Gagnger endurnýjun á húsnæði Lundarskóla

Á fundi bæjarráðs í morgun var ákveðið að ráðast í gagngera endurnýjun á húsnæði Lundarskóla. Kostnaður við aðgerðirnar er áætlaður um 1,6 milljarðar króna.

Byrjað verður á A-álmu og sú framkvæmd boðin út síðsumars 2020. Verklok verða vorið 2021. Í framhaldinu verður B-álma endurnýjuð sem og viðbygging. Einnig verður ráðist í stækkun á sal. Verklok allra framkvæmda eru áætluð seinni hluta ársins 2021.

Þrír kostir voru metnir í stöðunni: 1) Að ráðast í gagngera endurnýjun. 2) Að rífa A- og B-álmur skólans og endurbyggja frá grunni. 3) Að rífa allar byggingar á lóðinni og reisa nýjar.

Í bókun meirihluta bæjarráðs segir m.a.:

Meirihluti bæjarráðs samþykkir að farið verði í enduruppbyggingu á álmum A og B í Lundarskóla sbr. framlagt minnisblað. Meirihluti bæjarráðs tekur undir bókun fræðsluráðs frá 15. júní sl. þar sem fram kemur að í ljósi fyrirliggjandi gagna taka endurbætur stystan tíma og raska þar með skólastarfi minnst auk þess sem þær munu fullnægja þörfum nútíma skólastarfs. Endurbætur á skólanum eru hagkvæmasti kosturinn bæði út frá fjármagni og faglegum forsendum skólastarfs.

Meðan á framkvæmdum stendur verður hluti skólastarfsins færður í Rósenborg og hluti þeirrar starfsemi sem þar hefur verið, verður færður í Íþróttahöllina og Ráðhús Akureyrarbæjar. Nú þegar eru hafnar endurbætur í Rósenborg svo húsnæðið henti betur skólastarfinu og verður þeim lokið fyrir haustið 2020.

Til þess að kennsla 1.-6. bekkjar geti farið fram í Lundarskóla næsta vetur eru hafnar umfangsmiklar bráðabirgðaendurbætur á B-álmu. Þær felast m.a. í endurnýjun allra gólfefna, viðgerðum á þaki, lagfæringum á loftræstikerfi og fleiri þáttum.

Í minnisblaði frá umhverfis- og mannvirkjasviði Akureyrarbæjar segir um áhrif framkvæmdanna á skólastarfið í Lundarskóla:

Eins og staðan er núna hugnast skólastjórnendum ágætlega sú vissa að 7.-10. bekkur fari í Rósenborg í tvo vetur og 1.-6. bekkur geti áfram verið í húsnæði skólans á meðan álmurnar verða lagfærðar. Fyrst í lagfærðri B-álmu og síðan í nýrri A-álmu á meðan B-álman væri kláruð. Þarna eru forsendur nokkuð vissar og í skólastarfsemi er það mikill kostur fyrir nemendur, starfsfólk og foreldra.

Fundargerð bæjarráðs frá því í morgun.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan