tól sem þarf við hjúkrun mikið veikra einstaklinga. Fræðsla til þeirra sem munu starfa á deildinni skiptir einnig miklu máli.

Ýmsir verkferlar hafa verið yfirfarnir og áætlanir gerðar sem taka gildi þegar fyrsta smitið greinist hjá íbúa. Allt er tilbúið fyrir opnun farsóttardeildarinnar, en þar eru pláss fyrir sjö veika íbúa. Starfsfólki er skipt upp í fjögur teymi með fjórum starfsmönnum hvert og verða þau virkjuð þegar smit greinist. Þeir sem vinna í þessum teymum munu ekki vinna annars staðar þegar deildin hefur verið opnuð.

„Algjörlega frábært starfsfólk“

„Öldrunarheimilin búa að því að hafa algjörlega frábært starfsfólk sem hefur mikla faglega reynslu í hjúkrun einstaklinga með fjölþætta sjúkdóma,“ segir Helga Erlingsdóttir, framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar. „Starfsfólkið hefur lagt sig fram af alúð og samviskusemi til þess að viðhafa bestu mögulegu smitgát og undirbúa hjúkrun og meðferð íbúa sem veikjast,“ segir Helga.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan