Stjórn Akureyrarstofu

109. fundur 09. nóvember 2011 kl. 17:00 - 18:46 Fundarherbergi Akureyrarstofu í menningarhúsinu Hofi
Nefndarmenn
  • Halla Björk Reynisdóttir formaður
  • Jón Hjaltason
  • Sigmundur Einar Ófeigsson
  • Guðrún Þórsdóttir
  • Helena Þuríður Karlsdóttir
Starfsmenn
  • Þórgnýr Dýrfjörð fundarritari
Dagskrá

1.Endurskoðun menningarstefnu Akureyrarbæjar 2011 - hugarflugsfundur

Málsnúmer 2011020012Vakta málsnúmer

Opinn hugarflugsfundur var haldinn í Ketilhúsinu þann 4. nóvember sl. sem liður í vinnu við endurskoðun Menningarstefnu Akureyrarbæjar.

Stjórn Akureyrarstofu þakkar þeim fjölmörgu sem þátt tóku í hugarflugsfundinum, lögðu fram sínar hugmyndir og mótuðu þær hugmyndir sem þegar höfðu verið lagðar fram.

Stjórnin samþykkir að halda annan opinn fund þegar unnið hefur verið nánar úr niðurstöðum hugarflugsfundarins þar sem bæjarbúum verður gefinn kostur á að koma að lokamótun stefnunnar.

Guðrún Þórsdóttir V-lista óskar bókað: Þar sem verið er að vinna að nýrri menningarstefnu bæjarins þá er áríðandi að vinna samhliða að stefnumótun menningarstofnana eins og t.d. Sjónlistamiðstöðvarinnar. Þeir aðilar sem þar starfa þurfa skýra stefnu til að fylgja eftir, ábyrgðir og hlutverk, sem og hlutverk bæjarins þarf líka að vera mjög skýrt. Niðurskurður í menningarmálum er engin nýlunda. Ég lýsi yfir miklum áhyggjum af því að rætur menningarinnar fái ekki svigrúm til að vaxa, hef og áhyggjur af því að þau fjárframlög sem eru þó til umráða fari einungis í steypu og rekstur.

2.Leikfélag Akureyrar - vinnuhópur um framtíðarskipulag

Málsnúmer 2011050144Vakta málsnúmer

Í kjölfarið á endurnýjuðum samningi Akureyrarbæjar og Leikfélags Akureyrar var stofnaður sameiginlegur starfshópur eða framtíðarnefnd samningsaðila sem hefur það hlutverk að fara yfir rekstrargrundvöll atvinnuleikhúss á Akureyri og leggja fram tillögur um framtíðarskipan þeirra mála. Starfshópurinn hefur tekið til starfa og var greint frá stöðu vinnunnar hingað til.

3.Sjúkrahúsið á Akureyri - niðurskurður á framlögum til rekstrar á árinu 2012

Málsnúmer 2011110043Vakta málsnúmer

Nú liggur fyrir áætlun um 170 milljón króna sparnað á Sjúkrahúsinu á Akureyri á árinu 2012. Sú áætlun felur meðal annars í sér skerðingu á skurðstofustarfsemi og fækkun leguplássa á tilheyrandi deildum. Þetta þýðir lengri biðlista eftir aðgerðum með tilheyrandi þjónustuskerðingu. Þá verður og mikil skerðing á starfsemi barnadeildar, þeirrar einu utan LSH. Þessi skerðing hefur einnig áhrif á starfsemi fæðingadeildar og þjónustu við þungaðar og fæðandi konur sem þarf þá að senda á LSH. Dregið verður úr starfsemi endurhæfingar- og öldrunarlækningadeildar og vafasamt hvort það felur í sér sparnað þegar til lengri tíma er litið.

Stjórn Akureyrarstofu varar eindregið við að þessum áformum verði hrint í framkvæmd í óbreyttri mynd. Ljóst er að Sjúkrahúsið á Akureyri gegnir lykilhlutverki í heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi öllu og mikilvægt að því sé gert kleift að sinna því hlutverki þannig að fulls öryggis sé gætt. Þá er og ljóst að með sparnaði á Sjúkrahúsinu er kostnaði velt yfir á sveitarfélögin á svæðinu og yfir í einkarekna heilbrigðisþjónustu og þar með íbúa.

