Sjúkrahúsið á Akureyri - niðurskurður á framlögum til rekstrar á árinu 2012

Málsnúmer 2011110043

Vakta málsnúmer

Stjórn Akureyrarstofu - 109. fundur - 09.11.2011

Nú liggur fyrir áætlun um 170 milljón króna sparnað á Sjúkrahúsinu á Akureyri á árinu 2012. Sú áætlun felur meðal annars í sér skerðingu á skurðstofustarfsemi og fækkun leguplássa á tilheyrandi deildum. Þetta þýðir lengri biðlista eftir aðgerðum með tilheyrandi þjónustuskerðingu. Þá verður og mikil skerðing á starfsemi barnadeildar, þeirrar einu utan LSH. Þessi skerðing hefur einnig áhrif á starfsemi fæðingadeildar og þjónustu við þungaðar og fæðandi konur sem þarf þá að senda á LSH. Dregið verður úr starfsemi endurhæfingar- og öldrunarlækningadeildar og vafasamt hvort það felur í sér sparnað þegar til lengri tíma er litið.

Stjórn Akureyrarstofu varar eindregið við að þessum áformum verði hrint í framkvæmd í óbreyttri mynd. Ljóst er að Sjúkrahúsið á Akureyri gegnir lykilhlutverki í heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi öllu og mikilvægt að því sé gert kleift að sinna því hlutverki þannig að fulls öryggis sé gætt. Þá er og ljóst að með sparnaði á Sjúkrahúsinu er kostnaði velt yfir á sveitarfélögin á svæðinu og yfir í einkarekna heilbrigðisþjónustu og þar með íbúa.

Það er mat stjórnar Akureyrarstofu að niðurskurður í heilbrigðisþjónustunni sé löngu kominn að þolmörkum. Niðurskurðurinn á eftir að koma illa niður á þeim sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda.

Bæjarráð - 3295. fundur - 10.11.2011

Bæjarráð Akureyrar mótmælir þeim niðurskurði sem boðaður hefur verið á Sjúkrahúsinu á Akureyri á árinu 2012. Um er að ræða mikla þjónustuskerðingu og umtalsverða fækkun leguplássa.

Sjúkrahúsið á Akureyri er samkvæmt lögum varasjúkrahús Landspítalans og því mikilvægt að standa vörð um stofnunina. Þá mun niðurskurður á öðrum heilbrigðisstofnunum í nærliggjandi sveitum enn auka álagið á Sjúkrahúsið á Akureyri og því nauðsynlegt að efla starfsemi þess fremur en að skerða hana.