Skipulagsnefnd

192. fundur 26. nóvember 2014 kl. 08:00 - 11:00 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Tryggvi Már Ingvarsson formaður
  • Eva Reykjalín Elvarsdóttir
  • Ólína Freysteinsdóttir
  • Edward Hákon Huijbens
  • Sigurjón Jóhannesson
  • Jón Þorvaldur Heiðarsson áheyrnarfulltrúi
  • Pétur Bolli Jóhannesson skipulagsstjóri
  • Leifur Þorsteinsson fundarritari
Fundargerð ritaði: Pétur Bolli Jóhannesson skipulagsstjóri
Dagskrá
Formaður bar upp ósk um að fá að taka fyrir lið nr. 2, Lagning raflína - tillaga til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda, 321. mál og lið nr. 6, Glerárvirkjun II - matsskylda framkvæmda, sem ekki voru í útsendri dagskrá og var það samþykkt.

1.Raforkulög - frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum (kerfisáætlun, EES-reglur), 305. mál

Málsnúmer 2014080039Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 12. nóvember 2014 frá atvinnuveganefnd Alþingis þar sem óskað eftir umsögn Akureyrarbæjar um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum (kerfisáætlun, EES-reglur), 305. mál, 2014.
Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 26. nóvember nk. Þingskjalið er hægt að sækja á vef Alþingis:
http://www.althingi.is/altext/144/s/0372.html

Skipulagsnefnd beinir því til bæjarráðs að vinna sameiginlega umsögn Akureyrarkaupstaðar um bæði frumvarp um breytingu á raforkulögum, 305. mál, og þingsályktunartillögu
um lagningu raflína, 321. mál.

Skipulagsnefnd leggur áherslu á að sú umsögn snúi að hvorum texta um sig og tekið verði á eftirfarandi þáttum:

Hvað varðar frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum nr. 65/2003 með síðari breytingum (kerfisáætlun), er mikilvægt að fram komi:

- Frumvarpið hefur tekið breytingum sem eru jákvæðar m.a. gagnvart hagsmunum og kostnaðarþátttöku sveitarfélaga (sbr. bókun nefndarinnar þann 27. ágúst 2014).

- Að mati skipulagsnefndar er staða sveitarfélaga í landinu gagnvart skipulagi flutningskerfa veikt með því að binda hendur þeirra í kerfisáætlun. Mikilvægt er að skilgreint verði ferli áfrýjunar á umsagnarferli og það sé tekið fram í lögunum eða skilgreint í reglugerð hvernig því verður háttað. Enginn sveiganleiki er fyrir hendi í núverandi drögum gagnvart sveitarfélögum varðandi samræmingu skipulagsáætlana vegna verkefna í staðfestri 10 ára kerfisáætlun. Það vekur upp spurningar um hversu réttlætanlegt það sé að gera sveitarstjórnir fortakslaust skyldugar til að taka upp þau verkefni sem tilgreind eru í kerfisáætlun.

- Skilgreina þarf betur í frumvarpinu samhengi kerfisáætlunar við aðra áætlanagerð, s.s. landskipulagsstefnu til að sveitarfélög geti mótað sér markvissari heildarstefnu í skipulagsmálum m.a. á flutningskerfum raforku og hafi þannig sterkari stöðu gagnvart kerfisáætlunargerð. T.d. má nefna að í lögum um samgönguáætlun er ekki að finna ákvæði um að sveitarfélög skuli samræma skipulagsáætlanir innan tiltekins árafjölda.


Hvað varðar tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína er óskað eftir að tekið verði á eftirfarandi þáttum:

- Skipulagsnefnd fagnar framkominni þingsályktunartillögu þar sem kynnt eru drög að stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Mikilvægt er að móta skýr viðmið um það hvar t.d. línur skuli fara í jörð og skulu hagsmunir annarra atvinnugreina, framtíð byggðaþróunar, gæði byggðar og flugöryggi skipta þar miklu.

- Skipulagsnefnd telur sérlega mikilvægt að áhersla sé lögð á kosti jarðstrengja innan og í nágrenni við skilgreind þéttbýlismörk. Skipulagsnefnd vill benda á að framtíð línulagna, sérstaklega í og við þéttbýli, í öðrum samanburðarlöndum er í jörðu. Vill skipulagsnefnd í því samhengi benda á sameiginlega tillögu Akureyrarbæjar og Eyjafjarðarsveitar um jarðstrengjaleið í gegnum þéttbýlið og Akureyrarflugvöll sem send var Landsneti þann 2. júlí 2014.

2.Lagning raflína - tillaga til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda, 321. mál

Málsnúmer 2014080113Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 12. nóvember 2014 frá atvinnuveganefnd Alþingis þar sem óskað er umsagnar um tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína, 321. mál. Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 26. nóvember nk. Þingskjalið er hægt að sækja á vef Alþingis:
http://www.althingi.is/altext/144/s/0392.html

Sjá bókun við 1. lið fundargerðarinnar.

3.Breiðholt, hesthúsahverfi - deiliskipulagsbreyting Gránugötu 18

Málsnúmer 2014110072Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 10. nóvember 2014 frá Bjarma A. Sigurgarðarssyni og Ólöfu Ýr Lárusdóttur sem sækja um breytingu á deiliskipulagi hesthúsahverfisins Breiðholts. Um er að ræða lítilsháttar stækkun á byggingarreit við Gránugötu 18. Meðfylgjandi er tillaga að deiliskipulagsbreytingu dagsett 26. nóvember 2014, sem er í samræmi við ofangreint og unnin af Árna Ólafssyni frá Teiknistofu arkitekta ehf.

Einungis er um að ræða lítilsháttar stækkun á byggingarreit innan lóðar og er breyting sem varðar Akureyrarkaupstað og lóðarhafa. Nýtingarhlutfall lóðarinnar helst óbreytt.
Þess vegna leggur skipulagsnefnd til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt í samræmi við 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

4.Langamýri, dreifistöð rafmagns - umsókn um lóð

Málsnúmer 2014110135Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 14. nóvember 2014 þar sem Helgi Jóhannesson f.h. Norðurorku hf., kt. 550978-0169, sækir um lóð við Löngumýri undir dreifistöð rafmagns.

Edward H. Huijbens V-lista bar upp vanhæfi sitt vegna afgreiðslu erindisins.
Skipulagsnefnd hafnar því að um vanhæfi sé að ræða.

Skipulagsnefnd óskar eftir nánari upplýsingum um umfang dreifistöðvarinnar og staðsetningu sem hægt væri að nýta vegna grenndarkynningar.

5.Oddeyrartangi landnr. 149144 (Laufásgata 8) - umsókn um lóðarstækkun

Málsnúmer 2014110088Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 11. nóvember 2014 þar sem Anton Örn Brynjarsson f.h. Polaris Seafood, kt. 551007-1030, sækir um lóðarstækkun við Oddeyrartanga, landnr. 149144 skv. nýju deiliskipulagi.

Skipulagsnefnd samþykkir lóðarstækkunina og felur lóðarskrárritara að gefa út yfirlýsingu um breytta lóðarstærð.

6.Glerárvirkjun II - matsskylda framkvæmda

Málsnúmer 2014100145Vakta málsnúmer

Lögð er fram ákvörðun Skipulagsstofnunar dagsett 24. nóvember 2014, um matsskyldu ofangreindrar framkvæmdar. Fram kemur að það sé niðurstaða Skipulagsstofnunar að Glerárvirkjun II á Akureyri sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Lagt fram til kynningar.

7.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2014

Málsnúmer 2014010005Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 13. nóvember 2014. Lögð var fram fundargerð 517. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 5 liðum.

Lagt fram til kynningar.

8.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2014

Málsnúmer 2014010005Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 20. nóvember 2014. Lögð var fram fundargerð 518. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 15 liðum.

Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 11:00.