Stjórn Akureyrarstofu

165. fundur 28. maí 2014 kl. 12:00 - 13:15 Fundarherbergi Akureyrarstofu í menningarhúsinu Hofi
Nefndarmenn
  • Halla Björk Reynisdóttir formaður
  • Jón Hjaltason
  • Sigmundur Einar Ófeigsson
  • Hildur Friðriksdóttir
  • Matthías Rögnvaldsson áheyrnarfulltrúi
  • Sigfús Arnar Karlsson áheyrnarfulltrúi
  • Unnsteinn Jónsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Þórgnýr Dýrfjörð fundarritari
Dagskrá

1.Sameining menningarstofnana - viðræður Leikfélags Akureyrar, Menningarfélagsins Hofs og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands

Málsnúmer 2012090021Vakta málsnúmer

Lögð fram áfangaskýrsla um sameiningu félaganna sem kynnt hefur verið stjórnum þeirra allra og hver þeirra hefur brugðist við efni hennar. Samkvæmt skýrslunni munu félögin í sameiningu stofna nýtt félag sem tekur við verkefnum þeirra. Þessi áform verða borin undir félagsmenn og stofnaðila í félögunum þremur og hljóti þau samþykki er stefnt að því að nýja félagið taki til starfa þann 1. ágúst nk.

Vörumerki nýja félagsins verða merki aðildarfélaganna, leiklist í nýja félaginu verður á leiklistarsviði undir merkjum Leikfélags Akureyrar, klassísk tónlist undir merkjum Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, aðrir viðburðir og þjónusta við fundi og ráðstefnur undir merkjum menningarhússins Hofs. Kjarnasvið nýja félagsins endurspegla þessi megin verkefni.

Meginmarkmið nýja félagsins eru að efla atvinnustarfsemi í leiklist og sinfónískri tónlist á Akureyri og að bjóða upp á fyrirmyndarvettvang fyrir tónlistar- og sviðslistaviðburði, fundi og ráðstefnur. Á sama tíma er mikil áhersla lögð á öruggan rekstur og góða meðferð og nýtingu opinberra fjármuna. Með þessu á að stuðla að auknu framboði og fjölbreytileika í menningar- og listalífi Norðurlands.

Lykilþættir í árangri nýja félagsins eru: Byggt verði á sérstöðu hverrar einingar, listrænu frelsi og sögu þeirra sem orðið hefur til með góðu starfi félaganna á undangengnum árum. Halda þarf í þá sérstöðu sem SN og LA hafa sem einu atvinnustofnanirnar sem framleiða leiklist og sinfóníska tónlistarviðburði utan höfuðborgarsvæðisins. Tryggja verður áfram fjármagn til framleiðslu á svæðinu undir vörumerkjum LA og SN í Samkomuhúsinu og menningarhúsinu Hofi. Tryggja þarf hámarks hagræði og fagmennsku í öllum stoðdeildum félagsins. Rík áhersla er á skýra ábyrgð stjórnenda og ábyrga meðferð fjármuna í nýju félagi.

Stjórn Akureyrarstofu fagnar því að náðst hafi sátt um grundvallaratriðin í skipulagi og virkni nýs félags. Stjórnin leggur þunga áherslu á að haldið verði áfram með verkefnið með það að markmiði að nýtt félag taki við skyldum og réttindum aðildarfélaganna þann 1. ágúst nk. Með því móti eru stigin nauðsynleg skref inn í framtíðarskipulag og aðildarfélögin þurfa ekki að setja upp hvert sitt skipulag til bráðabirgða meðan beðið væri eftir að nýtt félag tæki við.

Stjórn Akureyrarstofu leggur til við nýja bæjarstjórn sem tekur við að loknum kosningum, að hún muni fylgja verkefninu eftir, auðvelda félögunum sameiningarvinnuna að mætti og ryðja úr vegi þeim hindrunum sem eru á valdi hennar. Stjórnin leggur fram áfangaskýrsluna sem veganesti í þá vinnu og jafnframt drög að framkvæmdaáætlun fyrir vinnunna fram til 1. ágúst nk.

Stjórn Akureyrarstofu leggur til að formaður stjórnarinnar og framkvæmdastjóri vinni áfram að verkefninu ásamt stýrihópi félaganna þriggja.

2.Iceland Winter Games - Íslensku vetrarleikarnir - beiðni um styrktarsamning

Málsnúmer 2014050195Vakta málsnúmer

Erindi dags. 16. maí 2014 frá Davíð Rúnari Gunnarssyni, f.h. Viðburðastofu Norðurlands þar sem óskað er eftir að gerður verði samningur um stuðning og aðkomu Akureyrarbæjar að leikunum sem fyrirtækið annast framkvæmd á.

Framkvæmdastjóra falið að vinna drög að samningi við Viðburðastofuna um alla aðkomu Akureyrarbæjar að viðburðinum í samvinnu við aðrar deildir og svið sem að málinu koma. Samningsdrög komi að því loknu til umfjöllunar í stjórn Akureyrarstofu og eftir atvikum öðrum nefndum og ráðum.

3.Sjónlistamiðstöðin á Akureyri - skipulag og þróun

Málsnúmer 2012040129Vakta málsnúmer

Lögð fram til endanlegrar staðfestingar stjórnar samþykkt fyrir Sjónlistamiðstöðina á Akureyri.

Stjórn Akureyrarstofu samþykkir drögin fyrir sitt leyti og vísar til staðfestingar í bæjarstjórn.

4.Hríseyjarhátíð 2014 - styrkbeiðni

Málsnúmer 2014050131Vakta málsnúmer

Erindi dags. 17. maí 2014 frá Hrafnhildi Sigurðardóttur, Hrund Teitsdóttur, Ingólfi Sigfússyni og Lindu Maríu Ásgeirsdóttur f.h. undibúningsnefndar Hríseyjarhátíðarinnar, þar sem óskað er eftir styrk að upphæð kr. 300.000 til hátíðarinnar í ár.

Stjórn Akureyrarstofu samþykkir styrk að upphæð kr. 300.000 til verkefnisins.

Fundi slitið - kl. 13:15.