Bæjarstjórn

3411. fundur 21. mars 2017 kl. 16:00 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
 • Matthías Rögnvaldsson forseti bæjarstjórnar
 • Ingibjörg Ólöf Isaksen
 • Preben Jón Pétursson
 • Dagbjört Elín Pálsdóttir
 • Guðmundur Baldvin Guðmundsson
 • Sigríður Huld Jónsdóttir
 • Silja Dögg Baldursdóttir
 • Baldvin Valdemarsson
 • Eva Hrund Einarsdóttir
 • Gunnar Gíslason
 • Sóley Björk Stefánsdóttir
Starfsmenn
 • Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri
 • Dagný Magnea Harðardóttir fundarritari
Fundargerð ritaði: Dagný Magnea Harðardóttir skrifstofustjóri Ráðhúss
Dagskrá
Í upphafi fundar minntist forseti fyrrverandi bæjarstjóra.
Helgi M. Bergs fyrrverandi bæjarstjóri á Akureyri lést 16. mars sl. 71 árs að aldri.
Helgi fæddist 21. maí 1945. Hann var bæjarstjóri á Akureyri á árunum 1976 til 1986 eða í tvö og hálft kjörtímabil.
Helgi var með meistarapróf í hagfræði og kenndi viðskipta- og hagfræðigreinar við Háskólann á Akureyri og gegndi stöðu lektors frá árinu 1991. Hann gegndi stöfum sérfræðings hjá Fiskifélagi Íslands á árunum 1974-1976 og sem framkvæmdastjóri Kaffibrennslu Akureyrar hf á árunum 1986 til 1990.
Eftirlifandi eiginkona Helga er Dóróthea Bergs.
Bæjarstjórn vottar aðstandendum Helga M. Bergs samúð sína, um leið og honum eru þökkuð fórnfús störf í þágu bæjarfélagsins.
Forseti bað fundarmenn að heiðra minningu Helga M. Bergs með því að rísa úr sætum.

1.Davíðshagi 12 - umsókn um breytingu á deiliskipulagi

Málsnúmer 2016120129Vakta málsnúmer

6. liður í fundargerð skipulagsráðs dagsett 8. mars 2017:

Erindi dagsett 28. nóvember 2016 þar sem B.E. Húsbyggingar ehf., kt. 490398-2529, sækja um:

1. Nýtingarhlutfall lóðar verði hækkað úr 0,69 í 1,0.

2. Lóðarstækkun sem nemur 7 bílastæðum eða 102,5 m².

3. Minniháttar breytingu á austari viðmiðunarkóta um 0,1 m.

Skipulagsráð frestaði erindinu á fundi 8. febrúar 2017. Nánari upplýsingar um íbúðagerðir bárust 13. febrúar 2017.

Skipulagsráð heimilaði umsækjanda þann 15. febrúar að leggja fram tillögu að deiliskipulagsbreytingu.

Meðfylgjandi er nýtt erindi dagsett 22. febrúar 2017. Tvær tillögur eru lagðar fram, unnar af Ómari Ívarssyni hjá Landslagi, dagsettar 1. mars 2017 og merktar A og B.

Einungis er um að ræða minniháttar stækkun á byggingarreit fyrir bílastæði og er breyting sem varðar Akureyrarkaupstað og lóðarhafa. Þess vegna leggur skipulagsráð til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillaga A verði samþykkt í samræmi við 2. málslið, 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og sviðsstjóra skipulagssviðs falið að annast gildistöku hennar.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsráðs með 11 samhljóða atkvæðum.

2.Strandgata 29 - umsókn um breytingu á deiliskipulagi

Málsnúmer 2017010140Vakta málsnúmer

2. liður í fundargerð skipulagsráðs dagsett 15. mars 2017:

Erindi dagsett 10. janúar 2017 þar sem Ingólfur Fr. Guðmundsson fyrir hönd Vesturkants ehf., kt. 541008-0630, sækir um breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 29 við Strandgötu. Óskað er eftir að stækka tengibyggingu milli núverandi húss nr. 29 og reits fyrir nýbyggingu vestan þess. Hámarksvegghæð frá inngönguhæð viðbyggingar verði hækkuð úr 5,85 í 7,0 og þakhalla breytt til samræmis við núverandi hús. Skipulagsráð heimilaði umsækjanda þann 15. febrúar 2017 að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi. Tillagan er dagsett 8. mars 2017 og unnin af Valþóri Brynjarssyni hjá Kollgátu.