Það er mat stjórnar Akureyrarstofu að niðurskurður í heilbrigðisþjónustunni sé löngu kominn að þolmörkum. Niðurskurðurinn á eftir að koma illa niður á þeim sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda.

4.Vaðlaheiðargöng - framhald framkvæmda

Málsnúmer 2011110045Vakta málsnúmer

Farið hefur verið yfir allar forsendur fyrir lagninu Vaðlaheiðarganga eftir að tilboð í framkvæmdina voru opnuð. Lægsta tilboð áttu ÍAV hf og Marti Contractors Lts frá Sviss sem buðu í verkið 8,8 milljarða króna eða 95% af kostnaðaráætlun. Endurreikningur leiðir í ljós að forsendur fyrir framkvæmdinni hafa ekki breyst.

Stjórn Akureyrarstofu fagnar því að forsendur fyrir Vaðlaheiðargöngum hafa ekki breyst og því ljóst að framkvæmdir geta hafist á árinu 2012 eins og áður hafði verið ákveðið.

Stjórnin lýsir furðu sinni á ákvörðun umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um að senda málið til úttektar hjá Ríkisendurskoðun nú þegar málið er komið á lokastig en það mun óhjákvæmilega fresta málinu um ótiltekinn tíma. Forsendur framkvæmdarinnar eru byggðar á vinnu sem fram fór þegar viðræður við lífeyrissjóðina um samgönguframkvæmdir áttu sér stað og hafa ekkert breyst síðan þá. Þá sá nefndin ekki ástæðu til að kalla eftir úttekt Ríkisendurskoðunar. Því er óskiljanlegt af hverju það er gert nú þegar tilboð liggja fyrir og séð er fram á að framkvæmdir geti hafist.

Bættar samgöngur eru forsenda búsetu og byggðaþróunar. Stjórn Akureyrarstofu harmar áhugaleysi núverandi ráðherra samgöngumála um framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng, sem munu bæta samgöngur og umferðaröryggi, efla innviði dreifðra byggða, stytta leiðir og sameina svæði. Stjórnin vonar að ekki verði brugðið fæti fyrir þessa nauðsynlegu framkvæmd sem mun hafa í för með sér jákvæða innspýtingu í atvinnulífið og minna atvinnuleysi. Vaðlaheiðargöng gagnast ekki bara íbúum svæðisins heldur landsmönnum öllum. Íbúar svæðisins eru reiðubúnir að taka á sig að greiða veggjöld svo að af framkvæmdum geti orðið til viðbótar þeim sköttum sem á þá eru lagðir.

Stjórn Akureyrarstofu átelur einnig þá umræðu að ríkið leggi fram fé úr ríkissjóði til framkvæmdarinnar. Hið rétta er að ríkið ábyrgist fjármögnun framkvæmdarinnar og því mun ekki koma til fé úr ríkissjóði. Því tekur framkvæmdin ekki fé frá öðrum brýnum málefnum.

Stjórn Akureyrarstofu skorar á Alþingi að ljúka þessu máli strax svo hægt verði að hefja framkvæmdir í upphafi árs 2012 eins og áður hafði verið ákveðið.

5.Amtsbókasafnið á Akureyri - þátttaka í stofnun Barnabókastofu

Málsnúmer 2011110046Vakta málsnúmer

Háskólinn á Akureyri, Amtsbókasafnið á Akureyri og Nonnahús á Akureyri hafa undanfarið undirbúið stofnun sjálfstæðrar Rannsóknastofnunar við Háskólann á Akureyri um barnabókmenntir og lestur barna.
Stjórn Akureyrarstofu fagnar þessu framtaki sérstaklega og þátttöku Amtsbókasafnsins sem mun skv. drögum að viljayfirlýsingu, leggja hinni nýju stofnun til aðgang að fullkomnum kosti barnabóka og þjónustu í tengslum við hann.

Fundi slitið - kl. 18:46.