Bæjarráð

3819. fundur 14. september 2023 kl. 08:15 - 12:15 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Heimir Örn Árnason formaður
  • Hulda Elma Eysteinsdóttir varaformaður
  • Hlynur Jóhannsson
  • Sunna Hlín Jóhannesdóttir
  • Hilda Jana Gísladóttir
  • Brynjólfur Ingvarsson áheyrnarfulltrúi
  • Jana Salóme I. Jósepsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri
  • Olga Margrét Kristínard. Cilia
  • Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður ritaði fundargerð
Fundargerð ritaði: Jón Þór Kristjánsson forstöðumaður þjónustu og þróunar
Dagskrá

1.Húsnæðismál félags eldri borgara

Málsnúmer 2023090472Vakta málsnúmer

Rætt um húsnæðismál félags eldri borgara á Akureyri.

Karl Erlendsson formaður Félags eldri borgara, Sigurður Harðarson varaformaður Félags eldri borgara og Halla Birgisdóttir Ottesen forstöðumaður tómstundamála sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð felur bæjarstjóra og sviðsstjóra fjársýslusviðs að vinna málið áfram.

2.Fasteignir viðhald 2023

Málsnúmer 2023080471Vakta málsnúmer

Liður 3 í fundargerð umhverfis- og mannvirkjaráðs dagsettri 5. september 2023:

Lagt fram minnisblað dagsett 25. ágúst 2023 vegna þeirra stóru viðhaldsverkefna sem hafa komið upp og stöðu þeirra.

Steindór Ívar Ívarsson forstöðumaður viðhalds sat fundinn undir þessum lið.

Umhverfis- og mannvirkjaráð samþykkir að óska eftir viðauka til bæjarráðs að upphæð kr. 150.000.000 á liðinn viðhald fasteigna Akureyrarbæjar vegna stórra verkefna í ófyrirséðu viðhaldi sem komu upp á þessu ári og aðlögunar skólahúsnæðis í tengslum við fjölgun leikskólaplássa.

Steindór Ívar Ívarsson forstöðumaður viðhalds sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir með fjórum atkvæðum að gerður verði viðauki við fjárhagsáætlun ársins 2023 vegna málsins og felur sviðsstjóra fjársýslusviðs að vinna viðaukann.

Hilda Jana Gísladóttir S-lista greiðir atkvæði gegn ákvörðun bæjarráðs og óskar bókað ásamt Sunnu Hlín Jóhannesdóttur B-lista og Jönu Salóme Ingibjargar Jósepsdóttur V-lista:

Miðað við verklagsreglur vegna viðauka er ekki eðlilegt að óska eftir viðauka í öllum þessum liðum, enda segir í verklagsreglum að viðauka við fjárhagsáætlun skuli ekki gera til að leiðrétta í fjárhagsáætlun, útgjöld í rekstri eða fjárfestingar sem þegar hefur verið stofnað til. Í þessu tilfelli er þó um mikilvægar framkvæmdir að ræða, sem við hefðum samþykkt, en leggjum áherslu á að mikilvægt er að óska eftir heimildinni fyrirfram, ekki eftirá.

3.Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2023-2026 - viðauki

Málsnúmer 2022042596Vakta málsnúmer

Lagður fram viðauki 5.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Kristín Baldvinsdóttir forstöðumaður hagþjónustu og áætlanagerðar sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir viðauka 5 og vísar honum til staðfestingar í bæjarstjórn. Viðaukinn er til kominn vegna aukinna fjárheimilda við framkvæmdir í Glerárskóla, 30 m.kr., og vegna aukins viðhalds félagslegra íbúða, 50 m.kr.

4.Eignakaup vegna skipulags 2023

Málsnúmer 2023090513Vakta málsnúmer

Rætt um kaup á fasteign og landi vegna skipulags.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Kristín Baldvinsdóttir forstöðumaður hagþjónustu og áætlanagerðar sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð felur sviðsstjóra fjársýslusviðs og skipulagsfulltrúa Akureyrarbæjar að vinna málið áfram.

5.Ársreikningur Akureyrarbæjar fyrir árið 2023 - árshlutauppgjör

Málsnúmer 2023090474Vakta málsnúmer

Lagt fram árshlutauppgjör janúar-júní 2023.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Kristín Baldvinsdóttir forstöðumaður hagþjónustu og áætlanagerðar sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarfulltrúarnir Halla Björk Reynisdóttir, Gunnar Már Gunnarsson og Andri Teitsson sátu fund bæjarráðs undir þessum lið. Þá sat Lára Halldóra Eiríksdóttir undir þessum lið í gegnum fjarfundarbúnað.

Bæjarráð vísar árshlutauppgjöri til umræðu í bæjarstjórn.

6.Sameining framhaldsskóla á Akureyri

Málsnúmer 2023090488Vakta málsnúmer

Rætt um fyrirhugaða sameiningu Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á Akureyri.

Í upphafi þessa dagskrárliðar vakti Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista á því athygli að hún teldi sig vanhæfa að fjalla um þennan lið. Með vísan til 7. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 var meint vanhæfi lagt upp til atkvæða fyrir bæjarráð. Samþykkt var samhljóða að ekki væri um vanhæfi að ræða.

