Alþingiskosningar 2013

Málsnúmer 2013030028

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 3358. fundur - 21.03.2013

Lagt fram erindi dags. 12. mars 2013 frá formanni kjörstjórnar Akureyrar vegna komandi alþingiskosninga þann 27. apríl nk. Þar kemur fram tillaga kjörstjórnar um að Akureyrarkaupstað verði skipt í tólf kjördeildir þannig að tíu verði á Akureyri, ein í Hrísey og ein í Grímsey. Á Akureyri verði kjörstaður í Verkmenntaskólanum á Akureyri, í Hrísey verði kjörstaður í Hríseyjarskóla og í Grímsey í félagsheimilinu Múla. Þá hefur kjörstjórnin á Akureyri ennfremur ákveðið að leggja til við bæjarráð að kjörfundur standi frá kl. 09:00 til kl. 22:00 á Akureyri, en frá kl. 10:00 til kl. 18:00 í Hrísey og Grímsey. Óskar kjörstjórn eftir því við bæjarráð að ofangreindar tillögur verði samþykktar.
Bæjarráð samþykkir tillögur kjörstjórnar.

Bæjarstjórn - 3337. fundur - 09.04.2013

Lögð fram eftirfarandi tillaga:
Bæjarstjórn samþykkir að fela bæjarstjóra að semja kjörskrá. Jafnframt er bæjarráði veitt fullnaðarheimild til að fjalla um athugasemdir, gera nauðsynlegar leiðréttingar og úrskurða um ágreiningsmál sem kunna að koma fram að kjördegi vegna Alþingiskosninga 27. apríl nk. í samræmi við 27. gr. laga um kosningar til Alþingis.

Bæjarstjórn samþykkir framlagða tillögu með 11 samhljóða atkvæðum.

Bæjarstjórn - 3337. fundur - 09.04.2013

Lagður fram listi með nöfnum þrjátíu og sex aðalmanna og þrjátíu og sex varamanna í undirkjörstjórnir vegna alþingiskosninganna 27. apríl nk.
Þar sem ekki komu fram fleiri nöfn en kjósa á lýsti forseti þetta fólk réttkjörið sem aðal- og varamenn í undirkjörstjórnir.

Bæjarráð - 3364. fundur - 23.04.2013

Erindi dags. 19. apríl 2013 frá Helga Pétri Hilmarssyni þar sem hann óskar eftir að verða tekinn á kjörskrá við kosningar til alþingis þann 27. apríl nk.

Samkvæmt 3. mgr. 27. gr. kosningalaga nr. 24/2000 er óheimilt að breyta kjörskrá ef íslenskur ríkisborgari, sem búsettur hefur verið erlendis frá því fyrir 1. desember 2004, hefur ekki sótt um til Þjóðskrár Íslands fyrir 1. desember 2012 að verða tekinn á kjörskrá.

Bæjarráð getur því ekki orðið við erindinu.

Bæjarráð - 3368. fundur - 16.05.2013

Lagt fram til kynningar bréf dags. 6. maí 2013 frá formanni kjörstjórnar Akureyrarkaupstaðar, Helgu G. Eymundsdóttur. Í bréfinu kemur fram að í Alþingiskosningunum sem fram fóru þann 27. apríl sl. þá hafi kjörfundur hafist á öllum kjörstöðum Akureyrarkaupstaðar kl. 09:00 og lauk kl. 22:00 á Akureyri, kl. 16:00 í Grímsey og kl. 18:00 í Hrísey.
Á kjörskrá voru 13.406 en á kjörstað á kjördag kusu 9.145. Utan kjörfundar greiddu atkvæði 1.755 þannig að samtals greiddu 10.900 atkvæði og kosningaþáttakan 81,31%.
Kjörfundur gekk mjög vel og sem endranær telur kjörstjórn ástæðu til að hrósa öllu starfsfólki sérstaklega fyrir þeirra framlag til kosninganna, en að venju var fumlaus framkoma þeirra og ósérhlífni við undirbúning og framgang kosninganna sem er lykill að velheppnaðri framkvæmd þeirra.

Bæjarráð þakkar kjörstjórn, undirkjörstjórnum og starfsmönnum framkvæmd og vel unnin störf.