Stjórn Akureyrarstofu

304. fundur 17. september 2020 kl. 14:00 - 16:00 Listasafnið á Akureyri
Nefndarmenn
  • Hilda Jana Gísladóttir formaður
  • Anna Fanney Stefánsdóttir
  • Sigfús Arnar Karlsson
  • Eva Hrund Einarsdóttir
  • Finnur Sigurðsson
  • Karl Liljendal Hólmgeirsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Kristinn Jakob Reimarsson sviðsstjóri samfélagssviðs ritaði fundargerð
  • Þórgnýr Dýrfjörð forstöðumaður akureyrarstofu
Fundargerð ritaði: Kristinn J. Reimarsson sviðsstjóri Samfélagssviðs
Dagskrá

1.Stjórn Akureyrarstofu - samráðsfundir með forstöðumönnum

Málsnúmer 2018080020Vakta málsnúmer

Fundur með forstöðumanni og starfsmönnum Listasafnsins.
Stjórn Akureyrarstofu þakkar forstöðumanni og starfsmönnum fyrir góða leiðsögn um safnið og gagnlegt samtal.

2.Fundargerðir safnráðs Listasafnsins á Akureyri

Málsnúmer 2002040036Vakta málsnúmer

Fundargerð Listasafnsráð nr. 25 frá 9. september 2020 lögð fram til kynningar.
Stjórn Akureyrarstofu tekur undir bókun safnráðs Listasafnsins á Akureyri í lið nr. 2 í fundargerð og óskar eftir því að fá kynningu á tillögu um skráningu og faglega varðveislu listaverka í eigu Listasafnsins í samvinnu við stofnanir Akureyrarbæjar.

3.Listasafnið á Akureyri - rekstur kaffihúss

Málsnúmer 2018010273Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi dagsett 7. september 2020 frá Auði B. Ólafsdóttur eiganda Kaffi & listar vegna samnings um rekstur kaffihúss í Listasafninu.
Stjórn Akureyrarstofu samþykkir að heimila tímabundnar breytingar á samkomulaginu um rekstur kaffihússins og felur sviðsstjóra í samvinnu við bæjarlögmann að gera tillögu að breytingum.

4.Sigurhæðir - leiga húsnæðis

Málsnúmer 2019090404Vakta málsnúmer

Á fundi stjórnar Akureyrarstofu þann 28. maí sl. var samþykkt að ganga til viðræðna við Kristínu Kjartansdóttur og Hlyn Hallsson um tilboð í leigu á Sigurhæðum. Var það í kjölfar þess að fyrri bjóðandi hafði dregið tilboð sitt til baka. Við frekari skoðun umhverfis- og mannvirkjasviðs á húsnæðinu hefur komið í ljós að forsendur að hálfu Akureyrarbæjar hafa breyst að talsverðu leyti.
Í nóvember á síðasta ári voru Sigurhæðir auglýstar lausar til leigu og var þá bæði óskað eftir tilboðum í leiguverð sem og hugmyndum um nýtingu. Fjögur tilboð bárust og að loknu mati á þeim var ákveðið að ganga til viðræðna við rekstraraðila hótels um leigu á húsnæðinu. Í kjölfar COVID-19 faraldursins síðasta vetur dró sá aðili tilboð sitt til baka. Þegar það lá fyrir samþykkti stjórn Akureyrarstofu þann 28. maí 2020 að ganga til viðræðna við Kristínu Kjartansdóttur og Hlyn Hallsson um tilboð þeirra í leigu á Sigurhæðum en það var á sínum tíma metið númer tvö af innsendum tilboðum.


Hugmynd þeirra að nýtingu gerði ráð fyrir að búið yrði að staðaldri á efri hæð hússins og óskuðu þau eftir að breytingar yrðu gerðar á hæðinni til að það væri mögulegt. Við upprunalegt mat umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar (UMSA) var gert ráð fyrir að kostnaður við þær yrði 2,5 - 3 m.kr. Eitt af því sem kanna þurfti áður en ljúka mætti samningi um tilboðið var grunur um leka í þaki hússins. Við skoðun kom í ljós að ekki var um eiginlegan leka að ræða heldur raka í þakrými sem þéttist og skilaði sér niður í gegnum loft á efri hæð. Að mati sérfræðinga UMSA er unnt að kom í veg fyrir þetta með til þess að gera litlum tilkostnaði og aukinni loftun. Þetta þýðir að húsið liggur ekki undir skemmdum og er hæft til safna- og menningarstarfsemi.


Hins vegar er það jafnframt mat sérfræðinganna að til þess að mögulegt sé fyrir fjölskyldu að búa að staðaldri á efri hæð hússins þurfi að ráðast í mun meiri breytingar á þakinu og þakrými og auka loftun til muna vegna þess raka sem fylgir almennt búsetu fólks. Af þessum sökum mælir UMSA gegn því að búseta verði heimiluð í húsinu nema að ráðast fyrst í þær breytingar. Gróft mat á kostnaði við þær er að hann gæti numið á milli 15 og 25 m.kr.


Þetta þýðir að þær forsendur sem gefnar voru þegar hugmyndin og tilboðið var metið í öðru sæti í lok síðasta árs eru brostnar. Af þessum sökum getur stjórn Akureyrarstofu ekki haldið áfram viðræðum um tilboðið sem hefur mögulega búsetu sem forsendu.

Fundi slitið - kl. 16:00.