Karl Frímannsson skólameistari MA og Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari VMA sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Þá sátu bæjarfulltrúarnir Halla Björk Reynisdóttir, Gunnar Már Gunnarsson og Andri Teitsson fund bæjarráðs undir þessum lið ásamt Láru Halldóru Eiríksdóttur sem sat undir þessum fundarlið í gegnum fjarfundarbúnað.

Að lokinni umræðu skólameistara og fundarmanna véku skólameistarar af fundi bæjarráðs en inn á fund bæjarráðs mættu fulltrúar nemendafélaga MA og VMA, Krista Sól Guðjónsdóttir forseti Hugins, Tómas Óli Ingvarsson varaforseti Hugins, Steinar Bragi Laxdal formaður Þórdunu og Linda Björg Kristjánsdóttir varaformaður Þórdunu.

Heimir Örn Árnason D-lista, Hulda Elma Eysteinsdóttir L-lista, Hilda Jana Gísladóttir S-lista, Hlynur Jóhannsson M-lista og Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista óska bókað:

Við teljum óábyrgt að sameina eigi MA og VMA miðað við þær forsendur sem liggja fyrir og tökum undir þær ábendingar sem nemendur og kennarar hafa nú þegar kynnt. Þegar skýrsla stýrihóps er skoðuð kemur margt þar fram sem er algjörlega á skjön við það sem mennta- og barnamálaráðherra fór yfir með bæjarstjórn í síðustu viku. Í skýrslunni má sjá að möguleg sameining skólanna er fyrst og fremst hagræðingaraðgerð, þar sem sparnaður birtist m.a. í fækkun námsráðgjafa, sálfræðinga, kennara og stækkun nemendahópa. Það fer gegn menntastefnu stjórnvalda þar sem lögð er áhersla á vellíðan nemenda og jöfn tækifæri til náms. Við teljum afar mikilvægt að nemendur hafi val um bekkjarkerfi og áfangakerfi á Akureyri. Við leggjumst því gegn sameiningu MA og VMA og skorum á ráðherra að draga ákvörðun sína til baka.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista óskar bókað:

Ég sit hjá þar sem ég bar upp vanhæfi mitt undir málinu þar sem ég er kennari við VMA og tel mig eiga fjárhagslegra hagsmuna að gæta þar sem ég kenni á braut sem hefur átt undir högg að sækja. Bendi þó á að við verðum að geta þróað námið í átt að nútímanum. Það má þó ekki ana að neinu því eins og margir hafa bent á þá verður ekki aftur snúið ef ekki tekst vel til. Þetta verður að vera á þeim forsendum að við séum að efla nám á svæðinu og þjónustu við nemendur því annars er betur heima setið en af stað farið.

7.Lífsgæðakjarni fyrir eldri borgara

Málsnúmer 2023090027Vakta málsnúmer

Liður 3 í fundargerð bæjarstjórnar dagsettri 5. september 2023:

Umræða um lífsgæðakjarna fyrir eldri borgara.

Málshefjandi er Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista og lagði fram svofellda tillögu ásamt Gunnari Má Gunnarssyni B-lista og Brynjólfi Ingvarssyni óháðum:

Að bæjarráði verði falið að stofna vinnuhóp í kringum vinnu að uppbyggingu lífsgæðakjarna fyrir eldri borgara.

Til máls tóku Brynjólfur Ingvarsson, Hilda Jana Gísladóttir, Heimir Örn Árnason og Þórhallur Jónsson.

Tillaga Sunnu Hlínar Jóhannesdóttur, Gunnars Más Gunnarsson og Brynjólfs Ingvarsson var borin upp og samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að útbúa erindisbréf fyrir vinnuhóp vegna uppbyggingar lífsgæðakjarna fyrir eldri borgara.

Bæjarráð skipar Huldu Elma Eysteinsdóttur bæjarfulltrúa, Brynjólf Ingvarsson bæjarfulltrúa, Karl Erlendsson fulltrúa EBAK og Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra í vinnuhópinn.

8.Hvatning til sveitarstjórna um mótun málstefnu

Málsnúmer 2023090258Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 5. september 2023 frá Innviðaráðuneytinu þar sem sveitarfélög eru hvött til þess að setja sér málstefnu.
Bæjarráð samþykkir að vísa gerð málstefnu í vinnuhóp um gerð upplýsingastefnu.

9.Tilmæli vegna samkeppnisaðstæðna á flutningamarkaði

Málsnúmer 2023090260Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 1. september 2023 þar sem Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins upplýsir um lok rannsóknar á samráði á flutningamarkaði. Samkeppniseftirlitið hefur tekið saman álit þar sem fjallað er um málið og er því beint að öllum sveitarfélögum á Íslandi.
Bæjarráð vísar tilmælum Samkeppniseftirlitsins til stjórnar Hafnasamlagsins og óskar eftir samantekt á því hvort og þá hvernig bregðast eigi við umræddum tilmælum.

10.Stjórn Norðurorku hf. - fundargerðir 2022-2023

Málsnúmer 2022031302Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 288. fundar stjórnar Norðurorku hf. dagsett 22. ágúst 2023.

Fundi slitið - kl. 12:15.