Iðnaðarsafnið á Akureyri

Málsnúmer 2023020025

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 3796. fundur - 02.02.2023

Rætt um málefni Iðnaðarsafnsins á Akureyri.

Haraldur Þór Egilsson safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri og Sigfús Karlsson formaður stjórnar Minjasafnsins á Akureyri sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð þakkar Haraldi Þór Egilssyni og Sigfúsi Karlssyni fyrir komuna á fundinn.

Bæjarráð - 3798. fundur - 16.02.2023

Rætt um málefni Iðnaðarsafnsins á Akureyri og næstu skref í innleiðingu á safnastefnu bæjarins.

Þórgnýr Dýrfjörð forstöðumaður atvinnu- og menningarmála sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Um langt skeið hefur verið ljóst að núverandi rekstrarform Iðnaðarsafnsins gengur ekki upp og að óbreyttu stefnir í að safnið loki þann 1. mars nk. Akureyrarbær sem einn af stofnaðilum safnsins hefur áhuga á því að vernda einstaka iðnaðar- og atvinnusögu Akureyrar sem Iðnaðarsafnið hefur hingað til haldið utan um og miðlað. Í því skyni að styðja við varðveislu og sýnileika þessarar sögu til framtíðar felur Akureyrarbær forstöðumanni atvinnu- og menningarmála að vinna, í samvinnu við stjórn Minjasafnsins og stjórn Iðnaðarsafnsins, greiningu á þeim kosti að Iðnaðarsafnið sameinist Minjasafninu á Akureyri og leggja í því skyni fyrir bæjarráð ólíkar sviðsmyndir og kostnað við þær.

Bæjarráð - 3800. fundur - 02.03.2023

Rætt um málefni Iðnaðarsafnsins á Akureyri.

Þórgnýr Dýrfjörð forstöðumaður atvinnu- og menningarmála sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir að veita Iðnaðarsafninu rekstrarstyrk að upphæð kr. 4.500.000 með það að markmiði að tryggja samfellu í starfsemi safnsins á meðan unnið er að sameiningu þess og Minjasafnsins á Akureyri og felur forstöðumanni atvinnu- og menningarmála að ganga frá samkomulagi þess efnis. Bæjarráð óskar eftir að niðurstaða viðræðna um sameiningu safnanna liggi fyrir eigi síðar en í maí næstkomandi. Jafnframt liggi þá fyrir áætlun um framkvæmd sameiningar verði hún niðurstaðan. Bæjarráð felur sviðsstjóra fjársýslusviðs að útbúa viðauka vegna málsins.

Bæjarráð - 3821. fundur - 05.10.2023

Unnið hefur verið að könnun á fýsileika þess að sameina starfsemi Iðnaðarsafnsins og Minjasafnsins á Akureyri.

Sumarliði Helgason sviðsstjóri þjónustu- og skipulagssviðs og Þórgnýr Dýrfjörð forstöðumaður atvinnu- og menningarmála mættu á fundinn og fóru yfir stöðu vinnunnar og næstu skref.
Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir fór af fundi kl. 10:17.

Bæjarráð - 3829. fundur - 30.11.2023

Í safnastefnu Akureyrarbæjar er kveðið á um aukinn stuðning bæjarins við varðveislu sögu iðnaðar á Akureyri og jafnframt að kannaður verði fýsileiki þess að sameina rekstur Iðnaðarsafnsins á Akureyri og Minjasafnsins á Akureyri. Lögð fram til umræðu tillaga um að Minjasafnið taki að sér rekstur Iðnaðarsafnsins með þjónustusamningi.

Sumarliði Helgason sviðsstjóri þjónustu- og skipulagssviðs og Þórgnýr Dýrfjörð forstöðumaður atvinnu- og menningarmála sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir að unnið verði að gerð þjónustusamnings við Minjasafnið á Akureyri um rekstur Iðnaðarsafnsins næstu þrjú árin. Helstu markmið og verkefni samningsins verði meðal annars að efla starfsemi Iðnaðarsafnsins, tryggja stöðu þess sem viðurkennt safn hjá Safnaráði og tryggja áframhaldandi verndun og skráningu iðnaðarsögunnar. Einnig verði lögð áhersla á að nota fyrsta árið til að starfsfólk Minjasafnsins kynnist eiginleikum og samsetningu Iðnaðarsafnsins af eigin raun og að fagþekking og reynsla þeirra nýtist strax í þágu Iðnaðarsafnsins, til dæmis í sameiginlegum markaðs- og kynningarmálum, í fræðslu til skólahópa og í umsóknum um styrki til starfseminnar. Verði þessi samningur að veruleika vonast bæjarráð til þess að gott samstarf takist á milli Minjasafnsins og Hollvina Iðnaðarsafnsins þannig að þeirra reynsla nýtist áfram við varðveislu þessarar mikilvægu sögu.

Bæjarráð - 3837. fundur - 08.02.2024

Lagt fram til samþykktar samkomulag stofnaðila Iðnaðarsafnsins á Akureyri um fyrirkomulag reksturs safnsins næstu þrjú árin. Jafnframt lagður fram til samþykktar þriggja ára þjónustusamningur við Minjasafnið á Akureyri um rekstur Iðnaðarsafnsins.

Sumarliði Helgason sviðsstjóri þjónustu- og skipulagssviðs og Þórgnýr Dýrfjörð forstöðumaður atvinnu- og menningarmála sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir framlagt samkomulag um fyrirkomulag reksturs Iðnaðarsafnsins á Akureyri næstu þrjú árin og framlagðan þjónustusamning við Minjasafnið. Bæjarráð felur bæjarstjóra að undirrita samkomulagið og þjónustusamninginn.

Bæjarráð - 3838. fundur - 15.02.2024

Erindi dagsett 12. febrúar 2024 þar sem stjórn Iðnaðarsafnsins óskar eftir því að Akureyrarbær veiti aukafjármagn til lokauppgjörs á rekstri safnsins. Bæjarráð samþykkti á fundi sínum 8. febrúar 2024 samkomulag um að Minjasafnið á Akureyri taki við rekstri Iðnaðarsafnsins næstu þrjú árin.

Þórgnýr Dýrfjörð forstöðumaður atvinnu- og menningarmála sat fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir að veita allt að kr. 2.500.000 vegna lokauppgjörs á rekstri safnsins og felur sviðsstjóra fjársýslusviðs að vinna viðauka vegna málsins.