Bæjarstjórn

3535. fundur 31. október 2023 kl. 16:00 - 18:26 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórnar
  • Heimir Örn Árnason
  • Hlynur Jóhannsson
  • Jana Salóme I. Jósepsdóttir
  • Jón Hjaltason
  • Gunnar Már Gunnarsson
  • Andri Teitsson
  • Hilda Jana Gísladóttir
  • Hulda Elma Eysteinsdóttir
  • Lára Halldóra Eiríksdóttir
  • Sunna Hlín Jóhannesdóttir
Starfsmenn
  • Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri
  • Olga Margrét Kristínard. Cilia lögfræðingur
  • Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður ritaði fundargerð
Fundargerð ritaði: Jón Þór Kristjánsson forstöðumaður þjónustu og þróunar
Dagskrá
Í upphafi las forseti minningarorð um Dagbjörtu Pálsdóttur.
Við upphaf þessa fundar minnumst við Dagbjartar Elínar Pálsdóttur, fyrrum bæjarfulltrúa, en hún lést 18. október síðastliðinn, 43 ára að aldri.
Dagbjört fæddist 1. september 1980. Hún lauk sjúkraliðanámi og stúdentsprófi frá Verkmenntaskólanum á Akureyri, BA gráðu í félagsvísindum frá Háskólanum á Akureyri og viðbótardiplómu í áfengis- og vímuefnamálum frá Háskóla Íslands.
Dagbjört starfaði hjá Akureyrarbæ á árum áður, meðal annars á Öldrunarheimilum Akureyrar og þjónustukjarnanum í Hafnarstræti. Þá starfaði hún einnig á Sjúkrahúsinu á Akureyri og nú síðast á hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð.
Dagbjört var varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akureyri 2014 til 2016 en tók þá við sem aðalfulltrúi og sat í bæjarstjórn til 2019. Hún var formaður fræðsluráðs, velferðarráðs og umhverfisnefndar. Hún sat jafnframt í samfélags- og mannréttindaráði, öldungaráði, óshólmanefnd og stjórn Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, auk ýmissa starfshópa og verkefna sem hún tók að sér fyrir bæinn.
Eftirlifandi eiginmaður Dagbjartar er Þórarinn Magnússon en þau giftu sig 2020. Fyrrverandi eiginmaður Dagbjartar er Jóhann Jónsson og áttu þau fjögur börn, Margréti Birtu, Elínu Ölmu, Jón Pál og Hólmfríði Lilju.
Bæjarstjórn vottar aðstandendum Dagbjartar samúð sína, um leið og henni eru þökkuð fórnfús störf í þágu bæjarfélagsins og vil ég fyrir hönd okkar bæjarfulltrúa sem störfuðu með henni í bæjarstjórn þakka gott samstarf.
Bið ég fundarmenn að rísa úr sætum til að heiðra minningu Dagbjartar Elínar Pálsdóttur.

1.Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2024-2027 - fyrri umræða

Málsnúmer 2023020943Vakta málsnúmer

Liður 1 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 26. október 2023:

Lögð fram drög að fjárhagsáætlun 2024-2027.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Kristín Baldvinsdóttir forstöðumaður hagþjónustu og áætlanagerðar sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Þá sátu Hulda Elma Eysteinsdóttir og Lára Halldóra Eiríksdóttir undir þessum lið í gegnum fjarfundarbúnað.

Bæjarráð vísar fjárhagsáætlun 2024-2027 til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

Heimir Örn Árnason kynnt.

Til máls tóku Hilda Jana Gísladóttir, Heimir Örn Árnason, Andri Teitsson, Hulda Elma Eysteinsdóttir, Sunna Hlín Jóhannesdóttir, Halla Björk Reynisdóttir og Hlynur Jóhannsson.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að vísa fjárhagsáætlun 2024-2027 til frekari yfirferðar í bæjarráði og síðari umræðu í bæjarstjórn.

Hulda Elma Eysteinsdóttir L-lista, Heimir Örn Árnason D-lista, Hlynur Jóhannsson M-lista, Halla Björk Reynisdóttir L-lista, Lára Halldóra Eiríksdóttir D-lista og Andri Teitsson L-lista óska bókað;

Í fjárhagsáætluninni er megin áhersla lögð á grunnkerfin okkar, velferðar- og fræðslumál. Komið verður til móts við barnafjölskyldur með því að bjóða upp á gjaldfrjálsan 6 tíma leikskóla frá og með áramótum og gjöldin að öðru leyti tekjutengd. Þá verða gjöld fyrir frístund jafnframt tekjutengd. Stuðningsþjónusta í skólunum verður aukin og auknu fjármagni veitt til uppbyggingar og endurbóta á mannvirkjum. Gert er ráð fyrir að íbúðakjarni í Hafnarstræti verði tekinn í notkun á árinu og undirbúningur uppbyggingar á öðrum kjarna í Nonnahaga hafinn. Þjónustuíbúðir verða teknar í notkun í Dvergaholti og tvö smáhýsi sömuleiðis. Uppbygging íþróttamannvirkja heldur áfram af miklum krafti og Akureyrarbær mun ekki láta sitt eftir liggja í að bjóða upp á nægar lóðir til uppbygginga á húsnæði jafnt fyrir einstaklinga sem fyrirtæki með því að verja auknu fjármagni til skipulagsmála.

Nýtt flokkunar- og söfnunarkerfi verður innleitt í sorpmálum og nýir stígar teknir í notkun samkvæmt metnaðarfullu stígaskipulagi. Farið verður í markvissa vinnu við að takast á við svifryksmengun, sem er óásættanleg fyrir bæjarbúa. Þá er stefnt á að jafnvægi náist í rekstrinum árið 2026, en það ræðst einkum af efnahagsástandinu í landinu og hvort að það tekst að ná verðbólgu niður.

2.Gjaldfrjálsir sex tímar og tekjutenging leikskólagjalda

Málsnúmer 2023070444Vakta málsnúmer

Liður 6 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 19. október 2023:

Liður 11 í fundargerð fræðslu- og lýðheilsuráðs dagsettri 9. október 2023:

Lögð fram til samþykktar drög að gjaldskrá leikskóla fyrir 2024. Lagt er til að skólatíminn frá 08:00 til 14:00 verði gjaldfrjáls en fæðisgjald hækki í takt við aðrar gjaldskrárbreytingar.

Fræðslu- og lýðheilsuráð samþykkir fyrir sitt leyti framlagða tillögu að breytingu á gjaldskrá leikskólamála fyrir árið 2024 og vísar málinu áfram til bæjarráðs.

Kristín Jóhannesdóttir sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs, Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Kristín Baldvinsdóttir forstöðumaður hagþjónustu og áætlanagerðar sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir með þremur atkvæðum framlagða tillögu að breytingu á gjaldskrá leikskóla fyrir árið 2024 og vísar gjaldskránni til staðfestingar í bæjarstjórn. Hilda Jana Gísladóttir S-lista og Gunnar Már Gunnarsson B-lista sátu hjá. Meirihluti bæjarráðs telur að með gjaldfrjálsum 6 tíma leikskóla sé verið að huga að velferð starfsfólks og barna í leikskólum hvað varðar vinnuumhverfi og vinnuaðstöðu. Gert er ráð fyrir að leikskólagjöld verði tekjutengd bæði fyrir einstaklinga og fólk í sambúð. Einnig er verið að innleiða heimgreiðslur sem við reiknum með að muni gagnast mörgum fjölskyldum með beinum hætti og öðrum með óbeinum hætti, með að skapa meira rými í leikskólunum. Að lokum er verið að innleiða skráningardaga í því skyni að skapa svigrúm til að mæta fjögurra tíma styttingu vinnuvikunnar hjá starfsfólki í leikskólum. Skráningardagar og gjaldfrjálsir 6 tímar eru tilraunaverkefni til eins árs og gerðar verða stöðuskýrslur að liðnum 6 og 12 mánuðum frá upphafi verkefnanna. Hilda Jana Gísladóttir S-lista, Gunnar Már Gunnarsson B-lista, Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista og Jón Hjaltason óska bókað: Undirbúningi vegna þessa máls er ábótavant og gögnin takmörkuð. Svo virðist vera að ákvörðunin sé tekin fyrst og reynt að finna forsendur eftir á. Þá er dapurlegt að meirihlutinn sýni enga viðleitni til að verða við ábendingum Jafnréttisstofu til Akureyrarbæjar vegna þessa máls. Jafnréttisstofa hefur bent á að undirbyggja mætti slíkt mat út frá eftirfarandi spurningum sem byggja á mannréttindastefnu Akureyrarbæjar: Hefur farið fram mat á áhrifum á ólíka hópa foreldra út frá t.d. kynjasjónarmiði, þjóðerni, hvort um er að ræða einstæða foreldra eða foreldra í sambúð? Hefur verið lagt mat á það hvaða hópar eru líklegastir til að nýta eingöngu 6 tíma leikskóladvöl? Hefur verið lagt mat á það hvaða hópar eru líklegastir til að kaupa viðbótartíma? Hefur verið lagt mat á það hvort vinnutímastytting á við hjá öllum foreldrum leikskólabarna? Hefur verið lagt mat á það hvort líkur eru á því að mæður fremur en feður minnki við sig starfshlutfall til að þurfa ekki að greiða fyrir viðbótartíma? Hefur verið lagt mat á það hvaða áhrif ákvörðunin hefur á stöðu foreldra á vinnumarkaði?

