Bæjarstjórn

3439. fundur 04. september 2018 kl. 16:00 - 17:34 Hamrar í Hofi
Nefndarmenn
  • Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórnar
  • Dagbjört Elín Pálsdóttir
  • Hlynur Jóhannsson
  • Andri Teitsson
  • Guðmundur Baldvin Guðmundsson
  • Hilda Jana Gísladóttir
  • Ingibjörg Ólöf Isaksen
  • Eva Hrund Einarsdóttir
  • Lára Halldóra Eiríksdóttir
  • Sóley Björk Stefánsdóttir
  • Þórhallur Jónsson
Starfsmenn
  • Kristín Sóley Sigursveinsdóttir forstöðumaður upplýsinga- og þjónustudeildar ritaði fundargerð
Fundargerð ritaði: Kristín Sóley Sigursveinsdóttir forstöðumaður upplýsinga- og þjónustudeildar
Dagskrá
Lára Halldóra Eiríksdóttir D-lista mætti í forföllum Gunnars Gíslasonar.

Í upphafi fundar bauð forseti Láru Halldóru Eiríksdóttur velkomna á hennar fyrsta fund í bæjarstjórn.

1.Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2018 - viðauki

Málsnúmer 2017040095Vakta málsnúmer

Liður 7 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 23. ágúst 2018:

Lagður fram viðauki 9 vegna breytinga á kjarasamningum kennara í grunnskólum og kennara og stjórnenda í leik- og tónlistarskólum og breytinga á samningum félaga háskólamanna vegna starfsmats.

Halla Margrét Tryggvadóttir sviðsstjóri stjórnsýslusviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir framlagðan viðauka að upphæð 186,6 milljónir króna og vísar honum til staðfestingar í bæjarstjórn.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson tók til máls og kynnti innihald viðaukans.
Bæjarstjórn staðfestir ákvörðun bæjarráðs með 11 samhljóða atkvæðum.

2.Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2018 - viðauki

Málsnúmer 2017040095Vakta málsnúmer

Liður 4 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 30. ágúst 2018:

Lagður fram viðauki 10. Viðaukinn er í fjórum liðum:

a) Vegna endurnýjunar þjónustusamnings við Minjasafnið á Akureyri, samtals kr. 8.929.000 sem skiptist í i) kr. 7.500.000 vegna eingreiðslu og ii) kr. 1.491.000 vegna hækkunar á samningsbundnu framlagi. Framlag til Minjasafnsins var hækkað um kr. 371.000 í viðauka 9 (samþ. í bæjarráði 23. ágúst) og er samtals hækkun í þessum tveimur viðaukum kr. 9.300.000.

b) Vegna fjárstuðnings við Iðnaðarsafnið kr. 2.000.000.

c) Vegna aukinna framlaga til Eyþings sem koma til vegna uppgjörs lífeyrisskuldbindinga kr. 4.435.000.

d) Vegna viðbótarfjárveitingar til næturvaktar á áfangaheimili fyrir geðfatlaða kr. 17.000.000.

Útgjaldaaukning aðalsjóðs vegna viðaukans er kr. 32.364.000 og er mætt með lækkun á handbæru fé.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Halla Margrét Tryggvadóttir sviðsstjóri stjórnsýslusviðs sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir framlagðan viðauka og vísar honum til staðfestingar í bæjarstjórn.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson tók til máls og kynnti innihald viðaukans.
Bæjarstjórn staðfestir ákvörðun bæjarráðs með 11 samhljóða atkvæðum.

3.Samþykkt kjarasamninganefndar - endurskoðun

Málsnúmer 2018070562Vakta málsnúmer

Liður 2 í fundargerð kjarasamninganefndar dagsettri 20. ágúst 2018:

Umfjöllun um tillögu að breytingum á samþykkt kjarasamninganefndar.

Kjarasamninganefnd samþykkir framlagða tillögu að breytingum á samþykkt kjarasamninganefndar og vísar þeim til samþykktar í bæjarstjórn.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson tók til máls og kynnti breytingatillögurnar.
Bæjarstjórn samþykkir framlagða tillögu að breytingum á samþykkt fyrir kjarasamninganefnd Akureyrar með 11 samhljóða atkvæðum.

4.Klettaborg - umsókn um heimild til breytingar á deiliskipulagi

Málsnúmer 2017050078Vakta málsnúmer

Liður 5 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 29. ágúst 2018:

Lögð fram að nýju að lokinni auglýsingu, tillaga að breytingu á deiliskipulagi Klettaborgar. Skipulagssvæðið sem breytingum tekur liggur milli vestustu húsanna við Klettaborg og Dalsbrautar. Í tillögunni felst að afmörkuð er ný lóð fyrir íbúðakjarna með sex íbúðum og fyrirhugað leiksvæði er flutt til norðurs, yfir götuna. Tillagan var auglýst til kynningar 30. maí sl. með athugasemdafresti til 12. júlí og bárust 6 athugasemdabréf á kynningartíma. Afgreiðslu málsins var frestað á fundi skipulagsráðs 25. júlí og sviðsstjóra skipulagssviðs falið að vinna umsögn um athugasemdir. Er tillaga að umsögn um efnisatriði athugasemda dagsett 24. ágúst lögð fram. Þá er einnig lagt fram minnisblað skipulagsráðgjafa dagsett 15. ágúst 2018, f.h. umhverfis- og mannvirkjasviðs.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagsbreytingin verði samþykkt ásamt umsögn um innkomnar athugasemdir og sviðsstjóra skipulagssviðs falið að annast gildistöku hennar samkvæmt 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með síðari breytingum.