Viðbót við fyrra erindi barst 10. mars 2017 þar sem óskað er eftir fjölgun íbúða úr 1 í 5 í fyrirhugaðri viðbyggingu.

Tryggvi Már Ingvarsson lýsti sig vanhæfan í málinu og var það samþykkt. Vék hann af fundi við umræðu og afgreiðslu málsins.

Helgi Snæbjarnarson L-lista tók við stjórnun fundarins við afgreiðslu á þessum lið.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsráðs með 11 samhljóða atkvæðum.

3.Draupnisgata 2 - umsókn um deiliskipulagsbreytingu

Málsnúmer 2017010565Vakta málsnúmer

5. liður í fundargerð skipulagsráðs dagsett 15. mars 2017:

Erindi dagsett 24. janúar 2017 þar sem Rögnvaldur Harðarson fyrir hönd Johan Rönning hf., kt. 670169-5459, leggur inn fyrirspurn hvort leyfi fengist til að byggja viðbyggingu við hús nr. 2 við Draupnisgötu.

Skipulagsráð heimilaði umsækjanda þann 8. febrúar 2017 að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi. Tillagan er dagsett 1. febrúar 2017 og unnin af Rögnvaldi Harðarsyni hjá Rögg teiknistofu.

Einungis er um að ræða minniháttar stækkun á byggingarreit sem fyrir er, hækkun veggja langhliða og hækkun á nýtingarhlutfalli um 0,1. Þetta er breyting sem varðar Akureyrarkaupstað og lóðarhafa. Þess vegna leggur skipulagsráð til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt í samræmi við 2. málslið, 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og sviðsstjóra skipulagssviðs falið að annast gildistöku hennar.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsráðs með 11 samhljóða atkvæðum.

4.Austurbrú - útlit á kvistum

Málsnúmer 2017020111Vakta málsnúmer

Preben Jón Péturson Æ-lista óskaði eftir umræðu um 2. lið í fundargerð skipulagsráðs dagsett 8. mars 2017.

5.Ársreikningur Akureyrarbæjar fyrir árið 2016 - fyrri umræða

Málsnúmer 2016080102Vakta málsnúmer

1. liður í fundargerð bæjarráðs dagsett 16. mars 2017:

Lagður fram ársreikningur Akureyrarbæjar fyrir árið 2016.

Aðalsteinn Sigurðsson endurskoðandi frá Deloitte ehf mætti á fund bæjarráðs undir þessum lið og skýrði ársreikninginn.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.

Einnig sat bæjarfulltrúinn Eva Hrund Einarsdóttir D-lista fundinn undir þessum lið.

Bæjarráð vísar ársreikningi Akureyrarbæjar fyrir árið 2016 til fyrri umræðu í bæjarstjórn.
Fram kom tillaga um að vísa ársreikningnum til bæjarráðs og síðari umræðu í bæjarstjórn og var hún samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.

6.Starfsáætlun og stefnuumræða nefnda 2017 - fræðsluráð

Málsnúmer 2017020013Vakta málsnúmer

Starfsáætlun og stefnuumræða fræðsluráðs. Dagbjört Pálsdóttir bæjarfulltrúi og formaður fræðsluráðs gerði grein fyrir starfsáætlun ráðsins.
Almennar umræður.

7.Skýrsla bæjarstjóra

Málsnúmer 2010090095Vakta málsnúmer

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri fór yfir helstu atriði í störfum sínum frá síðasta fundi bæjarstjórnar.
Eftirtaldar fundargerðir eru lagðar fram til kynningar:


Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa 9. mars 2017
Bæjarráð 9. og 16. mars 2017
Fræðsluráð 6. mars 2017
Skipulagsráð 8. og 15. mars 2017
Stjórn Akureyrarstofu 9. mars 2017
Umhverfis- og mannvirkjaráð 3. mars 2017
Velferðarráð 15. mars 2017

Hægt er að nálgast fundargerðirnar á heimasíðu Akureyrarbæjar / www.akureyri.is /
Stjórnkerfið / Fundargerðir

Fundi slitið.