Heimir Örn Árnason kynnti.

Til máls tóku Gunnar Már Gunnarsson, Hilda Jana Gísladóttir, Heimir Örn Árnason, Jón Hjaltason og Sunna Hlín Jóhannesdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir með sjö atkvæðum framlagða tillögu að breytingum á gjaldskrá leikskóla fyrir árið 2024 sem felur í sér gjaldfrjálsa sex tíma og tekjutengda afslætti af leikskólagjöldum.


Hilda Jana Gísladóttir S-lista, Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista, Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista og Gunnar Már Gunnarsson B-lista sátu hjá og óska bókað:

Undirbúningi vegna þessa máls er ábótavant, samráð við foreldra ekkert og gögn takmörkuð. Svo virðist vera að ákvörðunin sé tekin fyrst og reynt að finna forsendur eftir á. Þá er dapurlegt að meirihlutinn sýni enga viðleitni til að verða við ábendingum Jafnréttisstofu til Akureyrarbæjar vegna þessa máls. Gjaldskrárhækkun fyrir þau 85,2% foreldra sem nýta 8-8,5 tíma á leikskólum á dag verður veruleg eða allt að 13%, auk þess sem fæðisgjald mun hækka um 9%, nema þau hafi tækifæri til þess að draga úr leikskóladvöl barna sinna. Leikskólar eru ákaflega mikilvæg grunnþjónusta samfélagsins sem eflir þroska og velferð barna sem skiptir fjölskyldur sem og atvinnulífið miklu máli. Ljóst er að það skiptir miklu máli að bæta kjör og starfsaðstæður starfsfólks leikskóla, því ber sveitarfélaginu að taka alvarlega. Auk þess skiptir máli að samfélagið ræði skólatíma barna á leikskólum með tilliti til velferðar þeirra.


Hulda Elma Eysteinsdóttir L-lista, Heimir Örn Árnason D-lista, Hlynur Jóhannsson M-lista, Halla Björk Reynisdóttir L-lista, Lára Halldóra Eiríksdóttir D-lista og Andri Teitsson L-lista óska bókað;

Með gjaldfrjálsum 6 tíma leikskóla er verið að huga að velferð starfsfólks og barna í leikskólum hvað varðar vinnuumhverfi og vinnuaðstöðu. Leikskólagjöld verða tekjutengd bæði fyrir einstaklinga og fólk í sambúð og þannig komið til móts við stóran hóp fólks. Samhliða þessu er verið að innleiða heimgreiðslur sem við reiknum með að muni gagnast mörgum fjölskyldum með beinum og óbeinum hætti, þegar meira rými skapast í leikskólunum. Að lokum er verið að innleiða skráningardaga í því skyni að skapa svigrúm til að mæta fjögurra tíma styttingu vinnuvikunnar hjá starfsfólki í leikskólum. Skráningardagar og gjaldfrjálsir 6 tímar eru tilraunaverkefni til eins árs og gerðar verða stöðuskýrslur að liðnum 6 og 12 mánuðum frá upphafi verkefnanna.

3.Hlíðarfjall - gjaldskrá 2024

Málsnúmer 2023101078Vakta málsnúmer

Liður 2 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 26. október 2023:

Lögð fram drög að gjaldskrá Hlíðarfjalls.

Brynjar Helgi Ásgeirsson forstöðumaður í Hlíðarfjalli og Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjármálasviðs sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir gjaldskrá Hlíðarfjalls fyrir sitt leyti og vísar henni til afgreiðslu í bæjarstjórn.

Andri Teitsson kynnti.
Bæjarstjórn samþykkir framlagða gjaldskrá Hlíðarfjalls með 11 samhljóða atkvæðum.

4.Gjaldskrá dagforeldra og niðurgreiðslur til foreldra 2023

Málsnúmer 2023100117Vakta málsnúmer

Liður 5 í dagskrá bæjarráðs dagsettri 19. október 2023:

Liður 9 í fundargerð fræðslu- og lýðheilsuráðs dagsettri 9. október 2023:

Niðurgreiðslur til dagforeldra hafa tekið mið af kjarasamningi Einingar-Iðju við sveitarfélögin (launaflokkur 121). Nú varð breyting á umræddum kjarasamningi frá og með 1. október sl., en þar eru laun í launaflokki 121 hækkuð um 19.500 kr. miðað við fullt starf. Hækkunin nemur 4,3624%.

Fræðslu- og lýðheilsuráð samþykkir fyrir sitt leyti framlagða tillögu að breytingu á gjaldskrá dagforeldra og vísar málinu áfram til bæjarráðs.

Kristín Jóhannesdóttir sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs, Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Kristín Baldvinsdóttir forstöðumaður hagþjónustu og áætlanagerðar sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir framlagða tillögu að breytingu á gjaldskrá dagforeldra og vísar gjaldskránni til staðfestingar í bæjarstjórn.

Lára Halldóra Eiríksdóttir kynnti.


Bæjarstjórn samþykkir framlagða tillögu að breytingu á gjaldskrá dagforeldra með 11 samhljóða atkvæðum.

5.Reglur um félagslegt leiguhúsnæði Akureyrarbæjar

Málsnúmer 2023090345Vakta málsnúmer

Liður 5 í fundargerð velferðarráðs dagsettri 25. október 2023:

Lagðar fram að nýju reglur um félagslegt leiguhúsnæði Akureyrarbæjar. Reglunum var vísað til umsagnar samráðshóps um málefni fatlaðs fólks og hann lýsir yfir ánægju sinni með reglurnar. Öldungaráð fékk reglurnar til umsagnar og gerir ekki athugasemdir við þær.

Anna Marit Níelsdóttir forstöðumaður sat fundinn undir þessum lið.

Velferðarráð samþykkir reglurnar fyrir sitt leyti og vísar þeim til bæjarstjórnar.

Hulda Elma Eysteinsdóttir kynnti.
Bæjarstjórn samþykkir endurskoðaðar reglur um félagslegt leiguhúsnæði Akureyrarbæjar með 11 samhljóða atkvæðum.

6.Upplýsingastefna Akureyrarbæjar

Málsnúmer 2023021215Vakta málsnúmer

Liður 3 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 26. október 2023:

Lögð fram drög að endurskoðaðri upplýsinga- og vefstefnu Akureyrarbæjar til ársins 2026.

Sumarliði Helgason sviðsstjóri þjónustu- og skipulagssviðs, Jón Þór Kristjánsson forstöðumaður þjónustu og þróunar og Þórgnýr Dýrfjörð forstöðumaður atvinnu- og menningarmála sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir endurskoðaða upplýsinga- og vefstefnu Akureyrarbæjar ásamt áætlun um aðgerðir út næsta ár og vísar til umræðu og afgreiðslu í bæjarstjórn. Markmið upplýsinga- og vefstefnunnar er einkum að tryggja gagnsæi og að almenningur hafi greiðan aðgang að upplýsingum um sveitarfélagið. Þá rammar stefnan jafnframt inn helstu áherslur og leiðbeiningar um notkun á vefjum sveitarfélagsins.

Hlynur Jóhannson kynnti.

Til máls tók Hilda Jana Gísladóttir.
Bæjarstjórn samþykkir endurskoðaða upplýsinga- og vefstefnu Akureyrarbæjar með 11 samhljóða atkvæðum.

7.Landbúnaðarmál - staða bænda

Málsnúmer 2023101229Vakta málsnúmer

Umræða um erfiða stöðu bænda og hlutverk Akureyrarbæjar sem þjónustu- og framleiðslumiðstöð í blómlegu landbúnaðarhéraði.

Málshefjandi er Jón Hjaltason.

Til máls tóku Hilda Jana Gísladóttir, Sunna Hlín Jóhannesdóttir, Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, Andri Teitsson og Gunnar Már Gunnarsson.
Bæjarstjórn Akureyrarbæjar lýsir yfir þungum áhyggjum af þeirri stöðu sem komin er upp hjá bændum. Það er sveitarfélaginu mikilvægt að matvælaframleiðslu séu skapaðar öruggar rekstraraðstæður, enda landbúnaður og þjónusta við landbúnað mikilvæg atvinnulífinu á Akureyri. Bæjarstjórn skorar á ríkisvaldið að flýta vinnu starfshóps matvælaráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og innviðaráðuneytisins vegna fjárhagsstöðu bænda.

8.Skýrsla bæjarstjóra

Málsnúmer 2023010626Vakta málsnúmer

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri fer yfir helstu atriði í störfum sínum frá síðasta fundi bæjarstjórnar.
Eftirtaldar fundargerðir eru lagðar fram til kynningar:

Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa 19. og 26. október 2023
Bæjarráð 19. og 26. október 2023
Fræðslu- og lýðheilsuráð 23. október 2023
Skipulagsráð 25. október 2023
Umhverfis- og mannvirkjaráð 17. og 25. október 2023
Velferðarráð 11. og 25. október 2023

Hægt er að nálgast fundargerðirnar á heimasíðu Akureyrarbæjar: https://www.akureyri.is/is/stjornkerfi/stjornsysla/fundargerdir

Fundi slitið - kl. 18:26.