Þórhallur Jónsson D-lista sat hjá við afgreiðslu málsins.

Ingibjörg Ólöf Isaksen tók til máls og kynnti deiliskipulagsbreytinguna.

Í umræðum tóku til máls Hlynur Jóhannsson og Þórhallur Jónsson. Ingibjörg Ólöf Isaksen tók aftur til máls og svaraði athugasemdum.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsráðs með 11 samhljóða atkvæðum.

5.Velferðarstefna 2018-2023

Málsnúmer 2018081103Vakta málsnúmer

Liður 3 í fundargerð velferðarráðs dagsettri 22. ágúst 2018 (mál 2015010191):

Drög að velferðarstefnu Akureyrarbæjar sem unnin voru á nýliðnu kjörtímabili lögð fram til kynningar og umræðu. Velferðarráð 2014-2018 samþykkti drögin fyrir sitt leyti á fundi sínum 6. júní 2018 og vísaði þeim til bæjarstjórnar.

Guðrún Sigurðardóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs sat fundinn undir þessum lið.

Velferðarráð samþykkir framlögð drög fyrir sitt leyti og vísar þeim til bæjarstjórnar.

Dagbjört Elín Pálsdóttir tók til máls og kynnti drög að velferðarstefnu Akureyrarbæjar 2018-2023.

Í umræðum tóku til máls Sóley Björk Stefánsdóttir og Eva Hrund Einarsdóttir. Dagbjört Elín Pálsdóttir tók aftur til máls og svaraði athugasemdum.
Bæjarstjórn samþykkir framlögð drög að velferðarstefnu Akureyrarbæjar, sem gildir frá 2018 til 2023, og leggur áherslu á að aðgerðaáætlun ásamt mælikvörðum verði lögð fram innan sex mánaða.

6.SÁÁ göngudeild á Akureyri

Málsnúmer 2018081122Vakta málsnúmer

Umræður um starfsemi SÁÁ utan höfuðborgarsvæðisins.

Hilda Jana Gísladóttir tók til máls og reifaði sögu göngudeildarþjónustu SÁÁ á Akureyri undanfarin ár og núverandi stöðu.

Í umræðum tóku til máls Eva Hrund Einarsdóttir, Sóley Björk Stefánsdóttir, Halla Björk Reynisdóttir og Þórhallur Jónsson.

Forseti las upp svohljóðandi tillögu að sameiginlegri ályktun bæjarstjórnar:

Bæjarstjórn Akureyrar fordæmir þau áform SÁÁ að loka göngudeild sinni á Akureyri um næstu áramót. Það er að okkar mati algjörlega óásættanlegt að í þjónustusamningi ríkisins við SÁÁ sé ekki skilgreind nein þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins. Bæjarstjórn skorar á SÁÁ og ríkisvaldið að bæta úr þessu hið fyrsta og felur bæjarstjóra að ræða við samningsaðila og leita leiða til að koma í veg fyrir að þjónustan verði lögð niður.

Bæjarstjórn samþykkir ályktunina með 11 samhljóða atkvæðum.

7.Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2019-2022 - fjárhagsrammi

Málsnúmer 2018050147Vakta málsnúmer

Umræður um fjárhagsramma vegna vinnu við gerð fjárhagsáætlunar að ósk Sóleyjar Bjarkar Stefánsdóttur V-lista f.h. minnihlutans. Fjárhagsramminn var samþykktur á fundi bæjarráðs 9. ágúst sl.

Málshefjandi Sóley Björk Stefánsdóttir tók til máls. Í umræðum tóku til máls Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Eva Hrund Einarsdóttir, Guðmundur Baldvin Guðmundsson (í annað sinn), Þórhallur Jónsson, Sóley Björk Stefánsdóttir, Guðmundur Baldvin Guðmundsson (í þriðja sinn - til andsvars), Sóley Björk Stefánsdóttir, Halla Björk Reynisdóttir, Sóley Björk Stefánsdóttir, Ingibjörg Ólöf Isaksen, Halla Björk Reynisdóttir, Andri Teitsson, Sóley Björk Stefánsdóttir og Eva Hrund Einarsdóttir (í annað sinn).
Eftirtaldar fundargerðir eru lagðar fram til kynningar:

Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa 23. og 30. ágúst 2018
Bæjarráð 23. og 30. ágúst 2018
Frístundaráð 22. og 27. ágúst 2018
Fræðsluráð 20. ágúst 2018
Kjarasamninganefnd 20. ágúst 2018
Skipulagsráð 29. ágúst 2018
Stjórn Akureyrarstofu 30. ágúst 2018
Umhverfis- og mannvirkjaráð 31. ágúst 2018
Velferðarráð 22. ágúst 2018

Hægt er að nálgast fundargerðirnar á heimasíðu Akureyrarbæjar: https://www.akureyri.is/is/stjornkerfi/stjornsysla/fundargerdir

Fundi slitið - kl. 17:34.