Aukin samvinna menningarstofnana - viðræður LA, MH og SN 2012

Málsnúmer 2012090021

Vakta málsnúmer

Stjórn Akureyrarstofu - 128. fundur - 05.09.2012

Fulltrúar Leikfélags Akureyrar, Menningarfélagsins Hofs og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands hafa ákveðið að ganga til viðræðna, undir stjórn Akureyrarstofu, um aukið samstarf og mögulegan samrekstur stofnananna. Lögð fram til kynningar og umræðu drög að viðræðuáætlun.

Stjórn Akureyrastofu samþykkir viðræðuáætlunina fyrir sitt leyti og felur formanni stjórnar og framkvæmdastjóra Akureyrarstofu að taka þátt í viðræðunum fyrir sína hönd.

Stjórn Akureyrarstofu - 131. fundur - 25.10.2012

Greint frá framgangi viðræðna Leikfélags Akureyrar, Menningarfélagsins Hofs og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands.

Stjórn Akureyrarstofu - 136. fundur - 07.02.2013

Viðræður fulltrúa félaganna hafa staðið yfir frá því á haustmánuðum 2012 og hafa gengið vel. Fulltrúar stjórnar Akureyrarstofu hafa leitt þær. Hópurinn hefur dregið upp fáeinar ólíkar leiðir til aukinnar samvinnu. Nú hefur verið gengið frá því að Háskólinn á Akureyri komi að verkefninu en nemandi í viðskiptadeild skólans hefur gert útfærslu á hugmyndum hópsins að lokaverkefni sínu sem áætlað er að ljúki í maí.

Stjórn Akureyrarstofu - 144. fundur - 26.06.2013

Greint frá stöðunni í viðræðum félaganna þriggja. Reiknað er með að viðræðuhópurinn sem skipaður er fulltrúum úr stjórn aðilanna ljúki störfum í ágúst.

Stjórn Akureyrarstofu - 151. fundur - 26.11.2013

Farið yfir stöðuna í viðræðunum milli félaganna. Stjórnir þeirra eru nú að fara yfir þær sameiginlegu tillögur sem fyrir liggja og er viðbragða að vænta fyrir lok nóvember.

Stjórn Akureyrarstofu - 152. fundur - 18.12.2013

Lögð fram tillaga frá framkvæmdastjóra Akureyrarstofu og formanni stjórnar um framhald aðkomu Akureyrarbæjar að viðræðunum.

Stjórn Akureyrarstofu óskar eftir því við stjórnir félaganna þriggja að hver um sig skipi tvo fulltrúa í undirbúningsstjórn nýs félags sem hafi það að markmiði að taka að sér rekstur þeirra verkefna sem þau hafa með höndum. Stjórn Akureyrarstofu mun skipa tvo fulltrúa til að vinna með undirbúningsstjórninni og aðstoða við úrlausn þeirra verkefna sem upp koma.

Stjórn Akureyrarstofu - 153. fundur - 09.01.2014

Skipun tveggja fulltrúa sem munu vinna með og aðstoða undirbúningsstjórn nýs félags sem hefur það að markmiði að taka að sér verkefni Leikfélagsins, Menningarfélagsins og Sinfóníuhljómsveitarinnar.

Stjórn Akureyrarstofu samþykkir að skipa Karl Frímannsson þróunarstjóra Akureyrarbæjar og Þórgný Dýrfjörð framkvæmdastjóra Akureyrarstofu til að starfa með undirbúningsstjórninni.

Stjórn Akureyrarstofu - 163. fundur - 14.05.2014

Fulltrúar félaganna í stýrihópi viðræðnanna, þau Elín Lýðsdóttir, Soffía Gísladóttir og Þórleifur Björnsson komu á fundinn og fóru yfir stöðu málsins. Fram kom að vinnan er komin af stað en hefur gengið hægar en fulltrúarnir hefðu kosið. Til að hraða ferlinu óskar stýrihópurinn eftir því að stjórn Akureyrarstofu taki tímabundið við hlutverki hans og ljúki þeim fasa sem nú stendur yfir. Í kjölfarið verði niðurstöður kynntar fyrir stýrihópnum og stjórnum félaganna þriggja.

Stjórn Akureyrarstofu samþykkir tillögu fulltrúanna og felur framkvæmdastjóra og formanni að leiða vinnuna fyrir hönd stjórnarinnar og miðar við að henni verði lokið 30. maí nk.

Stjórnin þakkar gestunum fyrir komuna á fundinn.

