Vaðlaheiðargöng - framhald framkvæmda

Málsnúmer 2011110045

Vakta málsnúmer

Stjórn Akureyrarstofu - 109. fundur - 09.11.2011

Farið hefur verið yfir allar forsendur fyrir lagninu Vaðlaheiðarganga eftir að tilboð í framkvæmdina voru opnuð. Lægsta tilboð áttu ÍAV hf og Marti Contractors Lts frá Sviss sem buðu í verkið 8,8 milljarða króna eða 95% af kostnaðaráætlun. Endurreikningur leiðir í ljós að forsendur fyrir framkvæmdinni hafa ekki breyst.

Stjórn Akureyrarstofu fagnar því að forsendur fyrir Vaðlaheiðargöngum hafa ekki breyst og því ljóst að framkvæmdir geta hafist á árinu 2012 eins og áður hafði verið ákveðið.

Stjórnin lýsir furðu sinni á ákvörðun umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um að senda málið til úttektar hjá Ríkisendurskoðun nú þegar málið er komið á lokastig en það mun óhjákvæmilega fresta málinu um ótiltekinn tíma. Forsendur framkvæmdarinnar eru byggðar á vinnu sem fram fór þegar viðræður við lífeyrissjóðina um samgönguframkvæmdir áttu sér stað og hafa ekkert breyst síðan þá. Þá sá nefndin ekki ástæðu til að kalla eftir úttekt Ríkisendurskoðunar. Því er óskiljanlegt af hverju það er gert nú þegar tilboð liggja fyrir og séð er fram á að framkvæmdir geti hafist.

Bættar samgöngur eru forsenda búsetu og byggðaþróunar. Stjórn Akureyrarstofu harmar áhugaleysi núverandi ráðherra samgöngumála um framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng, sem munu bæta samgöngur og umferðaröryggi, efla innviði dreifðra byggða, stytta leiðir og sameina svæði. Stjórnin vonar að ekki verði brugðið fæti fyrir þessa nauðsynlegu framkvæmd sem mun hafa í för með sér jákvæða innspýtingu í atvinnulífið og minna atvinnuleysi. Vaðlaheiðargöng gagnast ekki bara íbúum svæðisins heldur landsmönnum öllum. Íbúar svæðisins eru reiðubúnir að taka á sig að greiða veggjöld svo að af framkvæmdum geti orðið til viðbótar þeim sköttum sem á þá eru lagðir.

Stjórn Akureyrarstofu átelur einnig þá umræðu að ríkið leggi fram fé úr ríkissjóði til framkvæmdarinnar. Hið rétta er að ríkið ábyrgist fjármögnun framkvæmdarinnar og því mun ekki koma til fé úr ríkissjóði. Því tekur framkvæmdin ekki fé frá öðrum brýnum málefnum.

Stjórn Akureyrarstofu skorar á Alþingi að ljúka þessu máli strax svo hægt verði að hefja framkvæmdir í upphafi árs 2012 eins og áður hafði verið ákveðið.

Stjórn Akureyrarstofu - 112. fundur - 12.01.2012

Rætt um stöðuna á framkvæmdinni og þær upplýsingar sem hafa komið fram að undanförnu.

Stjórn Akureyrarstofu fagnar skýrslu IFS greiningarfyrirtækis um Vaðlaheiðargöng þar sem fram kemur að allar forsendur fyrir gerð ganganna eru innan marka.

Stjórninni þykir miður hvernig reynt hefur verið að afvegaleiða umræðuna með ýmsum hætti. Gefið er til kynna að ríkissjóður leggi fram fé til framkvæmdarinnar. Hið rétta er að ríkið ábyrgist fjármögnun framkvæmdarinnar og engir fjármunir fara úr ríkissjóði. Framkvæmdin tekur því ekki fé frá öðrum brýnum verkefnum.

Þá má benda á að ríkissjóður fær 3 - 3,5 milljarða í beinar tekjur af framkvæmdinni á byggingartíma ganganna ef farið verður í hana. Þá fjármuni má nota í brýn verkefni í þágu samfélagsins.

Bæjarstjórn - 3316. fundur - 07.02.2012

Umræður um Vaðlaheiðargöng.

Lögð fram tillaga að bókun svohljóðandi:

 

Bæjarstjórn Akureyrar leggur áherslu á að framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng hefjist hið fyrsta. Gerð ganganna er mikilvæg samgöngubót fyrir alla þá sem ferðast um Norðurland, eykur umferðaröryggi og eflir atvinnulíf.

Bæjarstjórn minnir á að aðrar samgöngubætur á samgönguáætlun munu ekki líða fyrir framkvæmd Vaðlaheiðarganga né heldur önnur brýn verkefni, t.d. í heilbrigðisþjónustu, þar sem framkvæmdin verður fjármögnuð með veggjöldum ganganna. Jafnframt vill bæjarstjórn benda á að ríkissjóður fær um þrjá milljarða í beinar tekjur af framkvæmdinni á framkvæmdatíma ganganna.

Í skýrslu IFS Greiningar sem unnin var fyrir fjármálaráðuneytið er meginniðurstaðan sú að helstu forsendur um stofnkostnað og rekstur séu innan raunhæfra marka en lagt til að eigið fé félagsins verði aukið. Bæjarstjórn Akureyrar telur eðlilegt að taka tillit til þessara ábendinga og lýsir yfir vilja sínum til að koma að aukningu hlutafjár í samstarfi við aðra hluthafa. Bæjarstjórn skorar jafnframt á Alþingi að ljúka málinu sem fyrst svo hægt verði að hefjast handa við þessa mikilvægu framkvæmd.

 

Bæjarstjórn samþykkir framlagða bókun með 11 samhljóða atkvæðum.

Stjórn Akureyrarstofu - 121. fundur - 26.04.2012

Rætt um stöðuna á undirbúningi Vaðlaheiðarganga.

Stjórn Akureyrarstofu skorar á þingmenn að samþykkja frumvarp til laga, sem nú er til umræðu, um heimild til handa ráðherra f.h. ríkissjóðs til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði. Vaðlaheiðargöng eru ekki á samgönguáætlun enda eru þau ekki fjármögnuð af ríkissjóði þar sem þau byggja á greiðslu veggjalda. Framkvæmdin getur því ekki tekið fjármagn frá öðrum brýnum vegaframkvæmdum. Stjórnin bendir jafnframt á að engar aðrar framkvæmdir eru á döfinni sem veggjöld geta staðið undir. Stjórn Akureyrarstofu tekur undir brýna þörf fyrir gerð Norðfjarðar- og Dýrafjarðarganga og lýsir yfir stuðningi við þær framkvæmdir.

Stjórn Akureyrarstofu - 125. fundur - 13.06.2012

Alþingi samþykkti nú síðdegis efnisgreinar frumvarps um fjármögnun Vaðlaheiðarganga. Alls sagði 31 þingmaður já, 18 sögðu nei og 6 greiddu ekki atkvæði um fyrstu grein frumvarpsins. Annarri umferð málsins er þar með lokið.

Stjórn Akureyrarstofu fagnar þessari niðurstöðu og hvetur Alþingi til að flýta endanlegri afgreiðslu málsins, svo ljúka megi undirbúningi og hefja framkvæmdir hið fyrsta.

Bæjarráð - 3332. fundur - 20.09.2012

Rætt um fjármögnun Vaðlaheiðarganga.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að fara með umboð Akureyrarbæjar á fyrirhuguðum hluthafafundi Greiðrar leiðar ehf.

Bæjarráð - 3404. fundur - 06.03.2014

Pétur Þór Jónasson framkvæmdastjóri Eyþings og Valgeir Bergmann Magnússon framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga hf mættu á fund bæjarráðs og fóru yfir stöðu Vaðlaheiðargangna.

Bæjarráð þakkar þeim Pétri Þór og Valgeiri Bergmann fyrir yfirferðina.

Bæjarstjóri vék af fundi kl. 09:55.