Stjórn Akureyrarstofu - 164. fundur - 23.05.2014

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, sem er tímabundinn starfsmaður stýrihóps um sameininguna, kynnti drög að áfangaskýrslu um sameininguna. Í henni koma fram grunnatriðin í skipulagi félags sem ætlað er að taka að sér verkefni og hlutverk félaganna þriggja sem þau munu setja á stofn í sameiningu. Samskonar kynning mun fara fram í stjórnum félaganna þriggja.

Stjórn Akureyrarstofu - 165. fundur - 28.05.2014

Lögð fram áfangaskýrsla um sameiningu félaganna sem kynnt hefur verið stjórnum þeirra allra og hver þeirra hefur brugðist við efni hennar. Samkvæmt skýrslunni munu félögin í sameiningu stofna nýtt félag sem tekur við verkefnum þeirra. Þessi áform verða borin undir félagsmenn og stofnaðila í félögunum þremur og hljóti þau samþykki er stefnt að því að nýja félagið taki til starfa þann 1. ágúst nk.

Vörumerki nýja félagsins verða merki aðildarfélaganna, leiklist í nýja félaginu verður á leiklistarsviði undir merkjum Leikfélags Akureyrar, klassísk tónlist undir merkjum Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, aðrir viðburðir og þjónusta við fundi og ráðstefnur undir merkjum menningarhússins Hofs. Kjarnasvið nýja félagsins endurspegla þessi megin verkefni.

Meginmarkmið nýja félagsins eru að efla atvinnustarfsemi í leiklist og sinfónískri tónlist á Akureyri og að bjóða upp á fyrirmyndarvettvang fyrir tónlistar- og sviðslistaviðburði, fundi og ráðstefnur. Á sama tíma er mikil áhersla lögð á öruggan rekstur og góða meðferð og nýtingu opinberra fjármuna. Með þessu á að stuðla að auknu framboði og fjölbreytileika í menningar- og listalífi Norðurlands.

Lykilþættir í árangri nýja félagsins eru: Byggt verði á sérstöðu hverrar einingar, listrænu frelsi og sögu þeirra sem orðið hefur til með góðu starfi félaganna á undangengnum árum. Halda þarf í þá sérstöðu sem SN og LA hafa sem einu atvinnustofnanirnar sem framleiða leiklist og sinfóníska tónlistarviðburði utan höfuðborgarsvæðisins. Tryggja verður áfram fjármagn til framleiðslu á svæðinu undir vörumerkjum LA og SN í Samkomuhúsinu og menningarhúsinu Hofi. Tryggja þarf hámarks hagræði og fagmennsku í öllum stoðdeildum félagsins. Rík áhersla er á skýra ábyrgð stjórnenda og ábyrga meðferð fjármuna í nýju félagi.

Stjórn Akureyrarstofu fagnar því að náðst hafi sátt um grundvallaratriðin í skipulagi og virkni nýs félags. Stjórnin leggur þunga áherslu á að haldið verði áfram með verkefnið með það að markmiði að nýtt félag taki við skyldum og réttindum aðildarfélaganna þann 1. ágúst nk. Með því móti eru stigin nauðsynleg skref inn í framtíðarskipulag og aðildarfélögin þurfa ekki að setja upp hvert sitt skipulag til bráðabirgða meðan beðið væri eftir að nýtt félag tæki við.

Stjórn Akureyrarstofu leggur til við nýja bæjarstjórn sem tekur við að loknum kosningum, að hún muni fylgja verkefninu eftir, auðvelda félögunum sameiningarvinnuna að mætti og ryðja úr vegi þeim hindrunum sem eru á valdi hennar. Stjórnin leggur fram áfangaskýrsluna sem veganesti í þá vinnu og jafnframt drög að framkvæmdaáætlun fyrir vinnunna fram til 1. ágúst nk.

Stjórn Akureyrarstofu leggur til að formaður stjórnarinnar og framkvæmdastjóri vinni áfram að verkefninu ásamt stýrihópi félaganna þriggja.

Stjórn Akureyrarstofu - 167. fundur - 24.06.2014

Framkvæmdastjóri fór yfir þær hugmyndir og áætlanir sem liggja til grundvallar samrekstri menningarstofnananna þriggja. Ný sjálfseignarstofnun verður sett á fót af félögunum, stofnfundur hennar er áætlaður 7. júlí n.k. og mun hún taka til starfa þann 1. ágúst á þessu ári. Bæði aðal- og varamenn sátu fundinn undir þessum lið.